Kvikmyndir

The Moment to Kill

Leikstjórn: Giuliano Carnimeo [undir nafninu Anthony Ascott]
Handrit: Tito Carpi, Bruno Leder, Fabio Piccioni og Francesco Scardamaglia
Leikarar: George Hilton, Walter Barnes, Loni von Friedl, Horst Frank, Carlo Alighiero, Renato Romano, Arturo Dominici, Rudolf Schündler, Remo De Angelis og Giorgio Sammartino
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1968
Lengd: 89mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Suðurríkjadómari fær tvo byssumenn til að hafa uppi á gullforða Suðurríkjanna, sem einn helsti herforingi þeirra hafði falið í heimabæ sínum skömmu áður en hann féll í orrustu á lokadögum borgarastyrjaldarinnar. Byssumennirnir eru þó vart mættir á svæðið þegar þeir lenda í útistöðum við bófaflokk á vegum Forester fjölskyldunnar, sem vill allt til þess vinna að komast yfir gullið, en bófarnir halda lamaðri og minnislausri dóttur herforingjans í gíslingu.

Almennt um myndina:
Miðlungs spaghettí-vestri með áherslu á slagsmál og skotbardaga. George Hilton og Walter Barnes í hlutverkum byssumannanna Lords og Bulls eru jafnan með bros á vor og spauga með flest allt sem þeir taka sér fyrir hendur, ekki síst þegar þeir skjóta bófana einn af öðrum. Ekki er þó um hreinræktaða gamanmynd að ræða þar sem hún virðist taka sig ósköp alvarlega þrátt fyrir allt. Og eins og búast má við af ítölskum kvikmyndum kemur endirinn nokkuð ánægjulega á óvart.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Mikið er um tilvitnanir í þessum spaghettí-vestra en þær eru allar bundnar við ljóð og leikrit á borð við Hamlet eftir William Shakespeare. Svo virðist sem tilvitnanir í ritverk Shakespeares njóti mestra vinsælda í spaghettí-vestrum næst á eftir biblíutilvitnunum, en öll höfðu þessi ritverk mótandi áhrif á Bandaríkjamenn á nítjándu öldinni fyrir milligöngu fjölda kristinna trúarhópa og leikhópa.

Persónusköpunin er sem fyrr bölsýn, enda láta allir stjórnast af taumlausri græðgi, sem verður þeim flestum að falli.

Byssumennirnir tveir, sem báðir eru fyrrverandi Suðurríkjahermenn, eru sagðir svo frægir að það sé talað meira um þá en sjálfan Drottin almáttugan. Þó svo að sannleiksbroddur kunni stundum að leynast í slíkum yfirlýsingum, hefur allt slíkt tal af mörgum verið álitið guðlast eða því sem næst. Þegar byssumaðurinn Lord heyrir þessi ummæli svarar hann líka eilítið kankvís á svip að vonandi móðgi það ekki Guð. Að byssumaðurinn skuli heita Lord, sem m.a. má þýða sem Drottinn, hefur sennilega enga sérstaka þýðingu fyrir boðskap myndarinnar.

Persónur úr trúarritum: Guð, verndarengill
Guðfræðistef: frelsi, kærleikur Guðs, guðlast
Siðfræðistef: manndráp, auðmýking, vændi, heiðarleiki, mannrán, ágirnd, svik, kynþáttamisrétti
Trúarlegt atferli og siðir: bæn