Kvikmyndir

The Passion of the Christ

Leikstjórn: Mel Gibson
Handrit: Benedict Fitzgerald og Mel Gibson
Leikarar: James Caviezel, Monica Bellucci, Claudia Gerini, Maia Morgenstern, Hristo Naumov Shopov, Mattia Sbragia, Rosalinda Celentano, Francesco De Vito, Luca Lionello, Jarreth J. Merz, Hristo Jivkov, Fabio Sartor, Sergio Rubini, Toni Bertorelli, Roberto Bestazzoni, Francesco Cabras, Emilio De Marchi, Lello Giulivo, Abel Jefry, Matt Patresi og Roberto Visconti
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 127mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin greinir frá síðustu tólf klukkustundunum í ævi Jesú Krists.

Almennt um myndina:
Myndataka og leikur er áhrifamikill og hreyfing myndarinnar og hljóð sterkt og vel gert. James Caviezel leikur Jesú á áhrifamikinn hátt og dregur fram mildi persónunnar. Maja Morgenstern og Monica Bellucci skila vel sínu sem María móðir Jesú og María Magdalena.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eftir að hafa séð mynd Mel Gibsons um píslarsögu Krists vil ég leggja nokkur orð inn í umræðu þá sem myndin hefur vakið.

Hverjum er myndin ætluð?Ég fór á myndina á öðrum sýningardegi í Atlanta í Bandaríkjunum. Bíóhúsið var þéttsetið og greinilegt var að margir voru þar saman í smærri hópum sem ég ætla að hafi flestir verið kirkjuhópar eða trúarsamfélagshópar af einhverju tagi. Þá voru einnig margar fjölskyldur með börn með sér alveg niður í smábörn (4-5 ára). Sú staðreynd stakk mig mikið þar sem ég þóttist vita að myndin væri á engan hátt við hæfi smábarna vegna grafísks ofbeldis hennar. En þarna voru líklega á þriðja tug barna undir 10 ára aldri. Það ber að hafa í huga að myndin er skráð R-restricted 17, þ.e. börn undir 17 ára mega ekki sjá hana nema í fylgd með fullorðnum. Í stórbíóhúsum samtímans er hins vegar ekki litið eftir við inngang í sal heldur aðeins teknir miðar við inngang í anddyri bíohússins, þangað sem allir fara fyrst hvort sem ætlunin er að sjá „Finding Nemo“ eða Passionmynd Gibsons. Eftirlit með aldursmörkum er því í reynd ekkert, enda aldursmerkingar aðeins skoðaðar sem ábendingar.

Dómgreindarleysi kunna einhver að segja, að fara með börn á mynd sem þessa og ég verð að taka undir það. Engu að síður er ástæða til að nema staðar við þessa staðreynd og íhuga hana aðeins frekar. Um er að ræða mynd um manninn Jesú sem kristnir einstaklingar trúa að sé og hafi verið Kristur, holdtekinn Guð, og þjáningar hans. Það sem fólk veit, er að í mynd Gibsons er verið að fjalla um það sem hvað heilagast er í lífi þess og svo margra annarra. Minna þarf til að lita dómgreind fólks en það, eða má ekki álykta sem svo að allt sem sýnir eða fjallar beint um söguna af þjáningu og dauða Jesú Krists hljóti að vera til góðs? Ég verð að svara þeirri spurningu neitandi hvað varðar að leyfa börnum að sjá ljótleika og illsku pyntinga þessarar myndar. Eftir stendur engu að síður sú staðreynd að foreldrar greinilega völdu að láta börn sín sjá þessa mynd. Rétt er að taka það fram að það er ekki þetta algengt að foreldrar komi með börn sín á bannaðar myndir, jafnvel ekki í sjónhömlulausum Bandaríkjunum. Við verðum því að gefa gaum að þeim möguleika að jafnvel fólk sem annars er mjög vel að sér um kristna trú, sögu og píslir Krists, kann að hneigjast til þess að réttlæta að börn sjái ljótleika myndarinnar vegna þess að það sjálft lifir í upphafningu upprisunnar, hefur þegið kraft og þrótt af andstæðu miskunnar Guðs við syndugleika mannsins.

Þannig séð kunna einhverjir að álykta að ljótleiki syndugleika mannsins eins og Gibson sýnir hann í pyntingum Jesú, og þar með „sammannleg“ ábyrgð okkar allra á pyntingum þeim sem hann leið, geti ekki verið of grófur fyrir börn sem deila með foreldrum sínum náð trúarinnar. Ég álít hins vegar að myndin sé varasöm fyrir allar viðkvæmar sálir og ætti að vera stranglega bönnuð börnum. Það mætti hins vegar réttlæta að eldri unglingar fengju að sjá myndina með foreldrum en ég teldi varasamt að kirkjur og trúarhópar standi að því að fara með hópa úr unglingastarfi sínu á myndina, eins og ég veit að rætt hefur verið um. Slíkt væri ábyrgðarhluti og þyrfti að mínu viti sérstaka heimild forráðamanna unglinganna.

Mikið ofbeldi – upphafning á mennsku KristsMyndin sýnir mikinn ljótleika ofbeldis. Það er ekki krossfestingin sem er þar ljótust, öfugt við það sem ég hefði fyrirfram ályktað. Vissulega eru þar angistarfullar og yfirþyrmandi senur, eins og þegar naglarnir eru reknir í hendur og fætur Jesú, en enda- og hömlulausar húðstrýkingarnar ofan á grófa meðferð hermannanna á fanga sínum allar götur frá handtöku til krossfestingar, eru þungi þjáninganna í myndinni. Einna helst er eins og Gibson ætli að reka staðreynd þjáninganna svo hart inn að enginn geti undan komist. Aðferð hans er að sýna þær nógu lengi og gera þeim skil með ýtarlegum myndum ótölulegra strýkinga og hýðinga sem spilað er á móti glaðhlakkalegrar nautnar hermannanna, (sem gefið er í skyn að séu ekki allir allsgáðir). Tól húðstrýkingarinnar eru sýnd vel, byrjað er með prikum og tveir berja til skiptis linnulaust einhverja tugi ef ekki nær hundrað högg af afli á bak Jesú. Þegar Kristur stendur enn upp eftir þetta þá eru valdar svipur sem hafa marga strengi með brodduðum eða hvössum hlutum (hugsanlega járnum, steinum eða þyrnum) á endum. Með þessu er hann síðan hýddur linnulaust svo að holdið, ekki aðeins blæðir heldur er rifið af í stórum flyksum. Þessi strýking eða fletting húðar er fyrst framkvæmd á baki hans en síðan er honum snúið við og hann hýddur að framanverðu þannig að bein rifja hans verða sýnileg á a.m.k. handarstóru svæði. Blóðvöllur hýðingar-staðarins er votur og alrauður eins og um slátrun hafi verið að ræða eftir að öllu er lokið og hann hefur verið leiddur á brott. Í myndinni er María móðir hans látin koma og þurrka upp og þerra blóðpollana, ásamt Maríu Magdalenu, áréttandi þjáningu hennar og umhyggju en einnig er líklegt að þar sé um að ræða virðingu Gibsons, fyrir blóði lambs Guðs.

Gibson fellur að mínu áliti í gryfju upphafningar mennsku Krists að því leyti að hann lætur Jesú þola og standa uppi eftir ógurlegar misþyrmingar og blóðmissi. Honum er mikið í mun að sýna þjáninguna og raunveruleika holdtekjunnar með sterku og grafísku myndmáli. Svo nærri manninum Jesú er gengið að vart er hugsandi að nokkur mannlegu máttur stæði uppi eftir slíkar líkamsmeiðingar. Í minningarbrotum sem myndin sýnir að hvarfli um huga Jesú sjálfs má líka sjá glögg merki upphafinnar Jesú-myndar sem við höfum séð í svo mörgum myndum, eins og t.d. í mynd George Stevens, „The Greatest Story ever told“. Engu að síður fangaði myndin mig, þó sessunautar mínir hafi sagt mér að þarna hafi myndin misst tök sín á þeim.

Freistarinn, Pílatus og Heródes Í myndinni eru þar fyrir utan þrjú atriði sem vert er að geta sérstaklega og skoða að með gagnrýnu hugarfari. Það eru ímyndir Freistarans, Pílatusar og Heródesar. Pílatusi eru gerð þannig skil að manni fer að þykja vænt um hann. Gibson gerir mikið úr siðferðis- og stjórnunarvanda hans, átökum milli þess sem hann augljóslega telur rétt og hins að dæma Krist til dauða, eins og krafist er af honum. En spyrja verður hvort þetta sé sögulega sannverðug lýsing á Pílatusi? Höfum við söguleg rök fyrir því að Pílatus hafi verið mildur og góðviljaður stjórnandi? Það hefur ekki verið minn skilningur þó vissulega hafi Jesús valdið honum klemmu og haft áhrif á hann.

Heródes er hins vegar sýndur sem svallari, hóglífismaður og jafnvel einfeldningur. Þar fyrir utan verður ekki varist að sjá líkingu til staðalímyndar samkynhneigðra karlmanna. Sama á einnig við um Freistarann sem sýndur er fyrst með snáksskottið gægjast út úr nefi þessa krúnurakaða kvenlega manns, sem reyndar er leikinn af konu, Rosalinda Clementano, þó að hún tali með karlmannsröddu. Spyrja verður hvað Gibson gengur til með þessu myndmáli. Það er ómögulegt að hér sé um hendingu að ræða og ekki hægt að sætta sig við að reyndur kvikmyndamaður lesi ekki myndmál sitt betur en svo að hér sé ekki um ætlaða ímynd að ræða. Þó ekki sé farið lengra með þetta þá er þetta varasamt móðgandi innlegg í samtímaumræðu um samkynhneigð. Það verður að spyrja hvort Gibson gangi það til tengja samkynhneigð við spillingu eða hið illa og hvort hann sé með þessu að leggja lóð sitt á vogarskálar gegn lýðréttindum samkynhneigðra. Er hann meðvitað að hafa áhrif á eldfima umræðu um hjónaband samkynhneiðra sem er eitt stærsta mál samfélagsumræðunnar í Bandaríknunum í dag? Ef svo er þá verður lítið úr heiðalegri umræðu eða virðingu fyrir meðbróður eða systur af hendi Gibsons, sem kynntur hefur verið sem maður sem leggur mikið upp úr trú sinni og trúarhefð.

GyðingaandúðVarðandi þá gagnrýni að myndin auki á gyðinga andúð þá sló hún mig ekki sérstaklega hvað það varðar er ég horfði á hana. En þýskur guðfræðingur sem fór með mér á myndina var þar mjög á öðru máli og sagði að það væri nógu erfitt að vinna með orð Jóhannesar og Matteusar eins og þau eru skrifuð, að ekki sé aukið á tilvísanir sem auðveldi fólki að víkja sér undan sammannlegri ábyrgð syndarinnar og finna sökudólg. Rétt er að gefa gaum að þvi að ég og hann komum úr mjög ólíku sögulegu samhengi. Viðvarandi barátta gegn gyðingaandúð, tilfinningaleg sekt þjóðernis og sárar minningar kynslóðar foreldra hans gefa honum ekki leyfi til að tala létt eða sniðganga alvarleika gyðingaandúðar. Ég, hins vegar, hef alist upp í íslensku samhengi sem, rétt eins og stærstur hluti bandarísks samfélags veit af gyðingahörmungum, en hefur ekki reynt þær eins nærri sér eins og þessi félagi minn. Eftir á að hyggja þykir mér full ástæða til að spyrja hvort myndin kunni að styðja gyðingaandúð. Stjórnmálalegt samhengi okkar, þar sem ísraelsk stjórnvöld hafa verið mjög umdeild, hefur nokkuð mikið áhrif hér þar sem í hugum margra er ekki greint á milli Ísraelsríkis og gyðingdóms, frekar en margir greina á milli herskárra múslíma og fylgjenda múhameðstrúar.

Þegar ég sá myndina var ég mótaður af spurningunni um hvort myndin gæti aukið á gyðingaandúð og átti efalítið von á sterkari áhrifum en ég varð fyrir. Það er vissulega erfitt að segja þessa sögu nema í samhengi gyðingasamfélagsins sem hún átti sér stað í. Hinn almenni gyðingur er ekki útmálaður á neikvæðan hátt í myndinni, en það er hinsvegar gert við staðalmynd gyðingdómsins í holdgervingu leiðtoganna. Þeir, með aðeins örfáum undantekningum, eru yfirlætisfullir, illilegir og fullir af sjálfbyrgingshætti og óþekkilegum svipbrigðum sem myndin gerir glögg skil. Mildar konur myndarinnar, sem við auðvitað eigum að vita að eru gyðingar, bera hinsvegar ekki sérstaka skírskotun til gyðingdóms frekar en allur almenningur í myndinni. Engu breytir hér þó við vissulega vitum við að allt samhengi myndarinnar er gyðingasamfélag. Klæðaburður getur að mínu viti ekki verið næg skírskotun þar sem hann sýnir fyrst og fremst fyrri tíma og fólk í okkar samtíma gæti ekki lesið nokkra gyðinglega skírskotun út úr honum. Í ljósi þessa þá stendur eftir sú staðreynd að Kristur var krossfestur í landi og samfélagi gyðinga. Ályktunin um að gyðingar séu ábyrgir, en ekki sammannlegur syndugleiki allra manna, er því ekki langsótt, ekki síst vegna þeirrar mannlegu hneigðar að sjá frekar flísina í auga náungans en bjálkann í sínu eigin. Í þessu ljósi er gagnrýnivert hve einlita mynd Gibson gefur af leiðtogum Gyðinga og erfitt er að verja það sem sögulega tilvísun. Boðskapur sagna guðspjallanna felur í sér að það er tilvísun til sektar og syndar allra, sem er orsök þjáninga Krists en sagan hefur sýnt hve miklu gjarnara er að finna blóraböggla en gangast við eigin hlut í misgjörðum.

María MagdalenaÉg er ósáttur við þá einföldu túlkun að Magdalena sé hórkona eins og svo gjarnt hefur verið að álykta vegna þess að hún virðist hafa haft fjárhagslegt sjálfstæði. Gibson gengur svo langt að gera hana að konunni sem átti að fara að grýta og Jesús bjargaði með því að segja „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“. En Gibson er ekki einn hér og við erum því miður alltof vön að sjá Maríu Magdalenu vera gagnrýnislaust lýst sem hórsekri konu eða hóru, án þess að það komi nokkurs staðar fram í guðspjöllum Nýja testamentisins.

Ögrandi og aðkallandiSem slík stendur myndin vel fyrir sínu og er bæði ögrandi og aðkallandi fyrir áhorfandann. Hún er listræn og víða koma fyrir myndmót sem líkjast áhrifamiklum verkum listasögunnar, eins og til dæmis lokasenan með Maríu við krossinn. Ögrun myndarinnar um ljótleika þjáningarinnar lætur áhorfandann ekki ósnortinn en spurn er hvort hér sé farið yfir mörk mennskunnar. Spyrja verður einnig hvort kvikmyndaformið hafi ekki kallað á ýkingu þjáningu hýðinganna þar sem Gibson hafi ekki náð að útfæra þjáningu krossfestingarinnar sjálfrar á þann veg að áhorfandinn þurfi að horfa á og reyna ljótleika hennar svo lengi sem Gibson taldi þurfa. Hann kann einnig að hafa verið að leita skýringa þess af hverju Jesús dó fyrr en hinir tveir og þannig verið í raun að svara tilhneigingunni til ofurmennsku Jesú sem hlýtur alltaf að eiga bágt með að Jesú líði á sama hátt og aðrir og geti ekki verið líkamlega aumari en hinir tveir, sem guðspjöllin segja að hafi verið krossfestir með honum.

Það verður hver og einn að velja hvort hún eða hann kýs að sjá myndina. Hún mun væntanlega fá þónokkuð í stjörnugjöf en ég vil ekki mæla með henni umfram það sem hér er gert að ofan. Hún mun efalítið verða kölluð stórmynd, en ég sé ekki fyrir mér hvert gildi hennar verður til lengri tíma. Vera kann að hún lifi, fyrst og fremst, vegna þess að efni það sem hún fjallar um lifir. Sláandi ofbeldismyndir hennar kunna að þjóna þeim tilgangi að berjast gegn “fegrun sögunnar”, tilhneigingunni til að gera lítið úr sárum og þjáningu sem alltaf hlýtur að vega að kristinni trú sem grundast í raunveruleika holdtekjunnar. En ég á bágt með að trúa að þetta mikla sýnda ofbeldi færi fólk til trúar eins og Gibson hefur sagt að tilgangur hans sé.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3:15; 2M 3:14; 2M 11-15; 2Kon; 2:11; Jes 53:5; Mt 5:43-46; Mt 21:1-11; Mt 26-28; Mk 11:1-11; Mk 14-16; Lk 19:28-38; Lk 22-24; Jh 8:1-11; Jh 10:11-18; Jh 12:12-19; Jh 13:1-20; Jh 13:36-38; Jh 14:6; 15:13; Jh 18-21
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3; Jes 53:5
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Guð, lærisveinar, María Mey, María Magdalena, María, Marta, Pétur, Jóhannes, Kaífas, Pontíus Pílatus, Heródes, Júdas, Satan, Lillith, illir andar, djöflar, Abenader, Kládía, Veronika, Elía, Barrabas, Annas, Malkus, Símon frá Kyrene
Guðfræðistef: bölvun, kraftaverk, guðlast, synd, sannleikur, spádómur, fórndardauði, þjáning, upprisa, forvitun, alvitund, endurlausn, fórn, himnaríki, angist, köllun
Siðfræðistef: svik, ofbeldi, stríð, lygi, háð, hroki, illska, samkynhneigð, dauðadómur, bylting, pynting, reiði, kvalalosti, hatur
Trúarbrögð: gyðingdómur, farísear
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Jerúsalem, Golgata, Musterið, hallargarður æðstaprestsins, via dolorosa, torg sem staðir illsku og múgæsings
Trúarleg tákn: 30 silfurpeningar, snákur, dúfa, þyrnikóróna, handþvottur, fótaþvottur, brotning brauðs, altarissakramenti, illfygli í auga, sól (guðstákn), vatn, þyrnikóróna, purpurarautt klæði
Trúarleg embætti: æðsti prestur, rabbíi
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, galdrar, særingar, álög
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: hvíldardagurinn, páskahátíðin, fórnardauði Krists
Trúarleg reynsla: forspá, kraftaverk