Leikstjórn: Lasse Hallström
Handrit: John Irving
Leikarar: Tobey Maguire, Charlize Theron, Delroy Lindo, Paul Rudd, Michael Caine
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 125mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Technical?0124315
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
The Cider House Rules fjallar um munaðarleysingjann Homer Wells. Homer dagar uppi á munaðarleysingjahæli en læknirinn á staðnum, Wilbur Larch, tekur hann að sér og kennir honum læknisfræði. Wilbur er talsmaður fóstureyðinga en Homer er honum ósammála og neitar að framkvæma fóstureyðingar. Um þessa deilu snýst myndin og það er ekki fyrr en Homer hefur yfirgefið munaðarleysingjahælið og kynnst hinu raunverulega lífi að hann lætur af andsöðu sinni við fóstureyðingar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þessi fallega mynd leynir á sér. Við fyrstu sýn virðist hún hugljúf mynd í anda Húsins á sléttunni en við nánari grenslan kemur í ljós mjög róttækur siðaboðskapur eða ætti maður e.t.v. að segja siðleysa?
Í fysta lagi er lygi sýnd í mjög jákvæðu ljósi. Wilbur lýgur því t.d. að Homer sé hjartveikur til að forða honum frá herskyldu, hann falsar síðan prófskírteini fyrir Homer þar sem hann segir hann menntaðann lækni, jafnvel þótt Homer hafi ekki lokið menntaskólagöngu, og hann lýgur að börnunum á munaðarleysingjahælinu og segir þeim að Fuzzy, sem er ný látinn, hafi verið ættleiddur. Og Rose biður aðra um að ljúga í lok myndarinnar (og hér mun ég ljóstra upp um endinn) og segja að hann hafi reynt að svipta sig lífi, þegar það var í raun dóttir hans sem særði hann svöðusári. Lokaorð Rose lýsa afstöðu myndarinnar til lyga vel: „Stundum þarf að brjóta reglur til að laga það sem hefur miður farið.“ Allar eru þessar lygar sýndar í mjög jákvæðu ljósi og afleiðingar þeirra eru til blessunnar. Það er einnig áhugavert að skoða persónur myndarinnar. Þeir einu sem eru sýndir í neikvæðu ljósi er munaðarleysingjaráðið, sem er kristið og á móti fóstureyðingum, og vinnumaður sem hendir sígarettu í eplasafa. Dregin er upp falleg mynd af Wilbur sem falsar læknaskýrslur og prófskírteini og sniffar Eter daglega og Homer sem á í sambandi við trúlofaða konu. Áhorfandinn fær meira að segja samúð með manni sem misnotar dóttur sína kynferðislega. Allt fær þetta fólk betri útreið en vinnumaður sem hendir sígarettustubbi í eplasafa!!!
Í myndinni má greina Edenstef. Það er löng hefð fyrir því að tengja kynlífið falli mannsins, en kynlíf er einmitt það sem stjórnar nær allri atburðarás í garðinum. Homer er ástfanginn af Candy, kærustu góðgerðarmanns hans og Rose misnotar dóttur sína kynferðislega. Eplagarðurinn er því nátengdur kynlífi. Homer er eins og Adam sem er ákveðinn í því að halda lög Guðs, þ.e. hann er á móti fóstureyðingum, en andstæðingar þeirra eru oftast trúað fólk. Eftir að Homer fer að vinna í eplagarði (takið eftir því!!!) fer hann að endurskoða afstöðu sína. Það er áhugavert að Homer og Candy sem passa mjög vel inn í hina hefðbundnu mynd sem dregin er upp af Adam og Evu í kvikmyndum. Eva er yfirleitt lauslát og nánast með brókarsótt en Candy játar það einmitt í myndinni að hún getur ekki verið karlmannslaus og byrjar með Homer vegna þess að kærastinn er ekki heima við. Adam er hins vegar yfirleitt frekar einfaldur og óspennandi einstaklingur. Pleasantville er t.d. gott dæmi um þetta. Eins og áður sagði fjallar myndin fyrst og fremst um fóstureyðingar en Homer er á móti þeim því hann segist ekki vilja leika Guð. Wilbur telur hins vegar að maðurinn eigi að leika Guð, hvenær sem færi gefst, og veita öllum konum fóstureyðingu sem biðja um hana. Í miðjum eplagarðinum er kofi sem vinnufólkið býr í, en í kofanum eru reglur negldar upp á vegg (myndin dregur nafn sitt af þessum reglum, þ.e. Cider House Rules). Stóra spurningin í myndinni er einmitt hvort vinnufólkið eigi að fara eftir þessum reglum eða ekki og niðurstaðan er sú að þau eigi að hunsa þær, eða eins og Rose segir: „Sá sem samdi þessar reglur býr ekki í þessu húsi. þessar reglur hafa ekkert með okkur að gera. Við eigum að semja okkar eigin reglur, og við gerum það hvern einasta dag“ Eftir að Homer hefur framið sína fyrstu fóstureyðingu tekur tekur hann reglurnar niður og brennir þær. Reglurnar í eplahúsinu standa einmitt fyrir lög Guðs gegn fóstureyðingum og niðurstaðan er sú að Guð býr ekki á meðal okkar og hefur ekki reynslu af lífi okkar. Því eigum við að hunsa lög hans og semja okkar eigin lög sem samræmast okkar eigin reynslu. Guð er því á táknrænann hátt dæmdur og tekinn af lífi þegar vinnuhópurinn ákveður að brenna reglurnar, með Homer í broddi fylkingar.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3
Persónur úr trúarritum: Adam, Eva, Guð
Sögulegar persónur: Hómer
Guðfræðistef: ást, frelsi, illska, lög Guðs, synd
Siðfræðistef: áfengissýki, fíkn, fóstureyðing, framhjáhald, lygi, morð, sjálfsvíg, stríð, ættleiðingar
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegt atferli og siðir: bæn