Leikstjórn: Fred Zinnemann
Handrit: Richard Schweizer, David Wechsler, Paul Jarrico og Mongomery Clift
Leikarar: Mongomery Clift, Aline MacMahon, Jarmila Novotna, Wendell Corey, Ivan Jandl, Mary Patton, Eward G. Morrison, William Rogers, Leopold Borkowski og Claude Gambier
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1948
Lengd: 105mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um ungan dreng Karel að nafni (Ivan Jandl) og Hönnu móður hans (Jarmila Novotna) sem bæði hafa lifað af vist í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz en síðan orðið viðskila hvort við annað. Drengurinn kemst undir verndarvæng bandarísks hermanns (Montgomery Clift) sem lætur sér mjög annt um hann og hefur í hyggju að taka hann með sér heim til Bandaríkjanna. Þrá drengsins unga Karel eftir Hönnu móður sinni og leit hennar að honum eru meginstef myndarinnar sem er tekin á söguslóðum, í borgarrústum Þýskalands skömmu eftir stríðslok.
Myndin hefst á því að lest kemur á áfangastað og þegar vagnarnir eru opnaðir (sem virðast sömu eða svipaðrar gerðar og gripavagnar Nasistanna) reynast þeir fullir af sofandi börnum. Góðleg kona lýsir með vasaljósi inn í vagninn og segir: ‚Komið út börn!‘ Heimsstyrjöldinni er lokið en þjáningu barnanna ekki, eins og sögumaður myndarinnar segir. Þarna var aðeins saman komið brot af milljónum munaðarlausra barna, upplýsir sögumaðurinn einnig.
Karel aðalpersónu myndarinnar leggur á flótta ásamt vini sínum, þeir hræðast flutningabíla sem merktir eru Rauða krossinum og reykurinn úr púströri bílanna minnir þá á gas útrýmingarbúðanna. Þeir flýja út í á og fela sig þar í sefinu, en þar drukknar vinur Karels og einnig sjáum við húfu Karels fljóta niður eftir ánni þannig að hann er einnig talinn af.
Móðirin kemur heim til Tékkóslóvakíu að loknu stríðinu og kemst að því að bæði eiginmaður hennar og dóttir eru látin en ekkert er vitað um örlög sonar hennar, sem aðeins er níu ára að aldri. Hún hefur nú göngu um Evrópu þvera og endilanga í leit að honum úr einum flóttamannabúðunum í aðra, úr einu munaðarleysingjahælinu í annað. Þar kemur að hún hittir fólk sem getur sagt henni af drengnum hennar og það eru dapurlegar fréttir. Hann hafði verið undir verndarvæng þeirra en flúið og drukknað í ánni.
Þegar Karel spyr Steve bjargvætt sinn í enskukennslunni hvað ‚móðir‘ merki og í framhaldi af því um móður sína fær hann einnig að vita að móðir hans sé látin. En þau reynast bæði á lífi og um síðir liggja leiðir þeirra saman.
Almennt um myndina:
Þessi helfararkvikmynd er ekki síst athyglisverð fyrir þá staðreynd að hún er tekin í rústum Þýskalands á yfirráðasvæði Bandaríkjamanna skömmu eftir stríð. Hún sýnir vel hversu mikil eyðileggingin var í ýmsum borgum Þýskalands í stríðslok. Myndin veitir okkur innsýn í hvernig börn verða jafnan fórnarlömb styrjalda þó svo að helförin verði að teljast sér á báti hvað það varðar að þar átti að útrýma börnum ekki síður en fullorðnum fyrir það eitt að vera af ákveðnum kynþætti. Meginstef myndarinnar er leit móður að ungum syni sínum og þrá og söknuður sonarins eftir móður sinni en þau höfðu bæði lifað af útrýmingarbúðir nasista. Þá er myndin athyglisverð fyrir þá sök að þarna birtist Montgomery Clift fyrst á hvíta tjaldinu.
Þetta er ein allra fyrsta helfararmyndin (fer þó eftir því hvernig helfarmynd er skilgreind) og ein fyrsta myndin sem tekin er upp í Þýskalandi að loknu síðari heimsstyrjöldinni. Myndin er talsvert í heimildamyndarstíl framan af og þarf það ekki að koma á óvart í ljósi þess að leikstjórinn Fred Zinnemann hafði áður einkum fengist við gerð heimildamynda og hlotið Óskarsverðlaun fyrir. En þó að myndin sé dálítið í heimildamyndastíl framan af þar sem rödd sögumanns er mikið notuð þá breytist það þegar líður á myndina, ekki síst með tilkomu Montgomery Clift og eftir það er mikið spilað á tilfinningar áhorfenda.
Montgomery Clift hafði vissulega þegar leikið í kvikmyndinni Red River en frumsýning hennar dróst á langinn þannig að áhorfendur sáu hann fyrst í hlutverki bandarísks hermanns sem tók að sér lítinn tékkneskan dreng sem lifað hafði af vist í Auschwitz-búðunum illræmdu. Clift birtist áhorfendum tvívegis á sama árinu (1948) í kvikmyndum sem mikla athygli vöktu. Hann varð á skömmum tíma stjórstjarna í kvikmyndaheiminum og til marks um það er að hann var á forsíðu Life Magazine í desember 1948. Þeir Zinnemann og Montgomery Clift áttu síðar eftir að vinna saman í hinni mjög svo vinsælu kvikmynd From Here to Eternity.
Ivan Jandl sem lék tékkneska drenginn Karel fékk sérstök Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína í myndinni en átti ekki eftir að koma frekar við sögu kvikmyndanna. Þetta var eina myndin sem hann lék í.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í endurliti (flash back) snemma í myndinni er áhorfendum veitt innsýn í menningarheimili í Tékkóslóvakíu, heimili dr. Jan Maliks í Prag. Okkur birtist hamingjuríkt fjölskyldulíf þar sem fjölskyldan leikur tónlist saman í hlýlegri og ríkmannlegri setustofu. Faðirinn leikur á selló, dóttirin á fiðlu, móðirin á píanó og syngur. Sonurinn ungi situr við borð og les í bók. Öryggi og friður umlykja fjölskylduna í setustofu heimilisins þar sem hlýlegar gardínur, blóm í vasa, falleg húsgögn og síðast en ekki síst tónlistin leggjast á eitt við að skapa hamingjuríkt og traustvekjandi andrúmsloft. Hér má greina paradísartilveru sem skyndilega er rofin af óhugnaði nasismans: Skyndilega heyrist hávaði, fjölskyldan lítur óttaslegin upp, barið er fast á dyrnar. Paradísartilveran er rofin. Hér er m.ö.o. á ferðinni paradísarmissir, biblíulegt stef (1M 3) sem átti eftir að verða mjög áberandi í fjölmörgum helfararmyndum sem síðar komu.
Meginþema myndarinnar, leit móðurinnar að syni sínum og söknuður og þrá hans eftir móður sinni, skapa óhjákvæmilega hjá þeim sem handgengnir eru Biblíunni hugrenningatengsl við hinn kunna texta í Jesaja 49:15: ‚Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.‘
Nafn móðurinnar Hanna Malik minnti mig á Hönnu Gamla testamentisins, þá konu sem öðrum fremur þráði að eignast barn og eignaðist það með Guðs hjálp (1 Sam 1). Það er vissulega langsótt að ímynda sér að það hafi verið í huga þeirra sem stóðu að gerð þessarar myndar en ég leyfi mér að nefna þessa minnistæðu kvenpersónu Gamla testamentisins þar sem ákveðin hliðstæða er óneitanlega fyrir hendi.
Eins og í öllum helfararkvikmyndum fáum við innsýn í illsku nasismans, þrælkunar- og útrýmingarbúða þeirra. En í þessari mynd hvílir áherslan á því sem tók við í stríðslok og þá einkum þeim kærleika sem ýmsir sýndu þá í verki gagnvart hinum stríðshrjáðu börnum.
Náungakærleiki í verki birtist í umhyggju bandaríska hermannsins Ralph ‚Steve‘ Stevenson (Montgomery Clift) fyrir litla tékkneska drengnum Karel. Bandaríkjamaðurinn lokkar drenginn upphaflega til sín með brauðsneið úr húsarústum þýsku borgarinnar (Munchen?) og sýnir honum jafnan eftir það mikla ástúð, leggur sig við að kenna drengnum ensku og er meira að segja reiðubúinn að ganga honum í föðurstað. Það er vert að veita því athygli að í enskukennslunni sýnir Steve Karel litla mynd af Abraham Lincoln og kennir honum nafn hans, þ.e. þess Bandaríkjaforseta sem þekktastur er fyrir baráttu gegn kynþáttamisrétti (þrælahaldi).
Þegar Steve finnur Karel veit hann ekki nafn hans og drengurinn getur ekki sagt til nafns heldur. Hann er aðeins með númer á handleggnum, sem sýnir að hann hefur verið í Auschwitz. Steve gefur honum nafnið ‚Jim‘. Sú nafngift, það hvernig Steve vinnur bug á ótta drengsins og hjálpar honum, kallar fram í hugann annan þekktan texta úr Jesajaritinu (Jes 43:1): ‚Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla þig með nafni, þú ert minn.‘
Ekki er náungakærleikurinn minni þáttur í fari forstöðukonunnar frú Murray (Aline MacMahon) sem sýnir munaðarlausu börnunum mikla ástúð og umhyggju og telur Hönnu Malik, móður Karels, á að koma og starfa með þeim þar sem sonur hennar er almennt talinn hafa drukknað. Hlutverk Murray er stórt í myndinni. Hún tekur á móti óttaslegnum og hrjáðum börnunum er þau koma með lestinni í byrjun myndarinnar og hún býr þau undir ferðina til Landsins helga í lokin og allt fas hennar ber vitni um hjartahlýju og kærleika.
Þó að höfuðpersónur myndarinnar séu ekki Gyðingar fá áhorfendur í lok myndarinnar að sjá hvar verið er að búa börn á munaðarleysingjahælinu undir langferð til fyriheitna landsins Ísraels (sem hlaut sjálfstæði 14. maí 1948 eða sama ár og myndin var gerð). Þar er því um exodus-stef að ræða þó að ekki gegni það stóru hlutverki í myndinni, þ.e. björgun úr ánauð og þjáningu með ferð til hins fyrirheitna lands. Börnin syngja glaðværa gyðinglega söngva á hebresku og mynd af stofnanda Síonismans, Theodor Herzl, blasir við á vegg í salnum þar sem verið er að kveðja börnin.
Ýmsum þykja endurfundir móður og sonar í lok myndarinnar óraunsæir og fjarri því endurspegla það sem algengast var í stríðslok, þ.e. að þeir sem lifðu af höfðu ekki upp á ástvinum sínum. Hvað sem um þá skoðun má segja þá fer móðurástin hér með sigur af hólmi, móðirin sem aldrei gaf upp vonina um að hafa upp á syni sínum hlýtur að lokum bænheyrslu.
Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 43:1; Jes 49:14, 1M 3; 1Sam 1
Sögulegar persónur: Abraham Lincoln, Theodor Herzl
Guðfræðistef: Von, paradísarmissir, sjalom, Síonismi, exodus, fyrirheitna landið
Siðfræðistef: Kynþáttaofsóknir, kynþáttamisrétti, þjóðarmorð, gyðingahatur, réttur, náungakærleikur, móðurást
Trúarbrögð: Kristni (rómversk-kaþólsk), nasismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, kirkjugarður
Trúarleg tákn: Davíðsstjarna, kross, rauði krossinn, róðukross, hakakross, hökull, sálmabók, prestaskrúði
Trúarleg embætti: kórdrengur, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: orgelleikur, sálmasöngur
Trúarleg reynsla: bænheyrsla (að endurheimta barn sem talið var látið)