Kvikmyndir

The Omen

Leikstjórn: Richard Donner
Handrit: David Seltzer
Leikarar: Gregory Peck, Lee Remick, David Warner, Billie Whitelaw, Harvey Stephens, Patrick Troughton, Martin Benson
Upprunaland: Bretland
Ár: 1976
Lengd: 111mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0075005
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Nýfætt barn sendiherrans Robert Thorn deyr eftir fæðinguna, en Robert ákveður að leyna þessu fyrir Katherine eiginkonu sinni. Hann ættleiðir þess í stað munaðarlaust barn sem var fætt á sama tíma, þ.e. 6. júní kl. 6:00 (sem leiðir hugann að talnaröðinni 666). Robert kemst hins vegar brátt að því að fóstursonurinn Damien, sem hann elur upp er sonur Satans, andkristur sjálfur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
The Omen er fyrir löngu orðin klassík, en myndin sló rækilega í gegn þegar hún var frumsýnd og gerði Richard Donner (leikstjórann) heimsfrægan. Donner fékk t.d. að leikstýra Superman vegna velgengni þessarar myndar.

The Omen er hefðbundin heimsslitamynd, en flestar sækja þær efnivið sinn í Opinberunarbókina. Aðalpersónan í slíkum myndum er ýmist Satan sjálfur eða sonur hans andkristur. Söguþráður þessara mynda gengur alla jafna út á að hinir góðu (og trúuðu) reyna að koma kölska eða syni hans fyrir kattarnef.

Í flestum heimsslitamyndum hafa trúarlegir hlutir sérstakan mátt og þar er The Omen engin undantekning. Einn presturinn í myndinni þekur veggina á íbúð sinni með blaðsíðum úr Biblíunni til að halda hinu illa fyrir utan. Sami prestur festir einnig tugi krossa upp á vegg sér til varnar. Robert þarf að drepa Damien fósturson sinn með því að reka sjö hnífa (sjö er heilög tala) í gegnum hann þannig að þeir mynda kross út frá brjósti hans. Kirkjuhúsið hefur einnig sérstakan mátt sem sést á því að Damien tryllist þegar foreldrar hans ætla að fara með hann til kirkju. Síðast en ekki síst hefur altarissakramentið sérstakan mátt, sem sést á því að Robert er hvattur til að drekka blóð Krists til að verja sig gegn Djöflinum. Í heimsslitamyndum er máttur trúarinnar því raunverulegur og í Omen á það sérstaklega við altarissakramentið, krossa, kirkjur og Biblíuna.

Hliðstæður við fæðingu Jesú er einnig að finna í myndinni en á sama tíma og Damien fæðist birtist n.k. Betlehem stjarna á himnum, nema hvað að þessi stjarna er hinu megin á hnettinum! Það er einnig áhugavert að gleði og fögnuður fylgja ekki fæðingu Damiens heldur dauði og sorg. Barn Thorn hjónanna er myrt og þannig er Damien þröngvað upp á þau.

Myndin frá upphafi til enda er byggð á Opinberunarbókinni. Megin þema hennar er tala dýrsins 666 (Op 13:18). Damien er fæddur með töluna á líkama sínum og fæðingardagur hans er sjötti júní (sem er sjötti mánuður ársins) kl. 6:00 eða 666. Þá er hugmyndin um baráttu góðs og ills á hinsta degi að stórum hluta sótt í Opinberunarbókina. Annað meginstef í myndinni er eftirfarandi ljóð:

When the Jews return to Zion
and a comet rips the sky.
The holy Roman Empire rises.
Then you and I must die.

>From the eternal sea he rises
creating armies on ether shore
turning man against his brother
till man exist no more.

Í myndinni er látið líta út fyrir að ljóðið sé nær orðrétt úr einum og sama kaflanum í Opinberunarbókinni. Svo er þó ekki í raun og veru. Flestar hliðstæðurnar eru úr köflum 12-14:5, en ljóðið er þó fremur túlkun á því sem þar segir en orðrétt tilvitnun. Mér er t.d. ekki kunnugt um að hið eilífa haf (eternal sea) sem myndin byggir að miklu leyti á sé að finna í Biblíunni, hvað þá Opinberunarbókinni. Í myndinni er þó vitnað í túlkanir guðfræðinga á þessu hafi. Ef einhver lesandi veit hvaða bók og vers er verið að vísa í þá mætti hann endilega láta vita af því á umræðutorginu. Hvað skoðanir guðfræðinganna sem myndin vísar til varðar þá efast ég um að nokkur hefðbundinn guðfræðingur myndi skrifa undir slíka túlkun á Biblíunni. Hins vegar aðhyllast sumir prédikarar í bókstafstrúarsöfnuðum slíka túlkun, en þeir teljast varla guðfræðingar, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu þess titils. Hugmyndina um andkrist er síðan fyrst og fremst að finna í bréfum Jóhannesar (1Jh 2:18, 22; 4:3; 2Jh 7). Ef horft er fram hjá þessum lausu tengslum (og e.t.v. viðbætum) við Biblíuna þá er myndin engu að síður góð hryllingsmynd. Henni tókst meira að segja að vekja upp mikinn trúaráhuga á áhorfendum sem streymdu til kirkju eftir að hafa séð myndina.

Helsti galli myndarinnar er söguþráðurinn sem er nokkuð gloppóttur (hér ljóstra ég upp um margt í myndinni). Sem dæmi um hnökra má nefna: Hvers vegna svipti unga barnfóstran sig lífi? Hvers vegna var presturinn með fæðingarmerkið 666 á sér? Hvers vegna sendi presturinn hann til Bugenhagen (sem ber sama nafn og einn helsti samstarfsmaður Marteins Lúthers í siðbótinni á 16. öld)? Gat hann ekki alveg eins sagt honum þetta sjálfur? Er líklegt að vondi ítalski presturinn hefði falið líkin í gömlum kirkjugarði og merkt grafreitinn þar að auki? Mun líklegra er að hann hefði falið líkin annars staðar og sleppt því að merkja gröfina. Og hvers vegna fer Robert ekki heim til sín eftir að eiginkona hans var myrt? Í staðinn fer hann með fyrstu vél til Ísrael! Það eru mistök sem þessi sem draga úr trúverðugleika myndarinnar.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Opinberunarbókin, Opb 12-14:5, Opb 16:16, Mt 2:1-12
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 22:1-19, Mt 2:1-12, 1Jh 2:18, 22; 4:3; 2Jh 7
Persónur úr trúarritum: andkristur, dýrið, Guð, Jesús Kristur, María mey,
Sögulegar persónur: Bugenhagen
Guðfræðistef: fyrirgefning Guðs, iðrun
Siðfræðistef: lygi, morð, sjálfsvíg
Trúarbrögð: djöfladýrkun, frumkirkjan, Islam, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Krikja, Harmagedon, heilög jörð, helvíti, Jerúsalem, Kirkjugarður
Trúarleg tákn: altarissakramentið, kirkjuklukkur, kross, sex, sjö, svartur hundur
Trúarlegt atferli og siðir: Altarisganga, bæn, bölvun, jarðarför, særing, yfirbót