Leikstjórn: Roy Ward Baker
Handrit: Jimmy Sangster
Leikarar: Robert Horton, Sebastian Cabot, Jill St. John, Eleanor Summerfield, Lee Montague, Douglas Sheldon, Robert Russell, Barbara Shelley, Harvey Hall og Donald Morley
Upprunaland: Bretland
Ár: 1969
Lengd: 70mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Breska leyniþjónustan neyðir fyrrverandi liðsmann sinn, sem hætt hafði störfum fimm árum áður vegna óheiðarlegra starfshátta hennar, til að hafa uppi á týndri minnisbók með mikilvægum upplýsingum um nokkra njósnara.
Almennt um myndina:
Nokkuð góð en samt ekki gallalaus njósnamynd frá kaldastríðsárunum sem verður að teljast mjög í anda ritverka Johns le Carré. Þrátt fyrir tiltölulegan stuttan sýningartíma er sögufléttan það flókin og framvindan óvænt að áhorfandinn þarf að hafa sig allan við til að týna ekki þræðinum.
Leikstjórinn Roy Ward Baker er sennilega þekktastur fyrir stórslysamyndina A Night to Remember (1958) sem er ein sú besta sem gerð hefur verið um Titanic slysið. Leikararnir eru líka margir ágætir, en Jill St. John átti síðar eftir að leika aðalkvenhlutverkið í James Bond myndinni Diamonds Are Forever (Guy Hamilton: 1971).
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Efni þessarar kaldastríðsnjósnamyndar er fyrst og fremst siðferðislegs eðlis og er enginn munur gerður á leyniþjónustum Vesturveldanna og Austantjaldsríkjanna í henni. Þannig svífst breska leyniþjónustan einskis til að ná sínu fram og hikar ekki við að misnota eða fórna saklausum einstaklingum, jafnvel eigin liðsmönnum. Efnistök myndarinnar minna því nokkuð á skáldsöguna Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum eftir John le Carré, sem kvikmynduð var árið 1965 af Martin Ritt, en hún þykir tímamótaverk hvað varðar gagnrýni á starfshætti vestrænna njósnara. Þó svo að The Spy Killer sé síðri en hún er hún samt vel þess virði að sjá.
Siðfræðistef: manndráp, svik, njósnir, föðurlandsást, skilnaður, græðgi, lygi