Kvikmyndir

The Village

Leikstjórn: M. Night Shyamalan
Handrit: Manoj Night Shyamalan
Leikarar: Bryce Dallas Howard, Joaquin Phoenix, Adrien Brody, William Hurt (I), Sigourney Weaver, Brendan Gleeson, Cherry Jones, Celia Weston, John Christopher Jones, Frank Collison, Jayne Atkinson, Judy Greer
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 108mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Íbúar afskekkts smábæjar í Pensilvaníu undir lok 19. aldar hafa um nokkurt skeið búið í friðsömu nábýli við dularfullar skógarverur. Þegar forvitni yngri kynslóðar bæjarins reitir skógverurnar til reiði virðist uppgjör hinna ólíku nágranna óumflýjanlegt. Inn í söguþráðinn fléttast dramantísk fortíð stofnenda bæjarins og átakanlegur ástarþríhyrningur.

Almennt um myndina:
„The Village“ er sjötta myndin sem M. Night Shyamalan bæði leikstýrir og semur handritið að. Shyamalan er frekar ungur að árum, fæddur 1970, og virðist vera á góðri leið með að hasla sér völl sem Hitchcock nýrrar kynslóðar. Hann hefur þó legið undir töluverðri gagnrýni að undanförnu fyrir að koma ávalt „fyrirsjáanlega á óvart” í myndum sínum.

Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um „The Village“ er hverskonar sjónrænt listaverk kvikmyndin er. Bæði klipping og leikstjórn eru eins og best verður á kosið en kvikmyndatakan er algert augnakonfekt. Litanotkun og traustur leikur hjálpa einnig til við að gera sum atriði þau fallegustu, í sjónrænum skilningi, sem sést hafa á hvíta tjaldinu.

Tónlistin í „The Village“, samin af James Newton Howard, er líka einn sterkasti þáttur myndarinnar, enda var eina Óskarsverðlauna tilnefning hennar fyrir frumsamda tónlist. Ekki skemmir svo fiðluleikur hinnar hæfileikaríku Hilary Hahn sem við fáum að njóta í myndinni.

Þegar kemur að leikurum er svo sannarlega valinn maður í hverju rúmi. Þar fer föngulegur hópur margverðlaunaðra leikara sem eiga það sameiginlegt að vera þó engar glansstjörnur eins og þær sem prýða forsíður slúðurblaðanna reglulega. Hlutverk Ivy Walker er burðarás myndarinnar og á hin lítt reynda Bryce Dallas Howard svo sannarlega hrós skilið fyrir einstaka framistöðu. Mér hryllti við þegar ég las að Kirsten Dunst hafi upphaflega verið valin til að leika Ivy Walker, kannski er það þó aðeins áhrifamikill leikur Bryce sem gerir það að verkum að ég get ekki ímyndað mér aðra leikkonu í hlutverki Ivy.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sá sem ætlar sér að greina trúarstef í „The Village“ kemst fljótt að raun um að það er hægara sagt en gert. Mjög fáar beinar vísanir í trúarbrögð eru í myndinni, t.d. virðist enginn í þorpinu gegna trúarlegu embætti, enginn kross sést í allri myndinni og aðeins tvisvar kemur trúin lítillega fyrir í samtölum (í fyrra skiptið er minnst á guð og í hinu seinna kemur orðið bæn (prayer) fyrir). Ekki er að sjá að nokkur kirkja sé í þorpinu og fékk ég það á tilfinninguna að viljandi væri verið að sneiða framhjá öllum trúarlegum táknum. Þó ber að nefna að stytta af engli sést í grafreit þorpsins strax í byrjun myndarinnar.

Það er þó ekki svo að ekki sé hægt að tengja myndina sterklega við kristna trú. Samfélagið í myndinni er jú ansi líkt hinum sérstaka Amish söfnuði sem er einmitt hvað fjölmennastur í Pensilvaníu. Amish fólkið, eins og flestum er kunnugt, er frekar sérstakur kristinn söfnuður sem flúði ofsóknir í Evrópu (aðallega Niðurlöndum og Sviss) og settist að í Bandaríkjunum. Amish söfnuðurinn heldur samskiptum við umheiminn í lágmarki og er afar neikvæður gagnvart tækninýjungum. Á svipaðan hátt flýðu sögupersónur myndarinnar umheiminn og lokuðu sig af í einfaldara samfélagi, þar sem það taldi sig hafa meiri stjórn á sínu eigin lífi og meiri möguleika á hamingju.

Á kvikmyndasíðunni Hollywood Jesus og ýmsum öðrum kristilegum kvikmyndasíðum kemur fram greinileg andstaða kristinna við þá ákvörðun sögupersóna „The Village“ að flýja vandamál sín (gagnrýnin hlýtur þá einnig að eiga við Amish söfnuðinn). M.a. má sjá undirfyrirsögnina „Jesus Hates the Christian Sub-Culture“(sjá: http://www.hollywoodjesus.com/village_spiritual.htm) og fyrir neðan er vitnað í Matteus 5:13-16 um það að kristnir skuli vera salt jarðar og ljós heimsins og þeim beri að deila fagnaðarerindinu með öðrum. Þess vegna fer endir myndarinnar líklega í taugarnar á mörgum kristnum áhorfendum sem túlka hann sem uppgjöf og í andstöðu við kenningar Krists.

Það var reyndar ekki allskostar rétt þegar ég sagði hér að ofan að enginn kross hefði verið í myndinni. Þegar drengirnir í þorpinu leika sér að því að fara að landamærum þorpsins til að sjá hversu lengi þeir þora að standa með bakið í skóginn, standa þeir með hendurnar út frá báðum hliðum og mynda þannig kross með líkama sínum. Þegar drengurinn verður hræddur heldur hann þó enn sömu stellingu þegar hann byrjar að hlaupa. Ivy notast enn fremur við sömu stellingu þegar hún er að kljást við veruna í skóginum. Það gefur til kynna að íbúar þorpsins leiti þó til æðri máttar þegar hættan er hvað mest.

TáknfræðiM. Night Shyamalan hefur gaman af því að nota liti í myndum sínum og gengur sennilega hvergi jafn langt í litanotkuninni og í „The Village“. Þar eru tveir litir, rauður og gulur, gríðarlega mikilvægir fyrir atburðarásina.

Rauður: Liturinn rauður hefur tvíþætta merkingu í myndinni. Annars vegar merkir hann ást og hins vegar hættu/ofbeldi. Þegar Noah Percy (Adrian Brody) réttir Ivy Walker (Bryce Dallas Howard) rauðu berin, í einhverju þýðingamesta atriði myndarinnar, eru einmitt báðar merkingar litarins í gildi. Við fáum að vita að Noah elskar Ivy en um leið eru berin forboði hættu og ofbeldis, sem Noah gerir sér ekki grein fyrir fyrr en hann sér slæma litinn á höndum sér seinna í myndinni.

Þessi tvöfalda merking rauða litarins gefur einnig til kynna að ást og ofbeldi séu náskyld fyrirbæri sem geti jafnvel ekki verið sitt í hvoru lagi. Markmið eldri þorpsbúanna er að útiloka þann sársauka sem ofbeldið veldur en með því virðast þeir einnig útiloka ástina, eins og sést á sambandi Edward Walker (William Hurt) og Alice Hunt (Sigourney Weaver).

Það atriði sem mér þykir svo lang fallegast og mikilvægast í myndinni er þegar Ivy stendur með útrétta hönd í dyragættinni og bíður eftir að Lucius Hunt (Joaquin Phoenix) grípi í hana. Myndatakan og tónlistin eru hreint stórkostleg þar sem við sjáum ekkert nema útrétta hönd Ivy og skógarbúa í rauðum kufli nálgast óðum. Það lítur þá út eins og Ivy haldi á rauða litnum í hendi sér. Þegar Lucius grípur svo þéttings fast um hendi Ivy er hann að játa óendanlega ást sína á henni og það er undirstrikað með því að hægt er á myndinni og þau hlaupa niður í kjallara til að fela sig fyrir hættunni sem þau vita að er á næstu grösum. Í næsta atriði á eftir játar Lucius svo fyrir öllum þorpsbúum að hafa boðið hættunni/ofbeldinu heim og Edward segir við hann: „You are fearless in a way I shall never know.“

Gulur: Rétt eins og rauði liturinn hefur guli liturinn tvíþætta merkingu í „The Village“. Hann er annarsvegar litur heilunar og sólarinnar og er verndandi afl gegn rauða litnum en hinsvegar er hann tákn um hugleysi og veiklyndi öldunganna (yellow=huglaus). Viðbrögð stofnenda bæjarins við því ofbeldi sem ástvinir þeirra höfðu orðið fyrir var að reyna að stofna samfélag algerlega laust við allt ofbeldi (laust við rauða litinn). Það sem þau áttuðu sig ekki á var að rauði liturinn, og þær tilfinningar sem hann stendur fyrir, býr innra með okkur öllum og verður því aldrei útilokaður úr mannlegu samfélagi.

Gulu hempurnar sem bæjarbúar klæðast eru merki um veiklyndi þeirra og skort á rauða litnum. Þegar Ivy fer í gegnum skóginn hættir hún öllu, bæði lífi sínu og tilvist þorpsins fyrir ástina. Í skóginum þarf hún að kljást við rauðu veruna og í átökunum atast gula hempan hennar leðju sem felur gula litinn. Að lokum fer hún síðan úr hempuni og þegar hún snýr aftur í þorpið virðist hempan hafa orðið eftir í skóginum. Hún þarf því ekki lengur á þeirri heilun og vernd, sem guli liturinn veitir, að halda. Einnig er vert að hafa í huga að Ivy er rauðhærð, sem undirstrikar ástríður hennar enn frekar.

Brúnn: Heimur þorpsbúanna er þrískiptur, 1: Þorpið, 2: Skógurinn(verurnar), 3: Bæirnir. Við vitum nú þegar hverjir litir skógarveranna og þorpsbúanna eru, en eini bæjarbúinn sem við sjáum almennilega er klæddur brúnum fötum. Brúnn er þarna tákn fyrir efnishyggju, enda hafði Edward Walker áður varað dóttur sína við peningagræðgi bæjarbúa.

Niðurstaða M. Night Shyamalan er í raun mjög diplómatísk. Ivy Walker kemst að því að ekki eru allir jafn slæmir í bæjunum og stofnendurnir vildu láta vera. Hún segir við vörðinn: „You have kindness in your voice. I did not expect that.“ Þegar öldungarnir tala svo um að Noah Percy hafi gert sögur þeirra að raunveruleika eru það ekki aðeins sögurnar um skógarverurnar sem þau eiga við. Með því ofbeldisverki sem hann framdi í bænum sjálfum sýndi hann fram á að rauði liturinn væri innra með okkur öllum en ekki aðeins úti í skógi. Og með því að bjarga unnusta sínum gerir Ivy þorpinu kleift að halda tilveru sinni áfram og losar íbúa þorpsins við það veiklyndi sem fylgdi gula litnum. Það er ekki lengur flóttinn frá rauða litnum sem heldur þeim í þorpinu, heldur er það von íbúanna um betra og hamingjusamara líf en það þekkti áður.

Til þess að loka hringnum alveg má svo benda á að þetta er afskaplega svipað því sem Amish söfnuðurinn kallar rumpspringa þar sem unga fólkið fer frá söfnuðinum þegar það hefur náð vissum aldri og kemur ekki aftur fyrr en það hefur tekið ákvörðun um hvort það vilji búa í þorpinu eða bæjunum.

Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: bæn
Siðfræðistef: Blekkingar, morðtilraun, sorgarviðbrögð
Trúarleg tákn: englastytta, krossstelling