Kvikmyndir

The Other Side of Heaven

Leikstjórn: Mitch Davis
Handrit: Mitch Davis, byggt á bókinni In the Eye of the Storm eftir John H. Groberg
Leikarar: Christopher Gorham, Anne Hathaway, Joe Folau, Miriama Smith, Nathaniel Lees, Whetu Fala, Alvin Fitisemanu, Peter Sa’ena Brown, Apii McKinley, John Sumner, Paki Cherrington, Pua Magasiva og Jerry Molen
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 113mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Árið 1953 er ungur mormónatrúboði sendur til Kyrrahafseyjunnar Niuatoputapu í Tonga-eyjaklasanum og tekst honum smám saman að ávinna sér traust eyjarskeggjanna á þeim þremur árum sem hann dvelur þar.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin er framleidd af Walt Disney og byggð á reynslusögu Johns H. Grobergs, sem kom út fyrir allmörgum árum undir nafninu In the Eye of the Storm, en hún greinir frá starfi hans sem trúboði Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (en svo nefnist fjölmennasti trúarhópur mormóna) í menningarumhverfi sem reynist gjörólíkt öllu því sem hann hafði kynnst.

Myndin er fagmannlega gerð og áferðafalleg. Landslagið er stórfenglegt enda var myndin að mestu tekin á söguslóðum og í Nýja Sjálandi. Leikararnir standa sig flestir vel, sérstaklega þó eyjarskeggjarnir sem ná auðveldlega að vekja samkennd áhorfandans með persónusköpun sinni.

Sagan er áhugaverð, ekki síst fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á menningu fjarlægra landa og hvernig ólíkir menningarheimar snertast. Þannig tekur t.d. ein fjölskyldan mormónatrúboðanum opnum örmum og hjálpar honum með margvíslegum hætti. Þegar gullfalleg og gjafvaxta dóttir hjónanna vill hins vegar sofa hjá trúboðanum, neitar hann því og vísar henni frá sér vandræðalegur á svip. Móðirin verður hins vegar æf þegar hún kemst að því að hann hafði hafnað dótturinni, en þegar hann útskýrir fyrir henni siðferðisboðskap kirkju sinnar og sýnir henni mynd af unnustu sinni heima í Bandaríkjunum, sem hann hafði heitið trúnað við, tekur hún hann aftur í sátt hrygg í bragði. Mæðgurnar eru báðar einstaklega vel leiknar og eru sjónarmið þeirra virt en ekki fordæmd þó svo að þau samrýmist ekki siðferðishugmyndum trúboðans.

Enginn áhugamaður um mormónakirkjuna getur heldur látið myndina fram hjá sér fara því að hún varpar áhugaverðu ljósi á starfshætti trúboða hennar. Fæstir af aðstandendum myndarinnar virðast þó hafa verið mormónar, a.m.k. ekki leikararnir. Leikstjórinn Mitch Davis segir á myndskýringahljóðrásinni á DVD diskinum frá svæði 1 að hann hafi fremur viljað gera andlega mynd en trúarlega og hafi áhugi hans því fyrst og fremst beinst að menningu eyjarskeggjanna. Hann hafi ákveðið að kvikmynda söguna vegna þess að honum þótti hún áhugaverð, en tilgangurinn hafi ekki verið sá að kynna mormónatrúna sérstaklega. Athyglisvert er í því sambandi að ekki skuli vera minnst á að um mormóna sé að ræða fyrr en myndin er tæplega hálfnuð.

Óhætt er að segja að Davis hafi tekist að gera hugljúfa og jafnvel eilítið skondna mynd um fegurð lífsins og vægi mannlegra samskipta. Það er t.d. ekki laust við að Groberg virki eins og álfur úti á hól í jakkafötunum sínum innan um eyjarskeggjana, en það hindrar samt ekki eðlileg samskipti milli þeirra enda leggur hann mikið á sig til að læra tungumál þeirra. Full mikil væmni á köflum skemmir þó aðeins fyrir myndinni og er ekki laust við að hún virki svolítið langdregin þegar á líður. Það ætti þó ekki að draga úr neinum, sem áhuga hefur á efni hennar.

Nokkrar misgóðar kvikmyndir hafa verið gerðar um mormónatrúboða á undanförnum árum. Sú besta þeirra er God’s Army (Richard Dutcher: 2000), sem dregur upp málefnalega mynd af starfi þeirra í Los Angeles, en leikstjórinn er sjálfur trúaður mormóni. Verst er þó gamanmyndin Orgazmo (Trey Parker og Matt Stone: 1997) sem segir frá mormónatrúboða sem í einfeldni sinni gerist blámyndaleikari, en það er mynd sem allir ættu að forðast, ófyndin, smekklaus og leiðinleg.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
John H. Groberg var sveitapiltur frá Idaho í Bandaríkjunum og ólst upp í barnmargri og samheldri mormónafjölskyldu. Eins og tíðkast um kirkjurækna mormónapilta fékk hann 19 ára gamall köllun frá kirkju sinni til að gerast trúboði í tvö ár, sem urðu alls þrjú áður en starfi hans lauk. Það var árið 1953 sem hann var sendur til Niuatoputapu, afskekktrar Kyrrahafseyju í Tonga-eyjaklasanum. Á þeim tíma voru eyjarskeggjarnir að mestu einangraðir frá umheiminum og því í litlum tengslum við samtímann. Heimilin voru bambuskofar sem tíðkast höfðu um aldaraðir og höfðu hvorki rafmagn né rennandi vatn. Samgöngur voru strjálar og kom póstskipið aðeins á mánaðarfresti.

Leikstjórinn segist hafa fylgt reynslusögu Grobergs eins vel og kostur var og því sé ekkert í myndinni sem ekki hafi gerst í raunveruleikanum, jafnvel þótt einfalda hafi þurft sumt, fella annað í burt og sameina nokkrar persónur í eina.

Mormónatrúboðarnir starfa jafnan tveir og tveir saman og reynist félagi Grobergs vera úr hópi eyjarskeggjanna við komuna, en sárafáir tilheyra þar mormónakirkjunni. Nokkrar kirkjudeildir eru þegar starfandi á eyjunum og taka þær trúboði mormónanna illa án þess að það sé útskýrt að ráði í myndinni. Sérkenningar mormóna um guðdóminn og hina einu sönnu kirkju Guðs eru hins vegar þess eðlis að kirkja þeirra hefur lengst af verið hafnað sem kristinni af helstu kirkjudeildunum. Mormónar trúa því að Guð hafi eitt sinn verið maður eins og við áður en hann náði því marki að verða Guð, en síðar hafi hann eignast Jesúm Krist, heilagan anda, Lúsífer og okkur mennina sem andabörn með eiginkonu sinni á himninum. Þeir sem fæðist inn í þennan heim í líkama af holdi og blóði og geri vilja föðurins, eigi svo kost á því að verða guðir eins og hann varð sjálfur Guð, en mormónakirkjan er álitin eina sanna kirkja Guðs hér á jörðu.

Í kvikmyndinni er það einkum meþódistaprestur sem tekur starfi mormónatrúboðanna þunglega og segir þá boða villukenningar. Hann hvetur eyjarskeggjana til að hlusta ekki á boðun þeirra en segir þá samt alveg geta umgengist þá og neytt með þeim máltíðir. Þrátt fyrir allt er frekar jákvæð mynd dregin upp af persónu meþódistaprestsins og er andstaða hans við boðun mormónanna fyrst og fremst skýrð sem vantraust á nýrri trúarstefnu. Umhyggja hans fyrir velferð eyjarskeggjanna er einlæg og reynir hann hvað hann best getur að sporna gegn félagslegu óréttlæti í garð þeirra. Þannig reynir hann t.d. að fá fólkið til að þiggja ekki vörur frá vafasömum sjómönnum gegn því að þeir fái að sofa hjá dætrum þess. Síðar sættist meþódistapresturinn við mormónatrúboðana áður en hann deyr og biður þá fyrirgefningar á framkomu sinni. Hann gengur hins vegar ekki til liðs við kirkju þeirra og virðist aðeins samþykkja þá sem góðviljaða menn sem hafi margt gott fram að færa.

Sú gagnrýni, að kvikmyndin virki eins og áróðursmynd fyrir mormónakirkjuna, verður að teljast ósanngjörn. Hún er fyrst og fremst falleg saga af ungum pilti, sem kynnist góðu fólki í framandi landi. Að mormónar skuli eiga þar í hlut gerir myndina bara áhugaverðari, hvað svo sem sagt verður um umdeilar sérkenningar þeirra. Reyndar koma sérkenningar mormóna fæstar við sögu í myndinni og er t.d. aldrei minnst á eitt mikilvægasta trúarrit þeirra, sjálfa Mormónsbók. Að vísu má grilla í Mormónsbók við hlið Grobergs í eitt skiptið en það fer samt afskaplega lítið fyrir henni þar. Eina bókin sem Groberg les í allri myndinni er Biblían og eru allar tilvitnanirnar sóttar í hana eina.

Einkum tvær biblíutilvitnanir úr myndinni eru eftirminnilegar. Þegar Groberg kveður foreldra sína og systkini áður en hann heldur af stað út á trúboðsakurinn, vitnar faðir hans í Jh 3:16 og segist aldrei hafa skilið það til fulls hvernig Guð faðir geti elskað svo heiminn að hann hafi getað gefið son sinn. Hann efist hins vegar ekki um að Guð elski þá sem búi á Tonga og því fagni hann því að sonur sinn skuli fara þangað. Síðari tilvitnunin kemur við sögu þar sem Groberg dregur sig í hlé til að læra tungumál eyjarskeggjanna, en það gerir hann með því að lesa vers Biblíunnar til skiptis á ensku og þeirra eigin máli úr sitt hvorri þýðingunni. Þegar Groberg les einn af sálmum Davíðs er sýnt hvar unnusta hans, sem skrifast á við hann allan tímann frá Bandaríkjunum, virðir fyrir sér sköpunarverkið, himininn, stjörnurnar og tunglið, en þar segir: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans …? (Sl 8:4-5.)

Bænheyrsla og kraftaverk koma einnig við sögu en framsetningin er varfærin. Í eitt skiptið kemur faðir með ungan son sinn sem fallið hafði úr háu tréi tæpum tveim dögum áður og virðist látinn. Örvæntingarfullur biður hann Groberg um að blessa drenginn þar sem hann hafi þann mátt sem þurfi til að gera hann heilann. Groberg fer með drenginn inn til sín, leggur hendur yfir hann í bæn og þrýstir taktfast á líkama hans, en fyrir vikið vellur æla upp úr honum og hann tekur að anda á nýjan leik. Hafði drengurinn verið látinn allan þennan tíma eða var hann einungis meðvitundarlaus? Reis drengurinn upp frá dauðum eða bjargaði trúboðinn lífi hans með réttum viðbrögðum á neyðarstundu? Leikstjórinn vill ekkert fullyrða um það en segist hafa rætt við alla hlutaðeigandi, þar á meðal við þann sem risið hafði upp á sínum tima, og standi margir þeirra enn í þeirri trú að drengurinn hafi sannarlega risið upp frá dauðum.

Undir lok myndarinnar segir Groberg að á þessum afskekktu Kyrrahafseyjum hafi hann fengið að kynnast fólki sem þrátt fyrir fátækt sína hafi verið ríkara en flestir, fólki sem átti ekkert en átti samt allt. Líta má á þau orð sem yfirskrift myndarinnar.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mormónsbók, Biblían, 1M 1:1, 3, Sl 8:4-5, Mt 6:12, Mt 8:26-27, Mt 10:39, Mt 16:25, Mt 28:19, Mk 4:39-41, Lk 8:24-25, Jh 3:16
Persónur úr trúarritum: Jahve, Drottinn, Jesús Kristur
Guðfræðistef: himnaríki, trúboð, kærleiki Guðs, Guðsríki, fagnaðarerindið, dauðinn, dýrð Guðs, Ísrael, trú, kraftaverk, falskenning, refsing Guðs, synd, fyrirætlun Guðs, helgi hjónabandsins, náð Guðs, ljós, fyrirgefning, sáttargjörð, áfengisbann, eilíft hjónaband, skipulag
Siðfræðistef: stríð, kjarnorkusprengja, gestrisni, lygi, heimilisofbeldi, vændi, frjálsar ástir, siðleysi, drykkja, fjölskyldueining
Trúarbrögð: Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (mormónar), meþódistar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, musteri
Trúarleg tákn: Jesúmynd, veggmynd af David O. McKay spámanni mormóna, musterislíkklæði
Trúarleg embætti: mormónatrúboði, sendiboði Guðs, stikuforseti (mormóni), ráðgjafi (mormóni), prestsdæmi mormónia, trúboðsforseti (mormóni), öldungur (mormóni), meþódistaprestur
Trúarlegt atferli og siðir: trúboð, bæn, fyrirbæn, biblíulestur, vitnisburður, predikun, skírn, andstaða við trúboði mormóna, blessun, sálmasöngur, borðbæn, þjónusta, fyrirgefning, sáttargjörð, útför, að sýna fordæmi, skýrsluhald, hjónavígsla
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: köllun, sorg, traust, kraftaverk, bænheyrsla, hamingja, freisting, lækning, kærleikur, upprisa