Kvikmyndir

The Man Who Cried

Leikstjórn: Sally Potter
Handrit: Sally Potter
Leikarar: Christina Ricci, Cate Blanchett, John Turturro, Danny Scheinman og Johnny Depp
Upprunaland: Bandaríkin og Frakkland
Ár: 2000
Lengd: 97mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0206917
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Ung gyðingastúlka í Rússlandi, Suzie að nafni, lendir á hrakningum þegar Amma hennar deyr í stríði árið 1927. Suzie reynir að komast til Bandaríkjanna þar sem faðir hennar býr en endar fyrir mistök á Englandi. Þegar hún er komin á unglingsár heldur hún til Frakklands en þar ætlar hún að safna fyrir fari til Bandaríkjanna. Í Frakklandi lendir hún hins vegar í stríðsátökum síðari heimsstyrjaldarinnar og neyðist því til að hafa hljótt um uppruna sinn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sally Potter sló eftirminnilega í gegn með stórmyndinni Orlando en hér er hún aftur mætt með kvikmynd sem spannar langa og mikla sögu. Það skal tekið fram í upphafi að ég er mjög veikur fyrir dramatískum kvikmyndum þar sem hjálparvana börn standa andspænis grimmum heimi og því endurspeglar stjörnugjöfin e.t.v. þann veikleika minn.

The Man Who Cried er hlaðin trúarstefjum. Í fyrsta lagi er gyðingahatur fyrirferðamikið sem og kynþáttahatur hvers konar en hrokafullur ítalskur óperusöngvari, Dante Dominio að nafni, segir t.d. gyðinga réttdræpa vegna þess að þeir drápu Krist. Suzie (leikin af Christina Ricci) segir einnig eftirminnilega við Dante Dominio: ,,Ef þú berst til að drepa þá veður þú að vera með það á hreinu að Guð sé þín megin.“

Áhugaverðasta og mikilvægasta stefið í myndinni er einmitt spurningin hvort Guð sé með okkur eða á móti. Faðir Suzie var strangtrúaður gyðingur en missti trúna þegar hann frétti að móðir hans og dóttir hefðu farist í stríðsátökum í Rússlandi. Um fimmtán ára skeið veit hann ekki að Suzie er á lífi og heldur að Guð hafi tekið dótturina frá honum. Nafn myndarinnar gæti vísað til tveggja karlmanna í lífi Suzie, þ.e. elskhugans Cesars (leikinn af Johnny Depp) og föðurins sem syrgir dóttur sinnar.

Kynþáttahatarinn Dante Dominio ráfar inn í kirkju og biður Guð um að láta Þjóðverja vinna Frakka í stríðinu og verður nær samstundis að ósk sinni. Hann er því þess fullviss um að Guð sé hans megin meðan faðir Suziu lifir í þeirri trú að Guð hafi yfirgefið sig. Hið gagnstæða á hins vegar við. Sigurganga fasismans lýkur brátt en Suzie var ekki aðeins á undraverðan hátt bjargað úr stríðinu í Rússlandi heldur einnig undan Þjóðverjum í Frakklandi.

Myndin minnir mig á íslamskt orðatiltæki sem er eitthvað á þessa leið: „Guð er með ráðagerðir og menn eru með ráðagerðir, en Guð er ávallt með bestu ráðagerðirnar.“ Mörgum finnst stundum sem Guð hafi yfirgefið sig og ausi þessi í stað blessunum sínum yfir hina ranglátu. Oftast hellist þessi tilfinning yfir fólk þegar ráðagerðir þess ganga ekki eftir. En felst vandinn ekki einmitt í því að við skiljum ekki ráðagerðir Guðs, sem eru stærri og meiri en okkar?

The Man Who Cried er í flesta staði góð kvikmynd. Tónlistin er frábær og Christina Ricci leikur vel að vanda. Johnny Depp er hins vegar furðu litlaus og í nánast sama hlutverki og í Chocolate sem gerð var sama ár, en þar lék hann einnig sígauna. Þeir sem hafa áhuga á góðu vasaklútadrama, ættu ekki að láta þessa stórgóðu kvikmynd framhjá sér fara.

Persónur úr trúarritum: draugur, engill dauðans, Jesús Kristur, María mey
Guðfræðistef: réttlæti Guðs
Siðfræðistef: gyðingahatur, efnishyggja, morð, kynþáttahyggja, kynþáttafordómar, stríð, þjóðernishyggja
Trúarbrögð: gyðingdómur, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarleg tákn: kross, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, signun
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, trúmissir