Leikstjórn: Federico Chentrens [undir nafninu Richard Owens]
Handrit: Maurice Cloche og John Haggerty, byggt á skáldsögu eftir Adam Saint Moore
Leikarar: Kerwin Matthews, Marilù Tolo, Venantino Venantini, Ann Smyrner, Riccardo Garrone, Werner Peters, Gordon Mitchell, Bruno Cremer, Sieghardt Rupp og Lukas Ammann
Upprunaland: Ítalía, Þýzkaland og Frakkland
Ár: 1968
Lengd: 91mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Bandaríska leyniþjónustan tekur að sér að gæta öryggis konungs frá Mið-Austurlöndum meðan hann dvelur á Ítalíu vegna læknismeðferðar þar sem gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að ráða hann af dögum.
Almennt um myndina:
Þetta er ein af fjölmörgum tiltölulega léttvægum njósnamyndum sem gerðar voru af Ítölum og Þjóðverjum á sjöunda áratugnum með mistækri blöndu af gamansemi og alvöru. Njósnarar vesturveldanna eru þar oftast ofursvalar hetjur sem eiga í höggi við ótýnda þrjóta alþjóðlegra glæpahringa eða útsendara kommúnistaríkja.
Í þessu tilfelli kemur við sögu bandaríski leyniþjónustumaðurinn Mark Stone (Kerwin Matthews) sem ásamt treggáfuðum félaga sínum er fenginn til að gæta öryggis konungs frá Mið-Austurlöndum fyrir leigumorðingja sem jafnan skilur eftir sig sælgætisbréf hvert sem hann fer. Þrátt fyrir það virðist öryggisgæslunni vera komið á í óþökk konungsins, enda reynist hann og allir aðstoðarmenn hans og lífverðir einstaklega ósamvinnufúsir. Matthews er nokkuð ásættanlegur í hlutverki sínu en treggáfaður félagi hans er illþolanlegur. Marilù Tolo sem var fín í spaghettí-vestrunum Django Kill! (If You Live, Shoot!) (Giulio Questi: 1967) og Roy Colt and Winchester Jack (Mario Bava: 1970) sýnir heldur engan stjörnuleik hér en henni er svo sem vorkunn enda hlutverkið illa skrifað. Gnægð er af slagsmálaatriðum með laufléttri dægurtónlist þar sem söngtextinn einskorðast við orðin „dabba-dabba-dabba-dabb“.
Enski titill myndarinnar er The Killer Likes Candy, sem hægt er að útleggja á íslensku sem ‚Morðingjanum líkar sælgæti‘, en gárungarnir hafa að sjálfsögðu kosið að nefna hana í staðinn ‚Morðinginn kann að meta sjálfvirkar þvottavélar‘. (Fyrir þá sem ekki ná þessum slæma brandara er ástæða til að upplýsa að Candy er sjálfvirk þvottavél.)
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sælgætisgráðugi leigumorðinginn bregður sér í ýmis gervi til að geta komist í tæri við fórnarlömb sín. Þannig klæðist hann í upphafi myndarinnar sem prestur og kemur sér fyrir með riffli uppi í háum kirkjuturni til að geta skotið fórnarlamb sitt á torginu fyrir neðan. Undir lok myndarinnar leitar hann svo skjóls í klaustri með móður aðalkvensöguhetjunnar sem gísl, en þar á lokaruppgjörið sér að mestu stað.
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 7:15
Guðfræðistef: örlög
Siðfræðistef: dauðarefsing, morð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, klaustur
Trúarleg tákn: kross, altari, dýrlingsstytta
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, kirkjutónlist