Kvikmyndir

Thieves and Robbers

Leikstjórn: Bruno Corbucci
Handrit: Mario Amendola og Bruno Corbucci
Leikarar: Bud Spencer, Tomas Milian, Marc Lawrence, Billy Garrigues, Joan Call, Jackie Castellano, Dan Fitzgerald, Margherita Fumero, Richard Liberty, Rhonda S. Lundstead, C.B. Seay, Don Sebastian, Darcy Shean og Cristina Trotter
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1982
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.33:1

Ágrip af söguþræði:
Lögregluforingi í Miami í Bandaríkjunum leitar uppi skartgripaþjóf sem táldregið hafði eiginkonu valdamikils þingmanns með tengsl við mafíuna.

Almennt um myndina:
Frekar illa leikin og óhemju vitlaus ítölsk gamanmynd með Bud Spencer í aðalhlutverki sem aldrei þessu vant sparar hnefahöggin fyrstu 50 mín. Tomas Milian er nær óþekkjanlegur í hlutverki frekar aulalegs skartgripaþjófs sem engin kona fær staðist, en hann er kannski þekktastur fyrir hlutverk sín í spaghettí-vestrunum The Big Gundown (Sergio Sollima: 1966), Django Kill! If You Live, Shoot! (Giulio Questi: 1967) og The Four of the Apocalypse (Lucio Fulci: 1975). Mafíuforinginn er hins vegar leikinn af Marc Lawrence sem er þekktastur úr film noir myndum á borð við Key Largo (John Huston: 1948) og The Asphalt Jungle (John Huston: 1950).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Mafíuforinginn er eigandi kristilegrar verslunar sem selur meðlimum rómversk-kaþólsku kirkjunnar helga muni á borð við líkneski, styttur og róðukrossa. Þar afgreiðir hann viðskiptavini sína og stjórnar starfsemi mafíunnar um leið. Með öðrum orðum: Skólabókardæmi um hræsni.

Persónur úr trúarritum: verndarengill
Guðfræðistef: hræsni
Siðfræðistef: svik, þjófnaður, veiklyndi kvenna, manndráp, samkynhneigð, spilling
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kristileg verslun, kirkja
Trúarleg tákn: maríulíkneski, jesúmynd, englamynd, róðukross, málverk af síðustu kvöldmáltíðinni, dýrlingarlíkneski, Jesústytta, veggkross, páfastytta, altari, altaristafla
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: hjónavígsla