Kvikmyndir

Tomb Raider

Leikstjórn: Simon West
Handrit: Simon West, Patrick Massett og John Zinman. Byggt á sögu Sara B. Cooper, Mike Werb og Michael Colleary
Leikarar: Angelina Jolie, Iain Glen, Jon Voight, Daniel Craig, Noah Taylor, Leslie Phillips
Upprunaland: Bandaríkin og Bretland
Ár: 2001
Lengd: 98mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0146316
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Óprúttin leyniregla hefur beðið í mörg þúsund ár eftir því að störnurnar raði sér upp í beina línu. Á þeirri stundu ætla þeir að nota fornan þríhyrning til að ná valdi yfir tímanum. Slíkt hafði einu sinni gerst áður og afleiðingarnar urðu hörmulegar. Ef þessum illu mönnum tekst ætlunarverk sitt þá gæti það leytt til heimsenda og gjöreyðingar mannkynsins. Ofurhetjan Lara Croft fær það hlutverk að gæta hagsmuna okkar, svo við hin getum varið tíma okkar í mikilvægari hluti eins og að japla á poppi og þamba kók í bíó.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Tomb Raider er hlaðin trúartilvísunum. Baráttan í myndinna snýst um að verða eins og Guð, að ná völdum og geta drottnað sem hann. Þau sem ná valdi yfir tímanum hafa í raun líf og dauða annarra í hendi sér. Þau eru nánast almáttug. Myndin minnir um margt á Raiders of the Lost Ark, en þar snérist baráttan einnig um guðlegan hlut, ekki klukku tímans eins og hér heldur hina fornu sáttmálsörk Gyðinga. Markmið hinna illu manna (en þá voru það nasistar) var einnig að hrifsa til sín guðlegt vald.

Það virðist vera algengt stef í kvikmyndum að hætta sé á höndum þegar pláneturnar raða sér upp í beina línu. The Dark Crystal (1982) og Hercules (1997) eru góð dæmi um það. Þetta stef er einnig tekið upp í Tomb Raider en það er sett inn í 7 daga skemað. Guð skapaði heiminn á 6 dögum og hvíldi sig á þeim sjöunda. Lara Croft hefur einnig 7 daga til að bjarga sköpun Guðs, en hún hvílst hins vegar ekki á sjöunda deginum eins og Guð, enda væri þetta líklega ekki spennumynd ef Guð hefði fengið að ráða!

Trúarstefin eru fjölmörg og hinum ýmsu trúarbrögðum er blandað saman. Þarna er austurlenskum trúarbrögðum hrært saman við leynireglur, píramídafræði, fornan átrúnað og ýmis kristin stef. Kveðjuræða föður Löru minnir t.d. á kveðjuræðu Krists í Jóhannesarguðspjalli. Í myndinni er einnig að finna sýnir, kraftaverk, vangaveltur um takmörk sköpunarinnar, tímann og sorgina. Einnig er myndin gott innleg inn í jafnréttisumræðuna. Lara Croft er kvenkyns Bond eða Indiana Jones. Hún er vel gefin, sjálfstæð og ótrúlega sterk. Karlmennirnir eru hins vegar flestir hálfgerðir aular og lítil ógn við Löru. Það er mikið um freudisk tákn í myndinni en skemmtilegasta dæmið er líklega þegar Lara stekkur upp á langan oddalaga drumb og rólar honum þangað til hann stingst inn í kúlu. Hinn nútíma kvenmaður hefur ekki aðeins beislað „phallusinn“ heldur einnig tekið hann í sína þjónustu. Í þessu atriði kristallast einnig vandi Löru. Hún neitar að sætta sig við kvenlegu hlið sína. Hún gengur aldrei í kjólum og virðist fyrirlíta allt sem viðkemur hefðbundnum heimi kvenmannsins. Án þess að ljóstra upp um endi myndarinnar get ég þó sagt að henni tekst að lokum að sameina hinn karllega og kvenlega þátt innra með sér og stendur að lokum uppi sem heil manneskja. Hin fullkomna nútíma kvenhetja er fædd. Kvenhetja sem sannar sig hvorki á forsendum karla eða kvenna heldur gengur út fyrir hefðina sem sjálfstæður einstaklingur.

Þeir sem ekki hafa séð myndina ættu e.t.v. að hætta að lesa núna því hér er ljóstrað upp um myndina.

Ung að árum missti Lara föður sinn, en þau höfðu verið mjög náin. Það er ljóst að hún syrgir hann mjög og hún virðist ekki vera búin að vinna sig almennilega út úr sorginni yfir föðurmissinum. Það mætti kannski segja að hennar helsti veikleiki (verða ekki allar ofurhetjur að hafa einn veikleika) liggi einmit í þessu. Þrjótarnir í myndinni nýta sér það óspart. Í miklu uppgjörsatriði undir lok myndarinnar er hennar freistað, hún á þess kost á að nýta mátt þríhyrningsins í eigin þágu, fara aftur í tímann og bjarga föður sínum. Þetta er útfært þannig að hún mætir föður sínum og ekki verður annað sagt en að þarna sé hún að vissu leyti neydd til að horfast í augu við sjálfa sig og sorgina líka. Það er skemmst frá því að segja að hún kemst heil frá þessari glímu því hún kýs að vera trú gildismati sínu og nýta ekki þennan mátt í eigin þágu heldur eyðileggja gripinn (eins og reyndar faðir hennar vildi).
Um leið er þetta táknrænt fyrir uppgjör hennar við eigið líf og við sorgina. Lara, sem áður var fyrst og fremst ósátt og syrgði hinn glataða tíma sem var hrifsaður frá henni og föður hennar, hefur nú stigið eitt mikilvægt skref í áttina til þess að gangast við missi sínum. Og hún er sterkari fyrir vikið vegna þess að hún hefur staðist í prófraun þar sem gildismat hennar (sem hún fékk að einhverju leyti frá föður sínum) var lagt að veði. Sá eða sú sem gengur í gegnum slíka prófraun (eða freistingu, á máli Biblíunnar) stendur uppi eftir hana með sterkari sjálfsmynd og gildismat.
Þegar Tomb Raider er skoðuð frá þessu sjónarhorni má sjá hana sem e.k. dæmisögu um úrvinnslu sorgar þar sem boðskapurinn er sá að syrgjandinn verður að læra að lifa með missinum, hann/hún á að vera glöð yfir því sem hinn látni skildi eftir sig, en má ekki lifa í fortíðinni eða í þeirri von að fortíðin komi einhvern tímann aftur. Áherslan er þannig lögð á uppbygginguna og horft til framtíðar. Það er í þessu ljósi sem skoða má það þegar Lara klæðist kjólnum (sem hún hafði ekki viljað klæðast) undir lok myndarinnar: Hún er orðin heil eftir glímuna við sorgina.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 26:64 Mk 14:62
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1, Jn 2, Jh 17:20-26
Persónur úr trúarritum: Almættið, Guð, Síva
Guðfræðistef: auga Guðs, eilífð, freistingar, heimsslit, kraftaverk, tíminn, vald Guðs,
Siðfræðistef: jafnrétti kynjanna, misnotkun valds, missir, svik
Trúarbrögð: frumstæð trúarbrögð, hindúismi, leyniregla, pýramídafræði, stjörnuspeki
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki, musteri, píramídi
Trúarleg tákn: píramídi, þriðja augað
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, mantra
Trúarleg reynsla: sýn