Kvikmyndir

This Man Can’t Die

Leikstjórn: Gianfranco Baldanello
Handrit: Gianfranco Baldanello, Luigi Emmanuele og Gino Mangini
Leikarar: Guy Madison, Lucienne Bridou, Rosalba Neri, Rik Battaglia, Alberto Dell’Acqua [undir nafninu Robert Widmark], Steve Merrick, Pietro Martellanza [undir nafninu Peter Martell] og John Bartha
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1967
Lengd: 90mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Bandaríski herinn fær Martin Benson til liðs við sig til að uppræta ólöglega vopnasölu til indíána. Þegar nokkrir sveitungar hans eru hengdir eftir að hann svíkur þá í hendur hersins, eru foreldrar hans og unnusta öll myrt og systur hans nauðgað. Benson grípur þegar til vopna og einsetur sér að uppræta bófaflokkinn fyrir fullt og allt.

Almennt um myndina:
Frekar slakur spaghettí-vestri sem virðist flestum gleymdur enda ekki minnst á hann í helstu handbókum um þessa grein kvikmyndaflórunnar, svo sem í Western All’Italiana ritröðinni.

Sumar aukapersónurnar eru skelfilega ofleiknar en ekki er heldur hægt að segja að nokkur leiki sérstaklega vel í myndinni. Það er þó vart við alla leikarana að sakast sökum þess hversu vitlaust handritið er og persónusköpunin grunn frá höfundum þess. Svo dæmi sé tekið missir Rosalba Neri í hlutverki glaðlyndu systurinnar málið við nauðgunina og fær það ekki aftur fyrr en hún sér nauðgarann skotinn til bana undir lok myndarinnar. Og sama hvað á dynur þá er Guy Madison í hlutverki Bensons alltaf jafn hress.

Meðferðin á hestunum er auk þess ámælisverð en þar steypast þeir jafnan fram yfir sig eins og þeir hafi hlaupið á strengda kaðla.

Tónlistin er að mestu tilbreytingarlaus enda sama stefið endurtekið aftur og aftur. Stöku sinnum er þó skotið inn einu lagi eftir meistara Ennio Morricone sem fengið er að láni úr spaghettí-vestranum A Fistful of Dollars (Sergio Leone: 1964) og verður það að teljast það besta við myndina.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Texti titillagsins fjallar um helgi lífsins og mikilvægi fyrirgefningarinnar og segir þar m.a. að lífið sé það eina af gjöfum Guðs til mannsins sem geti talist með sanni dýrmætt. Óneitanlega verður þetta hins vegar að teljast öfugmæli í ljósi þess að byssukúlurnar eru ávallt látnar leysa vandann í myndinni og það með góðum árangri.

Svikarar í spaghettí-vestrum eru oft bendlaðir við Júdas, lærisveininn sem sveik Jesú Krist fyrir þrjátíu silfurpeninga. (Mt. 26:15, 27:3, 9.) Má þar t.d. nefna spaghettí-vestrana Twice a Judas (Nando Cicero: 1969) og Once Upon a Time in the West (Sergio Leone: 1969), en svikararnir eru þar allir kallaðir Júdas. Þegar Benson segist í upphafi myndarinnar fá nú greitt með gulli í stað silfurpeninga, er hann sennilega að vísa til launa Júdasar, en einmitt á því andartaki er verið að hengja bófana sem hann hafði svikið. Fyrir vikið tala bófarnir líka ávallt um Benson sem djöfulinn sjálfan þegar þeir reyna að hefna félaga sinna það sem eftir er af myndinni.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt. 26:15, 27:3, 9
Guðfræðistef: gjöf Guðs, lífið, fyrirgefning, predikun
Siðfræðistef: manndráp, dauðarefsing, aftaka, svik, hefnd, hæðni, nauðgun
Trúarleg tákn: kross á leiði