Kvikmyndir

The Uranium Conspiracy

Leikstjórn: Menahem Golan og Gianfranco Baldanello (undir nafninu Frank G. Carroll)
Handrit: David Paulsen, Daniele Sangiorgi og Jean Christian Aurive, byggt á sögu eftir Yehousha Ben-Porat
Leikarar: Fabio Testi, Siegfried Rauch, Janet Agren, Asaff Dayan, Herbert Fux, Rolf Eden, Oded Kotler, Gianni Rizzo, Jay Koller, Remo De Angelis, Lorenzo Fineschi, Sergio Smacchi, Romano Puppo og G. Lorenzo Bernini
Upprunaland: Ítalía, Þýzkaland og Ísrael
Ár: 1978
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.85:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Ísraelska leyniþjónustan Mossad freistar þess að granda flutningaskipi með miklum byrgðum af úraníum, sem nota á við framleiðslu á kjarnaorkusprengjum í Norður-Afríkuríki.

Almennt um myndina:
Miðlungs spennumynd eftir ísraelska b-myndagerðarmanninn Menahem Golan og ítalska spaghettí-vestra leikstjórann Gianfranco Baldanello. Hasaratriðin eru flest rétt viðunandi, t.d. langur og frekar ófrumlegur hraðbátaeltingarleikur í skipaskurðum Amsterdam, en slæm tónlist skemmir þó víða fyrir.

Aðalleikararnir eru þó helsti kostur myndarinnar en þeir eru margir hverjir vel þekktir úr ýmsum evrópskum b-myndum. Þannig er Fabio Testi t.d. traustur í hlutverki Renzos, ítalsks kvennabósa í þjónustu Ísraelsmannanna, en vinkona hans er leikin sænsku fegurðardísinni Janet Agren. Bestur er þó Siegfried Rauch í hlutverki þýzks baróns, sem stendur að baki úraníumsmyglinu og lætur einskis ófreistaðs til að koma Renzo og vinkonu hans fyrir kattarnef.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ísraelsku leyniþjónustumennirnir nota m.a. kirkjur sem fundarstaði fyrir útsendara sína. Þannig segir Renzo vinkonu sinni að halda á fund þeirra í stórri kirkju í miðri Amsterdam þegar hann sér fram á að komast þangað ekki sjálfur. Á leiðinni er vinkonan þó með skúrkana lengst af á hælunum og þarf hún m.a. að hlaupa í gegnum hóp Hare Krishna áhangenda í miðjum dansi þeirra á götu úti til dýrðar Krishna.

Siðfræðistef: morð, manndráp, smygl, blekking, gereyðingarvopn, pyntingar, sjórán
Trúarbrögð: kristindómur, gyðingdómur, Hare Krishna
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: búddhalíkneski, kross, altari