Kvikmyndir

The Green Mile

Leikstjórn: Frank Darabont
Handrit: Frank Darabont, byggt á sögu eftir Stephen King
Leikarar: Tom Hanks, David Morse, Bonnie Hunt, Michael Clarke Duncan, James Cromwell, Michael Jeter, Graham Greene, Dough Hutchison, Sam Rockwell, Barry Pepper, Jeffrey DeMunn, Patricia Clarkson, Harry Dean Stanton, Dabbs Greer, Eve Brent, Brent Briscoe, Gary Sinise og William Sadler
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 188mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
The Green Mile greinir frá samskiptum fangavarða við dauðadæmda fanga í „Cold Mountain“ ríkisfangelsinu. Hæst bera samskipti yfirfangavarðarins Paul (Tom Hanks) við kraftaverkamanninn John Coffey (Michael Duncan), en hann er dæmdur fyrir meint morð á tveimur stúlkubörnum. Innan veggja fangelsisins takast á öfl illsku og kærleika sem hafa áhrif á það hvernig persónur myndarinnar takast á við líf sitt og umhverfi.

Almennt um myndina:
Rithöfundurinn Stephen King ritaði The Green Mile í formi sex sjálfstæðra þáttaraða og var bókin gefin út í einu lagi árið 1996. Kvikmyndaleikstjórinn Frank Darabont leikstýrði myndinni og var hún tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna. Hann leikstýrði einnig mynd Stephens King, The Shawshank Redemption fimm árum áður. Sú mynd var tilnefnd til sjö Óskarðsverðlauna og gerist í fangelsi eins og The Green Mile. Darabont segir í viðtali að honum hafi boðist mörg handrit eftir Shawshank, en ekkert hafi kveikt áhuga hans. Fimm árum síðar verður hann svo „ástfanginn“ af handriti Stephen King, The Green Mile, eins og hann orðar það sjálfur. „Það er eins og að giftast ekki nema virkilega verða ástfanginn. Þökk sé Stephen King.“ Frank Darabont leitaðist við að finna eitthvað sem gefur von, eitthvað sem hægt væri að trúa á. Það var þessi ljúfi þunglyndistónn og upphafning frásagnarinnar sem Frank fann í sögum Stephen King sem honum fannst svo heillandi. Kveikjan að áhuga hans voru einkum samskipti John Coffey og yfirfangavarðarins Paul.

Þegar leikstjórinn var spurður um persónur myndarinnar svaraði hann því, að það væri ekki algengt að leikarar kæmu upp í huga hans þegar hann skrifaði handrit. En í þessu tilviki hefði Tom Hanks komið strax upp i huga sinn í þetta hlutverk sem sá eini rétti, enda væri hann heilsteyptur og heiðarlegur persónuleiki. Sömu sögu var að segja um sex aðra leikara myndarinnar sem komu upp í huga Franks þegar hann ritaði „draumahandritið“.

Það er auðvelt að skynja hve leikstjóri og leikarar leggja sig fram um að koma boðskapnum til skila í myndinni The Green Mile. Leikarinn Michael Clarce Duncan sem leikur fangann Coffey, hefur sagt frá því í viðtali hve Darabount komi fram við leikarana af mikilli virðingu, kærleika og umhyggju – láti aldrei styggðaryrði frá sér fara gagnvart þeim og byggi þá stöðugt upp. Tom Hanks segir að Darabount sé einstakt ljúfmenni sem hafi stöðugt hvatt hann áfram. Um Hanks fara samleikarar hans sérlega lofsamlegum orðum, Duncan segir að vegna hvatningar Hanks og umhyggju hafi honum tekist að ná ótrúlegum framförum í sínum atriðum. Þá nefnir David Morse (Brutus) göfuglyndi Hanks og hvernig hann laði að sér fólk, hann segist ekki sjá hvernig þessi mynd hafi getað orðið til án hans.

Það sem einkennir myndina The Green Mile öðru fremur eru hin stórkostlegu djúpu, töfrandi og kærleiksríku samskipti. Áherslan felst fyrst og fremst í virðingu og aðgát í nærveru mannssálarinnar. Það skiptir ekki máli hvort samskiptin eru við maka, samstarfsmenn eða fanga, það er ávallt virðingin, þolinmæðin og kærleikurinn sem höfð eru að leiðarljósi. Þannig eru ætið markmið fangavarðanna á mílunni. Þau samskipti sem hæst bera í myndinni, eru tengsl Paul Edgecomb (Hanks) við John Coffey (Duncan).

Myndin sýnir í upphafi Paul Edgecomb (Hanks) aldraðan þar sem hann dvelur á elliheimili. Hann vaknar upp við draum sem tengist tímabili úr lífi hans fyrir um 60 árum og sama dag horfir hann á kvikmynd þar sem Frank Sinatra syngur lagið: „Heaven – I am in heaven.“ Þetta tvennt tengir hann við fortíðina og hann finnur sig knúinn til að segja Elaine vinkonu sinni á dvalarheimilinu frá lífi sínu.

Paul Edgecomb hafði umsjón með dauðafangabúðum í Cold Mountain ríkisfangelsinu árið 1935. Fangarnir sem þar dveljast eru morðingjar sem bíða þess að verða aflífaðir.

Eins og áður sagði bera hæst samskipti Paul Edgecombs yfirfangavarðar og risavaxna fangans John Coffey sem er af svörtum kynstofni. Coffey er barnslega einfaldur og minnir um margt á þroskaheftan einstakling. Hann hefur yfirnáttúrulega andlega hæfileika og yfirnáttúrulegt innsæi. Hann sér hið illa og góða í hjarta mannsins og hefur hæfileika til að sjá fyrir um óorðna hluti.

John Coffey er sakaður um að hafa myrt tvö stúlkubörn á hrottalegan hátt og hann hefur svo sannarlega líkamsburði til þess. Paul fær strax í upphafi sterkar efasemdir um að dauðadómur yfir Coffey sé óréttmætur og áhorfandinn fær ekki fullvissu um það atriði fyrr en við lok myndarinnar.

Myndin lýsir því hvernig Paul ásamt samstarfsmönnum og yfirmanni leggja sig fram við að hjálpa föngunum að njóta friðsælla síðustu lífdaga í ömurlegri vist i fangaklefa Southern fangelsisins. Markmið fangavarðanna á grænu mílunni, (en svo var síðasta mílan nefnd í fangelsinu vegna græna linolium dúksins á gólfinu) var að skapa andrúmsloft friðar, kærleika og mannúðar. Þar var föngunum gert kleift að gera upp líf sitt, ræða vandamál sín og ná einhverri sátt, þrátt fyrir hörmulegar aðstæður og líðan. Fangaverðirnir voru þess vegna jafnframt því að gæta fanganna, leiðbeinendur, sálgæsluaðilar og sáttargerðarmenn það er að segja þeirra fanga sem lærðu að treysta þeim. Paul er sá sem hæst ber af, hvað varðar visku, skilning og samúð í garð fanganna. Indijáninn Arlen sem veltir fyrir sér himnaríkisdvölinni og Del sem hefur áhyggjur af afdrifi músar eftir sinn dag, en hann tengdist henni kærleiksböndum í fangelsinu.

Meira að segja vandræðagemsinn „Wild Bill“ – hrottafenginn morðingi, fullur haturs og mannvonsku, fær sinn skammt af sállækningarmeðferð Pauls yfirfangavarðar á grænu mílunni.

En það eru ekki eingöngu fangarnir sem Paul og samstarfsmenn hans þurfa að hafa afskipti af. Fangavörðurinn Percy er sífellt til vandræða vegna illsku sinnar, hrottaskapar og öfuguggahátta. Vera hans á grænu mílunni er öllum til mikilla leiðinda, bæði föngum og samstarfsmönnum en vegna vensla við yfirmann stofnunarinnar er erfitt um vik að koma honum frá.

Hið illa kraumar sífellt undir niðri og glíman við illskuna í samskiptum við fangavörðinn Percy og stórfelldan morðingja „Wild Billy“ minnir stöðugt á að hið djöfullega er allsstaðar nálægt. Leikstjóra myndarinnar tekst frábærlega að draga fram andstæðu öflin hið góða og hið illa, með því að fást við djöfulinn sjálfan.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Allt umhverfi myndarinnar umvafið skírskotunum í boðskap Biblíunnar um trú, von og kærleika. Það er því miður ef áhorfandinn hefur ekki einhverja innsýn í kristna siðfræði, þekkingu á tvöfalda kærleiksboðorðinu og fagnaðarerindi Jesú Krists, því annars er hætt við að þáttur hins illa í myndinni vegi þyngra en ella. Með kristin gildi í farteskinu kemur nefnilega í ljós, að þrátt fyrir nöturlegan og grimmdarlegan undirtón, er myndin fyrst og fremst óður til kærleikans, þess kærleika sem þekkir Krist og er þekktur af Kristi. Öll samskipti, sérhvert orð, sérhvert augnatillit sérhver verknaður í myndinni leggur áherslu á mikilvægi hinna einlægu og heiðarlegu samskipta. Allt umhverfi mynarinnar er einfalt og ekkert hindrar leið áhorfandans að andlegri túlkun. Ýmsir lyklar eru á leiðinni sem tengja túlkunina táknum og skírskotunum í Biblíuna, hvað varðar dulúð, trú og kristnar hefðir.

Mikil áhersla er lögð á ljósið. Í upphafi myndarinnar á ellilheimilinu, þegar Paul byrjar frásögn sína, situr hann ásamt vinkonu sinni Elaine, við risaháan og víðan glugga, sem spannar allt umhverfi þeirra. Hin dulúðuga birta sem flæðir inn sker í augun, þrátt fyrir gráan himin og regnið sem bylur á rúðunum og undirbýr áhorfandann fyrir „rétta“ hugarfarið til að meðtaka boðskap myndarinnar. Þá er glugginn fyrir ofan skrifborð Pauls við enda grænu mílunnar í sama anda, en hann minnir á kirkjuglugga vegna bogalínunnar efst og litlu rúðanna. Í myndinni skiptir þetta miklu máli vegna áherslunnar á ljósið og hin þverstæðufullu öfl hins andlega og veraldlega heims myrkurs og ljóss. Þar birtast blámi himinsins sem minnir á sakleysið, hið barnalega og einfalda, sólargeislarnir sem verma hjörtu fanga og starfsmanna á mílunni og þrumur og eldingar sem leggja áherslu á hrylling, þjáningar, eftirsjá og dauða.

Ljósið tengist sterklega fanganum John Coffey. En þegar hann er kynntur til sögunnar, minnir sá atburður óneitanlega á fyrsta kafla Jóhannesarguðspjalls, sem fjallar um orðið sem í upphafi var hjá Guði, hið sanna ljós sem skín í myrkrinu. Öll vera Coffey tengist ljósinu, öll samskipti hans eiga sér stað í andlegum og veraldlegum yfirnáttúrulegum víddum í þverstæðum ljóss og myrkurs, góðs og ills, trúar og vantrúar, lífs og dauða. Hann er hræddur við myrkrið (Jes.50.10, 29.15, 5,30) og hið illa sem þar dvelur.

KristsgervingurSegja má að kynning á John Coffey, sé inngangsstefið inn í myndina sem varpar ljósi á John Coffey sem kristgerving. Þegar John kynnir sig fyrst fyrir fangavörðunum og síðar eiginkonu yfirmanns fangelsisstofnunarinnar Hal segir hann: Ég heiti John Coffey eins og drykkurinn, en ekki skrifað eins. Hér er vísað í sömu áherslu og fram kemur í Markúsarguðspjalli en meginstef þess guðspjalls er spurningin um það hver Jesús Kristur er (Mk 1.24, 8.29, 7.24, 12.35-38, 14.9,14,61-63, 15.39.) Einnig er um skírskotun að ræða, í, Jh 7.37-40 en þar er vitnað um heilagan anda innra með þeim sem trúa á Jesú Krist þar sem heilögum anda er líkt við læki lifandi vatns. Þá varpa upphafsstafir nafns Coffey ljósi á upphafsstafina í nafni Jesú (Jesus Christ).

Enda þótt hlutverk John Coffey sé stórt í myndinni, er hann sjálfur í sínum risavaxna svarta búk, auðmjúkur, lítillátur og fyrirferðarlítill. Eftir því sem við kynnumst Coffey í myndinni, kemur í ljós hve honum er annt um meðbræður sína og hvernig hann í raun tekur á sig þjáningu þeirra og ábyrgð. Þetta er áberandi í atriðinu þar sem sýnt er frá því þegar leitarflokkar koma að honum með systurnar látnar í fanginu hrópandi í angist sinni yfir því að honum tókst ekki að lífga þær. Einnig þegar samfangi hans Del er líflátinn, þá er sem hann beri sársaukann með honum. Öll tjáning Coffey virðist hlaðin þjáningum, en í 53. kafla Jesaja spámanns, má lesa um hinn líðandi þjón Drottins, en sá kafli hefur ávallt í kristninni verið skilinn svo að hann segi fyrir um komu frelsara mannkyns Jesú Kristi. Sú mynd sem dregin er upp í Gamla testamentinu í Jesaja 53, á vel við lýsinguna á John Coffey sem hinum líðandi þjóni Drottins. Sjálfum Jesú er ekki lýst í guðspjöllunum sem þvílíkum alvöruþrungnum og þjáningarfullum þjóni náungans sem Coffey.

Skírskotanir í guðspjöll Nýja testamentisins eru margar. Jesús sem læknar, rekur út illa anda og reisir upp frá dauðum. Markúsarguðspjallið er þó líklega dýpsti brunnurinn. (Mk 3.1-7, 5.1-9, 29-31,41, 7.32-36, 8.22-26, 9.20-28,10.) Lækningamáttur Johns Coffey, kraftaverkin sem hann gerði og samskipti hans við illa anda eru allt hliðstæður við athafnir Jesú, mátt og orð og áherslan verður sífellt skýrari á JC sem kristgerving í myndinni.

Upphaf kraftaverkatímabilsins er þegar JC læknar Paul af svæsinni blöðrubólgu. Eins og Jesús gerði þá snerti hann sýkta svæðið og Paul læknaðist. Coffey „reisti“ mús upp frá dauðum, en margt bendir til þess að í myndinni gegni músin mikilvægu hlutverki sem tengist upprisunni og músin er eins konar sameiningartákn gleði, kærleika og skapandi athafna innan fangelsisins og síðar tákn um arfleifð heilagra í ljósinu, frelsun undan valdi myrkursins. (Kol. 1.9-15).

Gefið er til kynna að krabbameinsæxlið í eiginkonu Hal stafi af illum öndum, en það á við um öll kraftaverk Coffeys í myndinni. Einhvers skonar eldflugur streyma út úr munni Coffey eftir að lækning hefur átt sér stað. Þetta á sér hliðstæðu í kraftaverkasögunum í Nýja testamentinu um Jesú – en hann rak illa anda út af fólki og það læknaðist af meinum sínum (Lk 9,37-43, Mt. 9, 32, Matt.19. 21-29). Flest virðist benda til þess að eldflugurnar séu djöflar, en í Gama testamentinu er getið um djöfullegar flugnaplágur sem Guð sendi mönnunum þeim til að refsingar (2M 8:21-31). Einnig er þeirra getið í Sl 78.45. Í Nýja testamentinu er talað Beelzebub sem er þýtt: „höfðingi illra anda“ (Mt:12:24,27; Mt.10:25 og Mk.3:22). Í Matt. 8:28-34, segir frá því er Jesús rak út djöfla af fólki og sendi í svínahjörð sem fórst í hafi. Mun þar vera komin fyrirmynd þess atriðis myndarinnar þegar Coffey, sem hafði sogað að sé krabbameinsanda úr eiginkonu Hals og andað þeim (rekið þá) upp í hinn illskeytta fangavörð Percy, sem við það varð daufdumbur, missti vitið og drap hinn illskeytta morðingja „Wild Billy“.

Margt bendir til þess að yfirfangavörðurinn Paul Edgecomb (Tom Hanks) birtist einnig sem kristgervingur í myndinni. Ef til vill mætti orða það svo að Paul sýni þá hlið sem tengist frekar hinum jarðneska þ.e.a.s. mannlega Jesú en Coffey hinum upphafna, andlega Jesú og þá sem Kristi. Kærleiki Paul, réttsýni og góðvild benda til þess að hann sé meira en bara góð manneskja. Ekkert illt er til í honum og það á einnig við um konu hans Jan. Þau eru bæði boðberar kærleika og mannúðar. Paul á sér hliðstæðu við hinn jarðneska Jesú þegar hann er í hlutverki samstarfsfélaga, eiginmanns og vinar. Þá minnir hann oft á meistarann og rabbínann Jesú, sem birtist sem kennari, fræðari og sáttasemjari sem upplýsir fangana um réttmæti dómsins, túlkar tilkomu og eiginleika guðsríkisins, þekkir lög og reglur samfélagsins og veit hvernig bregðast á við i öllum aðstæðum.

Tengsl Coffeys og Paul er stundum líkt föður/sonar sambandi, í merkingunni Guð sem faðir og Jesús sonur. Coffey veit ávallt vilja Paul, hvernig honum líður og vill allt gera til að þóknast honum. Hlustar eftir öllu sem hann segir og gerir. Paul veit um sakleysi Coffeys, (eins og Guð vissi um sakleysi sonar síns Jesú) en veit jafnframt að yfirvöld, foreldrar myrtu stúlknanna og aðstandendur, hafa þegar dæmt hann sekan og því verður ekki breytt. (Mk 15.28). „Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sinum.“ (Jes 53.7) Þá má ekki gleyma því að samstarfsmenn Paul vinna í sama anda og Paul, þ.e. í anda kærleika og mannúðar og minna um margt á lærisveina Jesú, sem fylgdu honum eftir sem sínum meistara í orði og athöfnum.

Að lokum má nefna að nafn Paul skírskotar til nafns Páls postula sem bendir til þess að hér sé einnig um hliðstæðu að ræða. Í lok myndarinnar þegar Paul er á elliheimilinu og segir frá atburðunum á mílunni 60 árum eftir að þeir gerðust, minnir það sterklega á að Páll postuli gerði slíkt og hið sama er hann boðaði fagnaðarerindið út um allan heim. Lífið á grænu mílunni minnir því um margt á líf og starf Jesú Krists, sem byggðist á því að þjóna náunganum í neyð og uppfræða um komandi ríki Guðs.

Lúther talar um að í Gamla testamentinu tali Guð með lögmálinu, knýji manninn til að horfast í augu við eigin tilveru. (Rm 3.23) „Old Sparky“ eins og rafmagnstóllinn var kallaður virðist gegna hlutverki Gamla testamentisins sem felur í sér lögmálið sem knýr manninn til iðrunar synda sinna og deyr hinum holdlega dauða. „Sparky“ er því tákn fyrir neistann sem kviknar innra með manninum við boðun fagnaðarerindisins og veitir honum hlutdeild í hinu eilífa lífi. Þetta er leið mannsins og sú leið er miserfið og mislöng. Eins og Edgcomb segir í myndinni í lokin: „Leiðin eftir mílunni er löng.“

Sumum mönnum virðist ókleift að taka á móti fagnaðarerindinu og það á við um báða þá Percy og „Wild Billy“ en báðir birtast sem tákngervingar hins illa. „Wild Billy“ logandi af illkvitni og Percy með sitt barnslega og sakleysislega andlit, en undir niðri undirförull og slægur og með svik á vörum. Mætti ætla að hér vær um skírskotun að ræða til Júdasar postula sem sveik Jesú, en Percy var samstarfsmaður Paul þrátt fyrir slægð og undirferli eins og Júdas var með Jesú. Enda þótt nafn Percy sé ekki bendlað við Júdas, táknar það „samsærismaður“ og tengist sviksemi við Hinrik 4 kringum árið 1200.

HeimildirBjarni Rander Sigurvinsson, Gunnlaugur A. Jónsson og Þorkell Ágúst Óttarsson. 2001. Guð á hvíta tjaldinu. Trúar- og biblíustef í kvikmyndum.
www.hollywoodjesus.com
www.thegreenmile.com
www.imdb.com
www.un-official.com
www.preview-online.com

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jh 1.1-6, Mk 3.1-7, 5.1-9, 29-31, 41, 7.32-36, 8.22-26, 9.20-28,10, Lk 9,37-43, Mt 9. 32, Mt 19. 21-29, 2M 8. 21-31, Sl 78.45, Mt 8:28-34, Mk 15.28, Jes 53.7
Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 50.10, 29.15, 5.30, Mk 1.24, 8.29, 7.24, 12.35-38, 14.9, 14,61-63, 15.39, Jh 7.37-40, Mt 12.24,27; Mt 10:25, Mk 3:22
Persónur úr trúarritum: illir andar, Júdas, lærisveinar, Jesús, Páll postuli
Guðfræðistef: elífð, kærleikur, aflausn, eilíft líf, guðsríki, kraftaverk, miskunn, réttlæti, syndajátning, upprisa, kvöldmáltíð, spádómar, fyrirhugun, náð, heilagleiki, krossfesting
Siðfræðistef: kærleikur, illska, hatur, morð, nauðgun, svik, fangelsi, dauðarefsing, rafmagnsstóll, vinátta, trúnaður, jöfnuður, samskipti, ofbeldi, virðing, sekt, eftirsjá, dauði., mannhelgi, dómur
Trúarbrögð: Kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kapella
Trúarleg tákn: kirkjugluggi, altari, kirkja, heilög kvöldmáltíð
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, syndajátning, lækning, útrekstur illra anda, handayfirlagning, reisa upp frá dauðum
Trúarleg reynsla: lækning, sátt, kærleikur, von, friður, gleði, iðrun, yfirnáttúruleg birta, kraftaverk, langlífi