Kvikmyndir

The Great Silence

Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Sergio Corbucci, Bruno Corbucci, Mario Amendola og Vittoriano Petrilli
Leikarar: Jean-Louis Trintignant, Klaus Kinski, Frank Wolff, Luigi Pistilli, Vonetta McGee, Mario Brega, Raf Baldassarre, Marisa Merlini, Maria Mizar og Remo De Angelis
Upprunaland: Ítalía og Frakkland
Ár: 1968
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0063032
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Í snæviþöktu fjalllendi Utah leita mannaveiðarar uppihvern útlagann á fætur öðrum og færa þá fremur dauða en lifandi í hendur laganna varða, enda auðveldastir meðhöndlunar þannig. Sá eini sem hefur fyrir því að taka útlagana lifandi er mállaus úrvalsskytta, sem drepur aðeins í sjálfsvörn, en morðingjar foreldra hans höfðu skorið hann á háls þegar hann var enn barn að aldri. Þegar harðsvífasti mannaveiðarinn verður einum útlaganum að bana, ræður ekkjan einfarann þögla til að gera upp sakirnar við hann, en hann er ekki aðeins uppnefndur ‚hinn þögli‘ vegna málleysisins heldur líka vegna þess að þögn dauðans fylgir honum hvert sem hann fer.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Spaghettí-vestrinn ‚Þögnin mikla‘ er tvímælalaust einn af þeim allra bestu enda er unnið með klisjurnar á einstaklega frumlegan hátt. Bölsýn (og jafnvel níhílísk) mynd er dregin upp af mannskepnunni og er sem illskan hafi ávallt yfirhöndina í harðri lífsbaráttunni þar sem lífið er einskis metið. Fyrir vikið hljóma orð prestsins snemma í myndinni líka sem öfugmæli þegar hann vitnar í Jóh. 11:25 við útför eins útlagans þar sem Jesús segir: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ (Reyndar er athyglisvert að enginn mormóni skuli koma við sögu í vestranum í ljósi þess að hann gerist allan tímann í mormónaríkinu Utah, sem stofnsett var á nítjándu öldinni í Norður-Ameríku.)Það er í raun lýsandi fyrir ástandið að þögli einfarinn skuli taka fram bók úr eigu ekkjunnar, sem vel gæti verið Biblían hennar, og skrifa fremst í hana $1000 þegar hún spyr hvað það kosti að koma morðingja eiginmanns hennar fyrir kattarnef. Skömmu áður hafði hann skotið annan mannaveiðara í sjálfsvörn fyrir framan lögreglumenn bæjarins, en þeir sögðu hann sneggri en djöfulinn sjálfan ef hann væri ekki hreinlega þar sjálfur kominn.Franski eðalleikarinn Jean-Louis Trintignant (sem meðal annars lék gamla dómarann í ‚Þrír litir: Rauður‘) er hreint út sagt frábær í hlutverki þögla einfarans og nær hann auðveldlega að vekja samkennd með honum með svipbrigðunum einum saman. Klaus Kinski er sömuleiðis réttur maður á réttum stað í hlutverki aðalskúrksins og Frank Wolf og Luigi Pistilli standa alltaf fyrir sínu. Tónlist Ennios Morricone er stórgóð svo og kvikmyndatakan og leikstjórnin. Þetta er tvímælalaust besti vestri Sergios Corbucci og flokkast hann hiklaust með myndum þeirra Sergio Leone, Sergio Sollima og Giulio Questi.Lengi var orðrómur á kreiki um að til stæði að endurgera ‚Þögnina miklu‘ í Bandaríkjunum og segja margir að Clint Eastwood myndirnar Hang ’em High, Joe Kidd og The Unforgiven séu allar meira eða minna byggðar á henni. Aðeins sú síðast nefnda jafnast þó á við ‚Þögnina miklu‘ í gæðum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Jh 11:25
Persónur úr trúarritum: djöfullinn
Guðfræðistef: helvíti, níhílismi
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, vændi, nauðgun, kynþáttahatur
Trúarleg tákn: kross