Kvikmyndir

The Hellhounds of Alaska

Leikstjórn: Harald Reinl
Handrit: Kurt Nachmann
Leikarar: Doug McClure, Roberto Blanco, Kurt Bülau, Harald Leipnitz, Klaus Löwitsch, Kristina Nel, Angelica Ott og Heinz Reincke
Upprunaland: Þýzkaland (vestur) og Júgóslavía
Ár: 1973
Lengd: 91mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.66:1)

Ágrip af söguþræði:
Tólf ára gamall piltur er fársjúkur og þarf nauðsynlega að komast undir læknishendur, en faðir hans vill ekki fara með hann til mannabyggða þar sem hann er nýbúinn að finna gull í indíánagrafreit í óbyggðum Alaska. Góðhjartaður loðdýraveiðimaður kemur þeim þó brátt til hjálpar og fer með piltinn áleiðis til byggða, en þegar nokkrir lögreglumenn, sem eru að flytja gullfarm frá næsta námubæ, verða á vegi hans, kemur hann honum fyrir hjá þeim. Áður en lögreglumennirnir komast hins vegar á leiðarenda eru þeir allir felldir af bófaflokki, sem síðan stingur af með gullvagninn. Þegar bófarnir svo finna fársjúkan piltinn í vagninum, ákveður einn þeirra að halda hlífiskildi yfir honum en hinir vilja hann flestir feigan. Loðdýraveiðimaðurinn góðhjartaði er brátt grunaður um ránið og einsetur hann sér að finna piltinn aftur og koma bófunum í gálgann.

Almennt um myndina:
Þetta er einn af fjölmörgum ítölskum og þýzkum spaghettí-vestrum sem ýmist voru byggðir á skáldsögum Jacks London eða innblásnir af þeim, en sögusvið margra þeirra voru Kanada og Alaska á síðari hluta nítjándu aldar og byrjun þeirra tuttugustu. Myndin er hins vegar ekkert voðalega vel gerð og er framvinda sögunnar oftar en ekki æði langsótt. Þótt leikararnir standi sig yfirleitt frekar illa, er þeim nokkur vorkunn, enda verða margar setningarnar að teljast heimskulegar, sem þeim eru lagðar í munn. Þrátt fyrir að myndin taki sig nokkuð alvarlega, bregður samt öðru hverju fyrir fúlri gamansemi á borð við steikarpönnubarsmíðar, sem einkennt hafa alltof margar ítalskar gamanmyndir.

Það er ekki laust við að tónlistin minni á ýmislegt eftir Ennio Morricone, svo sem úr spaghettí-vestranum For a Few Dollars More (Sergio Leone: 1965), en kannski ætti það ekki að koma alveg á óvart í ljósi þess að tónskáldið er einn helsta útsetjara hans frá þeim tíma, Bruno Nicolai. Enda þótt Nicolai sé tvímælalaust meðal bestu ítölsku kvikmyndatónskáldanna, studdist hann samt um of við meistara Morricone í þessu tilfelli.

Á bakkápu myndbandsins stendur stórum stöfum á ensku að þetta sé kvikmynd sem hæfi allri fjölskyldunni, en íslenska kvikmyndaeftirlitið sá engu að síður ástæðu til að banna hana börnum yngri en 16 ára á sínum tíma. Þótt myndin sé vissulega ekki við hæfi ungra barna, verður úrskurður kvikmyndaeftirlitsins að teljast æði strangur, en búast má við að hún hefði aðeins verið bönnuð börnum innan 12 ára í dag. Hitt er svo annað mál að myndin er það léleg að sennilega myndi enginn endast yfir henni nema allra hörðustu spaghettí-vestra fíklarnir, sem vilja alveg endilega fá yfirsýn yfir alla flóruna.

Með myndbandinu fylgir langt auglýsingarsýnishorn (trailer) úr spaghettí-vestranum The Cry of the Black Wolves (Harld Reinl: 1972) sem lítur út fyrir að vera alveg jafn slæmur og sá sem er hér til umfjöllunar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Grægði gullleitarmannanna virðist taumlaus og leiðir hún þá yfirleitt í ógöngur. Faðirinn í myndarbyrjun vill t.d. fremur dvelja áfram hjá nýfundinni gullnámu sinni en að halda til byggða með fársjúkan son sinn. Þótt gullnáman sé staðsett í miðjum indíánagrafreit, skiptir það hann engu máli, enda segir hann við loðdýraveiðimanninn góðhjartaða, að hann sjái enga ástæðu til að virða hjátrú einhverra frumstæðra indíána. Það kemur honum hins vegar brátt í koll að hafa vanvirt helgi grafreitsins, enda fær hann fyrir vikið makleg málagjöld frá indíánunum.

Yfirleitt gegna hundar mikilvægu hlutverki í þeim spaghettí-vestrum, sem gerast á norðlægum slóðum á borð við Alaska og reynast þeir gjarnan bestu vinir mannsins. Hundar koma samt óvenju lítið við sögu að þessu sinni en samt bjargar einn þeirra piltinum að lokum úr höndum bófanna og fórnar lífi sínu um leið.

Guðfræðistef: hjátrú
Siðfræðistef: græðgi, þjófnaður, manndráp, pyntingar, refsing, miskunnsemi, hefnd, ofbeldi, blekking, drykkjuskapur, fyrirgefning, vinátta, kynþáttafordómar
Trúarbrögð: indíánatrúarbrögð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: indíánagrafreitur, heilög jörð
Trúarleg tákn: indíánasúla, kross á leiði
Trúarlegt atferli og siðir: sverja