Leikstjórn: Mel Gibson
Handrit: Benedict Fitzgeral og Mel Gibson
Leikarar: James Caviezel, Monica Bellucci, Claudia Gerini, Maia Morgenstern, Hristo Naumov Shopov, Mattia Sbragia, Rosalinda Celentano, Francesco De Vito, Luca Lionello, Jarreth J. Merz, Hristo Jivkov, Fabio Sartor, Sergio Rubini, Toni Bertorelli, Roberto Bestazzoni, Francesco Cabras, Emilio De Marchi, Lello Giulivo, Abel Jefry, Matt Patresi og Roberto Visconti
Kvikmyndataka:
Tónlist:
Framleiðsluland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 127 mín.
Útgáfa:
Hlutföll: 2.35:1
Tegund: Drama, biblíumynd
Stjörnur 3,5
Ágrip af söguþræði
Jesús Kristur er svikinn í hendur óvina sinna meðal trúarleiðtoga gyðinga og framseldur til rómverska landstjórans Pontíusar Pílatusar sem lætur að lokum undan þrýstingi og krossfestir hann. Alla tíð hefur Jesús vitað hvað beið hans enda er hann sannfærður um að með dauða sínum og upprisu muni hann leiða mennina til samfélags við sig og frelsa þá.
Almennt um myndina
Það kom mörgum á óvart að Mel Gibson, einn af vinsælustu leikurum síðari ára, skyldi gera kvikmynd um Jesúm Krist, enda hafa slíkar myndir þótt harla ólíklegar til vinsælda þrátt fyrir að meirihluti mannkyns játi trú á hann eða viðurkenni hann sem spámann. Aðsóknin á myndina í Bandaríkjunum hefur hins vegar verið gríðarleg og hefur hún fengið góðar viðtökur frá bæði ýmsum kristnum trúarhópum og almenningi eins og sjá má af Internet Movie Database, stærsta kvikmyndagagnagrunninum á netinu, en 11. mars 2004 höfðu tæp 62% áhorfenda gefið henni þar hæstu einkunn og flestir aðrir því sem næst. Aðeins rúm 9% áhorfenda töldu mynda alslæma. Engu að síður hefur myndin sætt harðri gagnrýni, m.a. frá ýmsum kvikmyndagagnrýnendum sem kvarta undan grófu ofbeldi í myndinni, guðfræðingum sem telja framsetninguna einhliða og jafnvel grunna og þrýstihópum sem vilja vera á varðbergi gagnvart hvers kyns kynþáttafordómum í samfélaginu. Ekki hafa þó allir kvikmyndagagnrýnendur og guðfræðingar tekið undir þessa gagnrýni og hafa þvert á móti ýmsir orðið til þess að hampa myndinni.
Samkvæmt trúfræði helstu kirkjudeilda kristindómsins og trúarjátningum þeirra opinberaði Guð sig í persónu hins sögulega Jesú Krists. Hann tók á sig hlutskipti manna og varð þannig sjálfur maður af holdi og blóði. Enda þótt þetta komi fram í Nýja testamentinu er ekki þar með sagt að kvikmynd geti með trúverðugum hætti sýnt hvernig Jesús Kristur gat verið jafnt Guð og maður í senn. Flestar af elstu kvikmyndunum um Jesúm Krist hafa verið gagnrýndar fyrir þá ofuráherslu sem þar er lögð á guðdóminn á kostnað manndóms hans. Fyrir vikið hafi Jesús í þessum myndum orðið áhorfendum allt í senn ofurheilagur, fjarlægur og jafnvel kuldalegur. Í kvikmyndinni Ben Hur (William Wyler: 1959) er hann t.d. svo heilagur að andlit hans er aldrei sýnt og hann segir aldrei neitt. Aðeins baksvipur hans og hendur eru sýndar og sjá má úr fjarlægð hvar hann hangir á krossinum.
Á áttunda áratugnum er hins vegar farið að draga svo mjög úr þessari ofuráherslu á guðdóminn í kvikmyndum að Jesús verður eins og hver annar maður eða því sem næst. Í söngleiknum Jesus Christ Superstar (Norman Jewison: 1973), sem verður að teljast ein af betri jesúmyndunum hvað tónlistina og kvikmyndaformið varðar, er Jesús svo til bara mennskur og hann áttar sig ekki alveg á því hvað Guð ætlast til af honum þó svo að hann sætti sig við það hlutskipti að lokum.
Sömuleiðis er farið að gera kvikmyndir þar sem Jesús og lærisveinarnir eru ekki lengur teknir of alvarlega og gert grín að öllu saman, en gamanmyndirnar La voie lactée (Luis Buñuel: 1969) og Life of Brian (Terry Jones: 1979) eru gott dæmi um það.
Í einni umdeildustu kvikmyndinni um Jesúm Krist, The Last Temptation of Christ (Martin Scorsese: 1987), er að ýmsu leyti gerð áhugaverð tilraun til að gera Jesúm Krist mennskan en guðfræðin er illa ígrunduð og telst Willem Dafoe með öllu ótrúverðugur í hlutverki hans. Þegar allt kemur til alls er The Last Temptation of Christ sennilega ein lélegasta kvikmyndin sem gerð hefur verið um Jesúm Krist.
Flestar kvikmyndir sem gerðar hafa verið um Jesúm Krist þykja misheppnaðar, ótrúverðugar og jafnvel leiðinlegar. Guðfræðingar hafa því spurt hvort það sé yfirleitt hægt að gera trúverðuga kvikmynd eftir guðspjöllunum þar sem kvikmyndaformið hæfi þeim ekki.
Í raun hafa guðfræðingar oftar en ekki verið hrifnari af svonefndum kristgervingum, hliðstæðum við Krist eða vísunum til hans í kvikmyndum, hvort sem slíkt birtist með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Kvikmyndirnar Jesus de Montréal (Denys Arcand: 1989) og The Matrix (Andy Wachowski og Larry Wachowski: 1999) hafa oft verið tilgreindar sem áhugaverðar jákvæðar kristgervingamyndir og þykir sérstaklega sú fyrrnefnda hágæðamynd.
Margir hafa sýnt áhuga á að gera kvikmyndir um Jesúm Krist en átt í erfiðleikum með að fjármagna þær. Martin Scorsese tókst það að lokum en ekki Carl Th. Dreyer. Paul Verhoeven hefur lengi haft áhuga á hinum sögulega Jesú Kristi og hefur undirbúið gerð slíkrar myndar allt frá níunda áratugnum. Þrátt fyrir að honum hafi ekki ennþá tekist að afla nægs fjármagns hefur hann lagt á sig töluverða rannsóknarvinnu fyrir myndina og m.a. tekið virkan þátt í jesúseminarinu svonefnda í mörg ár. Mel Gibson mætti líka hvarvetna lokuðum dyrum hjá fjárfestum og varð að lokum að fjármagna framleiðsluna úr eigin vasa.
Umfjöllun um trúar- og siðferðisstef
Ljóst er að kvikmyndin The Passion of the Christ er Mel Gibson mikið hjartans mál en hann hefur lengi verið virkur safnaðarmeðlimur í rómversk-kaþólsku kirkjunni, nánar til tekið í íhaldsömum klofningshópi innan hennar sem hafnar þeim nýjungum sem teknar voru upp í kirkjunni í kjölfar síðara Vatíkanþingsins árið 1965. Kvikmyndin er augljóslega gerð af trúarþörf og hefur Gibson vandað til verksins.
Kvikmyndatakan er frábær og hver myndrammi eins og listaverk. Upphafsatriðið í Getsemanegarðinum er sérstaklega glæsilegt og í raun eitt eftirminnilegasta atriðið í allri myndinni og hæfir mystísk tónlistin því vel. Klippingarnar eru sömuleiðis vel útfærðar og virka fjölmörg minningarbrotin út í gegnum alla myndina eins og órjúfanlegur hluti atburðarásarinnar um leið og þau árétta trúarlega þýðingu píslarsögunnar. Ekki kemur að sök þótt myndin sé tekin á Ítalíu og er sviðsmyndin í raun viðeigandi og trúverðug. Það verður einnig að teljast styrkleiki myndarinnar að hún skuli vera tekin upp á arameísku og latínu en ekki á ensku, en fyrir vikið virkar sviðsetningin öll trúverðugri.
Leikararnir eru vel valdir og skila sínu með ágætum, ekki síst í ljósi þess hversu mikið þeir þurfa að tjá sig á framandi tungumáli. Djöfullinn minnir að vísu á dauðann úr Det sjunde inseglet (Ingmar Bergman: 1957) en útfærslan er góð og verður leikkonan Rosalinda Celentano að teljast einn eftirminnilegasti djöfull kvikmyndasögunnar. Hann birtist sem fallinn dýrðarengill og illu andarnir taka á sig mynd barna sem leggja fórnarlömb sín í einelti. Persónusköpun Heródesar minnir óneitanlega nokkuð á þann Heródes sem birtist í söngleiknum Jesus Christ Superstar, en það þarf alls ekki að teljast neinn galli. Og rómversku hermennirnir, sem hæða Jesú og hýða, gætu sumir hverjir verið úr kvikmyndinni La passion de Jeanne d’Arc (Carl Th. Dreyer: 1928).
Jesús Kristur hefur lengst af verið leikinn af bláeygum og jafnvel ljóshærðum Evrópumönnum þótt hann hafi að öllum líkindum verið hvorugt. Það er því jákvæð tilbreyting að Mel Gibson skuli hafa valið leikara í hlutverk Jesú Krists sem gæti verið ættaður frá Mið-Austurlöndum, en auðvitað er útlit hans og yfirbragð þar engu að síður í samræmi við ótal málverk og myndir sem við könnumst við úr listasögunni. Jesús er enn bæði skeggjaður og síðhærður og hann er sárkvalinn undan syndabyrði mannsins. James Caviezel kemst vel frá hlutverki sínu sem Jesús Kristur og er hvorki of væminn né fjarlægur eins og svo margir leikarar hafa reynst í því hlutverki.
Sú mynd af Jesú Kristi sem birtist í kvikmyndinni er í megindráttum í samræmi við trúfræði og trúarjátningar helstu kristnu kirkjudeildanna, jafnt rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem rétttrúnaðarkirkjunnar og mótmælenda. Jesús Kristur er þar Guð og maður í senn. Guð tekur á sig mannlegt hlutskipti í persónu sonarins, reynir sjálfur mannlega þjáningu í sinni verstu mynd og fórnar sér með lífi sínu og dauða fyrir manninn sem hann vill leiða til samfélags við sig. Sá Jesús Kristur sem birtist í mynd Gibsons veit hvað bíður hans og hvers vegna hann þarf að ganga í gegnum það. Hann þjáist, hann er sárkvalinn, hæddur og píndur, en hann vill taka á sig það hlutskipti að bera syndir mannsins á krossinn og deyja fyrir hann. Ljóst er að ljóðið um hinn líðandi þjón Drottins úr Gamla testamentinu, sem kristnir menn hafa jafnan litið á sem spádóm um frelsunarverk Jesú Krists, liggur þar til grundvallar, en það er áréttað með beinni tilvitunun strax í upphafi myndarinnar: „…en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.“ (Jes. 53:5.)
Sennilega er þetta ein helsta ástæðan fyrir því hvers vegna svo margir kristnir trúarhópar hafa hampað myndinni því að þeir telja að hún sé í samræmi við þá trúfræðilegu áherslu sem sé að finna í guðspjöllunum og öðrum ritum Nýja testamentisins hvað varðar líf Jesú Krists, dauða hans og upprisu. Og segja má að Gibson hafi tekist nokkuð vel að sýna Jesúm Krist sem bæði Guð og mann að hætti Nýja testamentisins, en slík framsetning er vandmeðfarin og hefur fæstum kvikmyndagerðarmönnum tekist almennilega að samþætta guðdóm hans og manndóm án þess að annað yfirskyggi hitt. Áhersla myndarinnar liggur að vísu öll á píslarsögu Jesú á föstudeginum langa, en það er einnig vitnað til boðskapar hans og verka í minningarbrotunum í gegnum alla myndina og er þar dregin upp jákvæð mynd af mennsku hans, t.d. þegar hann hrasar sem lítið barn og þegar hann gantast við móður sína. Gibson hefur því tekist að fara vandrataðan meðalveg í framsetningu sinni á Jesú Kristi sem persónu sem er í senn Guð og maður jafnt.
Það er af og frá að hægt sé að saka Gibson um gyðingahatur í myndinni. Valdamiklir trúarleiðtogar gyðinga snúast vissulega gegn Jesú Kristi vegna þess að þeir telja hann ógna stöðu sinni og saka hann um guðlast, en þeir eru líka gyðingar sem fylgja honum, styðja hann og syrgja, jafnvel þótt sumir þeirra bregðist þegar á reynir eins Pétur sem afneitar honum þrisvar. Ekki eru heldur allir í öldungaráðinu sem sætta sig við handtökuna á Jesú Kristi og mótmæla að það hafi ekki verið kallað saman. Ljót mynd er hins vegar dregin upp af mörgum rómversku hermönnunum sem látnir eru berja Jesúm, hýða hann og krossfesta, en eiginkona Pílatusar hefur samúð með honum og Pontíus Pílatus þvær hendur sínar eftir að hafa mistekist að sætta alla á það að láta hann lausan. Hann vill frekar halda friðinn með því að fórna saklausum manni en að hætta á uppreisn gyðinga og ónáð keisarans sem hefur þegar ávítað hann tvisvar. Sagt hefur verið að persónusköpun Pontíusar Pílatusar sé hér óvenju jákvæð en í raun er hún í samræmi við persónusköpun hans í ýmsum öðrum jesúmyndum, t.d. í kvikmyndinni Jesus of Nazareth (Franco Zeffirelli: 1977) þar sem Rod Steiger fór með hlutverk hans. Og David Bowie var beinlínis vingjarnlegur í hlutverkinu í kvikmyndinni The Last Temptation of Christ.
Í kvikmyndinni koma við sögu ritningartextar sem einir sér hafa verið notaðir til að réttlæta gyðingahatur en ljóst er af framsetningu myndarinnar að trúarlega ástæðan fyrir því að rómversk yfirvöld tóku Jesúm Krist af lífi var sú að hann bæði þurfti og vildi líða fyrir syndir mannanna, deyja á krossi og rísa upp frá dauðum. Mel Gibson leggur áherslu á þetta í myndinni með því að negla sjálfur naglana þegar Jesús er krossfestur. Það var með öðrum orðum Mel Gibson sem krossfesti Jesúm Krist. Það vorum við öll sem krossfestum hann, hvort sem við erum Rómverjar, gyðingar eða Íslendingar.
En þótt Mel Gibson leitist við að vera trúr frásögn og trúfræði guðspjalla Nýja testamentisins kemst hann ekki hjá því að túlka ýmislegt og bæta við, en hann sækir m.a. annars innblástur í rómversk-kaþólska hefð í ýmsum atriðum, t.d. þegar Veróníka þurkar andlit Jesú með klúti sínum. Allt er það þó smekklega gert og ættu mótmælendur t.d. auðveldlega að geta samþykkt þá mynd sem dregin er upp af Maríu, móður Jesú, í myndinni.
Engu að síður er ýmislegt í myndinni sem hægt er að gera athugasemdir við og deila um. Strax í upphafi myndarinnar er vitnað í þjónsljóðið úr Deutro-Jesaja og það sagt frá því um 700 f.Kr. Fundamentalistar myndu flestir taka undir þetta en aðrir guðfræðingar líta yfirleitt svo á að textinn sé a.m.k. tveim öldum yngri. Sömuleiðis má deila um það hvort Jesús hafi verið síðhærður, hvort hann hafi kunnað latínu eða hafi getað smíðað jafn nútímalegt borð eins og hann gerir í myndinni. Margt bendir ennfremur til þess að naglarnir sem Jesús var krossfestur með hafi ekki verið reknir í gegnum lófa hans eins og sýnt er í myndinni heldur í gegnum úlnliði hans. Það var hin hefðbundna rómverska krossfesting. Og ekkert í Nýja testamentinu gefur tilefni til að álykta að María Magdalena hafi verið hórseka konan eins og fram kemur myndinni og raunar flestum slíkum myndum.
En spyrja má hvort nokkuð af þessu skipti máli. Við vitum það eitt um útlit Jesú Krists að hann var frá Mið-Austurlöndum. Samkvæmt guðspjöllunum gerði Kristur ótal kraftaverk og er sagt að þau hafi verið mun fleiri en þar er frá greint. Gæti hann ekki vel hafa sagt eitthvað á latínu líka og jafnvel smíðað þokkalegt borð? Samkvæmt trúarjátningunum var Jesús ekki aðeins smiður heldur skapari heimsins, opinberaður sem maður. Og skiptir það nokkru máli þótt María Magdalena renni saman í eitt með hórseku konunni. Það er gömul hefð fyrir því að líta á þær sem einu og sömu persónuna og þannig hefur það iðulega verið sett fram í kvikmyndum. María Magdalena verður ekki síðri persóna þótt hún sé bendluð við hórdóm.
Myndin hefur sömuleiðis verið gagnrýnd fyrir þá áherslu sem hún leggur á píslarsögu Krists og hversu nákvæm mynd er dregin þar upp af því með hvaða hætti hann var píndur og drepinn. Ýmsir guðfræðingar og jafnvel trúarhópar halda því fram að píslargangan, krossfestingin og upprisan séu í raun aukaatriði í kristinni trú og skipti jafnvel ekki máli. Boðskapur Jesú Krists hafi ekki snúist um yfirvofandi dauða hans og upprisu heldur kærleika Guðs, siðferði og mannleg samskipti. Þess vegna hafi dauði hans ekki verið vilji Guðs heldur glæpur þeirra sem tóku hann af lífi. Enn aðrir guðfræðingar segja að ekki megi aðgreina píslargöngu Krists, dauða hans og upprisu frá lífi hans og boðskap og því verði að gæta að jafnvægi í jafnt boðun orðsins sem allri listrænni framsetningu.
Ljóst er af guðspjöllunum og öðrum ritum Nýja testamentisins að þar er fórn Jesú Krists, krossdauði hans og upprisa grundvallaratriði í lífi hans og dauða. Það ætti því ekki að koma á óvart að kristnir menn séu uppteknir af þessum atriðum, að helstu hátíðir þeirra snúist um þau og listaverk þeirra sæki innblástur til þeirra.
Rómverjar tóku tugþúsundir manna af lífi með þessum hryllilega hætti sem krossfestingin var. Og alla tíð hafa menn verið pyntaðir og myrtir fyrir alls kyns sannar eða rangar sakir. Þeir eru ófáir sem sætt hafa áþekkum pyntingum og Jesús Kristur gengur í gegnum í myndinni og það jafnvel yfir mun lengra tímabil. Saga helstu alræðisríkja tuttugstu aldarinnar er blóði drifin.
Að vísu var tilgangurinn með hýðingunni sá að forða Jesú frá krossfestingu en þegar trúarleiðtogarnir neita að sætta sig við það er úti um hann. Ekki er ósennilegt að Rómverjar hafi beitt gaddasvipum áþekkri þeirri sem Jesús Kristur er hýddur með í myndinni. Atriðið þar sem gaddarnir festast í síðu hans og rífa hana upp er sannarlega ógeðslegt, í raun það svakalegasta í allri myndinni, og spyrja má hvort það hefði mátt missa sín. Sömuleiðis eru svipuhöggin of mörg til að venjulegur maður geti lifað þau af, alls á annað hundrað.
Ég vorkenni hins vegar engum að sjá Jesúm Krist barinn, hýddan og krossfestan í kvikmynd. Allir hafa gott af því að sjá hvað fólst í þessum pyntingum og þessum dauða. Styrkleiki myndarinnar er m.a. fólginn í því raunsæi sem þar er dregið fram. Og sú gagnrýni er alröng að limlestingar séu það eina sem vaki fyrir leikstjóranum. Friðþægingartrúfræðin er þar til staðar og myndin vísar með ótal áhugaverðum dæmum aftur til lífs Jesú Krists og boðskapar hans.
Ekki er heldur ástæða til að amast við því þótt Jesús Kristur rísi upp frá dauðum í myndinni. Þetta er grundvallaratriði í postullegum kristindómi hvað svo sem menn hafa um upprisuna að segja, með hvaða hætti hún var eða hvort hún hafi nokkurn tímann átt sér stað.
Enda þótt deila megi um ýmislegt í þessari mynd Gibsons má segja að honum hafi í heildina tekist vel upp. Hún jafnast alveg á við bestu kvikmyndirnar um Jesúm Krist, Il vangelo secondo Matteo (Pier Paolo Pasolini: 1965) og Jesus of Nazareth (Franco Zeffirelli: 1977), og er jafnvel mun betri en þær. Ekki kæmi á óvart þótt hún verði talin til mikilvægra trúarlegra kvikmynda á komandi árum. Þar sem hún stefnir þegar í að verða ein af vinsælustu kvikmyndunum til þessa má ætla að hún geti haft nokkur áhrif á þær hugmyndir sem almenningur hefur um Jesúm Krist, ekki síst í hugum þeirra mörgu sem verja meiri tíma í kvikmyndir en bóklestur. Það eru ekki allir sem gefa sér tíma til að lesa Biblíuna.
Í ljósi þeirrar aðsóknar sem myndin hefur þegar fengið og þeirra vinsælda sem hún virðist njóta má spyrja hvort hún eigi eftir að verða Passíusálmar 21. aldarinnar. Hverjum hefði dottið það til hugar á 20. öldinni að biblíuleg jesúmynd á arameísku og latínu myndi slá aðsóknarmet á 21. öldinni?
Beinar tilvísanir í texta trúarrits 1M 3:15; 2M 3:14; 2M 11-15; 2Kon; 2:11; Jes 53:5; Mt 5:43-46; Mt 21:1-11; Mt 26-28; Mk 11:1-11; Mk 14-16; Lk 19:28-38; Lk 22-24; Jh 8:1-11; Jh 10:11-18; Jh 12:12-19; Jh 13:1-20; Jh 13:36-38; Jh 14:6; 15:13; Jh 18-21
Hliðstæður við texta í trúarritum 1M 3; Jes 53:5
Persónur úr trúarritum Jesús Kristur, Guð, lærisveinar, María Mey, María Magdalena, María, Marta, Pétur, Jóhannes, Kaífas, Pontíus Pílatus, Heródes, Júdas, Satan, Lillith, illir andar, djöflar, Abenader, Kládía, Veronika, Elía, Barrabas, Annas, Malkus, Símon frá Kyrene
Sögulegar trúarpersónur
Guðfræðistef bölvun, kraftaverk, guðlast, synd, sannleikur, spádómur, fórndardauði, þjáning, upprisa, forvitun, alvitund, endurlausn, fórn, himnaríki, angist, köllun
Siðfræðistef svik, ofbeldi, stríð, lygi, háð, hroki, illska, samkynhneigð, dauðadómur, bylting, pynting, reiði, kvalalosti, hatur
Trúarbrögð gyðingdómur, farísear
Goðsögulegir staðir og helgistaðir Jerúsalem, Golgata, Musterið, hallargarður æðstaprestsins, via dolorosa, torg sem staðir illsku og múgæsings
Trúarlegar hátíðir og sögulegir atburðir hvíldardagurinn, páskahátíðin, fórnardauði Krists
Trúarleg tákn 30 silfurpeningar, snákur, dúfa, þyrnikóróna, handþvottur, fótaþvottur, brotning brauðs, altarissakramenti, illfygli í auga, sól (guðstákn), vatn, þyrnikóróna, purpurarautt klæði
Trúarembætti æðsti prestur, rabbíi, öldungur
Trúarlegt atferli bæn, brauðsbrotning, síðasta kvöldmáltíðin
Trúarleg reynsla forspá, kraftaverk, friðþæging, fórn