4. árgangur 2004, Fyrirlestur, Vefrit

Þjáning kristsins

Guð hefnir þeirra sem gera gys að Jesú, hvort sem það eru ræningjar – hrafninn plokkar úr þeim augun, eða Gyðingar – þeir verða hundeltir fram á efsta dag. „Þjáning kristsins“ er saga um miskunnarleysi, hér fer lítið fyrir mannúð, fyrirgefning er engin, og hér er engin upprisa. Kveinandi fólk fylgir sláturlambinu inn í myrkið á Golgata. Góði maðurinn er Pílatus sem mannkynssagan gefur síður en svo glæsilegan vitnisburð. En hann hleypir atburðarásinni af stað, fyrir hans tilverknað fær vilji Guðs framgang, og hið illa má ráða ferðinni í tólf klukkustundir. Allt er í réttum farvegi sem fyllist hægt og sígandi af blóði hins saklausa í þessari svallveislu blóðsins.

Þjáður KristurÍ blóði drifinni kvikmynd Gibsons, „einni ofbeldisfyllstu kvikmynd sögunnar“, þokast blóðstokkinn arameinn upp hæðina, krsitin trú snýst um rauðan píslarferil; þetta er kærleikur Guðs til mannanna. Því meira blóð þeim mun meiri er ást Guðs: „Jesús kastar öllum mínum syndum bak við sig.“ Leyfið börnunum alls ekki að koma til mín.

Hið heilaga í skelfingunni

Áður en við komum að hinni eiginlegu trúfræðilegu spurningu dagsins, vaknar þessi: Skyldi Mel Gibson skynja návist hins heilaga í myrkrinu? Er það kannski rétt, sem miðaldadulhyggjan og ekki síður spænska dulhyggjan taldi sig vita, að það sé ekki aðeins í hinu góða, fagra og fullkomna sem maðurinn skynjar hið guðlega heldur einnig og ekki síður í myrkrinu, í þjáningunni, í firringunni? Er það handan myrkursins sem maðurinn skynjar birtu hins guðlega?

Raunar fundu ritendur Gamla testamentisins hið heilaga ekki í fegurðinni heldur í þeim leyndardómi sem er í senn skelfilegur og undursamlegur, tremendum og fascinosum. Þannig upplifði Jakob hið heilaga þegar hann dreymdi stigann til himins og varð að orði þegar hann vaknaði: „Hversu hræðilegur er þessi staður. Hér er vissulega Guðs hús og hér er hlið himinsins“.

Gibson vekur slíkar pælingar á meðan hann leiðir manninn fram á hengiflug hins þolanlega, inn í myrkrið á Golgata, þar sem örvæntingin heltekur manninn: þar er það sem maðurinn mætir hinu heilaga, hinum ógurlega og óskiljanlega guðdómi í leyndardómi óhugnaðarins í öllu sínu veldi.

Sú virðist vera skoðun Gibsons í þessari sýndarraunsæislegu mynd. Því að atburði píslarsögunnar er hægt að uppteikna og útmála á alla vegu – ekki síst með kraftaverkatólum galdramannanna í Hollýwood – en þeir eru háðir túlkun: hvað er að gerast á Golgata? Kannski að Hollýwood gæti líka sýnt okkur upprisuna?

Kross án upprisu

Hið guðfræðilega viðfangsefni Gibsons er að sýna blóðvöllinn sem nauðsynlega ráðstöfun Guðs til þess að kaupa mennina lausa undan valdi syndarinnar. Málið snýst um fórn hins saklausa til að hreinsa hina seku og syndugu. Í þessu efni er leikstjórinn, sem oft hefur fengist við líkamlega þjáningu, ekki í guðfræðilegu tómarúmi.

Og hinir seku, hverjir eru þeir? Það erum „við“. Við erum hinir siðlausu og syndugu, illa tenntu Gyðingar, hinir grimmu og villimannslegu Rómverjar. Synd okkar er mikil, er þetta ekki spegilmynd af mér og þér? Þannig er hugsunin á bak við ofbeldið sem engan enda ætlar að taka í kvikmyndinni.

Hið guðfræðilega inntak undirstrikaði Gibson rækilega með því að bjóða útvöldum fulltrúum trúarlegs harðlínufólks á forsýningar og frumsýningar.

Í einu og öllu er Gibson fulltrúi þeirrar guðfræði sem horfir eingöngu á dauða Jesú, krossinn á Golgata skiptir öllu máli, annað er aukaatriði, líf hans allt, kennig hans og fordæmi. Fórn hins saklausa sektarlambs er það sem allt snýst um.

Hér vaknar spurningin um syndina, hvað er synd í kristinni guðfræði? Snýst hún um blóðsúthellingar og mannvonsku einvörðungu, er hún ekki öllu heldur tilvistarástand, firring mannsins frá tilgangi og markmiði í heimi sem er honum innst inni framandi?

Túlkun krossins

Kvikmynd Gibsons heitir ekki The Passion of Christ heldur The Passion of the Christ, þjáning kristsins. Þetta orðalag er fátítt, ég man aðeins eftir einum guðfræðingi á tuttugustu öld sem notar það í guðfræði sinni. Kristurinn, hinn smurði, er einn og enginn er honum líkur.

En hvernig ætti að túlka krossfestinguna ef sýndarraunsæi Gibsons gengur ekki upp? Lúthersk guðfræði síðustu áratuga myndi gera það eitthvað á þessa leið, þótt aðrir valkostir séu einnig fyrir hendi:

Á Golgata horfum við á kristinn ganga alla þá leið sem Guð hefur markað hinum útvalda. Ekki aðeins píslarferilinn til Golgata heldur alveg frá upphafi, allt frá jötunni í Betlehem, hann bregst ekki þeim sem líða vegna fyrirlitningar samfélagsins eða vegna sjúkdóma sem einangra þá frá öðrum, og vini sína svíkur hann ekki á stund neyðarinnar. Hann er mannlegur í orðsins dýpsta skilningi, í mennsku hans og samlíðun opinberast guðdómur hans. Hið guðlega tekur sér bústað í kristinum sem afhjúpar návist Guðs með þessum sérstaka hætti, í þjáningunni, í yfirþyrmandi umkomuleysi mannsins í þessum heimi. Þar skynjar maðurinn návist Guðs þegar hann öðlast nýja von. Hér er það sem „Guð verður maður“.

Þessi Guð þarf ekkert blóð til að elska mennina en hann kallar manninn til eftirfylgdar sem kann að kosta mikið – rétt eins og hún kostaði Jesúm sjálfan mikið, já raunar lífið.

Lokaorð

Kristurinn þjáði er ekki aðeins á krossinum. Við þekkjum hans eigin orð um það efni: „.. .allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gjört mér.“

Um hugann renna svipmyndir af blóðvöllum heimsins úr fréttum og kvikmyndum, af blóðugum harmleik í Madrid snemma í morgun, af blóði drifnum götum Bagdadborgar, þjóðarmorðum í Rúanda og í Balkanlöndum, af sundurtættu fólki eins og hráviði umhverfis uppsprengdan strætisvagn, var það í Betlehem, eða kannski í Jerúsalem? Blóðvelli skortir ekki. Og á sjö metra dýpi við netabryggjuna í Neskaupsstað beið líkið af litháanum Vaidas Jucevicius, vafið í plast, hlekkjað við járnkúlur, rækilega merkt stungusárum eftir 12 cm langan veiðihníf. En þjáð móðir bíður öskunnar í fjarlægu landi.

Krossinn er aldrei langt undan, „krossinn er alls staðar“ sögðu dulhyggjumenn miðalda, hann er hvar sem einhver þjáist og hrópar í örvæntingu. Og upprisan, hún er hér og nú, hvar sem kristurinn er nærri og snýr örvæntingu mannsins í nýja von.

Gibson hefur framleitt krossfestingarmynd án upprisu, mynd um kvalalosta og blóðsvall en boðskapur um samúð og samlíðun er víðsfjarri. Boðskapurinn drukknar í blóði.

Kvikmyndin gæti hins vegar komið blóðinu á hreyfingu í guðfræðilegri umræðu okkar prestanna en heita má að sú umræða, sem er undirstaða undir trú kirkjunnar og allt hennar starf, hafi legið í dvala árum saman.

Kvikmyndin Þjáning kristsins ætti að vera umhugsunarefni og jafnvel viðvörun öllu hugsandi kristnu fólki. Hér gefur að líta eina ásjónu kristindómsins í samtímanum.

En er það ekki kristindómur í sinni afskræmdustu mynd?

Dr. Gunnar Kristjánsson er prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi. Þetta erindi var flutt á dagskrá á vegum Deus ex cinema og Prestafélags Íslands í Digraneskirkju, fimmtudaginn 11. mars 2004, að lokinni sýningu á kvikmyndinni The Passion of the Christ.