Kvikmyndir

The Man Who Knew Too Little

Leikstjórn: Jon Amiel
Handrit: Robert Farrar og Howard Franklin, byggt á skáldsögunni Watch That Man eftir Robert Farrar.
Leikarar: Bill Murray, Peter Gallagher, Joanne Whalley, Alfred Molina, Richard Wilson, Geraldine James, John Standing, Anna Chancellor, Nicholas Woodeson, Simon Chandler, Cliff Parisi og John Thomson.
Upprunaland: Þýskaland og Bandaríkin
Ár: 1997
Lengd: 94mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Wallace (Bill Murry) kemur á afmælisdegi sínum til London til að heimsækja bróður sinn og fagna tímamótunum með honum. Bróðirinn er hins vegar að skipuleggja stóra veislu fyrir viðskiptavini þetta sama kvöld og til að losna við bróður sinn sendir hann Wallace í það nýjasta í leikhúslífi Lundúna: „Leikhús lífsins,“ n.k. raunveruleikaleikhús þar sem áhorfandinn tekur virkan þátt í æsispennandi ævintýri um alla London og fær þannig að vera hetja eitt kvöld.

En þeir eru aðeins of fljótir á staðinn og í stað þess að taka þátt í Leikhúsi lífsins svarar Wallace óvart röngu símtali og flækist þannig í alvöru njósnadrama þar sem reynt er að koma í veg fyrir friðarsamkomulag milli Sovétríkjanna og Bretlands. Wallace heldur hins vegar að þetta sé allt saman Leikhús lífsins og skemmtir sér konunglega, grunlaus um að líf hans er í stöðugri hættu.

Almennt um myndina:
Titill myndarinnar er fenginn að láni frá meistara Alfred Hitchcock sem gerði The Man Who Knew too Much tvisvar sinnum, fyrst í Bretlandi (1934) og svo aftur í Bandaríkjunum (1956). Þótt margt sé líkt í þessum myndum sækir gamanmyndin ekki síður efnivið í Bondmyndirnar, eins og Goldfinger (Guy Hamilton: 1964) og Moonraker (Lewis Gilbert: 1979). Þá er ýmist vísað í eða gert grín af fjölmörgum öðrum myndum, eins og The Getaway (Sam Peckinpah: 1972), Bonnie and Clyde (Arthur Penn: 1967), Dirty Harry (Don Siegel: 1971) og Shining (Stanley Kubrick: 1980).

Leikstjóri myndarinnar, Jon Amiel, byrjaði feril sinn sem leikstjóri Shakespeareverka og sjónvarpsmynda. Af því sjónvarpsefni sem hann gerði er hann líklega frægastur fyrir þáttaröðina frábæru The Singing Detective (1986). Fyrsta bíómynd Amiels var Queen of Hearts (1989), en hún hlaut verðlaun sem besta byrjendaverkið á kvikmyndahátíðinni í Montreal og besta breska myndin á Birmingham kvikmyndahátíðinni. Kvikmyndin Sommersby (1993) náði nokkrum vinsældum, sem og spennumyndin Copycat (1995). Á síðari árum hefur hann haldið sig við spennumyndir og gert frekar slappar myndir á borð við Entrapment (1999) and The Core (2003).

Gamanmyndin The Man Who Knew Too Little virðist í raun fremur vera í anda Bills Murray en Jons Amiel. Enda þótt hún einkennist fyrst og fremst af ærslaskap og ofleik Murrays, halda sniðugar hugmyndir og skemmtilegt handrit henni á floti. Aðstandendaskráin í upphafi er einnig mjög vel unnin og í raun af allt öðrum gæðastaðli en allt annað i myndinni.

Þótt myndin sé langt frá því að vera gallalaus er hún engu að síður nokkuð skemmtileg og stendur alveg fyrir sínu sem gamanmynd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin The Man Who Knew Too Little er gott dæmi um hliðstæðu við trúartexta. Við fyrstu sýn virðist fátt um annað en siðferðisstef í myndinni en ef vel er að gáð er einnig hægt að finna í henni skemmtilega hliðstæðu við fyrsta sálm Saltara Gamla testamentisins.

Fyrsti sálmurinn er í raun inngangur að Saltaranum og er svo hljóðandi:

1. Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2. heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4. Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5. Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6. Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Sálmurinn lýsir velgengni þeirra sem eru uppréttir og heiðarlegir og ganga á vegi Guðs og illum örlögum hinna syndugu og guðlausu. Áherslan er á mikilvægi þess að lifa samkvæmt fyrirmælum Guðs. Slík trú var nokkuð algeng á slóðum Biblíunnar og kallast þau rit, sem leggja línurnar fyrir hið fullkomna líf, jafnan Spekirit. Sálmur 1 er einmitt mjög gott dæmi um slíka speki.

Gagnrýnendur spekistefnunnar hafa hins vegar bent á að heimurinn sé alls ekki svo einfaldur. Saklaust fólk þjáist og ranglátt fólk hafi það oft gott. Þessu hefur verið svarað á þann veg að þótt fólk komist upp með illsku í þessu lífi þurfi það að standa frammi fyrir hinum endanlega dómi að lokum og því munu þeir aldrei komast hjá afleiðingum illgjörða sinna. Hinir saklausu munu síðan fá uppreisn æru sinnar á hinum efsta degi.

Hvort sem við skrifum undir boðskap spekiritanna eða ekki þá getur verið áhugavert að skoða kvikmyndir í ljósi fyrsta sálmsins. Myndir á borð við Harvey (Henry Koster: 1950), Forrest Gump (Robert Zemeckis: 1994) og The Ladykillers (Ethan og Joel Coen: 2004) eiga það sameiginlegt að lýsa blessun hinna réttlátu og illum örlögum illvirkjans.

Sömu hliðstæðu má sjá í gamanmyndinni The Man Who Knew Too Little. Wallace er réttlátur, að vísu ekkert of vel gefinn en einlægur og indæll. Þetta sést vel á upphafsatriði myndarinnar þar sem hann talar við ókunnugan og hálf fúlan starfsmann á flugvellinum, rétt eins og um kunningja væri að ræða. Wallace vill vera góður og hann segir það reyndar sjálfur um miðbik myndarinnar þegar hann spyr hvort hann geti breytt persónu sinni í leikritinu: „Ég myndi miklu frekar vilja vera góði gæinn.“ Það er nánast sama í hvaða vandamálum Wallace lendir, hann kemur alltaf óskaddaður út úr þeim. Peningaveski hans er stolið í vopnuðu ráni en í lokin er hann kominn með fulla skjalatösku af peningum. Það á að taka hann fastan, pynta hann og drepa en alltaf tekst honum að sleppa óskaddaður úr þeim óförum sem hann lendir í. Eins og segir í sálminum: „Allt er hann gjörir lánast honum.“

Þessu er hins vegar ekki svo farið fyrir þeim vondu. Áætlanir þeirra um að eyðileggja friðarsamkomulagið og viðhalda kalda stríðinu renna út í sandinn. Höfuðpaurarnir drepast meira að segja að lokum og það sama á við um leigumorðingjann Spenser. Þar sem plott þeirra kemst upp má búast við því að aðrir viðriðnir málið hafi einnig þurft að taka út sína refsingu. Þetta minnir einmitt á niðurlag fyrsta sálmsins: „… en vegur óguðlegra endar í vegleysu.“

Það er sérstaklega áhugavert að bera saman bræðurna tvo. Ólíkt Wallace er James vel gefinn og fágaður. Líf hans er samt í meira klúðri en líf Wallace en hann er bæði gjaldþrota og óhamingjusamur. Hann hefur ekki ræktað samband sitt við bróður sinn, en það sést t.d. á því að Wallace hefur aldrei séð mágkonu sína og faðmar vinnukonuna í misgripum. James skammast sín einnig fyrir Wallace og talar meira að segja niðrandi um hann fyrir framan hann. Þá ætlar hann að lokum að fresta afmæli Wallace um einn sólarhring, jafnvel þótt hann hafi komið alla leið til Bretlands til að halda upp á það með honum. Í raun má segja að James komist í klandur vegna þess að ólíkt bróður sínum er hann slóttugur og dónalegur.

James áttar sig þó í lok myndarinnar á villu síns vegar og segir við Wallace eftir að hann hafði bjargað honum frá pyntingum: „Ég vil vera eins og þú Wally! … Ég sá allt líf mitt í einni svipan og ég áttaði mig á því að það snérist í kring um ranga hluti. Ég var upptekinn af peningum, velgengni, framapoti og upphefð.“ Þannig tekst James í raun að snúa af braut hinna ranglátu og yfir á braut hinna réttlátu. Hvað Wallace varðar þá virðist honum bara ætla að vegna betur og betur, þrátt fyrir að skilja aldrei neitt af því sem gerist í kringum hann.

Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 1
Sögulegar persónur: Gregory Efimovich Rasputin
Guðfræðistef: réttlæti
Siðfræðistef: efnishyggja, framapot, einlægni, heimilisofbeldi, þjófnaður, rán, morð, fjárkúgun, leigumorð, stríð, kvalarlosti, framhjáhald, réttlæti
Trúarleg reynsla: endurlausn