Kvikmyndir

The Cry of the Wolf

Leikstjórn: Gianfranco Baldanello (undir nafninu Frank G. Carrol)
Handrit: Gianfranco Baldanello (undir nafninu Peter Welbeck) og Peter Lee (undir nafninu John Fonseca), byggt á skáldsögunni The Call of the Wild eftir Jack London
Leikarar: Jack Palance, Joan Collins, Buck, Manolo de Blas, Elisabetta Virgili, Fernando Romero, Remo de Angelis, Attilio Dottesio, José Canalejas, Oscar Bernat og Robert Lynn
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1975
Lengd: 92mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0073069
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Úlfhundur vingast við börn í óbyggðum Alaska og fylgir þeim ásamt tveim gullleitarmönnum til byggða þegar Indíánar myrða heimilisföðurinn. Indíánar sitja þó fyrir þeim við hvert fótmál á leiðinni auk þess sem þau lenda upp á kannt við illskeyttan bófaflokk þegar þau ná loks til námubæjarins Dawsons.

Almennt um myndina:
Frekar langdregin og illa gerð ævintýramynd sem vel má flokka sem spaghettí-vestra, enda framleiðslan ítölsk-spænsk og sögusviðið óbyggðir Norður-Ameríku á nítjándu öldinni þar sem bófar og Indíánar ógna öllu friðelskandi fólki. Þó svo að myndin snúist að mestu um börn og hundinn þeirra, er hún tæpast við barna hæfi enda bönnuð innan 16 ára af íslenska kvikmyndaeftirlitinu. Aðeins Jack Palance og hundurinn Buck sýna snefil af leikhæfileikum, en tónlist Stelvios Cipriani er eitt það skásta í myndinni.

Myndin er byggð á einum af þekktustu ævintýrasögum bandaríska rithöfundarins Jacks London, sem kvikmynduð hefur verið ótal sinnum. Tilgangurinn með þessari tilteknu framleiðslu, sem hér er til umfjöllunar, hefur þó sennilega verið sú að freista þess að græða eitthvað á vinsældum kvikmyndanna White Fang frá árinu 1972 og Challenge to White Fang frá árinu 1974, sem meistari Lucio Fulci gerði eftir sögum Londons með Franco Nero í aðalhlutverki.

Ekki er alveg á hreinu hverjir teljast höfundar handrits myndarinnar, en á kápumynd íslensku myndbandsútgáfunnar eru þeir sagðir vera Gianfranco Baldanello og Peter Lee. Í aðstandendaskránni í upphafi myndarinnar er Peter Welbeck hins vegar sagður höfundur handritsins og John Fonseca samtalanna, en þar mun sennilega vera um að ræða dulnefni þeirra Baldanellos og Lees. Samkvæmt www.imdb.com eru höfundarnir þó sagðir vera þeir Juan Logar og Jesús Rodríguez, en þar gæti verið um mistök að ræða.

Sjálfur notar Baldanello hér leikstjórnarnafnið Frank G. Carrol, sem stafsett er Carroll í ýmsum öðrum myndum hans, svo sem spaghettí-vestranum Gold Train frá árinu 1965.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin snýst fyrst og fremst um tengsl mannsins við náttúruna og hvernig fégræðgin spillir honum. Á strætum námubæjarins stundar Hjálpræðisherinn trúboð sitt með predikunum og bumbuslætti, en hjálpræðisherskona hvetur þar íbúanna að treysta Drottni fyrir frelsun sálna þeirra, enda sé hann hirðir þeirra allra (sbr. Sálm 23:1 og Jóh 10:11).

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23:1, Jh 10:11
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: trúboð, hirðir, frelsun
Siðfræðistef: ágirnd, manndráp, fjárhættuspil, kynþáttafordómar, hefnd
Trúarbrögð: Hjálpræðisherinn
Trúarlegt atferli og siðir: jól, trúboð, bumbusláttur