Kvikmyndir

Trois Colours: Bleu

Leikstjórn: Krzysztof Kieslowski
Handrit: Krzysztof Kieslowski, Krzysztof Piesiewicz, Agnieszka Holland, Slavomir Idziak, Edward Zebrowski.
Leikarar: Juliette Binoche, Benoît Régent, Florence Pernel, Charlotte Véry, Hélène Vincent, Philippe Volter, Claude Duneton, Hugues Quester, Emmanuelle Riva, Florence Vignon, Daniel Martin, Jacek Ostaszewski, Yann Trégouët.
Upprunaland: Frakkland, Pólland, Sviss
Ár: 1993
Lengd: 100mín.
Hlutföll: www.imdb.com
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Þrís litir: Blár er fyrst í röð þriggja mynda Kieslowskis um litina þrjá í franska fánanum og fjallar hún um frelsið. Hinar myndirnar eru Hvítur sem fjallar um jafnréttið og Rauður sem fjallar um bræðralagið.Myndin gerist í París og segir frá Julie, sem Juliette Binoche leikur, konu sem á allt og virðist njóta hamingju og velgengni þegar hún, Patrice eiginmaður hennar og Anna dóttir þeirra lenda dag einn í bílslysi. Eiginmaðurinn og dóttirin deyja og sjálf slasast hún töluvert. Myndin fjallar síðan um það hvernig henni tekst að vinna úr áfallinu.Líkamlegir áverkar jafna sig smátt og smátt en andleg sár eru hins vegar ógróin. Hún þarf að takast á við alveg nýjar aðstæður og það óvænta og óvelkomna frelsi sem hún hafði allt í einu hlotið. Hún reynir fyrst að svipta sig lífi en guggnar á því og ákveður í staðinn að slíta öll bönd við fortíðina og minningarnar.Ýmis atvik og tengsl við annað fólk leiða loks til þess að Julie áttar sig á því að það sem hún er að reyna það er ógerlegt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin lýsir áfalli sem manneskja verður fyrir og þeirri sorg sem það felur í sér. Hún fjallar um það hvernig Julie gengur að takast á við áfallið og vinna úr sorg sinni.Sá þáttur myndarinnar er mjög áhugaverður og það er áleitið íhugunarefni hvernig Julie bregst við aðstæðum sínum. Hún festist lengi vel á stigi afneitunar og vill ekki horfast í augu við raunveruleikann.Í staðinn reynir hún að flýja fortíðina og minningarnar. Smám saman lýkst þó upp fyrir henni á hvaða braut hún er og þar skipta einstaklingar sem hún tengist verulegu máli en einnig ófullgert tónverk sem eiginmaður hennar, Patrice, var að vinna að þegar hann lést. Tónverkið er samið við kærleiksóð Páls postula í 1 Kor 13 og í því er trúarstef myndarinnar fyrst og fremst fólgið.Kærleikurinn eins og honum er lýst í bréfi Páls verður að verulegu leyti viðfangsefni myndarinnar og sú spurning hvort frelsi á skuldbindingar kærleikans sé nokkurt frelsi.Þá skiptir kross sem Julie var með um hálsinn þegar fjölskyldan lenti í slysinu einnig miklu máli og er áhugavert að tengja hann við kærleiksóð Páls og leiða þar með hugann að kærleika Krists sem fyrirmynd hins fullkomna kærleika. Leiða má rök að því að það sé kærleikurinn sem að lokum leysir Julie úr fjötrum afneitunar sinnar.Tónlist Zbigniew Preisners gegnir veigamiklu hlutverki í myndinni og áréttar í hún gildi minninganna um leið og hún tengist lausn Julie þegar hún fellst í lokin á að ljúka tónverki eiginmanns síns.Í rauninni er kvikmynd Kieslowskis, Þrír litir: Blár, hugvekja um þennan kærleiksóð Páls. Merking myndarinnar lýkst ekki fyllilega upp fyrr en samhengið þarna á milli er skoðað. Frelsi án kærleika verður sjálfhverft og marklaust. Raunveruleg merking kærleikans er frelsun.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1 Kor 13
Guðfræðistef: kærleikur, þjáning
Siðfræðistef: frelsi, sjálfsvíg, vændi
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför