Kvikmyndir

The Virgin Suicides

Leikstjórn: Sofia Coppola
Handrit: Jeffrey Eugenides (byggt á bók hans), Sofia Coppola
Leikarar: James Woods, Kathleen Turner, Kirsten Dunst
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 93mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0159097
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Foreldrar fimm gullfallegra táningsstúlkna reyna að gæta þess að dætur þeirra afvegaleiðast ekki og halda þeim nánast í gíslingu innan veggja heimilisins. Þegar ein þeirra sviptir sig lífi verður breyting í lífi stúlknanna en hversu lengi mun hún vara og hvað gerist ef múrar heimilisins lokast að nýju?

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það eru margir trúarlegir og siðferðilegir þættir í þessari kröftugu kvikmynd leikstjórans Sofíu Cappola (hún „lék“ stúlkubarnið í The Godfather og síðan dótturina í Godfather III). Trúarlegar tilvísanir eru flestar í upphafi myndarinnar þegar Cecilia sviptir sig lífi. Foreldrar stúlkunnar eru rammkaþólskt miðstéttarfólk sem virðist trúa því að borðbænir og strangar siðareglur séu það eina sem táningsstúlkur þurfa. Heimilið er allt skreytt krossum og styttum af Maríu mey en þrátt fyrir hið „örugga“ umhverfi reynir Cecilia að taka eigið líf með trúarlegum myndum stráðum í kringum sig. Lögð er áhersla á kaldhæðnina með því að sýna mynd af Jesúbarninu í meyjarfaðmi ataða blóði Ceciliu. Ef það ætti að lýsa þessari mynd með einu orði þá væri „höfnun“ líklega besta orðið. Í fyrsta lagi neita foreldrar dætranna að horfast í augu við vandann heima fyrir, en gott dæmi um þessa höfnun er þegar kaþólskur prestur kemur heim til að ræða við fjölskylduna um dauða Ceciliu en finnur ekki móður þeirra og tekst ekki að fá föðurinn til að ræða um neitt annað en íþróttaleikinn í sjónvarpinu. Í öðru lagi hafna foreldrarnir heiminum og telja allt sem honum viðkemur illt. Heimshöfnun hefur lengi loðað við kristindóminn þótt margir fræðimenn hafi bent á að slík viðhorf séu utan að komandi áhrif og því ekki í samræmi við réttan kristilegan boðskap. Þessi mynd sýnir vel hörmulegar afleiðingar slíkra viðhorfa.

Persónur úr trúarritum: Jesús, María mey
Guðfræðistef: heimsflótti
Siðfræðistef: sjálfsvíg
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarleg tákn: kross, róðukross, biblíumyndir
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn, jarðarför