Kvikmyndir

The Matrix

Leikstjórn: Andy Wachowski og Larry Wachowski [undir nafninu Wachowski bræðurnir]
Handrit: Andy Wachowski og Larry Wachowski [undir nafninu Wachowski bræðurnir]
Leikarar: Keanu Reeves, Laurence Fishburne, Carrie-Anne Moss, Hugo Weaving, Joe Pantoliano, Gloria Foster, Marcus Chong, Julian Arahanga, Paul Goddard, Robert Taylor, David Aston, Anthony Ray Parker, Belinda McClory og Matt Doran
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 136mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Þegar manninum hafði tekist að hanna gervigreind fyrir vélar, gerðu þær uppreisn gegn honum og yfirbuguðu hann í blóðugri heimsstyrjöld. Mennirnir höfðu reynt að sigrast á vélunum með því að beita kjarnorkuvopnum, en fyrir vikið ríkir kjarnorkuvetur sem skyggir á alla sólarbirtu. Þar sem vélarnar eru háðar sólarorkunni, urðu þær að finna nýja leið til að afla sér orku. Þær söfnuðu því saman til ræktunar líkömum allra þeirra, sem enn voru á lífi, og tóku að soga úr þeim líkamshitann. Til að hafa mennina góða, halda vélarnar þeim sofandi í litlum vatnsfylltum skápum og tengja heila þeirra við sýndarveruleika, sem nefnist The Matrix (þ.e. Mótið, stundum þýtt draumheimurinn á íslensku), en hann er eftirmynd jarðarinnar árið 1999. Mennirnar búa því í þessum sýndarveruleika án þess að gera sér grein fyrir blekkingunni, en til þess að tryggja að allt fari að óskum, gæta útsendarar vélanna, jakkafataklæddir harðjaxlar með sólgleraugu, hagsmuna þeirra. Engu að síður hefur hópi manna tekist að aftengjast þessum sýndarveruleika og leita þeir frelsara sem muni bjarga mannkyninu og færa allt til betri vegar.

Almennt um myndina:
The Matrix er ein áhrifamesta kvikmynd síðari tíma en hún skaut Wachowski bræðrunum nánast samdægurs upp á stjörnuhimininn. Wachowski bræðurnir skrifuðu reyndar handritið sem þríleik en fengu aðeins fjármagn til að gera eina mynd. Það var ekki fyrr en ljóst var hversu vel fyrsta myndin gekk að grænt ljós var gefið á gerð næstu tveggja mynda.

Myndin er undir miklum áhrifum frá austurlenskum teikni- og bardagamyndum en leikararnir þurftu að þjálfa sig í austurlenskri bardagalist í fjóra mánuði áður en tökur hófust.

Það kom fáum á óvart að myndin skyldi sópa að sér óskarsverðlaununum fyrir tæknivinsluna. Reyndar er umdeilt hvort þetta sé í fyrsta skipti sem „time-freezing photographic“ hafi verið notuð í kvikmynd. Sumir vilja eigna leikstjóranum Michel Gondry þá tækni en hann beitti svipaðri tækni í tónlistarmyndbandi fyrir Björk Guðmundsdóttur. Nokkrir fleiri hafa verið nefndir til sögunnar en það er engu að síður hafið yfir allan vafa að þessi aðferð náði fyrst vinsældum og alheimsathygli með kvikmyndinni The Matrix.

Handritið er óvenju vel úthugsað en þar er að finna margar duldar vísanir. Gott dæmi um slíkt er þegar Reagan/Cypher hittir jakkafataklædda útsendarann Smith og segist vilja verða einhver mikilvægur einstaklingur, kannski leikari, en tekur samt fram að hann vilji ekki muna neitt um fortíð sína. Hér er að sjálfsögðu verið að vísa á gamansaman hátt til Ronalds Reagan. Svona mætti lengi halda áfram. Þess má þó geta að skriftin yfir hurð véfréttarinnar „þekktu sjálfan þig“ var einnig skráð yfir inngang véfréttarinnar í Delfí.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin The Matrix er svo hlaðin trúarstefum að það tæki heila bók eða jafnvel nokkrar til að greina frá þeim öllum. Auk þess er ekki aðeins um að ræða eina trúarhefð sem liggur að baki myndarinnar heldur fjölmargar. Um þetta hafa Wachowski bræðurnir verið alloft spurðir en eftirfarandi spurning var t.d. lögð fyrir þá á einni af kvikmyndaspjallrásunum á netinu: ,,Í mynd ykkar eru margar vísanir í goðsögur og heimspeki, gyðing-kristna hefð, egypska, arthúrsíska, platóníska, svo aðeins þær sem ég tók eftir séu nefndar. Hve mikið af þessu er meðvitað?“ Athyglisvert er að þessu svöruðu þeir: „Allt saman.“ (Sjá: http://whatisthematrix.warnerbros.com/rl_cmp/phi.html.) Það væri að sjálfsögðu mikil vinna að gera grein fyrir öllum þessum hefðum í myndinni og mun ég því að mestu halda mig við vísanir í kristindóminn og þá sérstaklega það hvernig Neó birtist sem kristsgervingur.

Aðalsöguhetja myndarinnar heitir Thomas Anderson en hann gengur einnig undir nafninu Neó. Anderson þýðir „Mannssonurinn“, sem er einn af titlum Jesú Krists, og Neó merkir „Hinn nýi“ en Kristur er einmitt jafnframt kallaður „Hinn nýi Adam“, þ.e. „hinn nýji maður“, í Nýja testamentinu. Bæði nöfn aðalsöguhetjunnar vísa því til Jesú Krists. Við þetta bætist að Neó er myrtur af útsendurum vélanna, rís upp frá dauðum (á þriðju mínútu) þegar þrenningin (Trinity) kyssir hann, leggur myrkraöflin að velli og stígur loks upp til himna.

Það er áhugavert að skoða hvers konar Kristur Neó er. Hann er kominn til að bjarga heiminum undan þeirri synd sem maðurinn hefur skapað sjálfum sér með stjórnlausri (siðlausri?) þekkingarleit sinni, rétt eins og Jesús Kristur kom til að frelsa manninn undan synd Adams og Evu sem borðað höfðu af skilningstré góðs og ills. Ólíkt Jesú sem byggði starf sitt á boðun fagnaðarerindisins og bannaði lærisveinum sínum meira að segja að grípa til vopna, hefur Neó engan slíkan boðskap að flytja og reiðir sig í staðinn alfarið á ofbeldi og vopn til að frelsa heiminn. Jesús Kristur rak út illa anda en Neó drepur þá sem eru andsetnir. Jesús sagði okkur að elska óvini okkar en Morfeus segir þá sem ekki eru með þeim vera á móti þeim. Neó minnir í raun frekar á þann Messías sem Gyðingar biðu eftir en Jesú Krist guðspjallanna sem krossfestur var af illvirkjunum.

Tilvísanirnar eru fleiri. Nafnið Morfeus vísar að sjálfsögðu til gríska draumaguðsins (sem er mjög viðeigandi) en hlutverk hans minnir samt mjög á hlutverk Jóhannesar skírara í guðspjöllunum. Hann er sá sem boðar komu hins fyrirheitna, bendir á hann þegar hann finnur hann og á meira að segja þátt í að skíra hann. Neó er „skírður“ þegar hann fellur í holræsið og er síðan dreginn úr því framarlega í myndinni.

Cypher er n.k. Júdas en nafn hans minnir einnig á Lúsifer ef tveim fyrstu stöfunum er sleppt. Samkvæmt guðspjöllunum fór Lúsifer inn í Júdas áður en hann sveik Jesú Krist en Cypher svíkur einmitt Neó með svipuðum hætti. Skipið sem Morfeus og menn hans ferðast um á heitir Nebúkadnesar, en Nebúkadnesar var konungur Babýlon, sá er herleiddi gyðinga frá Ísrael og lagði Síon/Jerúsalem í rúst. Mannkynið er sömuleiðis í nokkurs konar herleiðingu en Síon er eina borg mannkynsins sem enn stendur uppi. Megin markmið vélanna er einmitt að komast inn í Síon og jafna hana við jörðu.

Á Nebúkadnesar skipið er ritað „Mark III No 11“, þ.e. Markúsarguðspjall, 3. kafli, 11. vers, en þar segir: „Og hvenær sem óhreinir andar sáu hann [Krist], féllu þeir fram fyrir honum og æptu upp: ‚Þú ert sonur Guðs.‘“ Útsendarar vélanna minna óneitanlega á illa anda. Þeir geta andsetið fólk með því að ferðast úr einum mannslíkama yfir í annan. Þeir starfa í raun í þágu þess illa rétt eins og illu andarnir vinna í þágu Satans. Ritningarversið hér að framan rætist í lok myndarinnar en þegar Neó hefur risið upp frá dauðum og drepið aðalútsendarann gera hinir sér grein fyrir því að þeir eiga ekkert í hann lengur og flýja.

Eins og áður sagði má sjá nafn Neós sem vísun í hinn nýja Adam en ef vel er að gáð er einnig talað um hinn gamla Adam. Í myndinni segir Smith Morfeusi að þeir hafi upphaflega skapað fullkominn sýndarheim en að mannkynið hafi gert uppreisn. Tilvísunin til Edenssögunnar er augljós. Nokkru áður segir Morfeus Neó frá því að þegar sýndarheimurinn var fyrst skapaður hafi fæðst maður sem gat breytt sýndarheiminum. Þessi maður var fyrstur til að frelsa mannkynið en eftir andlát hans var því spáð að hann myndi koma aftur og að þá myndi mannkynið verða frjálst. Hér er líklega verið að vísa í Adam og uppreisn hans í Paradís. Það er merkilegt hversu jákvæð afstaðan til fallsins er í myndinni, en það er sagt fyrsta skrefið í átt til frelsunar. Hinn nýi Adam mun síðan ljúka því frelsunarstarfi sem hinn gamli Adam hóf. Hér má e.t.v. finna gnóstíks áhrif.

Í myndinni er lögð áhersla á trú og traust. Neó þarf að trúa því að hann geti stokkið á milli húsa og stöðvað byssukúlur til að það geti gerst. Þessi áhersla minnir óneitanlega á það þegar Jesús bauð Pétri að ganga á vatninu með sér. Í Matteusarguðspjalli er þeim atburði lýst svona: „Jesús svaraði: ‚Kom þú!‘ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: ‚Herra, bjarga þú mér!‘ Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: ‚Þú trúlitli, hví efaðist þú?‘“ (Mt 14:29-31.) Þess má geta að í Biblíunni er hafið oftast tákn hins illa í heiminum og því má líta á þennan atburð sem dæmisögu um mikilvægi þess að trúa til að sigrast á illsku heimsins. Svipaða hugsun er einmitt að finna í kvikmyndinni þar sem Mótið (The Matrix) er hið illa sem fangar heiminn og eina leiðin til að sigrast á illskunni er að trúa.

Í myndinni er einnig að finna tilvísanir í búddhisma en hugmyndin um að heimurinn sé blekking er mjög í anda þeirrar trúar. Neó, sem og meirihluti mannkynsins, lifir í svefni og blekkingu í bókstaflegri merkingu. Myndin hefst svo á því að Neó vaknar við það að ritað er á tölvuskjáinn „vaknaðu, Neó“. Ferð Neós gengur síðan út á það að öðlast uppljómun og brjótast úr fangelsi hins efnislega heims, þ.e. sjá í gegnum blekkinguna. Litli búddhadrengurinn orðar þetta vel þegar hann segir við Neó að hann verði að gera sér grein fyrir því að það er engin skeið til. Þetta er allt blekking.

Kvikmyndin The Matrix er í raun útlegging á ævi og starfi Jesú Krists, þar sem búið er að blanda saman biblíustefjum, austurlenskum trúarbrögðum og öðrum trúarlegum og heimspekilegum hefðum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mk 3:11, Gl 6:7
Hliðstæður við texta trúarrits: Gamla testamentið, guðspjöllin, 1M 2-3, 2Kon 24-25, 2Kro 36, Sl 137, Jes 40-55, Jer 29, Dan 1-6, Mt 4:18, Mt 14:29-31, Mt 27:45-28:10, Mk 15:33-16:20, Lk 23:44-24:49, Jh 19:28-20:23, 1Kor 15:45, Rm 5:14
Persónur úr trúarritum: Adam, Andrés, Illur andi, Jóhannes skírari, Júdas, Lúsifer, Mannssonurinn, Messías, Morfeus, Nebúkadnesar, Hinn nýi Adam, Símon Pétur, véfrétt, þrenning
Guðfræðistef: kraftaverk, kristsgervingur, fallinn heimur, fórnardauði, herleiðing, raunveruleiki, trú, tvíhyggja, upprisa, uppstigning, vantrú, örlög
Siðfræðistef: heiðarleiki, svik
Trúarbrögð: búddhismi, kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, Síon
Trúarleg tákn: svartur köttur
Trúarleg embætti: búddhamunkur, véfrétt
Trúarlegt atferli og siðir: trúboð
Trúarleg reynsla: trúartraust