Leikstjórn: Mike Figgis
Handrit: Mike Figgis
Leikarar: Julian Sands, Saffron Burrows, Stefano Dionisi, Gina McKee, Kelly Macdonald
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 106mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0126859
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
The Loss of Sexual Innocence er ljóðræn útlegging á því hvernig sagan af Adam og Evu endurtekur sig hvern einasta dag í lífi okkar. Myndin fjallar um fjögur tímaskeið í lífi Nic, þegar hann er fimm ára, tólf ára, sextán ára og að lokum fullorðinn. Í myndinni er einnig hliðarsaga um tvíbura sem eru aðskildir við fæðingu og vita því ekki af tilvist hvors annars. Þessar sögur renna síðan saman í myndinni. Inn á milli þessara tímaskeiða er skotið inn sögunni af Adam og Evu, sköpun þeirra, sakleysi, synd, falli og að lokum refsingu. Sagan af Adam og Evu verður því að dæmisögu um það hvernig mannkynið glatar ávallt sakleysi sínu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
The Loss of Sexual Innocence er ein af þeim myndum sem maður verður helst að sjá þrisvar til að skilja hana og njóta hennar til fulls. Eins og áður sagði eru þrjár sögur í myndinni, þ.e. sagan af Adam og Evu, saga Nic og að lokum saga tvíburanna. Sögunum er öllum blandað saman en ég ætla samt að aðgreina þær í umfjöllun minni.
Adam og Eva
Sagan af Adam og Evu byrjar á því að Adam (svertingi) stígur upp úr stöðuvatni og stuttu síðar stígur Eva (hvít) einnig upp úr vatninu. Það má geta þess hér að leikstjórinn Mike Figgis var einu sinni boðið að gera myndina með því skilyrði að Adam væri hvítur en Eva svört. Framleiðendurnir töldu að áhorfendur væru ekki tilbúnir að sjá svartan mann njóta ástar með hvítri konu. Mike Figgis féllst ekki á skilmálana og þar með var hætt við framleiðslu myndarinnar. Það er lofsvert að Figgis skuli hafa valið Adam og Evu af sitt hvorum kynstofninum því þannig tekst honum að gera Edensöguna að alheimssögu, þ.e. sögu alls mannkynsins, en ekki aðeins eins kynþáttar. Með þessu er einnig lögð áhersla á sameiginlegan uppruna alls mannkynsins og kynþáttafordómar verða því hluti af fallinu. Það er einnig áhugavert að Adam er ekki skapaður úr leir jarðar og Eva er ekki sköpuð úr rifbeini Adams heldur á sköpun þeirra sér stað ofan í vatninu. Það læðist að manni sá grunur að hér hafi nútímavísindi og biblíusagan blandast saman, en margir fræðimenn telja að lífið hafi fyrst kviknað í vatni. Það samræmist einnig jafnréttishugmyndum nútímans að Eva sé ekki sköpuð af manninum heldur úr sama efni og Adam. Þess ber þó að geta að Figgis gengur ekki alla leið því eins og í Genesis er Adam skapaður á undan Evu.
En sagan af Adam og Evu verður strax mjög ólík sögunni í Biblíunni því við flæðarmálið bíður enginn Guð og þau fá enga leiðbeiningu. Þau eru eins og ósjálfbjarga munaðarlaus börn. Reyndar er hvítur hestur í garðinum, en það mætti e.t.v. líta svo á að hann sé fulltrúi almættisins. En það er ekkert í myndinni sem gefur slíkt til kynna, enda kæmi það út á eitt þar sem hesturinn segir aldrei neitt. Adam og Eva vita því ekki hvernig þau eiga að afla sér fæðu. Þau reyna fyrst að eta gras en þau gefast fljótt upp á því. Eva ákveður þá að ganga lengra inn í garðinn en á leið sinni gengur hún fram hjá stórum róðukrossi. Jesús á krossinum á líklega að vísa til Guðs í sögunni af Adam og Evu en ólíkt Guði í Genesis segir Jesús ekki neitt. Það er einnig undarlegt að hafa róðukross í garðinum, því það er eins og Figgis sé að segja að Jesús hafi tekið á sig syndir mannkynsins áður en það drýgir þær.
Fyrsti æti maturinn sem Eva finnur er ávöxtur fíkjutrés, en stór slanga hefur vafið sig um greinar þess. Eva etur fíkjurnar og fær síðan Adam einnig til að bragða á þeim. Afleiðingin er tvíþætt. Annars vegar veikjast þau heiftarlega og hins vegar kviknar hjá þeim losti. Áður fyrr höfðu þau skoðað kynfæri hvors annars eins og saklaus börn en nú eru þau heltekin af dýrslegri girnd. (Þeir sem ekki hafa séð myndina og vilja ekki vita hvernig hún endar ættu að hætta að lesa núna). Eftir að Adam og Eva fer að rigna í fyrsta sinn og fasistar með vasaljós og hunda hrekja þau úr garðinum. Adam og Eva eru sýnt hlaupa í átt til hliði Edens með neon kross í bakgrunninum. Þannig eru þau ekki aðeins hrakin út úr Eden heldur einnig frá hjálpræðinu (þ.e. krossinum). Þegar þau ganga síðan út um hlið Eden taka á móti þeim slúðurblaðaljósmyndarar (paparazzo) sem keppast um að taka mynd af nekt þeirra. Adam og Eva klæða sig og leggja síðan á flótta.
Þessi útgáfa af Edensögunni nokkuð hefðbundin. Adam og Eva eru sköpuð saklaus, þau eta ávöxt skilningstrés góðs og ills og heimurinn hrynur. Þau veikjast, girndin heltekur þau, það rignir í fyrsta skiptið og þau eru hrakin úr Eden. Með því að láta söguna af Adam og Evu renna saman við nútímann tekst Figgis þó einstaklega vel að tengja Edensöguna okkar daglega lífi. Þetta er ekki lengur ævintýrasaga eða goðsaga heldur raunveruleg saga um okkar daglega líf. En lítum nú á hinar tvær sögurnar í myndinni.
Nic
Fyrst ber að nefna Nic en það er sagt frá fjórum æviskeiðum úr lífi hans. Öll skipta æviskeiðin máli því þau sýna hvernig þekkingin og lífsreynslan rænir okkur sakleysinu. Út í gegnum myndina er kynlíf og dauði tengd saman órjúfanlegum böndum. Dauðinn og kynlífið eru hluti af fallinu en eins og vikið verður að síðar virðist dauðinn vera afleiðing kynlífsins. Framarlega í myndinni sjáum við hvernig þekkingin rænir hinn unga Nic sakleysinu. Honum er sýndar myndir af líkum, fólki sem ýmist hefur verið myrt eða fallið fyrir eigin hendi. Þegar Nic er orðinn fullorðinn maður kemur hann inn á baðherbergi þar sem búið er að fylla klósettið af klámmyndum. Á þeirri stundu er honum hugsað aftur til þeirrar stundar þegar honum voru sýndar myndirnar af líkunum. Þannig er (hið fallna) kynlíf tengt dauðanum, en það er áhugavert að klámmyndirnar eru í klósettinu og þar með tengdar soranum.
Síðar í myndinni er sagt frá frumstæðum ættbálki sem stundaði mannát en ættbálkurinn lét fimm ára börn berja fórnarlambið til að herða þau svo ættu auðveldara með að drepa og eta aðra menn þegar þau yrðu eldri. Á þeirri stundu minnst Nic þess þegar hann var tólf ára gamall, en þá var hann feitur og þorði ekki í leikfimi. Leikfimikennarinn ákvað þá að tuska Nic til og lét alla skólafélaga hans berja hann með íþróttaskóm sínum. Enn og aftur fáum við tengsl við dauðann, en þetta ofbeldi er einmitt eitt af þeim fjölmörgu atvikum í lífi Nic sem ræna hann sakleysinu. Börnin í frumstæða mannætuættbálknum eru í raun ekki svo frábrugðin börnunum í Englandi, því báðir hóparnir læra illsku af hinum fullorðnu og taka þátt í andlegum og líkamlegum “morðum”.
Næst sjáum við Nic þar sem hann er orðinn sextán ára gamall. Þegar hann og kærasta hans ákveða að elskast á stofugólfinu heima hjá henni birtist faðir stelpunnar allt í einu fárveikur í dyragættinni. Stuttu síðar deyr hann og þar með fáum við enn eitt dæmið um tengsl dauða og kynlífs. Þessi tengsl eru síðan áréttuð í erfðardrykkjunni því þá heldur stúlkan fram hjá Nic. Framhjáhöld eru einmitt sterkt stef í myndinni en svo virðist sem enginn í sé trúr maka sínum. Þessi reynsla Nic er því enn eitt skrefið út úr Eden.
Að lokum kynnumst við Nic sem fullorðnum kvikmyndagerðarmanni. Hjónaband hans er steingelt og gleðisnautt. Í áhrifamikilli senu er Nic sýndur keyra í burtu frá íbúð fjölskyldu sinnar en þegar hann er kominn spölkorn frá húsinu lítur hann við og sér sjálfan sig faðma konu sína og barn. Með því að gera þessa endurminningu að atburði sem Nic horfir á tekst Figgis að sýna þá miklu gjá sem er á milli fortíðar og nútíðar. Þrátt fyrir að Nic sé rétt fyrir framan heimili sitt, og í raun rétt fyrir ,,framan“ fortíð sína þá virðist þessi ljúfa minning svo óralangt í burtu. Það er einnig áhugavert að skoða drauma hjónanna. Eiginkona Nics dreymir lostafullan draum þar sem hún leggst með sama leikara og leikur Adam. Nic dreymir hins vegar dauða. Enn og aftur verður á vegi okkar þessi tvenna kynlífs og dauða. Áður en lengra er haldið með sögu Nic er nauðsynlegt að kynna eineggja tvíburasystur til sögunnar.
Tvíburarnir
Þriðja sagan í myndinni er ævi eineggja tvíburastúlkna í Ítalíu, en móðir þeirra var aðeins fimmtán ára þegar hún átti þær og hún vissi ekki hver faðir þeirra var. Hún fær hjálp hjá nunnum sem ákveða að þar sem móðirin er allt of ung og hefur þar að auki fætt stúlkurnar í synd skuli ættleiða þær. En þær eru skildar í sundur og önnur er ættleidd til Englands en hin er áfram í Ítalíu. Þær vita ekki hvor af annarri og hafa aldrei hitts. Fyrst fáum við að kynnast ensku tvíburasysturinni en hún er sýnd hlusta á fréttirnar á meðan hún undirbýr ferðalag til Ítalíu. Allar fréttirnar í útvarpinu snúast um morð og dauða. Þá fáum við að sjá ítalska tvíburann en hún hundsammar kærasta sinn fyrir að hafa ekki hringt í sig nóttina áður. Eftir að hann hefur beðist afsökunar sjáum við hana strjúka kvenmann sem er upp í rúminu hjá henni. Á meðan önnur systirin hlustar á fréttir af morðum heldur hin systirin fram hjá unnusta sínum. Dauði og kynlíf koma því aftur fyrir í þessum tveim sendum.
Lucca, kærasti ítölsku systurinnar, er reyndar engu betri en hann reynir við kvenmann á meðan hann gengur við hliðina á ástmey sinni. Og til að kóróna þetta allt saman er konan sem hann er að daðra við einnig í sambúð. Hún tekur þó þátt í leiknum og fær að lokum nafnspjald Lucca. Þetta er enn eitt dæmið um að eftir ,,fallið“ heyra heilindi sögunni til. Almenn siðagildi halda ekki lengur og enginn er trúr maka sínum. En aftur að tvíburanum. Rétt eins og eining mannkynsins tvístrast eftir fallið verður synd móður stúlknanna til þess að þær eru aðskildar. Þessi aðskilnaður virðist endanlegur því þótt systurnar hittast og horfast í augu, hvarflar það ekki að þeim að þær er tvíburar, ekkert frekar en okkur þegar við horfum framan í náunga okkar.
Nic kemur með sömu flugvél og enska systirin en sú ítalska er send til að sækja hann á flugvöllinn. Þar sér hún einmitt systur sína. Eins og áður sagði er Nic kvikmyndagerðarmaður en hann hefur ráðið Lucca og ítölsku tvíburasysturina til að aðstoða sig við tökurnar. Á meðan á tökum stendur ræða þau um ýmiskonar ranglæti í heiminum, þ.m.t. þriðja heiminn og það hvað það er fáranlegt að skipta heiminum í þrjá hluta, fyrsta heiminn, annan heiminn og þriðja heiminn. Hér er því að finna enn eina umfjöllunina um aðgreiningu. Rétt eins og systurnar voru skildar í sundur hafa þjóðirnar einnig verið aðskildar.
Nic og ítalska tvíburasystirin sænga saman en Lucca kemst að því og tekur samfarahljóð þeirra upp. Stuttu síðar spilar hann upptökuna fyrir Nic og ástmey sína á meðan hann keyrir eins og brjálæðingur í gegnum Sahara eyðimörkina. Nic og ítalska systirin reyna að slökkva á kassettutækinu en Lucca steitist á móti. Átök þeirra og rifrildi verða til þess að Lucca sér ekki lítinn dreng sem gengur fram fyrir bílinn með þeim afleiðingum að hann keyrir drenginn niður og drepur hann. Kvikmyndatökuliðið hleypur út til barnsins en í því streymir ættbálkur drengsins að. Nic býðst til að keyra til næsta bæjar til að ná í lögregluna en ættbálkurinn tekur það ekki í mál að þau fari öll í burtu. Leiðtoginn krefst þess að einn verði eftir og að lokum er það ákveðið að ítalska systirin skuli verða eftir. Þegar afgangurinn af upptökuhópnum leggur síðan af stað í jeppanum sér hann karlmenn ættbálksins taka systurina af lífi. Þá fyrst átta þeir sig á því að ættbálkurinn vildi ekki að einn úr hópnum! yrði eftir til að tryggja endurkomu hinna, heldur til þess að taka líf fyrir líf. Þetta atriði er síðasta dæmið um tengsl kynlífs og dauða. Framhjáhaldið leiddi ekki aðeins beint til dauða drengsins heldur einnig til dauða ítölsku systurinnar. Eins og Adam og Eva höfðu þau brotið af sér og rétt eins og í Eden sögunni er afleiðing syndarinnar dauði (1M 2:17). Það er táknrænt að á sama tíma flýgur þota yfir en reykurinn úr henni skiptist í tvennt. Klofningurinn og aðskilnaðurinn eru allsráðandi. Í kjölfar þessa atburðar er senan þar sem Adam og Eva eru hrakin úr Eden og beint í faðm slúðurblaðaljósmyndaranna.
Þótt The Loss of Sexual Innocence sé nokkuð frumleg kvikmynd þá verður það sama ekki sagt um túlkunina á sögunni af Adam og Evu. Eva tælir Adam til falls, en fallið birtist einna helst í kynlífinu. Dauðinn er síðan afleiðing kynlífsins. Sú tvíhyggja að líta á kynlífið sem eitthvað óhreint og syndugt hefur löngum loðað við kristindóminn, sem og flest önnur trúarbrögð mannkynsins. En þótt grunntúlkun Figgis sé ekki nýstárleg þá er margt spennandi við sýn hans á söguna. Fyrst ber að nefna það hvernig hann tengir hana daglegu lífi okkar og gerir hana þannig að hversdagslegri nútímasögu. Einnig er áhugavert hvernig Figgis tengir fallið daglegri fræðslu og reynslu okkar af syndinni, þ.e. þáttum eins og dauðanum, morðum, einelti, svikum o.s.frv. Það sem stendur þó uppúr í túlkun Figgis er sú staðreynd að hann sleppir alfarið viðvörunum Guðs úr sögunni. Mannkynið fær enga leiðsögn og það eina sem virðist vera ætt í garðinum eru fíkjurnar á skilningstré góðs og ills. Fallið er því óumflýjanleg örlög hvers og eins og frjáls vilji mannsins hefur ekkert með það að gera. Fyrr eða síðar rænir syndin okkur öll sakleysinu.
Framhald umræðunnar á umræðutorginu
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 2-3
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 21:24, 3M 19:21, 3M 24:20, Mt 5:38
Persónur úr trúarritum: Adam, Eva, Jesús Kristur, snákurinn
Guðfræðistef: dauði, eilíft líf, kynlíf, synd, upprisa, þekking
Siðfræðistef: einelti, framhjáhald, klám, lauslæti, morð, samkynhneigð, sjálfsvíg
Trúarbrögð: gyðingdómur, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Eden, klaustur
Trúarleg tákn: kross, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför