Kvikmyndir

The End of the Affair

Leikstjórn: Neil Jordan
Handrit: Neil Jordan, byggt á samnefndri bók eftir Graham Greene
Leikarar: Ralph Finnes, Julianne Moore, Stephen Rea, Heather-Jay Jones, James Bolam, Ian Hart, Sam Bould, Cyril Shaps, Penny Morrell, Simon Fisher-Turner, Jason Isaacs og Deborah Findlay
Upprunaland: Bretland og Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Sagan hefst í London eftir síðari heimstyrjöldina þar sem rithöfundurinn Maurice Bendrix rifjar upp ástarsamband sitt við gifta konu, Söru Miles, og hvernig það breytti öllu lífi hans. Hún var ástríðufull en föst í ástríðulausu hjónabandi sem byggðist á vana og vináttu. Árið 1939 er Maurice Bendrix að kynna sér líf Henrys, eiginmanns hennar, fyrir bók sem hann er að vinna að og verður það til þess að þau hittast í boði þeirra hjóna. Á milli þeirra blossar ást og þau stofna til sambands sín á milli.

Í skjóli stríðsins njóta þau samvista hvort við annað eins og ekkert annað skipti þau máli, en eftir fimm ástríðufull ár gerist nokkuð óvænt. Á einum ástarfundi þeirra á heimili Bendrix springur þýzkt flugskeyti fyrir utan húsið, hann kastast niður stiga og liggur sem dauður væri. Þegar hann rankar við sér hefur heimurinn breyst. Hann kemur að Söru á hnjánum við rúmstokkinn. Í kjölfarið slítur hún sambandinu og kveður Bendrix fyrir fullt og allt. Það sem Bendrix ekki veit er að á meðan hann var meðvitundarlaus ákallaði Sara Guð í örvæntingu sinni og hét því að hætta að hitta elskhugann ef aðeins hann fengi að lifa.

Tveimur árum síðar rekur afbrýðisemin Bendrix til að ráða einkaspæjara til að njósna um Söru. Einkaspæjarinn færir honum dagbók hennar og ekki fyrr en þá kemst hann að sannleikanum um sambandsslit þeirra. Þau ná þó saman á ný, stinga af og hafa í hyggju að giftast. Eftir nokkra sæludaga birtist Henry hins vegar með þau válegu tíðindi að Sara sé dauðvona og eigi skammt eftir ólifað.

Öll þrjú snúa þau því aftur til London og Bendrix flytur inn til þeirra hjóna. Saman hjálpast þeir að við að hjúkra henni allt þar til hún deyr. Henry og Bendrix halda þó áfram að búa saman. Þeir styðja hvorn annan í sorginni og ylja sér við minninguna um hina ástríðufullu og hjartahlýju Söru Miles.

Almennt um myndina:
Handritið er gert eftir samnefndri bók Grahams Greene (1904-1991) sem kom út árið 1951. Hún er í hópi þeirra þriggja bóka hans sem kallaðar hafa verið kaþólsku skáldsögurnar. Margt styður þá kenningu að Greene hafi byggt bókina á eigin ástarsambandi sem hann átti í við lafði Catherine Walston, en bókin er tileinkuð henni. Og eins og hjá Söru er Henry nafn eiginmanns Catherine.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Neil Jordan er mörgum vel kunnur enda hefur hann gert myndir á borð við óskarsverðlaunamyndina The Crying Game (1993) og Interview with a Vampire (1994). Jordan breytir söguþræði bókarinnar aðeins í handriti sínu að myndinni en það virðist ekki koma að sök.

Myndin hefur almennt fengið góðar viðtökur og var tilnefnd til tíu Bafta verðlauna árið 2000 og var Julianne Moore tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir hlutverk Söru. Enda ekki hægt að segja annað en að vel hafi verið valið í hlutverkin og mikil nærgætni lögð í alla vinnu við myndina.

Myndin byrjar og endar á sama atriðinu, sem rammar frásögnina inn. Í upphafi sjáum við Bendrix setja blað í ritvélina sína og í lokin virðist hann hafa sett punktinn aftan við frásögn sína. Sagan er sögð frá tveimur sjónarhornum og flakkar um í tíma. Atburðarásin er fyrst séð með augum Bendrix og svo frá sjónarhóli Söru. Áhugavert er hvernig klippt er á milli nútíðar og fortíðar þannig að áhorfandinn heldur jafnvel í smá stund að fortíðin sé framhald af því sem er að gerast og lýsir það vel tilfinningalífi persónanna. Tímaplönin eru þrjú, Bendrix rifjar upp sögu sína frá þeim tíma þar sem hann var alltaf að líta til baka og minnast annars og betri tíma, tíma ástarsambandsins.

Margfeldnina í myndinni er ekki aðeins að sjá í mismunandi tímaskeiðum heldur eru persónurnar margklofnar í tilfinningalífi sínu og endurspeglast það vel í notkun spegla, glugga og rúðna/glerja. Í einu atriðinu játar Sara Bendrix ást sína í gegnum rúðu á snúningshurð sem er athyglisvert vegna þess að það áréttar að hún er gift öðrum og tilheyrir því í raun ekki honum. Það er einhver ósýnilegur veggur á milli þeirra.

Speglar og gluggar skapa hér dularfullt andrúmsloft. Með notkun spegla getur áhorfandinn speglað sig í söguhetjunum. Allt er gert eins lítið og mögulegt er og er ramminn yfirleitt þröngur. Notkun glugganna og tökustíllinn árétta þennan litla heim (micro cosmos) sem ástarsamband þeirra einkenndist af í miðri heimsstyrjöldinni. Það er sem hver dagur hefði getað verið þeirra síðasti og ekkert veraldlegt virðist skipta neinu raunverulegu máli. Myndin er að mestu tekin með þröngri linsu og rigning látin lýsa upp tökurnar sem skapar mjög þrungið og dapurlegt andrúmsloft. Rigningin áréttar einnig alla sorgina og breytingarnar og minnir á film noir hefðina.

Allt er mjög grátt og blátt í byrjun en grænt sem legnra líður á myndina. Allir tónar eru þó mjög muskulegir. Gráminn sem fylgir rigningunni og stríðinu einkennir myndina og er áhugavert hvernig litir eru notaðir til að sýna ástandið sem ríkir á stríðstímum og til þess að aðgreina það frá ástarsambandinu. Litanotkunin tengir einnig elskendurna saman, hún er iðulega í rauðu og hann með rautt bindi, og aðgreinir svo aðalpersónur frá aukapersónum. Sara er yfirleitt í mestu litunum og þegar að hún segir frá sinni hlið er allt gulara og ljósara. Athyglisvert er að það er meiri litur í endurminningunum, bæði bjartari, skærari og skýrari.

Myndin minnir jafnvel um margt á draugasögu, bæði í litum, andrúmslofti og svo það hvernig minningarnar ásækja Bendrix líkt og afturgöngur. Frásagnarmátinn er einnig á köflum mjög íronískur (hæðinn) eins og þegar að Henry hittir Bendrix (fyrrum elskhuga Söru) og fer að lýsa áhyggjum sínum yfir því að Sara sé honum ótrú. Einnig er sagan að hluta til einkaspæjarasaga. Bæði vegna þess að Bendrix ræður einkaspæjara til þess að fylgja Söru eftir en ekki síst vegna þess að Bendrix og Henry óttast báðir að Sara eigi nýjan elskhuga og áhorfendur taka fullan þátt í því með þeim að upplýsa ráðgátuna um það hver það sé.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni The End of the Affair er mikið um trúarstef. Myndin fjallar að hluta til um Guð og að miklu leyti um samband Guðs og manna. Það er í raun margföld ástarsaga í myndinni þó að einblínt sé á samband Söru og Bendrix. Ástarsamböndin eru þó mjög ólík og kannski væri betra að kalla þau flest kærleikssambönd. Fyrst eru það elskendurnir Sara og Bendrix, þá Sara og Henry, Henry og Bendrix, Sara og Guð og svo Guð og þau öll.

Sara er sjálf guðleysingi í byrjun eins og kemur fram í myndinni en í gegnum trúarreynslu sína öðlast hún smám saman trú. Sara hafði verið skírð rómversk-kaþólskri skírn fyrir tilstilli móður sinnar en hafði ekki verið alin sérstaklega upp í trú þar sem að faðir hennar hafði verið gyðingur. Móðir hennar hafði þó alltaf óskað þess að skírnin myndi virka eins og bólusetning og að seinna myndi hún öðlast trú.

Mörg dæmi eru um að fólk leiti til trúararfleifðarinnar þegar á bjátar og því ekki skrýtið að Sara grípi til bænarinnar í örvæntingu sinni. Sara Miles horfir á Bendrix elskhuga sinn kastast fram af stigapalli, þegar að flugskeytið springur fyrir utan steindan glugga stigagangsins, sem minnir óneitanlega á kirkjuglugga, og liggja andlausan í stiganum. Hún reynir að vekja hann til lífsins en án árangurs og þá grípur hún til bænarinnar í örvæntingu sinni. Hún ákallar Guð í von um kraftaverk og lofar að hætta að hitta ástmann sinn ef Guð bænheyri hana. Í því sem hún biður rís ástmaður hennar hins vegar upp frá dauðum og ávarpar hana henni til mikillar furðu. Nú þarf hún að standa við loforð sitt. Henni er þetta óskiljanlegt og hann veit ekki hvað hefur gerst.

Trúarlífssálarfræðingar myndu segja að skýringuna á afturhvarfinu gæti verið að finna í sektarkennd Söru, þ.e. hún biður bænarinnar til þess að losna út úr aðstæðum sem hrjá hana. Hún er manni sínum ótrú og vill losna við sektina og finnur þarna leið út. Einnig er hún þreytt á afbrýðisemi og tortryggni ástmanns síns. Í angistinni, sem grípur hana þegar að ástmaður hennar liggur líflaus í stiganum, sér hún eftir öllu og leitar leiðar til þess að losna. Jafnvel væri hægt að segja að hún sjái refsingu Guðs í dauða Bendrix og að hún færi af ást til hans þá friðþægingarfórn að slíta ástarsambandinu við hann og þar með sinni eigin hamingju. Svo má ekki gleyma þeim stöðuga ótta og tilgangsleysi sem stríðið vakti og má ætla að Sara hafi ekki verið ónæm fyrir því.

Hún eignast nýtt líf í afturhvarfi sínu til Guðs eins og Sara nafna hennar úr Biblíunni. Sara kona Abrahams er óbyrja en eignast son á elliárum fyrir tilstilli kraftaverks Guðs. Barnið er henni nýtt líf en það er einmitt það sem Sara Miles eignast við afturhvarfið og sameinar það Söru Biblíunnar og söguhetjuna í myndinni.

Ef tekið er mið af því sem gerist næst er augljóslega hægt að sjá að hún hefur eignast nýtt líf því að hún klæðist skarlatlitum jakka sínum og er áhersla lögð á það þegar hún er að hneppa honum að sér. Hann minnir óneitanlega á skarlatklæði kardínála eða jafnvel Krists. Það má segja að hún hafi íklæðst nýju hlutverki sínu um leið og hún þurfti að hylja nekt sína eftir þessa trúarreynslu. (Jes. 52.1 vekur í því sambandi viss hugrenningartengsl: „Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skarlatklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! Því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.“) Sara hefur snúið frá synd sinni og er endurfædd og hrein, hún hefur orðið fyrir reynslu sem gefur henni nýtt líf, andlegt líf og hún hefur í raun dáið sínu jarðneska, fyrra lífi. Rauði liturinn minnir líka óneitanlega á blóð sem ævinlega er tengt fórninni, enda hefur Sara þá gefið ástarsambandið upp til að standa við sinn hluta samnings þess sem í bæninni fólst.

Hún gengur frá Bendrix í gegnum sprengjurústirnar fyrir utan. Allt hafði breyst. Hún var að endurfæðast og það þýddi að hún þurfti að grafa sinn gamla mann og gat ekki snúið aftur til fyrra lífernis. Hún upplifir sig stadda í eyðimörk en í Biblíunni er eyðimörkin tengd reynslutíma til að prófa hjarta þess sem er þar, sbr. fjörutíu daga Jesú í eyðimörkinni og dvöl Móse og lýðsins í eyðimörkinni í fjörutíu ár. Henni finnst hún vera að deyja innra með sér. Fyrst Bendrix er lifandi þá er hún nú dauð. Hún veit að ekkert í heiminum myndi aftur verða rökrétt fyrir henni og hún telur sig ekki geta haldið loforðið en eitthvað segir henni að hún muni samt gera það. Hún talar um að hafa storkað örlögunum og að þau hafi svarað. Sara hafði ekki verið trúuð. Hún hafði aldrei haft trú á bæn en nú hafði hún smitast af trú eins og af sjúkdómi. Og hún byrjar að trúa á Guð. Sara hafði áttað sig á því að ef hún elskaði Bendrix í raun þá hlyti hún að geta elskað hann án þess að fá hann og sleppir honum þar af leiðandi. Ást hennar á honum myndi ekki enda þó svo að hún hitti hann ekki, fólk heldur áfram að elska Guð allt sitt líf án þess að sjá hann augliti til auglitis. Hún veltir því fyrir sér hvort annars konar ást geti nokkuð verið til. Allt sem hún hafði gert var af ást. Sara talar um að Guð hafi tæmt sig af ást og síðan fyllt sig af honum.

Ýmislegt í myndinni leggur áherslu á þessi umskipti og hið nýja líf Söru og eru bæði búningar og leikmynd óspart notuð í því tilliti. Eftir afturhvarfið íklæðist Sara t.a.m. oft grænni kápu. Grænt er óneitanlega tengt vorinu og lífinu sem kviknar þá. Á einum stað í myndinni eftir afturhvarfið er hún sýnd liggja þungt þenkjandi á fagurbláum sófa en blái liturinn minnir á himininn og himininn minnir á óendanleikann sem á allt mjög vel við það sem Sara er að upplifa. Einnig er blái liturinn litur Maríu meyjar, en það áréttar þá skoðun annarra persóna í myndinni að hún sé góðmennskan uppmáluð.

Sara er ekki viss um að henni myndi líka friðurinn en þegar að heimurinn er loks orðinn friðsamur þá finnst henni tími til kominn að hún öðlist sjálf smá frið. Sigurdaginn fer hún því í kirkju og skriftar til að fá innri frið. Eftir að hafa öðlast friðinn mætir hún Bendrix í stiganum heima hjá sér. Var það tilviljun að hún mætti honum þarna eða var það bara eins og lífið virkar? Ef Guð veit allt fyrirfram þá veit hann að þetta myndi gerast svona og af þessu dregur Sara þá ályktun að Guð sé í smáatriðunum. Sara er að kynnast Guði. Og í gegnum hana birtist mjög kristin guðsmynd, enda skrifar hún: „Hann [Bendrix] drap mig með afbrýðisemi, þú [Guð] ert að drepa mig með ást.“ Þetta er í raun jákvæð guðsmynd sem sýnir Guð sem elskar manninn nákvæmlega eins og hann er. Það eru sögupersónurnar sem eru fjarlægar Guði og afneita honum en nærvera hans er engu að síður mikil. Að kristnum skilningi er það Guð sem elskar að fyrra bragði og það er hann sem mætir sögupersónum myndarinnar.

Fyrir milligöngu Söru verður kraftaverk á syni einkaspæjarans Parkis, Lancelot. Hann er með valbrá sem þekur aðra kinn hans. Þegar að Sara hittir Lancelot veltir hún því fyrir sér hvers konar Guð gefi barni svona lýti og þegar að hún kyssir valbrána óskar hún þess að hún gæti þvegið hana burt. Eftir það minnkar valbráin smám saman uns hún er alveg horfin. Lancelot lítur svo á að það sé kraftaverk af völdum Söru. Í augum hans verður Sara því dýrlingur. Hér er því ekki aðeins verið að vinna með sjónarhól og upplifun einnar manneskju, heldur margra. Hver manneskja á einhverja sögu og það er merkilegt að sjá hvernig allir tengjast í gegnum Söru sem umbreytist úr ótrúrri eiginkonu yfir í „dýrling“.

Þegar að Sara deyr undir lok myndarinnar er það í raun fullkomnun á dauða sem þegar var orðinn. Hún var búin að deyja í lifanda lífi og eignast nýtt líf með því að kynnast Guði. Líf hennar eftir afturhvarfið einkennist af því að hún er eins og af öðrum heimi, að minnsta kosti í augum annarra. Sjálf á hún í innri baráttu og talar um sig sem hóru og lygara í samtali við prestinn Smythe, en hann neitar því og segir að hún sé góð. (Nafnið Smythe er líklegast komið frá nafninu Smith sem þýðir smiður en Jesús var lærður smiður!)

Sara hafði gefið tvö loforð um ævina, það fyrra var að giftast Henry og hið seinna að hætta að hitta Bendrix. En hún getur við hvorugt staðið. Fyrir henni endar veröldin þegar að hún hættir að hitta Bendrix. Hún talar um þetta eins og álög. Þegar hún bregst svo loforði sínu og stingur af með Bendrix, dreymir hana að barn liggi á milli þeirra þar sem þau liggja á rúmi og herbergið fyllist af sjó. Vatn stendur iðulega fyrir veikindum í draumum enda er Sara dauðvona. Barnið má túlka sem hið nýja líf sem hún hefur eignast og stendur í vegi fyrir því að hún geti snúið aftur til síns gamla lífernis og fyrir því að þau geti ást.

Þegar Sara og Bendrix fá að vita að hún sé dauðvona segir hún honum að gefa aldrei loforð, því að hann myndi þá kannski þurfa að standa við það, sem bendir til þess að Sara telji Guð vera að refsa sér. En undir lokin segir Sara þó við Bendrix að hann geti ekki haldið áfram að berjast, þetta sé bara kærleikur. Það bendir til þess að hún hafi allt annan skilning á Guði, þ.e. að hann sé miskunsamur og gæskuríkur.

Það má sjá líkingu við Jobsbók þar sem að Guð er svo trúfastur og nálægur í þjáningunni, en maðurinn ýtir Guði aftur á móti frá sér. Það er ekki síst í gegnum þjáninguna sem Guð verður raunverulegur. Í tilfelli Bendrix verður Guð hins vegar raunverulegur í gegnum hatrið. Þar sem hann hatar hann hlýtur hann að vera til annars væri ekkert að hata. Þannig viðurkennir Bendrix tilvist Guðs í gegnum hatrið. Hann hatar Guð fyrir að taka Söru frá sér. Í byrjun myndarinnar er hann að skrifa hatursdagbók, en áhorfandinn fær aðeins að vita að Bendrix hatar einhvern en veit ekki hvern. Um þá ráðgátu fjallar myndin öðrum þræði. Síðar kemur í ljós að sá sem hann hatar er Guð. Alla myndina er verið að leita að einhverjum og leitin tengd neikvæðum kenndum svo sem framhjáhaldi, afbrýðisemi og losta en það er í rauninni Guð sjálfur sem finnst.

Bendrix nærist á hatrinu en getur ekki streyst endalaust á móti kærleika Guðs. Í lokin hefur hann gefist upp á hatrinu en þar sem Guð er samt enn til staðar vill hann bara að Guð láti sig í friði. Bendrix sem í byrjun er guðleysingi hefur öðlast trú á Guði, en kærir sig samt ekki um hann. Bendrix sannfærist um að heimurinn sé flóknari en á verður þreifað en hann vill samt ekki hafa neitt með Guð að gera. Út úr öllu þessu hatri og öllum þessum biturleika kemur þó nýr skilningur á heiminum.

Bendrix er eigingjarn elskhugi og mælir ást sína með afbrýðisemi. Hann fer á fund einkaspæjara að nafni Savage. Nafnið sem merkir villimaður hæfir einkaspæjaranum vel þar sem að hann kyndir undir afbrýðisemi og gremju hjá Bendrix. Að vissu leiti er Savage í hlutverki djöfulsins þar sem hann elur á ótta hjá Bendrix. Savage gengur meira að segja svo langt að segja að afbrýðisemin sanni ástina. Bendrix fær hann því til þess að láta fylgjast með Söru.

Einkaspæjarinn Mr Parkis sem sendur er af Savage að elta Söru er t.d. alltaf á höttunum eftir einhverju krassandi og les inn í allt eitthvað meira en þar er, en það sem hann finnur er aðeins takmarkalausan kærleik og fegurð. Hann leitar að hinu ljóta en finnur hið fallega; samband Söru og Guðs.

Bendrix talar um að hann hafi fengið son Parkis, Lancelot, til að bregða sér í hlutverk djöfulsins, þess sem sáir tortryggni. Nafnið á drengnum hæfir vel einkaspæjara í framhjáhaldsgeiranum enda er það komið úr frásögninni um Artúr konung og riddara hringborðsins. Lancelot var einn af riddurum Artúrs og fannst í sæng með Guinivier drottningu.

Bendrix talar einnig um djöful í myndarbyrjun þegar að þeir Henry hittast fyrst og aftur í tengslum við næsta fund þeirra. Hann talar um að djöfullinn hafi hnippt í hann, enda er hann mjög dónalegur við Henry, og sýnir honum lítilsvirðingu þrátt fyrir að Henry eigi það alls ekki skilið. Henry er án efa hjartahreinasta persónan eftir allt saman. Ást hans er skilyrðislaus og óeigingjörn, þrátt fyrir að framan af hafi hann ekki litið út fyrir að vera hæfur til þess að elska. Hann er því sú persóna sem kemur mest að óvörum í lokin. Þrátt fyrir að vera bældur sýnir hann hugrekki og kærleika. Það er hægt að sjá í því hvernig hann bregst við eftir að hafa komist að sambandi Söru og Bendrix, en eftir það býður hann Bendrix að koma og búa hjá þeim og að hjálpa sér í gegnum sorgina. Á einum stað eftir dauða Söru segir hann Bendrix að hann hafi verið feginn að vita að Sara hefði átt í ástarsambandi við hann en ekki einhvern annan. Bendrix sýnir Henry örlítið meiri nærgætni eftir að hann flytur inn til þeirra hjóna og biður hann einnig afsökunar á því að hafa misst stjórn á skapi sínu gagnvart Séra Smythe.

Guðsmyndin sem birtist í myndinni er af hinum dularfulla en kærleiksríka Guði sem er stöðugt nálægur. Hvorug aðalpersónanna er trúuð í byrjun en vegna óbilandi kærleika Guðs verða þau að viðurkenna tilvist hans, hvort á sinn hátt þó. Sara fær bænasvar, en Bendrix verður að viðurkenna Guð í gegnum trúarreynslu Söru.

Graham Greene, höfundur skáldsögunnar, hafði verið trúaður ungur en þegar hann fullorðnaðist myndaðist tómarúm innra með honum þar sem Guð hafði áður verið og má greinilega sjá að honum hefur verið þetta mjög hugleikið efni, þ.e. þessi glíma mannsins við tilvist og eðli Guðs. Bókin heillaði Neil Jordan sem vildi fá að segja þessa sögu í öðru formi. Honum tekst sérstaklega vel að koma innri baráttu mannsins við sinn frjálsa vilja til skila, hvort og þá hvers vegna honum beri að gefa sig á vald kærleika Guðs. Það sem stendur upp úr að lokum er sú mynd af kærleika Guðs sem nær út fyrir dauða, tíma og rúm og fer ekki í manngreinarálit.

Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 52.1
Persónur úr trúarritum: Sara
Guðfræðistef: efi, ótti, trú, von, kærleikur, dauði, örlög
Siðfræðistef: ást og hatur, afbrýðisemi, þrá, sæmd, lygi, traust, vantraust, hamingja
Trúarbrögð: Kristindómur, rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, skriftir
Trúarleg reynsla: afturhvarf, kraftaverk, endurfæðing