Leikstjórn: Domenico Paolella
Handrit: Alessandro Ferraú, Domenico Paolella og Sergio Sollima
Leikarar: Dan Vadis, Gloria Milland, José Greci, Sergio Ciani, Nando Tamberlani, Andrea Aureli, Tullio Altamura, Sal Borgese, Gianni Santuccio og Consalvo Dell’Arti
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1963
Lengd: 95mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Árið 180 e.Kr. neyðir blóðþyrstur keisari Rómarveldis vöfðatröllið og bardagahetjuna Úrsus til að gerast skylmingarkappi í Rómarborg gegn því að lífi unnustu hans og þorpsbúa verði þyrmt.
Almennt um myndina:
Þetta er ein af ótal mörgum sandalamyndum Ítala frá sjötta og sjöunda áratugnum. Leikstjórinn Domenico Paolella er sennilega þekktastur fyrir nunnumyndirnar The Nuns of Saint Archangel (1973) og Story of a Cloistered Nun (1973) en annar meðhandritshöfunda hans er Sergio Sollima sem síðar átti eftir að gera tvo af bestu spaghettí-vestrunum, The Big Gundown (1966) og Face to Face (1967).
Myndin er alveg viðunandi þó svo að sumir leikararnir virki frekar stirðbusalegir og sagnfræðin sé ekki kórrétt. Myndgæðin á DVD diskinum frá Brentwood eru hins vegar skelfileg. Strax í upphafi myndarinnar stendur stórum stöfum að hún sé tekin í Eastmancolor, sem auðvitað þýðir að hún eigi að vera í lit, en samt er hún svart/hvít og óskýr í þokkabót, svo ekki sé minnst á það að hér er um að ræða ömurlega „pan and scan“ útgáfu. Svo virðist sem myndin hafi verið færð á diskinn af gamalli slitinni myndbandsspólu eins og flest annað sem kemur frá þessu alræmda DVD útgáfufyrirtæki.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Úrsus berst ekki lengur með vopnum og þyrmir alltaf lífi andstæðinga sinna vegna þess að hann hefur gerst kristinn og trúir því að Guð sé kærleiksríkur og miskunnsamur. (Það hindrar hann samt ekki í að beita hnefunum þegar því er að skipta.)
Þegar hann þyrmir lífi keisarans í orrustu við Rómverja í heimahéraði sínu, tekur keisarinn því sem auðmýkingu og heitir þess að hefna sín á vöfðatröllinu og kristnum trúbræðrum hans. Nokkrir þingmenn og hershöfðingar frá Rómarborg reyna hins vegar að notfæra sér líkamsstyrk Úrsusar til að steypa keisaranum af stóli, en lífsspeki þeirra sem og annarra heiðinna uppreisnarmanna er að gjalda beri auga fyrir auga. Úrsus neitar að drepa keisarann og eiga rómversku samsærismennirnir erfitt með að skilja það. Meira að segja eiginkona keisarans snýst gegn manni sínum en hættir við á síðustu stundu að drepa hann sofandi þegar hún minnist þeirrar bænar kristinna manna að vilji Drottins verði (Mt 6:10), enda hefur hún heillast af kristinn trú.
Einnig koma við sögu umræður um trúarlega þýðingu bálfara og greftrana en ýmsir hneykslast þegar keisarinn lætur brenna lík föður síns í upphafi myndarinnar.
Jákvæð mynd er dregin upp af kristinni trú í myndinni og er ekki laust við að aðstandendur hennar virðist heillaðir af henni. Þó gæti framsetningin allt eins hafa verið skálkaskjól þeirra til að fá að gera ofbeldisfulla hasarmynd. Allavega urðu nunnumyndir Paolellas síðar meir alls ekki jákvæðar í garð rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem stofnunnar.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:10
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Guðfræðistef: vilji Guðs, guðir, frelsun, dauðinn, lífið, trú, samfélag með guðum, reiði guðanna, miskunnsemi Guðs
Siðfræðistef: friður, stríð, skylmingar, þrælahald, slagsmál, heiður, aftaka, dauðarefsing, vopnaburður, samsæri, drottinsvik, útrýming trúarhóps, auðmýking, lygi
Trúarbrögð: kristindómur, rómversk goðafræði
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, bálför, greftrun, sverja