Kvikmyndir

The Image of the Beast

Leikstjórn: Donald W. Thompson
Handrit: Russell S. Doughten Jr. og Donald W. Thompson
Leikarar: William Wellman Jr., Susan Plumb, Patty Dunning og Russell S. Doughten Jr.
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1981
Lengd: 93mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0080915

Ágrip af söguþræði:
Þriðja og versta myndin í fjórleiknum um örlög þeirra sem tóku ekki trú á Jesú Krist í tæka tíð og urðu því eftir þegar tímar endalokanna hófust. Eins og í fyrri myndum er helling af prédikunum í myndinni og hræðsluáróðurinn gegnum gangandi. Burthrifningin hefur átt sér stað, þ.e. allir þeir sem eru sannkristnir (þ.e. bókstafstrúarmenn)voru hrifnir burt upp til himins. Þeir sem ekki vilja fá merki dýrsins á enni sér eða hægri hönd verða að þrauka í sjö hryllileg ár en á þeim tíma nær dýrið (Satan) völdum. Þau sem neita að taka við merkinu eru hundelt og tekin af lífi ef þau hafna ekki Guði. Nú hafa kristnir hins vegar snúist til varnar og hafið gagnárás. Markmið þeirra er að gera merki dýrsins óvirkt. Síðasta myndin í þessum fjórleik heitir The Prodigal Planet.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það sem gerir þessa mynd þá verstu er tvíþætt. 1) Það vantar alla fléttu í söguna. 2) Guðfræðin er frekar ógeðfelld í myndinni. Í fyrri myndunum (A Thief in the Night og A Distant Thunder) eru aðeins þau sem hafa tekið við merki dýrsins útilokuð frá Guð. Í þessari mynd breytist þetta en nú eru öll þau sem höfðu heyrt um frelsunarboðskap krists fyrir burthrifninguna en ekki tekið við Kristi útskúfuð af Guði, jafnvel þótt þau hafi tekið trú eftir burthrifninguna. Myndin hefst því á því að þegar Patty Myers (aðalpersóna myndanna) er tekin af lífi, enda var hún ekki lengur brúkleg þar sem hún hafði heyrt um Jesú en ekki opnað hjarta sitt í tæka tíð. Ógeðfelldasta atriðið er þó líklega endir myndarinnar (og nú ljóstra ég upp um endinn) þegar ungur drengur (um fimm ára gamall) tekur trú áður en hann er leiddur á höggstokkinn. David Michaels, aðal hetja myndarinnar, fagnar þegar drengurinn er leiddur til aftöku því það skiptir ekki máli þótt drengurinn sé tekinn af lífi þar sem hann er frelsaður!!! Og sögumaður myndarinnar talar á sama tíma um hina miklu ást Guðs!!! Ég átti erfitt með að sjá hina miklu ást Guðs í þessari mynd, þar sem fólk er eilíflega útskúfað vegna þess að það hafði ekki tekið trú í tæka tíð og börn eru tekin af lífi. Heimshöfnunin er einnig gengdarlaus í myndinni. Meira að segja tölvur eru komnar frá djöflinum. Hér er engin ást heldur aðeins útskúfun og höfnun. Að öðru leyti er guðfræðin sú sama og í fyrri myndunum. Grunnur myndanna í þessum fjórleik er Opinberunarbókin en hún er túlkuð bókstaflega. Á þrengingartímabilinu hefur Guð tekið anda sinn frá mannkyninu og þeir sem ekki tóku á móti Kristi veða að kljást við djöfulinn upp á eigin spýtur eða að gangast honum á hönd. Markmið myndanna er því tvíþætt. Annars vegar að boða hið „rétta“ fagnaðarerindi um Jesú Krists (nýguðfræðingar eru t.d. á villigötum)og hins vegar að hræða fólk inn í guðsríkið. Hræðsluáróðurinn stigmagnast með hverri mynd en boðskapurinn er sá að heims!slitin gætu hafist í dag og því er vissarra að hafa valið rétt.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 32, Ok 3:6, Jesaja, Jes 8:19, Jes 40:3, Jeremía, Esekíel, Daníel, Dn 12:10, Mt 3:3, Mt 27:45-28:10, Mk 1:3, Mk 15:33-16:20, Lk 3:4, Lk 13:5, Lk 23:44-24:49, Jh 1:23, Jh 3:16, Jh 14:6, Jh 19:28-20:23, 1Þ 4:16-17, 2Þ 2, Jk 2:19, 1Jh 4, Opb 1-22, Opb 3:20, Opb 6, Opb 7:1-8, Opb 8:8-11, Opb 11, Opb 12:1-13:18, Opb 17,
Persónur úr trúarritum: Andkristur, Elía, Heilagur andi, Jakob, Jesús Kristur, Móse, Satan,
Guðfræðistef: burthrifningin, dauði, eilíft líf, heimsslit, iðrun, kærleikur Guðs, lögmálið, refsins Guðs, synd, trú, umskurn, upprisa
Siðfræðistef: helindi,
Trúarbrögð: kristni, bókstafstrú,
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: himnaríki, Ísrael, Jerúsalem, kirkja, musteri
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa, prédikun, sálmasöngur