Leikstjórn: Sidney W. Pink
Handrit: Mike Ashley og Werner Hauff
Leikarar: Anne Baxter, Maria Perschy, Gustavo Rojo, Rossella Como, Adriana Ambesi, Christa Linder, Luis Prendes, Mara Cruz, Perla Cristal, María Mahor, Fernando Hilbeck, Alejandra Nilo og John Clark
Upprunaland: Ítalía, Spánn og Austurríki
Ár: 1966
Lengd: 105mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.66:1)
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Aðeins sjö konur komast lífs af úr árás morðóðra indíána á langa vanglest í Arizona og halda þær fótgangandi áleiðis til næsta virkis í 160 km fjarlægð, en indíánarnir herja á þær alla leiðina og drepa þær eina af annarri.
Almennt um myndina:
Slakur spaghettí-vestri, viðvaningslega gerður og frekar illa leikinn. Átakaatriðin er blóðug og enginn skortur á manndrápum eins og búast má við af öllum hefðbundnum spaghettí-vestrum. Persónusköpunin er þó frekar í anda gamalla bandarískra vestra og virka samskipti sumra sögupersónanna ferlega væmin á köflum.
Þetta er einn af sárafáum spaghettí-vestrum þar sem konur eru aðalsöguhetjurnar. Enda þótt þær kvarti sáran undan karlmannsleysinu í þrekraunum sínum, spjara þær sig samt bara nokkuð vel og fella ótal indíána með lítilli fyrirhöfn.
Fram eftir myndinni eru indíánarnir upp til hópa hinir verstu villimenn, sem njóta þess að kvelja fórnarlömb sín þegar færi gefst, t.d. með því að nauðga konum og svipta þær höfuðleðrinu. Það er ekki fyrr en undir lokin að til sögunnar koma friðsamir indíánar sem fordæma gjörðir félaga sinna og stöðva blóðsúthellingarnar. Helsár einfari sem lent hafði í átökum við indíánana lýsir því jafnframt yfir undir lokin að hann sé sannfærður um að þeir eigi að geta búið í sátt og samlyndi við annað fólk og bætir því við að árásir indíánanna séu aðeins örvæntingarfull varnarviðbrögð þeirra gagnvart yfirgangi hvíta mannsins. Þegar allt kemur til alls gæta aðstandendur myndarinnar því þess að útmála ekki alla indíána á hinn versta veg eins og ætla hefði mátt af mest allri myndinni. Málalokin minna í raun töluvert á endi spaghettí-vestrans Shalako (Edward Dmytryk: 1968) en þar tekst friðsömum indíánum einnig að stöðva manndráp félaga sinna á síðustu stundu.
Ótrúlegt en satt þá eru filmubútar myndarinnar í vitlausri röð á myndbandsspólunni frá Irish í Danmörku og er söguþráðurinn því lengst af ill skiljanlegur. Þannig eru kvenhetjurnar ýmist langt komnar á leiðinni til virkisins eða vart lagðar af stað og látnar sögupersónur geta skotið upp kollinum sprelllifandi áður en varir. Indíánarnir ræna t.d. einni konunni, nauðga henni og svipta hana höfuðleðrinu, en skömmu síðar er hún aftur heil heilsu með öllum hinum konunum eins og ekkert hafi í skorist.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Seint í myndinni (eða réttara sagt snemma í henni þar sem filmubútunum er raðað í vitlausri röð á spólunni) koma konurnar að indíánagrafreit og ákveða að kasta þar mæðinni. Vegna helgi staðarins hika indíánarnir við að áreita þær þar en margir þeirra vilja drepa þær um leið og þær halda förinni áfram. Um þetta þrátta indíánarnir góða stund og telja sumir þeirra besta ráðið að láta þær bara eiga sig, enda gætu þær hvort sem er dáið úr hungri og þorsta á leiðinni.
Konurnar átta sig hins vegar ekki strax á helgi staðarins fyrir indíánunum og vonast bara til að þeir fari ekki að leita þeirra þar í bráð. Þegar konurnar horfa yfir staðinn og sjá þar m.a. hauskúpur á spjótsoddum, fer ein þeirra með texta, sem hún segir vera úr Biblíunni, nánar til tekið Sálm 135:8-9: „Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur, sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.“ Það er sem konan vilji tengja flótta og eyðimerkurgöngu þeirra kvennanna við frelsun lýðs Guðs úr þrældóminum í Egyptalandi, en reiði Guðs beindist þar gegn Egyptum og ofríki þeirra. Ástæðuna fyrir því að hún vitnaði svona til Biblíunnar segir hún fyrst og fremst vera tilkomna vegna ráðlegginga föður síns, sem hafi ávallt mælt með því að til hennar væri leitað á erfiðleikastundum. Konan viðurkennir samt að sé hún enn hrædd og þreytt þrátt fyrir biblíutextann og virðist æði vonsvikin. Engu að síður er frelsun kvennanna þá framundan og koma meira að segja sumir fjandmenn þeirra þeim til hjálpar að lokum.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Sl 135:8-9
Guðfræðistef: refsing Guðs, exodus
Siðfræðistef: manndráp, nauðgun, kynþáttahatur, þjófnaður, gíslataka, siðferði
Trúarbrögð: indíánatrúarbrögð, kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: indíánagrafreitur
Trúarleg tákn: jólatré, indíánatákn
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: signun, bæn, biblíuvitnun, útför
Trúarleg reynsla: bænheyrsla