Leikstjórn: Cecil B. DeMille
Handrit: Æneas MacKenzie, Jesse Lasky Jr., Jack Gariss og Fredric M. Frank
Leikarar: Charlton Heston, Yul Brynner, Anne Baxter, Edward G. Robinson, Vincent Price, John Derek, John Carradine, Yvonne De Carlo, Debra Paget, Cedric Hardwicke, Nina Foch, Martha Scott, Judith Anderson, Robert Vaughn, Gordon Mitchell og Cecil B. DeMille
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1956
Lengd: 220mín.
Hlutföll: 1.85:1 (endurútgefin 1989 í 2.20:1)
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í myndinni er sögð saga af Móse og brottför Hebreanna frá Egyptalandi. Myndin er biblíumynd í þeim skilningi að saga úr Biblíunni, nánar tiltekið 2. Mósebók (Exodus), er uppistaðan í framvindu myndarinnar. (Sbr. Þorkell Ágúst Óttarsson: Trúarstef í kvikmyndum. Skilgreiningar og aðferðir. Nóvember, 2002.) Það er þó vikið frá texta Exodus í mörgum meginatriðum. Dóttir Faraós finnur ungan dreng þar sem hann liggur í bastkörfu í ánni Níl. Hún gefur honum nafnið Móse. Við fylgjumst síðan með Móse sem fulltíða manni við hirð Faraós. Þar á hann í samkeppni við Ramses II um hylli Setis Faraós um hver mun erfa ríkið og fá um leið að eiga hina fögru Nefertiri prinsessu. Upp kemst um hebreskan uppruna Móse og er hann í framhaldi af því gerður útlægur frá Egyptalandi. Ramses II fær Nefertiri prinsessu og erfir ríkið eftir Seti. Engill Drottins birtist Móse í logandi þyrnirunna og býður honum að snúa aftur til Egyptalands og leiða þjóð sína úr ánauð. Móse gerist leiðtogi þjóðar sinnar og leiðir hana til Sínaífjalls til móts við guð Hebrea og loks til fyrirheitnalandsins, þótt Móse sjálfur komist ekki alla leið.
Almennt um myndina:
The Ten Commandments (1956) er sennilega þekkasta biblíumynd allra tíma. Myndin hefur átt sinn þátt í því að móta þá mynd sem fólk hefur af þeim atburðum sem segir frá í Exodus. Myndin var sú síðasta sem leikstjórinn, Cecil B. DeMille gerði á löngum ferli. Hann var á efri árum sínum orðin goðsögn í Hollywood, ekki síst vegna stórmynda þar sem efniviðurinn var sóttur í Biblíunna. Nægir þar að nefna myndir á borð The King of Kings (1927), The Sign of the Cross (1932) og Samson and Delilah (1949). Hann hafði áður ráðist í gerð myndar byggða á sögunni um Móse. Hún bar einnig nafnið The Ten Commandments og var gerð 1923. Þessi þögla mynd, sem þótti stórvirki á sínum tíma, sagði jafnframt hliðstæða sögu úr samtímanum.
Myndin hefst á óvenjulegan máta. Í eins konar formála, áður en sjálf myndin hefst, stígur Cecil B. DeMille á svið og segir frá tilurð myndarinnar og tilgangi. Meðvitaður um þær spurningar sem hlytu að vakna vegna þess efnis sem hann bætir við frásögina, bendir hann á að Exodus (2. Mósebók) er þögul um ævi og störf Móse frá því að hann finnst í bastkörfu á bökkum Nílar þar til hann drepur Egypta og hverfur út í eyðimörkina. DeMille undirstrikar, í formála sínum, hversu mikil vinna var lögð í sagnfræðilegar rannsóknir á þessu tímabili við gerð myndarinnar. (Um þetta má m.a. lesa í grein Gunnlaugs A. Jónssonar: Réttlæti og fögnuður kyssast. Um biblíustef í kvikmyndum. Kafli í bókinni: Heimur Kvikmyndanna (Ritstjóri: Guðni Elísson) Reykjavík: Forlagið, 1999.) Hann tiltekur “forna sagnfræðinga” sem heimildamenn, m.a. Philo frá Alexsandríu sem uppi var um Kristburð, Josephus sem var uppi hálfri öld síðar, Eusibíos frá 4. öld og síðast en ekki síst Midrash rit gyðinga. Allt á þetta að gefa viðbótum hans og myndinni allri trúverðugt yfirbragð í hugum áhorfenda. Að hér verði Exodusfrásögnin sett fram á þann máta sem atburðirnir hefði hugsanlega getað gerst. DeMille leggur áherslu á fleiri þætti en sagnfræðilegan áræðanleika í formála sínum. Að myndin eigi að vera innlegg hans inn í samfélagsumræðu samtíma hans og lóð á vogaskálarnar í baráttu góðs og ills sem þá var háð í heiminum að mati DeMille. Ég vík nánar að því síðar.
DeMille er óhræddur við að sviðsetja best þekktu atriðin í frásögn Exodus. Hann sýnir okkur hvernig dóttir Faraós finnur Móse í bastkörfu í ánni Níl. Köllun Móse, sem sagt er frá í 3.og 4. kafla Exodus fær að sjálfsögðu sitt pláss. Hann stiklar á stóru í plágufrásögnunum. Guð leiðir fólkið úr Egyptalandi og opnar því leið gegnum hafið. Drottinn birtist Móse á Sínaífjalli og fólkið dansar í kringum gullkáfinn. Og í lok myndarinnar afhendir Móse Jósúa fullklárað handrit af Fimmbókaritinu við ána Jórdan.
Saman við þennan þráð, sem flestir þekkja úr Exodus, vefur DeMille sína eigin sögu þar sem nokkuð frjálslega er farið með atburðarás, sögupersónur og stef Gamla testamentisins. Þessi innskotskafli gerist að mestu áður en Móse fer frá Egyptalandi fyrra sinni. Þannig fjallar meira en helmingur The Ten Commandments um hluti sem ekki er minnst á í Exodus. Innskotskaflinn er byggður á þeim “sagnfræðilegu heimildum” sem áður er getið, auk þess sem hann tilgreinir þrjár skáldsögur um þetta efni sem hann hafði til hliðsjónar. (Í kreditlista myndarinnar er talað um Pillar of Fire eftir J.H. Ingraham, On Eagle’s Wings eftir A.E. Southon og Prince of Egypt eftir Dorothy Clarke Wilson.)
DeMille ákveður að Móse hafi verið innsti koppur í búri Faraós og hafi afsalað sér völdum og áhrifum þegar hann uppgötvar hebreskan uppruna sinn. Persónur héðan og þaðan úr Fimmbókaritinu fá nýtt hlutverk í innskotskafla DeMille. Jósúa, sem fyrst er getið í Exodus í eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna, í kaflan um þegar Ísraelsmenn eiga í baráttu við Amalekíta, (2M17:9) er gerður að steinsmið í Gósen fyrir brottförina. Datan er gerður að veigamikilli persónu í framvindu sögunnar. Í Fimmbókaritinu kemur persóna Datans fyrst fyrir í 4. Mósebók og þá sem þátttakandi í uppreisn Levíta gegn Móse. (4M16:1.) DeMille sækir lýsingu á Datan í frásagnir Midrash rita Gyðinga. Þar er að finna frásögn þar sem Datan er látinn vera sá sem segir við Móse: ”Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig eins og þú drapst Egyptann?” (2M2:13-14.) Þetta verður til þess að Móse ákveður að flýja Egyptaland í frásögn Exodus. Samkvæmt Midrash er það einnig Datan sem örvæntir og möglar þegar vagnar Faraós nálgast við Sefhafið. (2M14:10-12.) Í meðferð DeMille verður Datan njósnari að auki og stjórnar gerð gullkálfsins við Sínaífjall. (Wright, Melanie J.: Moses in America: The Cultural Uses of Biblical Narrative (American Academy of Religion Cultural Criticism Series) í kaflanum Coming in from the Cold (War). Oxford Press, 2002.)
Þrátt fyrir fullyrðingar DeMille um sagnfræðilegan áræðanleika heimildamanna sinna, er sannfræði innskotkaflans vægast sagt vafasöm. Sagnaritarinn Jósepus starfaði á 1. öld eftir Kristburð. Rit hans um sögu gyðinga þykja betri heimild um samtíma höfundar en um þá atburði sem hugsanlega gerðust meira en 1000 árum áður, þegar Móse leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Það sama gildir um Philo og Eusibíos. Midrash rit gyðinga eru skýringar við helgirit gyðinga. Tilgangurinn skýringanna var kannski fyrst og fremst að túlka helgiritin í ljósi aðstæðna ritskýrendanna. Midrash ritin eru flest frá annarri, þriðju og jafnvel fjórðu öld eftir Krist. Það ber því að slá sama varnagla varðandi sagnfræðilegt heimildagildi þeirra og við fyrrnefndu heimildirnar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Larry J. Kreitzer hefur, í bók sinni The Old Testament in Fiction and Film, borið saman The Ten Commandments og Decalogue seríuna, þar sem pólski leikstjórinn Krzysztof Kieslowski fjallar um boðorðin 10 í nútímalegu samhengi. (Kreitzer, Larry J.: The Old Testament in Fiction and Film, Sheffield Academic Press, 1994.) Kreitzer vill meina að þessar myndir séu algjörar andstæður í nálgun sinni. Hann ályktar líkt og margir gagnrýnendur myndarinnar hafa gert, að tilgangur DeMille hefði verið að hvetja til bókstaflegrar túlkunar á ritningunni. Það er þá gjarnan vitnað í fyrrnefndan formála DeMille þessu til stuðnings. Margt túlkar DeMille vissulega bókstaflega. Hann gerir t.d. enga tilraun til þess að útskýra kraftaverkin á neinn hátt, líkt og hefur verið lenska bæði í öðrum bíómyndum og skáldsögum 20. aldar. Með því að einblína á þetta, horfir Kreitzer framhjá þeirri skapandi túlkun sem í mynd DeMille felst. The Ten Commandments á það einmitt sameiginlegt með Decalogue seríunni að þar eru öll boðorðin tekin fyrir, hvernig það getur stundum verið erfitt að halda þau og hvernig þeir sem ekki fara eftir þeim njóta samt velgengni og frama.
Réttara er að skoða myndina sem hluta af þeirri hefð sem bæði Midrash bækur gyðinga og kristnir guðfræðingar hafa fylgt um aldir, sem sé að einblína ekki á sannfræði atburðanna heldur miklu frekar að túlka ritninguna inn í samtíman. Í þessari hefð er það haft að leiðarljósi að til þess að geta meðtekið það sem ritningin hefur fram að færa þurfa menn að nýta sér öll tiltæk meðöl til þess að geta gert hinn gamla texta eins skiljanlegan og auðið er. Í þessari hefð er lagt kapp á að gera orð Biblíunnar aðgengilegt fólki eftir fremsta megni. DeMille vildi þannig nýta áhrifamesta miðil samtímans, kvikmyndirnar, til skapandi túlkunar á ritningunni. Það skáldaleyfi sem DeMille tekur sér hefur þar af leiðandi boðandi tilgang. Það birtist m.a. í því hvernig frásögn hans sækir áhrif í bæði testamentin.
Sá Móse sem er túlkaður í myndinni er fyrst og fremst kristinn Móse. Í innskotskaflanum má jafnvel sjá hliðstæðu við sögurnar af Jesú. Vissulega verður að fara varlega í að fullyrða nokkuð í þessum efnum. Það getur verið erfitt að greina á milli hvar DeMille dregur upp þessar myndir af Móse með ráðnum hug og hvar hliðstæðan er eðlileg með tilliti til hlutverka þeirra í sitt hvoru testamentinu. Í Nýja testamentinu er einmitt bent á þessar hliðstæður. Í Postulasögunni segir, svo dæmi sé tekið: “Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar.” (P 3:22.) Þessi tilvitnun er heimfærð upp á Jesú. Á fyrstu öldum kristni hafa menn verið óhræddir að draga upp hliðstæður í persónu Jesú við persónu Móse í þeim tilgangi að útskýra betur hlutverk Jesú inn í samtíma sinn. Nú u.þ.b. 2000 árum síðar grípur DeMille til þess ráðs að draga upp hliðstæður á persónu Móse við persónu Jesú í þeim tilgangi að útskýra hlutverk hans og áhrif.
Skoðum þessar hliðstæður nánar. Ástæða þess að Faraó ákveður að drepa sveinbörn Hebreanna er útskýrð í Exodus sem viðbrögð við ótta Egypta við fjölgun Hebreanna og hugsanlega uppreisn. DeMille sér ástæðu til að breyta þessu. Í The Ten Commandments er ótti Faraós fyrst og fremst vegna sagna, sem ganga meðal þrælanna, um að stjarna boði væntanlegan leiðtoga sem muni leysa Hebreana úr ánauð. Sennilega hefur DeMille sótt þessa útgáfu sögunnar í rit Josephus. Í ritum hans er fæðingu Móse einmitt lýst sem svari Guðs við harmakveinum Hebreanna í Egyptalandi. Josephus leggur mun meiri áherslu á þetta en fyrirrennarar hans í túlkun helgiritanna. Það að DeMille skuli taka þessa útskýringu fram yfir útgáfu Exodus bendir til þess að DeMille hafi viljað skapa ákveðin hugrenningatengsl við Matteusarguðspjall. (Matt. 2:16-21.) Þar segir einmitt frá því að stjarna hafi spáð fyrir um fæðingu Jesú.
Að velja þessa útgáfu verður líka til þess að að persóna Móse fær “messíanskt” yfirbragð. Í Gamla testamentinu er hugmyndin um “hin smurða” venjulega tengd guðfræði musterisins í Jerúsalem. Að afkomandi Davíðs konungs komi aftur á því fyrirmyndarríki sem valdatími Davíðs var í hugum Gyðinga. Hugmyndin um messías, hin smurða, endurlausnarinn var síðan heimfærð upp á Jesú í Nýja testamentinu. Það er forvitnilegt hvernig DeMille tengir þessa hugmynd óhikað við Móse þótt erfitt sé að finna fyrir því stoð í Exodus. Messíasarhugmyndin má fyrst greina mun seinna í Gamla testamentinu. (Wright, Melanie J.: Moses in America: The Cultural Uses of Biblical Narrative (American Academy of Religion Cultural Criticism Series) í kaflanum Coming in from the Cold (War). Oxford Press, 2002.)
Í síðari hluta innskotskaflans (allt frá því þegar Móse uppgötvar hinn sanna uppruna sinn og þangað til að hann hittir Jetró og dætur hans) eru ótal hliðstæður við sögu Jesú í Nýja testamentinu. (Á flestar eftirfarandi hliðstæður hefur Melanie J. Wright bent á, í bókinni Moses in America: The Cultural Uses of Biblical Narrative (American Academy of Religion Cultural Criticism Series) í kaflanum Coming in from the Cold (War).) Í mikilvægu atriði heimsækir Móse hina hebresku móður sína til að fá staðfestingu á því að hann sé í raun Hebrei en ekki eðalborinn Egypti. Á hæla hans fylgir hin egypska uppeldismóðir hans til að reyna að telja honum hughvarf. Hin hebreska móðir segir: ”If the God of Abraham has a purpose for my son, he will come to know it….and fulfill it.” Móse tekur ákvörðun að gangast við uppruna sínum sem verður til þess að hún segir: “God of our fathers, who has appointed an end to the bondage of Israel. Blessed am I among all mothers in the land. For my eyes have beheld my deliverer.”
Þarna má greina hliðstæðu við lofsöng Maríu í Lúkasarguðspjalli sem ekki verður litið framhjá. (Lk. 1:46-55.) Móse ákveður nú að axla sitt hlutverk og í næsta atriði á eftir má sjá hann þræla með hinum smáðu kynbræðrum sínum. Aftur verður manni hugsað til Nýja testamentisins. DeMille notar tækifærið og leggur áherslu á væntingar Hebreanna um væntanlega endurlausnara. Þegar gamall maður liggur deyjandi í fangi Móse eftir illa meðferð þrælahaldaranna, segir hann að nú fái hann ekki ósk sýna uppfyllta, að sjá endurlausnarann áður en hann deyr. Það fer ekki á milli mála hjá áhorfandanum að ósk hans hefur einmitt verið uppfyllt á dánarstundinni. Í næsta atriði er því lýst hvernig Nefertiri prinsessu finnst sem góður biti hafi farið í hundskjaft þegar hún horfir á eftir væntanlegum Faraó og eiginmanni í þrælahald og erfiðisvinnu. Í því atriði, sem freistandi er að kenna við freistinguna, reynir hún að telja Móse hughvarf. Ræðu hennar mætti draga saman í eina setningu: Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram, afneitar uppruna þínum og gengur Egyptalandi á vald!! Þarna reynir virkilega á Móse. Er hann tilbúinn að brjóta þau lögmál sem eru rituð á hjarta hans og fá í staðinn veraldlegan auð og prinsessuna að auki. Það þarf ekki að taka það fram að Móse stenst þessar freistingar. Hliðstæðurnar halda áfram. Datan tekur að sér hlutverk Júdasar og svíkur Móse fyrir fé. Þetta verður til þess að Móse er handtekinn og leiddur fyrir Faraó. Faraó getur ekki fengið sig til að dæma Móse. Hann þvær hendur sínar af málinu og framselur hann til Ramesesar.
Í stað þess að aflífa Móse sendir Rameses hann út í eyðimörkina til að deyja. Í upphafi þess atriðis er Móse leiddur fram með hendurnar bundnar við tréstaf. Þessi sami stafur verður síðan helsta verkfæri Móse þegar hann snýr aftur til Egyptalands. (Stafurinn kemur mikið við sögu í Exodus m.a. í plágufrásögnunum.) Það er því áhugavert að benda á að myndin af Móse með hendurnar bundnar við tréstafinn minna mjög á Jesú á krossinum. Áður en Rameses II sendir Móse út í eyðimörkina kallar hann Móse “..the slave who would be King”, klæðir hann í hebreska skykkju og lætur hann hafa göngustafinn sem hann kallar veldissprota. Aftur koma í hugann frásagnir Nýja testamentisins, nú um þegar Jesú var hæddur og spottaður fyrir krossfestinguna. (Mk. 15:16-20, Jh. 19:2,5.) Við sjáum Móse ganga út í opin dauðann með einungis dagskammt af vatni og vistum. Sögumaðurinn (Cecil B. DeMille sjálfur!) lýsir eyðimörkinni þannig: “…where holy men and prophets are cleansed and purged for God’s great purpose…” En…….. Móse snýr aftur, líkt og Jesús, eftir að hafa verið dæmdur til dauða!
Þegar hér er komið sögu snýr DeMille sér að efni sóttu í Exodus. Móse kynnist Jetró og dætrum hans sjö. Hann giftist Sippóru og gerir sig líklegan til að sætta sig við hlutskipti sitt sem fjárhirðir. En Guð ætlar honum stærra hlutverk. DeMille ræðst óhikað í það að kvikmynda köllun Móse. Þess má geta í framhjáhlaupi að sú ákvörðun að láta Guð tala við Móse vakti gremju margra gagnrýnanda. Sumir bentu á að með því væri verið að brjóta annað boðorðið, um að þú skalt eigi leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma. Aðrir fundu að því að Guð hljómaði eins og yfirdrifinn þulur í lélegri auglýsingu! Það er hægara sagt en gert að ljá Guði rödd án þess að vekja upp sterk viðbrögð.
Aftan við frásögnina um köllun Móse skeytir DeMille atriði þar sem Móse snýr heim til Sippóru sem býður eftir honum ásamt Jósúa (?!). Þau eru að sjálfsögðu forvitin um hvaða boðskap Guð hafði fram að færa. Sippóra er áhyggjufull en Jósúa býður spenntur eftir grænu ljósi til að hefjast handa við frelsun Hebreanna. Þegar Móse reynir að lýsa atburðinum, segir hann: “He revealed His Word to my mind and the Word was God. He is not flesh but spirit, the light of eternal Mind and I know that His Light is in every man” Þarna sækir DeMille bæði efni og stíl til Jóhannesarguðspjalls. Þetta innskot, ásamt þeim hliðstæðum sem bent hefur verið á hér að ofan, styrkir vissulega þá tilgátu að Móse, í útfærslu DeMille, eigi sér margar hliðstæður við Jesú Krist. Þær eru það margar að maður spyr sig hvort Móse verði ekki kristgervingur í meðförum DeMille. Í öllu falli er auðvelt að fullyrða að Móse DeMille er fyrst og fremst kristinn Móse, ekki sá Móse sem höfundar Gamla testamentisins höfðu í huga. Sagnfræðilega áherslan sem DeMille talar um í formála sínum víkur þannig fyrir skapandi túlkun hans á sögunni um Móse.
Nú skulum við víkja að hinu atriðinu sem DeMille talar um í formála sínum. Að myndin eigi að vera innlegg hans inn í samfélagsumræðu 6. áratugarins og lóð á vogaskálarnar í baráttu góðs og ills sem þá var háð í heiminum að mati hans. Sjötti áratugurinn í Bandaríkjunum var um margt nokkuð sérstakur. Kalda stríðið var í algleymingi og mörgum þótti sem “hin ameríski lífsmáti” væri í hættu vegna útbreiðslu komúnismans. Bandarískir hermenn höfðu á árunum 1950-53 barist í Kóreu, fjarri heimalandinu sínu, gegn því sem var kallað útþennslustefna Sovíetríkjanna sálugu. Áhersla komúnismans á guðleysi hafði þau áhrif að margir álitu “hin ameríska lífsmáta” brjóstvörn kristni og jafnvel allra trúarbragða. (Moses in America.)
Það er inn í þetta andrúmsloft sem DeMille talar þegar hann segir í formála sínum: “The Theme of this picture is whether men ought to be ruled by God’s law or whether they are to be ruled by the whims of a dictator like Rameses. Are men the property of the state, or are they free souls under God?” Fyrsta setning myndarinnar, að loknum formála hljóðar þannig: “And God said, ‘Let there be light,’ and there was light. And from this light God created life upon earth. And man was given dominion over all things upon this earth, and the power to choose between good and evil. But each sought to do this own will, because he knew not the light of Gods law. Man took dominion over man. The conquered where made to serve the congueror. The weak where made to serve the strong and freedom was gone from the world. ”
Þessi snaggaralega afgreiðsla á syndafallinu er dæmi um hvernig DeMille, í boðun sinni, tvinnar hugmyndarfræði Bandaríkjanna á eftirstríðsárunum saman við Biblíutilvitnanir. Sú barátta sem háð er á milli Guðs Hebreanna annars vegar og Faraós hins vegar, þar sem Faraó hefur guðlega stöðu, verður í meðförum DeMille barátta réttsýnna og frjálsborinna manna sem hafa Guð í liði sínu gegn guðlausum einræðisherra í líki Faraós. Í 5. kafla Exodus ganga Móse og Aron fram fyrir Faraó og segja: “Svo segir Drottinn, Guð Ísraelsmanna: Gef fólki mínu fararleyfi, að það megi halda mér hátíð í eyðimörkinni.” (Let my people go …; 2M 5:1.) Í mynd DeMille verður svar Faraós við beiðni Móse, að þrælarnir eru hans eign. Móse svarar á móti að lögin eigi að stjórna fólki ekki aðrar menn.
Það er líka athyglisvert að þegar tvær grímur eru farnar að renna á æðstaprest Faraós vegna pláganna sem ríða yfir Egyptaland, kemur Rameses með vísindalegar útskýringar á þeim öllum. Í raun er sem sumar ræður Faraós séu sóttar í hugmyndir Feuerbachs og Karl Marx um trúarbrögðin. Að þau þjóna þeim tilgangi einum að halda lýðnum niðri. Orðrétt segir Rameses við æðstaprest sinn á einum stað í myndinni: “…you prophets and priests made the gods, that you may prey upon the fears of men….” Sumir hafa gengið svo langt að kalla þann Móse sem DeMille dregur upp mynd af “kalda stríðs Móse”.
Ef við gefum okkur að DeMille hafi meðvitað unnið með bæði testamentin er ljóst að áherslan í boðun DeMille er fyrst og fremst siðræn og lögmálstengd. Móse DeMille er umhugað um að heiðra föður þinn og móður (réttara sagt: mæður sínar tvær!), hann girnist ekki hús náunga síns, ber ekki ljúgvitni né drepur. Það er til að mynda áhugavert að skoða hvernig Móse bregst við því verkefni að stjórna byggingu borgarinar Gósen til heiðurs Faraó. Það verk hafði gengið illa undir verkstjórn keppinautar hans, Ramsesar II. Ramses II hafði beitt harðræði, svelt þrælanna (hebreanna) til hlýðni og ekki sýnt neina miskunn. Móse beitir annarri aðferð. Hann byrjar á því að brjóta upp kornhlöður Faraós til þess að gefa þrælunum eitthvað að borða. Að því loknu fyrirskipar hann að þrælarnir skuli fá hvíldardag sjöunda hvern dag. Þetta finnst Móse skynsamlegt og sjálfsagt og til þess fallið að ná árangri. Enda sýnir það sig að verkið fer nú loksins að sækja fram. Þessi skapfesta Móse færir honum velgengni og aðdáun og ást Nefertiri prinsessu. En svona einfalt er lífið nú ekki að mati DeMille.
Það er þessi siðferðilega vissa sem verður til þess að hann þarf að afsala sér nafnbótinni Faraó og sjá á eftir ástinni sinni til annars manns. Móse þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Þrátt fyrir freistingar og loforð um ríkidæmi og frægð neyðist Móse samvisku sinnar vegna að afsala sér öllum veraldlegum gæðum og endar sem þræll í þjónustu Faraós. Þegar þetta siðferðisþrek Móse stangast á við frásögnina í Exodus hikar DeMille ekki við að hnika til texta Bíblíunnar. Þannig er það Faraó sem sendir Móse í útlegð. DeMille ákveður þannig að líta framhjá Exodus 2:15 þar sem Móse er sagður flýja Egyptaland. Þannig breytir hann einnig frásögn Exodus í kafla 32. Í stað þess að levítarnir fari um með sverðum og drepi tilbiðjendur gullkálfsins að boði Móse, opnast jörðin og gleypir þá sem villtust af vegi. (2M 32:25-29.) DeMille er því mikið í mun að sýna Móse sem réttlátan og heiðarlegan mann sem veit muninn á réttu og röngu. Að lögmál Guðs, boðorðin tíu, voru rituð í hjarta hans áður en þau opinberuðust honum á Sinaífjalli. En myndin vill einnig segja okkur að þegar til lengri tíma er litið eru hin óréttlátu refsað og hin réttlátu fá umbun.
Í bland við kristnar áherslur, notar DeMille efni úr gyðinglegri trúarhefð. Sannfræðin er þó öll heldur vafasöm og er túlkun hans á þróun þeirrar hefðar frekar frjálsleg. Í þessu sambandi er forvitnilegt að skoða atriði þar sem DeMille sýnir okkur útgáfu sína á fyrstu “seder” máltíðinni. Seder er hluti af hefð gyðinga um hátíð hina ósýrðu brauða (passover). Hátíðin er haldin til minningar um brottförina frá Egyptalandi. Fastur liður í helgihaldinu er þegar yngsta barnið spyr spurninga. Bæði spurningarnar og svörin við þeim lúta föstu formi og eru til þess gerðar að túlka helgihaldið og atburðanna sem minnst er. Þessi liður í helgihaldinu á uppruna sinn í rabbínskum gyðingdómi en hann verður til á svipuðum tíma og kristni er að mótast. Rabbínskur gyðingdómur verður fyrir hellenískum áhrifum líkt og kristni. Áhrifanna gætir einmitt í þessum spurningum yngsta barnsins í helgihaldinu. Í grískum spekiritum er þetta sama samtalsform (bokmenntaformið responsa) notað til að miðla u!pplýsingum á markvissan hátt.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1:3, 2M 1-14,2M 19-20 2M 32-34, 2M 31-34
Hliðstæður við texta trúarrits: Matt. 2:16-21, Lk. 1:46-55, Mk. 15:16-20, Jh. 19:2,5 Sálmarnir
Persónur úr trúarritum: Móse, Faraó, Messías, Datan, Jósúa, Sippóra, Jetró, Dóttir Faraós, Aron, Mírijam, Jannes og ýmsar persónur sem koma fyrir í 2. Mósebók
Guðfræðistef: exodusstefið, blessun, dómur Guðs, hjálp Guðs, kraftaverk, miskunn Guðs, synd
Siðfræðistef: boðorðin tíu, þrælahald, óréttlæti, ást, frelsi, fyrirgefning, hatur, ofbeldi, óheiðarleiki, óréttlæti, valdagræðgi
Trúarbrögð: átrúnaður Egypta, gyðingdómur, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Sínaífjall, fyrirheitna landið
Trúarleg embætti: æðstuprestar Faraós, trúarlegir leiðtogar Hebrea
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, opinberun, tilbeiðsla guða Egyptalands, seder máltíð gyðinga
Trúarleg reynsla: trúartraust, opinberun, íhlutun Guðs í söguna