Leikstjórn: Sidney Lumet
Handrit: Morton S. Fine og David Friedkin, byggt á sögu eftir Edward Lewis Wallant
Leikarar: Rod Steiger, Geraldine Fitzgerald, Brock Peters, Jaime Sánchez, Thelma Oliver, Marketa Kimbrell og Baruch Lumet
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1964
Lengd: 111mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Hér er á ferðinni áhrifarík kvikmynd sem fjallar um Sol Nazermann, miðaldra Gyðing í New York sem misst hefur alla fjölskyldu sína í helförinni en sjálfur komist lífs af. Hann er augljóslegar þjakaður af sektarkennd yfir því að hafa haldið lífi án þess að geta bjargað lífi fjölskyldu sinnar. Hann starfar sem veðlánari þar sem hann kemur mjög kuldalega fram við viðskiptavini sína. Hann vill greinilega forðast öll mannleg samskipti og hefur tjáð sig um að hann láti sig framtíðina engu varða.
Vörn hans gagnvart þeim hryllingi sem hann hefur upplifað er sú að loka á allar tilfinningar og þannig birtist hann viðskiptavinum sínum sem algjörlega tilfinningalaus mannvera. Þegar 25 ár eru liðin frá dauða konu hans taka minningarnar um hina látnu fjölskyldu hans að sækja á hann sterkar en áður.
Almennt um myndina:
Myndin sem er sýnd í svart-hvítu hefst á mjög hugljúfan hátt og atriðið er sýnt hægt (í „slow-motion”). Börn eru glaðleg á leik í háu grasi að eltast við fiðrildi. Hamingjan skín út úr þeim og ekki síður úr foreldrum þeirra sem fylgjast með börnum sínum að leik. Fegurð eiginkonunnar ungu leynir sér ekki og eins sjáum við eldri hjón í gyðinglegum klæðum (sýnilega afa og ömmu barnanna) sitja á teppi undir tré með nestiskörfu og njóta fegurðarinnar, kyrrðarinnar og veðursins.
Faðirinn tekur börnin í fang sér, faðmar þau að sér og áhorfendum myndarinnar dylst ekki að þetta fólk nýtur lífsins, er mjög hamingjusamt. Þarna ríkir sannkallað paradísarástand. Skyndilega heyrast drunur og fjölskyldan lítur upp, undrandi og óttaslegin, en áhorfandinn er látinn bíða í óvissu um hvað drunurnar boða. Þetta er óneitanlega mjög sterkt og áhrifamikið upphafsatriði í kvikmynd.
Næsta atriði sýnir þreytulegan miðaldra mann í bandarísku umhverfi á sólbekk úti í bakgarði húss í úthverfi borgar. Hávær tónlist Leslie Gore gefur til kynna að þetta sé í upphafi sjöunda áratugarins. Maðurinn virðist ákafalega sinnulaus um það gerist í kringum hans eða nær væri að segja að ólundin skíni út úr öllu fasi hans. Andstæðan við hið kyrrláta svið í upphafi myndarinnar er augljós. Eitthvað hefur gerst sem hefur orðið þess valdandi að hinn hamingjusami faðir í upphafi myndarinnar býr ekki lengur við neina hamingju.
Sú skoðun styrkist er við sjáum hann að störfum sem veðlánara í spænska hluta Harlem-hverfisins. Verslun veðlánarans er girt rimlum og Sol sést jafnan fyrir innan rimlana. Það er eins og hann sé í fangelsi. Hann er sýnilega fyrir löngu búinn að glata sinni paradís.
Rimlarnir skapa óneitanlega hugrenningatengsl við girðingu útrýmingarbúða nasista þaðan sem minningar sækja stöðugt á veðlánarann og þær ágerast um allan helming þar sem nú eru liðin 25 ár frá dauða konu hans. Aftur og aftur fær áhorfandann að sjá að á dagatalinu stendur 29. september og það dylst ekki að sá dagur hefur skipt Sol Nazermann miklu.
Á þessum minningardegi í lífi hans magnast upp sektarkenndin sem hann hefur reynt að bæla niður með því að sýna aldrei svipbrigði, gæta þess að komast ekki í samband við viðskiptavini sína þrátt fyrir það að sumir þeirra komi í verslun hans fremur í leit að mannlegum samskiptum og samræðum heldur en til að veðsetja einhvern grip. Það á til dæmis við um dyrkkfelldan blökkumann (leikinn af Juano Hernandez) sem vill ræða um heimspekinga eins og Plato og Voltaire, en veðlánarinn virðist ekki svo mikið sem heyra hvað þessi viðskiptavinur hans segir.
Minningarnar hellast yfir Sol Nazermann og er endurlit (flash-back), þ.e. leifturmyndir frá liðinni tíð, mikið notað í kvikmyndinni til að koma minningum til skila. Í fyrstu sjást þessar leifturmyndir aðeins í sekúndubrot eða svo en smám saman ágerast þær og verða lengri. Þannig fáum við smám saman betri innsýn í fortíð Sol Nazermanns, hvað það er sem veldur því að hann virkar jafn bitur og raun ber vitni.
Þegar blökkukona berar brjóst sín fyrir honum í viðleitni til að fá betur greitt fyrir grip sem hún ætlaði að veðsetja þá sér Sol fyrir sér nakna eiginkonu sína þar sem nasistar eru að misnota hana og einn varðanna í búðunum hefur þvingað Sol til að horfa á það sem þar fer fram með því þrýsta höfði hans í gegnum rúðu í skála einum í þrælkunarbúðunum.
Þegar Sol er á leið heim í neðanjarðarlest ágerast endurminningarnar um allan helming. Honum finnst hann upphaflega þekkja Gyðinga í lestinni en fyrr en varir er hann ekki lengur staddur í sömu lest. Hann er staddur inni í gripalest troðflullri af Gyðingum á leið í þrælkunar- eða útrýmingarbúðir. Í þrengslunum sjáum við þegar honum mistekst að halda syni sínum á öxlum sér og missir hann og það verður bani drengsins.
Leikur Rod Steigers í hlutverki veðlánarans í þessari mynd er hreint út sagt stórkostlegur, ekki síður en í kvikmyndinni Hinn útvaldi (The Chosen), sem einnig er fjallað um í þessari bók. Margir hafa furðað sig á hvernig það mátti verða að hann skyldi ekki hljóta óskarsverðlaunin í þessari mynd, en tilnefningu til verðlaunanna hlaut hann vissulega. Þá hlaut hann verðlaun sem besti leikarinn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín og sömuleiðis hliðstæð verðlaun frá Bresku akademíunni.
Til marks um hversu frábær leikur Rod Steigers hefur eftirfarandi saga verið sögð. Þegar Rod Steiger var í Ísrael til að kynna Veðlánarann tók rétttrúaður Gyðingur eftir því að hann var þungur á brún, gekk til hans og spurði hvað amaði að honum. Steiger sagði að hann væri þarna í hópi sem ætti að kynna myndina. Hann óttaðist hins vegar að hann vanhelgaði minningu fórnarlamba helfararinnar, sérstaklega vegna þess að hann sjálfur væri ekki Gyðingur. Viðbrögð hins rétttrúaða Gyðings voru þau að spyrja hvort hann væri raunverulega leikarinn sem léki Sol Nazerman. Þegar hann staðfesti að svo væri svaraði Gyðingurinn. „Hafðu ekki áhyggjur. Þú ert Gyðingur.”
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þjáning Sol Nazermanns er augljós og mikil. Þar kemur sektarkennd augljóslega við sögu samfara söknuði og hatri í garð þeirra sem sviptu hann hamingjunni. Það er alþekkt að margir sem lifðu af útrýmingarbúðir nasista voru haldnir mikilli sektarkennd yfir því að hafa komist af er ættingjar þeirra og ástvinir höfðu látið lífið. Þeim fannst sem þeir ættu ekki skilið að lifa og margir fyrirfóru sér eftir að hafa komist lífs af úr útrýmingarbúðum.
Viðbrögð Sols við þjáningunni eru sýnilega þau að loka á allar tilfinningar og forðast samskipti við fólk sem hann yfirleitt afgreiðir á mjög kuldalegan hátt, jafnvel af hreinni fyrirlitningu. Hann hefur sýnilega misst trúna á hið góða í manninum. Lífslöngun hans er sömuleiðis í algjöru lágmarki. Hann segir á einum stað að hann láti sig framtíðina engu skipta. Hann sér engan tilgang í lífinu. Von hans virðist bundin við það eitt að losna undan tilfinningunum.
Því hefur verið haldið fram að líta megi á veðlánsbúð Sols Nasermanns sem „metafóru” fyrir tilfinningalíf hans sem er fullt upp í kok af minningum sem aldrei verður aflétt, ekki fremur en hlutirnir sem veðsettir hafa verið verða sóttir. Þetta finnst mér skemmtileg tilgáta og sannfærandi.
Þrátt fyrir að lítið fari fyrir tilvitnunum í trúarleg rit í myndinni fer ekki á milli mála að í henni eru trúarlegir undirtónar og táknmál. Aðstoðarmaður Sols í versluninni er frá Puerto Rico og heitir Jesus Ortiz (Jamie Sanchez). Hann lítur á Sol sem kennara sinn.
Í samtölum þeirra kemur ýmisleg athyglisvert fram. Aðstoðarmaðurinn spyr eitt sinn hvort viðskiptavinirnir séu ekki börn Guðs og í framhaldi af því hvort Sol trúi á Guð. „Nei, ég trúi ekki á Guð”, svarar Sol afdráttarlaust og hamrar síðan á því aftur og aftur að peningar séu það eina sem skipti máli.
Aðstoðarmaðurinn spyr einnig hver sé lykillinn að viðskiptahæfileikum Gyðinga. „Þú vilt vita leyndarmálið að baki árangri okkar?” spyr Sol reiðilega og heldur síðan lengstu ræðu sína í myndinni: „Fyrst byrjar maður með nokkurra þúsund ára tímabil þar sem maður hefur ekkert að styðjast við nema mjög gamla goðsögn. Allt sem þú hefur er dálítill heili, en goðsögnin sannfærir þig um að þú sért sérstakur, jafnvel í fátækt. En þessi litli heili er hinn raunverulegi lykill því að með aðstoð heilans ferðu af stað og kaupir efnisbút. Þú skiptir þessum búti í tvennt og selur hann á einu penní meira en þú keyptir hann fyrir … þar til þú kemst að því að þú ert ekkert nema lögbrjótur, veðlánari,” segir Sol Nazermann og ræðan bendir ekki til þess að hann sé neitt sérlega stoltur af árangri sínum í viðskiptum. Þó hefur hann hamrað á því við aðstoðarmann sinn að peningar séu það eina sem skipti máli.
Vel get ég tekið undir þá skoðun sem K. Bernheimur hefur látið í ljós að aðstoðarmaðurinn láti lífið fyrir syndir Sols og honum til hjálpræðis. Sömuleiðis kallast lokaatriði myndarinnar á við krossfestingu Krists. Sol sem endurupplifað hefur þjáningu vegna dauða þess manns sem stóð honum næst þrýstir hönd sinni hægt niður á prjón, svo hann stingst alveg í gegnum lófann. Þannig þvingar hann sjálfan sig til að finna til þess sársauka sem hann getur ekki lengur umflúið. Síðan reikar hann út á götu, út meðal mannfjöldans.
Ekki verður þó séð að þar eigi sér stað nein andleg upprisa eða endurlausn í lífi Sols Nazermanns. Kannski aðeins vissa hans um að hann fái ekki umflúið þjáninguna, afskiptaleysi hans gagnvart samborgurunum hafi reynst blindgata í þeirri viðleitni.
Í ljósi þess að rit þetta hefur ekki síst að markmiði að kanna samspil þjáningar og vonar í helfararmyndum er óhætt að slá því föstu að í þessari mynd er enginn skortur á þjáningu en lítið fer fyrir voninni.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 14:25
Guðfræðistef: hjálpræði, guðstrú, guðleysi, fórnardauði
Siðfræðistef: helförin, stríð, fyrirlitning, hið góða í manninum, samskipti, lífslöngun, von, þjáning, sektarkennd, söknuður, hatur, tilfinningarleysi
Trúarbrögð: gyðingdómur, nazismi
Trúarleg tákn: hakakross
Trúarleg reynsla: guðleysi