Kvikmyndir

They Call Me Trinity

Leikstjórn: Enzo Barboni [undir nafninu E.B. Clucher]
Handrit: Enzo Barboni [undir nafninu E.B. Clucher]
Leikarar: Terence Hill, Bud Spencer, Farley Granger, Elena Pedemonte, Steffen Zacharias, Dan Sturkie, Gisela Hahn, Ezio Marano, Luciano Rossi og Riccardo Pizzuti
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0067355
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Samviskulaus stórbóndi ágirnist landareign friðelskandi mormóna og reynir að hrekja þá burt til að geta komið hrossastóði sínu þar fyrir. Mormónarnir fá hins vegar óvænta hjálp frá hálfbræðrunum Trinity, húðlötum áflogaseggi sem enginn stenst snúning, og Bambino, nautsterkum hrossaþjófi sem siglir undir fölsku flaggi sem lögreglustjóri sýslunnar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt Terence Hill og Bud Spencer hefðu leikið saman í nokkrum spaghettí-vestrum áður, var það fyrst með þessum sem þeir náðu verulegum vinsældum, reyndar svo miklum að slagsmálagamanmyndin They Call Me Trinity telst enn til tekjuhæstu kvikmynda Ítala og fylgdu ótal framhaldsmyndir og stælingar í kjölfarið. Því má segja að hún sé öðrum fremur ábyrg fyrir því að á áttunda áratugnum skuli spaghettí-vestrarnir oftar en ekki hafa umturnast í húmorsnauðar ærslamyndir enda vildu kvikmyndaframleiðendurnir stæla sem mest það sem veitti bestan ágóðann. Enda þótt They Call Me Trinity sé reyndar ekki alvond og brosa megi jafnvel út í annað yfir stöku brandara, reyndust flestir þessara gamansömu spaghettí-vestra í besta falli slakir.

Trúarhópur mormóna kemur hér mikið við sögu en sú mynd sem dregin er upp af honum er samt lítt trúverðug og ber þess raunar merki hversu litla þekkingu aðstandendur kvikmyndarinnar hafa haft á honum. Reyndar er það rétt sem fram kemur í myndinni um fjölkvæni mormóna og andúð þeirra á áfengi, en að öðru leyti minnir hegðun þeirra og viðhorf þar einna helst á anabaptíska trúarhópa eins og amish-fólkið, sem þeir eiga í raun fátt sameiginlegt með.

Þannig sýnir kvikmyndin t.d. mormónana sem einlæga friðarsinna, sem ekki megi snerta vopn af trúarlegum ástæðum og bjóða lengst af hina kinnina í staðinn, en í raunveruleikanum starfræktu þeir um tíma sinn eigin her, gátu verið vel vopnum búnir, aðhylltust dauðarefsingar og sendu jafnvel hersveit til aðstoðar bandaríska hernum í stríðinu við Mexíkó um miðja nítjándu öldina. Bræðurnir Trinity og Bambino, sem kallaðir eru hægri og vinstri hönd djöfulsins, leysa þó vandann með því að kenna mormónunum ýmsar sjálfsvarnarbardagalistir, sem þeir síðan beita fyrir sér með góðum árangri gegn stórbóndanum og handbendum hans í lok myndarinnar

Auk þess vekur það athygli að mormónarnir skuli hampa í sífellu Biblíunni í kvikmyndinni en aldrei minnast á Mormónsbók eða spámenn sína, sem þó hafa alla tíð verið þeim einstakt hjartans mál. Biblíutilvitnanirnar eru ótal margar og flestar með þeim þekktari, svo sem um týnda sauðinn, hina síðustu sem verði fyrstir, hefndarákvæðið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn og mikilvægi þess að bjóða hina kinnina.

Ekki eiga samt allar biblíutilvitnanirnar við rök að styðjast. Mormónastúlkurnar tvær, sem heilla Trinity upp úr skónum, minna hann t.d. á ýmis ummæli, sem þær segja komnar frá spámanninum Esekíel úr Gamla testamentinu: „Aðeins kærleikurinn sigrast á illskunni. Blóði þínu mun hlýna frá líkamshita mínum. Og frá brjóstum mínum færð þú að drekka nægju þína. Og frá vörum mínum heyrir þú kærleiksorð ein um Drottin minn.“ Ekkert af þessu er hins vegar að finna í Biblíunni, hvorki í Gamla testamentinu né því Nýja, og ekki heldur í sérritningum mormóna, Mormónsbók, Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu. Að sérstakir biblíutextar skuli vera skáldaðir upp með þessum hætti fyrir kvikmyndir er þó alls ekkert einsdæmi, en slíkt hefur t.d. verið gert í hrollvekjunum The Omen og Lost Souls.

They Call Me Trinity er miðlungs spaghettí-vestri þar sem hnefahöggin og gamansemin skipta mestu máli. Terence Hill og Bud Spencer gera það sem ætlast er til af þeim en gamli Hitchcock-leikarinn Farley Granger (sem Danir nefna Garley Granger á kápu DVD myndarinnar) er fínn í hlutverki aðalskúrksins.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 3M 24:20; 5M 29:5; Jb 1:21; Jb 3:1; Pd 3:2; Mt 5:39; Mt 19:30; Mt 20:16; Mt 25:35; Mk 10:31; Lk 15:4-6; Lk 23:34
Hliðstæður við texta trúarrits: 5M 10:1-2; Sl 61:4
Persónur úr trúarritum: Esekíel, verndarengill, djöfullinn
Guðfræðistef: trú, kraftaverk, dómsdagur, paradís, fyrirgefning, helvíti, fjölkvæni
Siðfræðistef: hræsni, sjálfsvörn, ofbeldi, manndráp, víndrykkja
Trúarbrögð: mormónar
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, borðbæn, vitnisburður