Kvikmyndir

The Troublemakers

Leikstjórn: Mario Girotti [undir nafninu Terence Hill]
Handrit: Jess Hill
Leikarar: Terence Hill, Bud Spencer, Anne Kasprik, Eva Haßmann, Ron Carey, Fritz Sperberg, Radha Delamarter, Jonathan Tucker, Ruth Buzzi, Lou Baker, Michael Huddleston, John David Garfield, Jess Hill og Jack Caffrey
Upprunaland: Ítalía, Þýzkaland og Bandaríkin
Ár: 1994
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)

Ágrip af söguþræði:
Bræðurnir Móse og Travis eru sneggstu skyttur villta vestursins og mannaveiðarar sem svífast einskis. Móse þolir hins vegar ekki bróður sinn og hefur ekki talað við hann síðan hann stal frá honum hesti á unga aldri. Travis leitar þó bróður sinn uppi um síðir og ákveða þeir að heimsækja móður þeirra um jólin. Á leiðinni lemja þeir ótal bófa sundur og saman og skreyta loks risastórt jólatré móður sinnar með þeim.

Almennt um myndina:
Úff! Bjánaskapurinn tröllríður svo sannarlega þessum glórulausa og ótrúlega væmna spaghettí-vestra þar sem menn eru lamdir hvað eftir annað í hausinn með steikarpönnum og straujárnum. Leikstjórinn er enginn annar en sjálfur Terence Hill, sem heitir réttu nafni Mario Girotti, en til liðs við sig hefur hann fengið gamla mótleikara sinn úr ótal öðrum vitleysismyndum, vöfðatröllið Bud Spencer. Báðir eru þeir þó vart svipur frá sjón enda þreytulegir og háaldraðir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Jólahátíðin er baksvið myndarinnar og er tilhlökkun flestra mikil, ekki síst barnanna sem eru ótal mörg. Sjálfur hefur Móse ekki tölu á öllum börnunum sínum sem vel flest bera biblíunöfn á borð við María, Marta, Sara, Esekíel og Sakaría. (Reyndar er aðeins enski rithátturinn á öllum þessum nöfnum notaður í íslenska textanum hjá sjónvarpsstöðinni Sýn, t.d. Ezekiel og Zechariah.) Móse er líka trúaður enda segir hann börnum sínum að hann hugsi ávallt til Guðs þegar hann sjái hesta því að þeir séu svo fallegir.

Alloft er vitnað beint til Biblíunnar og eru t.d. nokkrir textar úr Sálmum Gamla testamentisins lesnir í einni runu fyrir dauðadæmdan fanga þar sem hann stendur undir gálganum með snöruna um hálsinn. Móðir þeirra Móses og Travis lýsir því jafnframt yfir í sendabréfi að hún hafi fjársjóð falinn heima hjá sér og þyrpast því ótal bófar heim til hennar um jólin þegar það spyrst út. Fjársjóðurinn reynist hins vegar vera synir hennar og barnabörnin sem hún elskar af innstu hjartans rótum, enda segir í Biblíunni: „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“ (Mt 6:21.)

Þrátt fyrir allt ofbeldið í myndinni er boðskapurinn mikilvægi fyrirgefningarinnar og kærleikans. Hvort Hill hafi tekist að koma því almennilega til skila er hins vegar annað mál.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Sl 9:1, Sl 27:11, Sl 43:1-3, Mt 6:21, Lk 12:34, Jh 11:25, Ef 4:2
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 2:2
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: kærleikur, synd, sköpun Guðs
Siðfræðistef: ofbeldi, mannrán, mannaveiðar, dauðarefsing, aftaka, þolinmæði, ósætti, mannasiðir, fyrirgefning, þjófnaður, gjafmildi, langrækni
Trúarleg tákn: jólabjöllur, jólaskraut, jólatré, kross
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur (Heims um ból), bæn, skírn, biblíulestur, spenna greipar
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól, aðfangadagskvöld