Leikstjórn: Lucio Fulci
Handrit: Ennio De Concini, byggt á sögu eftir Brett Harte
Leikarar: Fabio Testi, Tomas Milian, Lynne Frederick, Michael H. Pollard, Harry Baird, Donald O’Brien, Bruno Corazzari, Adolfo Lastretti og Charles Borromel
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1975
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0073594
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Árið 1873 ákveða bæjaryfirvöldin í Salt Flat í Utah að hreinsa til hjá sér í eitt skipti fyrir öll en fyrir vikið er allt illþýðið þar strádrepið í blóðugu uppgjöri, hvort sem um er að ræða fjárhættuspilara, drykkjumenn, vændiskonur eða þjófa. Aðeins fjórir fangar úr fangelsinu sleppa lifandi og eru þeir reknir úr bænum á hestakerru daginn eftir, en það eru spilahrappurinn Stubby Preston, barnshafandi vændiskonan Emmanuelle Bunny O’Neill, skyggni blökkumaðurinn Butt og drykkjumaðurinn Clem.
Saman halda þau út í eyðimörkina þar sem þau kynnast friðsömum svissneskum kristnum sértrúarsöfnuði í leit að trúbræðrum sínum í nýju heimsálfunni og dvelja hjá honum um stund. Þegar þau halda síðan af stað á nýjan leik, slæst mexíkanski bófinn Chaco í för með þeim en hann reynist brátt siðlaus með öllu, enda drepur hann allt kvikt, sem á vegi þeirra verður. Hann tekur sér meira að segja góðan tíma í að pynta lögreglumann til dauða, sem freistað hafði þess að handsama hann, og yfirbugar loks samfylgdarmenn sína og fjötrar þá með hjálp Clems. Chaco stingur svo af á hestakerrunni eftir að hafa nauðgað Bunny og skotið Clem í fótinn en honum tekst engu að síður að leysa félaga sína aftur. Þegar Chaco snýr til baka með bófaflokki sínum, tekst fjórmenningunum naumlega að fela sig, en í staðinn ræðst hann á svissneska sértrúarsöfnuðinn og myrðir alla meðlimi hans, jafnt karla sem konur og börn. Um leið og Preston sér hvað gerst hefur, sver hann þess dýran eið að leita hefnda á Mexíkananum. Það reynist hins vegar ekki auðhlaupið, enda verður hann umfram allt að koma Bunny til byggða áður en hún verður léttari.
Almennt um myndina:
Óhætt er að segja að kvikmyndin The Four of the Apocalypse (I quattro dell’apocalisse á ítölsku) sé með allra frumlegustu spaghettí-vestrunum, jafnvel þótt greina megi viss stílræn áhrif frá annars alls óskyldum myndum á borð við vegamyndina Easy Rider, sem Dennis Hopper gerði árið 1969. Leikararnir eru líka margir traustir, ekki síst Fabio Testi í hlutverki Prestons og Tomas Milian í hlutverki Chacos, enn eins mexíkanska bófans á löngum ferli hans. Lynne Frederick stendur sig sömuleiðis vel en hún var eiginkona gamanleikarans Peters Sellers síðustu æviár hans.
Þetta þýðir þó ekki að myndin sé með öllu gallalaus. Helsti veikleiki hennar er nefnilega hörmuleg tónlist Fabios Frizzi og félaga hans, en hver sykursæta ballaðan á fætur annarri er leikin í heild meðan sögupersónurnar gera ekkert annað en að ferðast milli staða. Fyrir vikið verður myndin ekki aðeins langdregin heldur virkar tónlistin ömurlega gamaldags. Í rauninni hefði það bætt myndina töluvert, ef hún hefði verið stytt um a.m.k. korter á kostnað allra þessara ballaða.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Styrkleiki kvikmyndarinnar er ekki síst fólginn í efnistökunum, en sögusviðið er fallinn heimur, sem kominn er á heljarþröm. Það er því engin tilviljun að titill myndarinnar skuli vísa í síðasta rit Biblíunnar, Opinberun Jóhannesar, en hann má þýða á íslensku sem Fjórmenningarnir úr Opinberunarbókinni. (Reyndar getur enska orðið ‚apocalypse‘ einnig vísað til ‚stórfenglegs veraldarumróts‘ og ‚opinberunar um lokabaráttu góðs og ills‘ án þess að varða beint Opinberun Jóhannesar, en efni myndarinnar tengist henni engu að síður þegar betur er að gáð.)
Að sögusvið Opinberunarbókarinnar skuli vera fært aftur til fortíðarinnar með þessum hætti er reyndar ekkert einsdæmi, en Clint Eastwood gerði það t.d. í vestranum Pale Rider árið 1985. Stríðsmyndirnar The Four Horsemen of the Apocalypse frá árunum 1921 og 1961 gerðu það einnig með því að heimfæra boðskap Opinberunarbókarinnar í fyrra tilfellinu á fyrri heimsstyrjöldina og í síðari tilfellinu á síðari heimsstyrjöldina. Det sjunde inseglet eftir Ingmar Bergman frá 1957 er svo enn eitt dæmið um það, en þar vísar Opinberunarbókin til Svíþjóðar á þrettándu öldinni.
Slíkar heimfærslur á Opinberunarbókinni aftur til fortíðarinnar eru í raun vel við hæfi, enda hafa margir guðfræðingar haldið því fram að boðskapur hennar og sögusvið geti átt við um hvaða tíma sem er. Sérhver kynslóð verði að takast á við þau viðfangsefni, sem dregin eru þar fram með svo sláandi en sístæðu líkingarmáli. Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup íslensku þjóðkirkjunnar, segir í því sambandi: „Biblían boðar, að vér eigum að vera reiðubúnir hverja stund að mæta Guði og gegna kalli hans. Og allir tímar eru efstu tímar, hver dagur efsti dagur, hver stund, sem þú lifir, er þín síðasta. Þú átt enga aðra, hefur enga aðra andrá í hendi þér en þá, sem yfir stendur.“ (Opinberun Jóhannesar. Skýringar. Ísafoldarprentsmiðjan. Reykjavík. 1957. Bls. 34-35.)
Spaghettí-vestrinn The Four of the Apocalypse fylgir þó Opinberunarbókinni ekki eftir í smáatriðum heldur sækir hann fyrst og fremst innblástur í viss stef úr henni. Enda þótt reiðmennirnir fjórir (Opb 6:2-8) séu sennilega þekktustu fjórmenningar ritsins, eru fjórmenningar myndarinnar sennilega hvorki persónugervingar þeirra né afleiðingar gjörða þeirra. Þvert á móti er það sögusviðið, sem rekja má til reiðmannanna fjóra, en það einkennist mikið til af þeim plágum, sem sagðar eru fylgja þeim. Önnur stef úr Opinberunarbókinni varða einkum óléttu konuna í eyðimörkinni og drekann (sbr. Opb 12).
Bölsýn mynd er dregin upp af heiminum og er sem endalokin séu runnin upp. Friðurinn hefur verið tekinn burt af jörðinni svo að menn brytja hverja aðra niður í orðsins fyllstu merkingu (Opb 6:4), fyrst í bænum Salt Flat en síðan hvert sem litið er. Reiðmönnunum „var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar“. (Opb 6:8.) Hvarvetna er að finna eyðileggingu og auðn og hafa jafnvel heilu bæjarsamfélögin lagst í eyði. Meira að segja hinir trúuðu í svissneska sértrúarsöfnuðinum eru myrtir með köldu blóði, en þeir töldu sig hvort sem var eiga vísan samastað hjá Guði.
Mexíkanski bófinn Chaco er sennilega eitt grimmasta illmenni spaghettí-vestranna, en gjörðir hans og merki á enni, andliti og handleggjum minna einna helst á merki dýrsins, sem engu eyrir (sbr. Opb 13:16). Hann er sem drekinn, sem ofsækir óléttu konuna í eyðimörkinni (sbr. Opb 12), en til marks um djöfullegt innræti hans tekur hann sér góðan tíma í að svívirða eina helgustu athöfn kristninnar, sjálfa altarisgönguna. Þegar hann yfirbugar samferðarmenn sína, neyðir hann þá til að krjúpa á kné og borða hold lögreglumannsins, sem fleginn hafði verið lifandi, og súpa um leið af víni eins og væru þeir að neyta sakramenta.
Preston nær þó að leita skjóls í eyðimörkinni með óléttu konuna og ná þau í fylgd spilasjúks prests til lítils bæjarsamfélags uppi á fjallstoppi, þar sem eingöngu karlmenn búa, en þeir hafa ekki séð konur og börn árum saman. Ástæðan fyrir kvenmannsleysinu er ekki alveg á hreinu, en Stephen Thrower stingur upp á því í bók sinni Beyond Terror: The Films of Lucio Fulci, að með þessu hafi íbúarnir viljað komast nær Guði. Ekki virka þeir þó neitt sérstaklega trúaðir, en barninu er allavega búinn þar öruggur staður þegar það fæðist. Eins og drekinn sem ofsækir hina trúuðu þegar konunni hefur verið komið undan, ofsækir Chaco hina trúuðu í svissneska sértrúarsöfnuðinum og myrðir þá hvar sem hann nær til þeirra (sbr. Opb 12:17).
Enda þótt Chaco sé að lokum lagður að velli þegar Preston finnur hann óvænt í afskekktri skemmu og skýtur hann til bana, sniðgengur Lucio Fulci vandlega hetjuímyndina úr einvígum spaghettí-vestranna, því að dauðdagi illmennisins er einfaldlega ömurlegur og hetjan kaldrifjaður morðingi. Þó svo að Fulci dragi óneitanlega upp bölsýna mynd af umheiminum, er vonarglætan ekki með öllu úti. Athvarf hinna trúuðu er þrátt fyrir allt hjá Guði og nýfædda barnið eflir karlasamfélagið til dáða á nýjan leik meðan illmenni eyðimerkunnar er lagt að velli. Freistandi er að líta á barnið sem ungan dreng er komi til með að leiða söfnuð karlanna í fyllingu tímans (sbr. Opb 12:5).
Athygli vekur að enda þótt myndin gerist nær öll í mormónaríkinu Utah, koma mormónar þar nánast ekkert við sögu. Eina kirkjubyggingin, sem sést í Salt Flat, er til dæmis rækilega merkt með krossi, en það tákn hafa mormónar aldrei notað á byggingum sínum. Preston spyr reyndar Svisslendingana hvort þeir séu mormónar, en því neita þeir og segjast í staðinn vera The Joyful Church of the Living Christ. Enda þótt trúarsöfnuðurinn sé ekki skilgreindur neitt frekar, hefur hann öll helstu einkenni mennoníta og amish og myndi því flokkast sem evrópskur fríkirkjusöfnuður með anabaptískar rætur, hafi hann á annað borð einhvern tímann verið til.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, guðspjöllin, Mt 28:19, P 9:3-9
Hliðstæður við texta trúarrits: Opb 6:2-8, Opb 12, Opb 12:5, Opb 12:17, Opb 13:16
Persónur úr trúarritum: englar, djöfullinn
Guðfræðistef: trú, himnaríki, þjónusta, hlýðni, bölvun, framliðnir, synd, fyrirgefning, ást, fyrirheitna landið, sakramenti, síðasta kvöldmáltíðin
Siðfræðistef: manndráp, vændi, hermennska, nauðgun, pynting, kynþáttahatur, mannát, fjölkvæni, hefnd
Trúarbrögð: Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (mormónar), spíritismi, The Joyful Church of the Living Christ (sennilega tilbúningur í anda evrópskra anabaptískra fríkirkna)
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, skeifa (heillagripur)
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur, lofgjörð, bæn, borðbæn, fyrirbæn, sverja, kristniboð, signing, skírn
Trúarleg reynsla: skyggni