Kvikmyndir

The Truman Show

Leikstjórn: Peter Weir
Handrit: Andrew Niccol
Leikarar: Jim Carrey, Laura Linney, Noah Emmerich, Natascha McElhone, Holland Taylor, Ed Harris.
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1998
Lengd: 99mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0120382
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Truman er frægasta kvikmyndastjarna í heimi, án þess að vita af því. Hann var ættleiddur af kvikmyndafyrirtæki og allt frá fæðingu hafa allar hans gjörðir verið kvikmyndaðar og sýndar í beinni útsendingu um allan heim. Heimurinn sem hann býr í er risastór sviðsmynd og allir sem hann þekkir eru aðeins leikarar, meira að segja foreldrar hans og eiginkona. En Truman er farið að gruna að það sé maðkur í mysunni.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni er mikið um orðaleiki. Trumann er hinn sanni maður (true man) en hann býr í Seahaven, sjávar-himnaríki. „Skapari“ hans heitir Christof (þ.e. Kristur) en hann býr upp á himnum og stjórnar heiminum þaðan. Í myndinni er hafið tákn dauðans og glundroða en sú túlkun er mjög í anda Biblíunnar. Skútan sem Truman notar til að sigla yfir hafið á heitir Santa María en númerið á henni er 139. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá minnir myndin á sálm 139. Á ferðinni yfir hafið (á Maríu meyjar skútunni) eru margar Kriststilvísanir. Bandið sem Truman bindur um sig myndar kross um bringu hans. Hann „deyr“ og rís síðan upp frá dauðum þegar hann kemur upp úr hafinu. Upprisusenan minnir einnig á skírn Krists en þegar hann kemur upp úr vatninu fellur sólstafur á hann og handleggir hans eru í krossfestingarstellingu. Þegar Truman yfirgefur skútuna gengur hann meðfram vegnum en það lítur út eins og hann gangi á vatni. Eftir að hafa „gengið“ á vatninu í smá tíma stígur hann upp til himna og inn um himnadyr, þ.e. hann gengur inn um dyr í himnahvelfingunni í sviðsmyndinni.

En það má einnig sjá tilvísanir í söguna af Adam og Evu í myndinni. Skapari sjónvarpsþáttsins kallar Seahaven paradís og segir hinn ytri heim vera sjúkan. „Ég hef gefið Truman færi á eðlilegu lífi… Seahaven er eins og heimurinn ætti að vera.“ Síðar segir hann við Truman: „í mínum heimi þarft þú ekkert að óttast.“ Tilvísanirnar í Eden eru augljósar. Seahaven er hinn fullkomni heimur, smíðaður fyrir hinn fullkomna mann (true man), þ.e. Adam, en adam merkir maður. Það er meira að segja n.k. Eva í myndinni sem freistar Trumans og fær hann til að vilja yfirgefa „Eden“. Truman verður ástfanginn af Sylviu en þau byrja sambandið á bókasafni (skilingstré góðs og ills)og það er Sylvia sem segir honum fyrst frá sannleikanum, þ.e. veitir honum þekkingu/skilning. Eftir að Truman kemst síðan að sannleikanum getur hann ekki lengur búið í „Eden“, því slíkt væri sjálfsblekking. Ólíkt sögunni af Adam og Evu er Truman þó ekki rekinn úr Eden heldur fer hann sjálfviljugur. Guð reynir meira að segja að fá hann til að dvelja áfram í paradís.

The Truman Show minnir mjög á Pleasantville að því leyti að í báðum myndunum er hinni fullkomnu paradís hafnað og Adam kýs hinn fallna heim fram yfir hinn ófallna. Í báðum myndunum er því afstaðan til fallsins jákvæð, og í raun litið á fallið sem hið sanna hjálpræði. Í The Truman Show breytist Adam meira að segja í kristsgerving.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: dauði, upprisa, uppstigning, skírn og ganga á vatni.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1m 2-3, Sl 139, Mt 3:13-17, Mt 14:22-33, Mt 27:45-28:10, Mk 1:9-11, Mk 6:45-52, Mk 15:33-16:20, Lk 3:21-22, Lk 23:44-24:49, Jh 6:15-21, Jh 19:28-20:23,
Persónur úr trúarritum: Adam, Eva, Guð, Jesús Kristur, María mey, Satan
Guðfræðistef: kristsgervingur,
Siðfræðistef: einkalíf, lygi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: paradís
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: endurlausn