Kvikmyndir

The Fifth Element

Leikstjórn: Luc Besson
Handrit: Luc Besson og Robert Mark Kamen
Leikarar: Bruce Willis, Milla Jovovich, Gary Oldman, Ian Holm og Chris Tucker, Luke Perry, Brion James, Tom “Tiny” Lister yngri, Lee Evans, Charlie Creed-Miles, Tricky, John Neville, John Bluthal, Mathieu Kassovitz og Christopher Fairbank
Upprunaland: Bandaríkin og Frakkland
Ár: 1997
Lengd: 123mín.
Hlutföll: 1.33:1 en er upprunalega í 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
The Fifth Element er framtíðarmynd sem gerist árið 2263. Hún segir frá aðstæðum sem koma upp þegar staða himintunglanna hefur opnað hlið hins illa og hið illa stefnir á jörðina til að tortíma henni, breyta ljósi í myrkur og lífi í dauða að eilífu. Eina von jarðarinnar er fólgin í fimmta frumefninu sem er hin fullkomna vera, nefnd Leeloo. Hún ein getur stöðvað hið illa með því að sameinast frumefnunum fjórum og sent þannig hið magnaða sköpunarljós gegn hinu illa. Frumefnin fjögur eru varðveitt í fjórum steinum sem nauðsynlegir eru fyrir sköpunarljósið en margir eru á höttunum eftir þeim. Fimmta frumefnið og útsendari ríkisstjórnarinnar, Korben vilja ná steinunum til að bjarga heiminum, en hefnigjarnar geimverur og illmennið Zorg sem er handbendi hins illa á jörðu reyna að komast yfir steinana vegna mikilvægis þeirra. Uppgjörið á sér stað á plánetunni Paradís.

Almennt um myndina:
Luc Besson er franskur leikstjóri sem býr til bandarískar kvikmyndir. Þó eimir aðeins eftir af franska húmornum og evrópska frumleikanum, enda hefur mörgum þótt The Fifth Element vera undarleg mynd, skrítið en ferskt innlegg í bandarískar hetjumyndir. Myndin hlaut almennt góðar viðtökur, þrátt fyrir að Besson sé oft harðlega gagnrýndur af löndum sínum fyrir hin sterku Hollywood áhrif sem myndir hans eru undir. Luc Besson vann til Lumiere verðlauna 1997 og Cesar verðlauna 1998 í Frakklandi sem besti leikstjórinn í bæði skiptin. Myndin hlaut fjöldamargar tilnefningar og þónokkur verðlaun fyrir tæknibrellur, meðal annars BAFTA verðlaunin 1998.

Myndin er byggð á sögu eftir Luc Besson sjálfan sem hann skrifaði á unglingsárum sínum í París. Sagan segir að hann hafi gengið með hana í maganum allan sinn leikstjóraferil og beðið eftir að verða nægilega frægur til að geta fjármagnað slíka mynd. Eftir rúmlega 20 ára umhugsunarfrest hefði ég búist við aðeins dýpri og vitrænni kvikmynd en The Fifth Element reynist vera.

Þegar ég horfði á myndina The Fifth Element í fyrsta sinn varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég hafði búist við djúpum hugmyndafræðilegum pælingum í framtíðarbúningi í anda Blade Runner, en það sem við mér blasti var þunn vísindaskáldsaga í gamanstíl blandað saman við bílaeltingaleiki og skotbardaga, með rómantísku ívafi. Ég myndi ekki kalla hana góða mynd en hún er viðunandi. Hún á sennilega að gera grín að hinum útpældu framtíðarmyndum þar sem allt hefur merkingu og býr yfir duldum vísunum. Þá hef ég sennilega ekki þá kímnigáfu sem myndin krefst, eins og að finnast fyndið að presturinn kalli Korben Dallas hr Willis (kannski pínu fyndið), og þegar geimverurnar birtast í musterinu í upphafi myndarinnar og fræðimaðurinn spyr þær hvort þær séu Þjóðverjar. Svona einnar línu brandarar.

Söguþráðurinn finnst mér veikburða, persónurnar steríótýpískar og leikurinn í meðallagi. Sterkasta hlið myndarinnar eru tæknibrellurnar, umferðin og borgarsýnin, og mörg skemmtileg smáatriði í framtíðarsýninni. Það eru atriði einsog útbúnaðurinn í íbúð Korben, fljúgandi skyndibitakokkurinn, örbylgjumatreiðsla Leeloo, ferðamátinn í flugvélinni og fleira í þeim dúr.

Önnur sterk hlið myndarinnar er klippingin. Klippingar eru hraðar, þremur eða fleiri senum skeytt saman á hraðan og frumlegan hátt, sem bætir upp fyrir slakan söguþráð. Tónlistin eftir Eric Serra hæfir myndinni ágætlega, hefur sennilega þótt með besta lagi 1997 en eldist ekki sérlega vel, er á stundum afkáraleg. Búningarnir eru líka afkáralegir margir hverjir, þó stundum hressandi, en ég bjóst við meiri snilld frá einum virtasta tískuhönnuði síðustu ára, Jean-Paul Gaultier.

Aðalleikarar myndarinnar Bruce Willis og Milla Jovovich hlutu góða dóma fyrir leik sinn, sérstaklega Milla Jovovich sem hlaut tvær tilnefningar til verðlauna, annars vegar til kvikmyndaverðlauna MTV fyrir slagsmálaatriðin og hins vegar til Blockbuster Entertainment Award sem besti kvennýliðinn. Þar að auki var hún tilnefnd til hinna vafasömu Razzieverðlauna sem versta aðalleikkonan. Vissulega er Milla Jovovich fögur og fullkomin að sjá, (má reyndar deila um hvort hárið sem hún ber í myndinni sómi hinni fullkomnu veru…) en mér fannst leikur hennar ekki sterkur. Einfeldningsleg túlkun á bjargvættinum fullkomna fannst mér ósannfærandi. Kannski býður þetta hlutverk ekki upp á snilldartilþrif þar sem persónusköpunin er þunn. Sama gilti um Bruce Willis, vöðvatröllið með glottið á vörunum. Hann kom mér ekki fyrir sjónir sem sterkur leikari en aftur má kannski skrifa það að hluta til á eðli myndarinnar og þunna persónusköpun. Skástur þótti mér Gary Oldman sem illmennið Zorg. Útlit hans vísaði til Hitlers og sem slíkur fannst mér hann sterkur. Sléttur, felldur, lítill, illur, firrtur og mannlegur. Mér fannst hann bera af öðrum leikurum í þessari mynd.

Aðrir komust frá þessu á svipaðan hátt og Willis og Jovovich, skammlaust en líka án nokkurs sóma. Allra slakastur var Chris Tucker í hlutverki Rhuby Rhod, mjög óþolandi aukapersóna sem hefði gjarnan mátt missa sín.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þó sagan af fimmta frumefninu og steinunum fjórum sé fullkomin fantasía úr hugarheimi Luc Besson og eigi ekki að varpa fram byltingarkenndum hugmyndum um guðdóminn, þá er skemmtilegt að skoða hvaða trúarímynd liggur að baki sögunni. Það er þá helst að skoða hlutverk Leeloo í ljósi frelsunar og að hvaða leyti hægt er að tala um hana sem Krists hliðstæðu. Það eru nokkur atriði sem styðja það. Hún hefur hjálpræðislegt hlutverk fyrir alla menn, stígur niður til að sigra hið illa, hún klæðist holdi, hún er hin fullkomna vera sem deilir kjörum með mönnum, og er í senn fullkomin og mannleg. Þessi atriði eru tengd kristinni hugmyndafræði en ég get ekki sagt að hún sé kristsgervingur. Þær vísanir í ævi Krists sem þeir sem vilja flokka hana sem kristsgerving benda á, finnst mér óljósar og myndin í heild ekki vera sannfærandi rammi utan um það, þó hugamyndatengsl séu til staðar. Ég kýs því heldur að flokka hana sem kristshliðstæðu. Ég mun þó benda á þau atriði sem hafa verið túlkuð sem vísanir í Krist til glöggvunar þó ég styðji þá túlkun ekki sjálf.

Sköpun LeeloÞegar geimskipinu sem átti að flytja steinana og fimmta frumefnið til jarðar var tortímt var hægri hönd fimmta frumefnisins það eina sem bjargaðist. Sú hönd var notuð til að skanna erfðamengið og endurskapa fimmta frumefnið. Við þessa endurbyggingu kemur skýrt fram hversu fullkomin vera þetta muni vera, hún geymir yfir 200 þúsund erfðamengi meðan maðurinn býr aðeins yfir 40. Það sem mér þótti skjóta skökku við er að þessi fullkomna vera sem er kvenkyns skuli vera sýnd svona einfeldningsleg og bjargarlaus.

Við sköpun hennar er vísað til þess að hún sé ekki þessa heims því þar segir vísindamaðurinn sem hefur umsjón með endurfæðingu hennar að það sé eins og hún sé hönnuð og margítrekar að þessi vera sé fullkomin. Hún er sú sem búið er að spá fyrir að bjarga muni mannkyni og hún tekur á sig mannsmynd.

Þegar Leelo flýr frá rannsóknarstofunni fer hún út um rör (fæðingargangurinn til mannlegs lífs?) og gengur síðan eftir örmjórri brún. Flugbílasveit lögreglunnar er við það að góma hana, gagnagrunnur lögreglunnar ber ekki kennsl á hana því hún er ekki þessa heims, og hún stendur með útrétta arma, í kristsstellingu. Sú stelling er það sem ég gat næst komist því að finna beina vísun í Krist, en tel að þá sé ég að lesa inn í myndina merkingu sem ekki er innistæða fyrir, þannig að ég held mig við að flokka Leeloo sem kristshliðstæðu. Hún stekkur fram af, hættir lífi sínu til að bjarga heiminum, mæta hinu illa og sigra dauðann. Kannski langsótt en myndar óneitanlega hugrenningatengsl.

Hægri höndinHægri hönd Leelo er gegnumgangandi tákn í myndinni. Hægri höndin er tákn valds og styrkleika, og oft notuð til að tákna Guð, þá gjarnan umvafin skýi eða geislabaug. Leelo er endursköpuð úr hægri hendinni en í stað þess að vera ímynd styrkleikans er hægri hönd Leelo í aðalhlutverki þegar hún er að niðurlotum komin, bæði eftir flóttann frá lögreglunni og eftir bardagann við hina illu Mangolora og Zorg.

Eftir flóttann frá lögreglunni fellur Leeloo ofan í leigubíl Korbens, sem við slysið skransar út af akbrautinni. Þegar hann lítur aftur í bílinn til að átta sig á hvað gerst hafi er hægri hönd Leeloo það fyrsta og eina sem sést. Eftir bardagann í Paradís við Mangalorana og síðan hinn illskeytta Zorg er Leeloo nær dauða en lífi, en þegar Korben kemur henni til bjargar er það aðeins hægri höndin sem hangir máttvana niður um op á loftræsikerfi þar sem Leeloo hafði leitað skjóls. Síðast en ekki síst er Leeloo sköpuð úr hægri hönd, eins og áður var getið, sem var það eina sem lifði af árás Mangalorana.

LjósiðEkki verður fjallað um trúarstef í The Fifth Element án þess að fjalla um hlutverk ljóssins. Ljósið sem lífið sjálft, ljósið sem frelsarinn, og ljósið sem sigrar myrkrið og dauðann eru allt vel þekkt stef úr kristinni hugmyndafræði og birtast öll í myndinni. Í fyrsta lagi er talað um sköpunarljósið sem lífgjafann í forna helgiritinu sem kemur fyrir í myndinni. Það minnir á upphaf Jóhannesarguðspjalls þar sem segir um Guð og Orðið: ,,Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.” (Jóh. 1:4-5.)

Í öðru lagi eru sterk tengsl milli Leeloo og ljóssins, því hún ein býr yfir þeim mætti ljóssins sem getur sigrað eilífa myrkrið. Hún stöðvar hið illa með ljósinu og í lokasenunni þegar hið illa er sprengt upp með ljósinu, er sýnt hvar frumefnin fjögur mynda kross úr ljósgeislum og Leeloo þar í miðju, sameinar ljósið og sendir ljósgeislann út í geim, lýsir upp heiminn og sigrar hið illa/myrkrið/dauðann. Hér gæti verið um Kristsvísun að ræða því það má líta svo á að hún sé í krossfestingarstellingu. Þetta minnir líka á orð Jesú ,,Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.” (Jóh. 8:12.

)TrúarbrögðinTrúarbrögðin sem birtast í myndinni snúast um að varðveita leyndardóminn um fimmta frumefnið. Engu að síður virðast þau vera undir rómversk-kaþólskum áhrifum. Prestar þessarar reglu eru í munkaklæðum og biðjast fyrir á hefðbundinn hátt. Dæmi um það er í fyrstu senunni sem gerist árið 1914, þegar presturinn tekur vatnsbrúsann af drengnum, sendir hann burt og kveður hann með orðunum „Guð verndi þig frá hinu illa“. Í sama skoti blandar hann eitri út í vatnið en biður Drottin að fyrirgefa sér.

Í atriðinu þar sem presturinn útskýrir leyndardóminn um fimmta frumefnið fyrir forsetanum sýnir hann teikningar úr helgiriti, sem er fornt á að líta en ótrúlega heillegt. Það er notað sem ígildi Biblíu og geymir spásögnina um frelsarann. Þar sjáum við sterk hugmyndaáhrif hinnar gyðing-kristnu hefðar um að frelsari komi og bjargi heiminum.

Eitt atriðið á sér stað heima hjá prestinum Vito Cornelius. Íbúðin er hlaðin íkonum og málverkum af Maríu með Jesúbarnið, sjöljósastiku má sjá þar og fleira kirkjulegt. Í myndinni kemur fram að það vekur mikla furðu hjá prestinum að fimmta frumefnið, hin fullkomna vera reynist kvenkyns. Það má kannski túlka það sem ákveðna gagnrýni á karlmiðlægni kaþólsku kirkjunnar, því fulltrúar hennar í myndinni eru allir karlkyns og eiga greinilega að hafa gert ráð fyrir því að frelsari þeirra væri það sömuleiðis. Það sem dregur úr þessu atriði sem gagnrýni er samhengi myndarinnar, því stærstur hluti hlutverka er fyrir karlmenn fyrir utan nokkrar gálulegar flugfreyjur og símadömu Zorg sem er vant við látin að pússa á sér neglurnar. Eina hlutverkið fyrir konu sem er afgerandi er hlutverk Leeloo sem þó birtir mjög karlmiðlæga kvenímynd.

NafngiftirNokkrar nafngiftir má leika sér með að setja í trúarsamhengi. Presturinn ber kirkjulegt nafn en þó án þess að ég hafi getað lesið merkingu út úr því. Hann heitir Cornelius eftir heilögum Kornelíusi og aðstoðarmaður hans ber biblíunafnið Davíð. Hann er kannski sá veigaminnsti í myndinni, ávalt skjálfandi á beinunum en þó var það hann sem með andardrætti sínum leysti gátuna um hvernig ætti að opna steinana, og að því leyti minnir hann á Davíð Biblíunnar sem einnig var knár þótt hann væri smár. Fleiri bera einnig biblíuleg nöfn en þar virðist það vera til gamans gert að láta mesta illmennið, Zorg, bera fornöfnin Jean-Baptiste Emanuel, sem merkir að sjálfsögðu Jóhannes skírari, sendiboði Guðs og Immanúel sem merkir „Guð er með oss“.

Nafn Korben Dallas minnir óneitanlega á hebreska orðið korban sem merkir „fórn færð Guði,“ einkum til uppfyllingar á heiti. Það má leyfa huganum að reika og túlka hann sem fórn, að hann hafi lagt líf sitt að veði fyrir guðinn. Þá kemur Paradís í senn fyrir sem hinn fullkomni staður og hinn spillti, því tælingarhugmyndir tengdar Paradís birtast sterklega í myndinni. Auglýsing frá eyjunni sem sést í sjónvarpi Korbens er með sterkum kynferðislegum tón og Paradís stendur þess vegna ekki einungis fyrir eitthvað hreint og saklaust, hvítar strendur og grænan skóg, heldur fyrir upptök syndarinnar, sem má tengja við tákn snáksins í upphafi myndarinnar. Snákurinn er tákn illskunnar, hann var birtingarform illskunnar í Paradís Biblíunnar og illskan gerir aðför að hinu góða í Paradís framtíðarmyndarinnar.

Þetta eru þó allt saman eintóm hugrenningartengsl og ólíklegt að djúp merking liggi að baki nafngiftum, þó einhvers konar vísun sé fólgin í sumum þeirra.

Sólin mun snúast í myrkurEndalok heimsins eru mikilvægt stef í myndinni. Hugmyndin um hvernig heimurinn farist er lýst á þá leið að við ákveðna afstöðu himintunglanna opnist gátt hins illa. Hið illa mun stefna á jörðina og breyta ljósi í myrkur og lífi í dauða að eilífu. Hins vegar er frelsunarvon falin í fimmta frumefninu sem er hin fullkomna vera, því hún býr yfir afli ljóssins, yfir sköpunarljósinu. Þessar hugmyndir um að ljós verði að myrkri við heimsendi endurspegla þá mynd sem Biblían dregur upp af endalokunum. Í Biblíunni kemur fram að sólin muni snúast í myrkur, bæði í Jóel 2:31 og í Postulasögunni 2:20 en hugmyndin um að gátt hins illa muni ljúkast upp ber í sér minni úr Opinberunarbókinni 9:1-2 þar sem segir: ,,Þá sá ég stjörnu, er fallið hafði af himni ofan á jörðina, og henni var fenginn lykillinn að brunni undirdjúpsins. Og hún lauk upp brunni undirdjúpsins, og reyk lagði upp af brunninum eins og reyk frá stórum ofni. Og sólin myrkvaðist og loftið af reyknum úr brunninum.“

Þessi umbreyting ljóss í myrkur minnti mig einnig á Völuspá og hennar lýsingar „Svört verða sólskin“ og seinna í kvæðinu þar sem segir: ,,Sól tér sortna, sígur fold í mar, hverfa af himni heiðar stjörnur.“ En það eru mín eigin hugrenningartengsl en sýna þó að þessar hugmyndir er víða að finna í tengslum við endalok heimsins. Vissulega er myndin þó í kristnu samhengi samanber snákinn, Paradís og fleira.

Kvenlegt hjálpræðishlutverk LeeloLeelo hefur hjálpræðislegt hlutverk fyrir allt mannkyn. Aðeins hún getur sigrað hið illa og komist hún ekki til jarðar munu allir deyja. Það að hún sé kona finnst mér skemmtileg nýbreytni í hetjumyndum en á sama tíma fór það í taugarnar á mér hversu háður kvenfrelsarinn er karlhetjunni. Hún er ekki birt sem sterk hetja sem hinn mennski Korben þiggur hjálp af heldur getur hún ekki bjargað heiminum án hans aðstoðar. Þegar sameining frumefnanna á sér stað stendur ljóssúlan upp úr Leelo sem stöðvar hið illa afl, en þá getur hin fullkomna vera, öllum æðri og sterkari ekki staðið í fæturna, heldur hvílir í örmum hins sterka karlmanns. Hefði það verið eins ef hin fullkomna vera væri karlkyns? Gæti hann ekki staðið nema honum væri haldið uppi af konunni sem elskar hann, og er bæði búin að bjarga heiminum og honum? Allt þjónar þetta tilganginum að rífa upp rómantíkina og útlista boðskap myndarinnar um að ástin dugi að eilífu.

PersónusköpunSem samantekt á því fyrir hvað einstakar persónur standa fyrir væri hægt að segja að Zorg sé höfuð hins efnislega veruleika, auðugur, voldugur, rekinn áfram af ágirnd. Það má segja að hann sé að einhverju leyti ómennskur sem sést best á því að hann er að hluta til úr ólífrænu efni, samanber plastið á höfði honum og svarti vökvinn sem lekur úr honum í einu atriðinu.

Cornelius prestur er að einhverju leyti utanveltu í samfélaginu því hann stendur vörð um þann sannleika sem honum var falið að geyma og ekki var rúm fyrir í því samfélagi sem fyrir er. það er ekki fyrr en allt stefnir í endalok heimsins að mark er tekið á honum þar sem hann býður upp á eina möguleikann til að bjarga heiminum.

Forsetinn hefur á sér yfirbragð stríðsmanns, því myndin sem dregin er upp af honum sýnir vöðvastæltan einbeittan stríðsherra.

Korben er ekki óskabarn síns samfélags. Hann á glæstan feril að baki en vill ekki gangast upp í því hlutverki. Honum er falið hið mikla hlutverk að bjarga heiminum bæði af veraldlegum yfirvöldum, hernum og einnig af guðlegri forsjón og Leeloo.

ViskumolarMargir fletir koma upp í myndinni og verður þessi umfjöllun aldrei tæmandi. Það eru þó nokkur atriði sem mig langar að minnast á. Í upphafi myndarinnar er atriði þar sem hinn illi hnöttur er kominn fram. Herstjórnin ákveður að skjóta á fyrirbærið en við hvert skot stækkar það og ógnar þeim enn meir. Meira að segja öflugustu vopnin hafa ekkert að segja. Þar kemur fram að illt nærist á illu og því er aðeins hægt að eyða með góðu.Í öðru atriði gengur presturinn Cornelius á fund Zorg, og þeir ræða saman. Í því sem að presturinn gagnrýnir Zorg skellir Zorg í sig drykk úr glasi og kirsuber sem var í drykknum stendur fast í hálsi honum. Presturinn sýnir Zorg hvernig lífið er fallvalt og að allur heimsins auður kemur ekki að gagni við dauðans dyr, en þyrmir þó lífi hans.

Önnur sena í myndinni er á þá leið að kínverskur skyndibitabátur eldar handa Korben við gluggann hjá honum. Kínverski kokkurinn og Korben spjalla saman um gang lífsins þegar Korben berst bréf. Hann vill ekki taka það upp því hann hafi bara fengið slæmar fréttir upp á síðkastið, konan hans sé farin frá honum og lögfræðingurinn hans með henni. Kokkurinn leggur þá máltíðina að veði að nú fái hann góða fregn, því ,,það rignir ekki alla daga” eins og hann kemst að orði. En viti menn, bréfið reynist uppsagnarbréf, en svar Korbens við því er að hann hafi þó alltént unnið fría máltíð. Kokknum líkar sú speki og kveður hann með brosi á vör. Þar kemur fram að lífsspeki Austurlanda stendur fyrir sínu og hversu uppbyggjandi það er að sjá gott í slæmum aðstæðum.

Samtal um mannlegt eðli á sér stað milli Leeloo og Korben. Leeloo hefur fræðst um heiminn í gegnum netmiðil á ofsahraða og komist að því að allt sem mennirnir geri sé illt, niðurbrjótandi, eyðileggjandi. Hún hefur misst viljann til að bjarga mannkyninu. Korben tekur undir að vissulega sé margt illt í heiminum af mannavöldum en þó séu þeir ekki alslæmir. Þeir eigi til vináttu og kærleika. Hann sannfærir hana um að ástin sé næg ástæða til að bjarga heiminum, kyssir hana ástríðufullum kossi því til staðfestingar og sjá, ástin bjargar heiminum.

HeimildirKvikmyndin ,,The Fifth Element”, leikstjóri Luc Besson
Biblían, heilög ritning. Hið íslenska Biblíufélag, Reykjavík 1981.
http://www.hollywoodjesus.com/fifth_element.htm
http://www.unomaha.edu/~wwwjrf/antifem.htm
http://www.unomaha.edu/~wwwjrf/Hussain.htm
http://www.cinemainfocus.com/Fifth Element, The (Two Stars 1997).htm
http://www.imdb.com/title/tt0119116/

Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 1:4-5; Jh 8.12; Jl 2:31; P 2:20; Op 9:1-2
Persónur úr trúarritum: Guð, geimverur
Guðfræðistef: líf, dauði, tilvist hins illa, kærleikur, heimsslit, spádómur, mannseðlið, ást, fimmta frumefnið
Siðfræðistef: græðgi, hefnd, þjófnaður, lygi, heiður, svik, jafnrétti kynjanna, stríð
Trúarbrögð: rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: musteri
Trúarleg tákn: snákur, hönd, blóð, ljós, íkon, sjöljósastika, bænir, hauskúpa, myrkur
Trúarleg embætti: prestur, aðstoðarmaður prests
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, ritúal í musteri