Kvikmyndir

Tiffany Memorandum

Leikstjórn: Sergio Grieco [undir nafninu Terence Hathaway]
Handrit: Sandro Continenza og Roberto Gianviti
Leikarar: Ken Clark, Irina Demich, Loredana Nusciak, Luigi Vannucchi, Michel Bardinet, Jacques Berthier, Carlo Hinterman og Solvi Stubing
Upprunaland: Ítalía og Frakkland
Ár: 1967
Lengd: 80mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Rannsóknarblaðamaðurinn Dick Allam frá dagblaðinu New York Times verður vitni að morði á þekktum suður-amerískum stjórnmálamanni á götu úti í París og einsetur sér að leiða sannleikann í ljós.

Almennt um myndina:
Allmargar njósnamyndir voru gerðar með Ken Clark á sjöunda áratugnum og nutu þær einkum vinsælda á meginlandi Evrópu. Njósnamyndin Tiffany Memorandum, sem þykir í meðallagi af þessum myndum, hefur ýmislegt til síns ágætis, einkum glæsilega kvikmyndatöku Stelvios Massi og fína tónlist Riz Ortolani. Ken Clark er ennfremur betri en margar njósnahetjur þessa tímabils, þar með taldir þeir David Niven og Roger Moore sem báðir léku enska leyniþjónustumanninn James Bond, auk þess sem Loredana Nusciak stendur sem fyrr fyrir sínu í hlutverki glæsilegs feigðarkvendis.

Versti galli myndarinnar er þó hörmulega illa útfærður árekstur tveggja hraðlesta sem rekast á á fullri ferð, en báðar eru þær augljóslega leikfangalestir sem láta ekkert á sjá við áreksturinn. Klippingin er ennfremur klúðursleg í þessu tiltekna atriði, ekki síst þegar sjúkrabílarnir mæta á slysstaðinn. Að öðru leyti er vinnsla myndarinnar nokkurn veginn óaðfinnanleg.

Kápumyndin á myndbandsspólunni er út af fyrir sig nokkuð flott en ekkert sem á henni er kemur hins vegar við sögu í sjálfri kvikmyndinni. Þar er t.d. ekkert mótorhjól að finna og fólkið á kápunni er alls ólíkt leikurum myndarinnar. Auk þess var myndin gerð árið 1967, en á kápunni gefur að líta mun nýrri árgerðir af Pontiac Bonneville og Mercedes Benz.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Gnægð er af siðfræðilegum stefum varðandi t.d. manndráp, fjárhættuspil, svik, njósnir og jafnvel fjölkvæni, en ekkert trúarlegt kemur við sögu í myndinni.

Siðfræðistef: manndráp, fjárhættuspil, svik, njósnir, fjölkvæni
Trúarleg embætti: nunna