Kvikmyndir

Trois couleurs: Blanc

Leikstjórn: Krzysztof Kieslowski
Handrit: Krzysztof Kieslowski og Krzysztof Piesiewicz
Leikarar: Zbigniew Zamachowski, Julie Delpy, Janusz Gajos, Jerzy Stuhr, Aleksander Bardini, Grzegorz Warchol, Cezary Harasimowicz, Jerzy Nowak, Jerzy Trela og Cezary Pazura
Upprunaland: Pólland, Frakkland, Sviss og Bretland
Ár: 1994
Lengd: 88mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Karol er pólskur hárskeri, vel fær í sínu fagi, hefur fengið verðlaun. Hann eignast franska unnustu, Dominique að nafni, og leikur allt í lyndi hjá þeim í París þar til að sjálfu brúðkaupinu loknu. Þá fyrst missir Karol getuna og gagnast konu sinni ekki lengur í rúminu. Það harmræna og um leið grátbroslega í myndinni er að eftir að ástin hans hefur vígst honum í hvíta brúðarkjólnum neitar líkami hans að umbreyta ástinni í þann losta sem er forsenda samfara. Dominique missir því áhugann á eiginmanni sínum og þau skilja. Karol hrópar eftir jafnrétti í franska dómssalnum en hann er auðmýktur, honum er kastað á dyr og hann hrökklast blankur heim til Varsjá í ferðakoforti kunningja síns.

Karol elskar samt fyrrverandi eiginkonu sína áfram en hann er beiskur og ákveður að hefna sín á henni þegar að hún vísar honum enn einu sinni frá og skellir á hann þegar hann hringir til hennar, bara til að fá að heyra rödd hennar. Karol notar auð sín og sambönd til að setja jarðarför sína á svið og Dominique er viðstödd og á von á að erfa fyrrverandi mann sinn. En margt fer á annan veg en ætlað var og lok aturðarásarinnar hafa þau hvorugt séð fyrir.

Almennt um myndina:
Myndin er miðhluti þríleiksins svonefnda sem Kieslowski gerði með skírskotun í litina í franska þjóðfánanum. Að mínu mati hefur hún nokkuð verið í skugga hinna tveggja, sérstaklega Blás sem einnig byggir á harmrænu drama. E.t.v. hafa kómísk atriði í Hvítum dregið nokkuð úr dramtískum áhrifum hennar í hugum þeirra sem bera saman litina þrjá.

Myndin er öðrum þræði nærgöngul greining á ástinni, sambandi manns og konu, eiginmanns og eiginkonu, sambandi sem lýkur ekki við landamæri lífs og dauða, en þau landamæri eru höfundi myndarinnar hugstæð og hann leikur sér með þau á sinn sérstaka hátt. Í þessari greiningu vísar hann til meyjarinnar sem var móðir Guðs, heilög og hrein, handan mannlegra ástríðna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Með sér til Póllands hefur Karol styttu af konu sem hann tengir greinilega við Dominique en gæti verið af Maríu mey. Hann lætur vel að styttunni og kyssir hana áður en hann fer að sofa. Margt í myndinni skírskotar til dauða, greftrunar og upprisu, hins gamla og nýja lífs. Ferðalagið í kofortinu minnir þannig á dauða. Hann steig niður til heljar. Kofortinu í er rænt af færibandinu í pólsku flugstöðinni og ræningjarnir opna það á afviknum stað hjá sorphaugum, verða þeir flemtri slegnir er maðurinn rís ringlaður upp úr því. Þeir hirða af honum úrið en láta styttuna af konunni vera og hrinda honum síðan í sorpið.

Síðar í myndinni er sýnt hvar Karol speglar sig í gleri yfir málverki af Maríu mey með Jesúbarnið þar sem hann greiðir sér. Þá hefur hann nýlega gengið frá kaupsamningi sem gerir hann að auðugum manni í svartamarkaðsbraskinu í Póllandi á árunum eftir fall kommúnismans.

En Karol er harmkvælamaður þrátt fyrir auðinn. Konan sem hann elskar er ósnertanleg. Hefndaráform hans ná á sérstæðan hátt út fyrir gröf og dauða. Auðurinn sem Karol hefur til að byrja braskið fær hann hjá kunningja sínum sem borgar honum fyrir að stytta sér aldur. Karol miðar byssunni og hleypir af án þess að hafa skot í hylkinu því að hann vill veita kunningjanum möguleika á að skipta um skoðun. Kunninginn eignast fyrir vikið nýtt líf og hættir við að deyja, en vill samt ekki að borgunin sé látin ganga til baka.

Í auglýsingu er myndin flokkuð sem gamanmynd, fyndin og kaldhæðin ­ en hún er samt sem áður fyrst og fremst harmræn ástarsaga, saga um fólk sem rekst hvort á annað í leit sinni að hinni sönnu ást. Þau virðast ekki ætla að höndla hana vegna þess að á milli þeirra ríkir ekki jafnrétti, hugsjónin sem hvíti liturinn táknar í þríleik Kieslowskis. Myndin er saga af ást sem gengur ekki upp frekar en önnur náin sambönd þar sem gagnkvæma virðingu og traust skortir. Sá sem telur sig svikinn í tryggðum reynir að hefna sín, en þegar ást og hefnigirni ganga í eina sæng flýr jafnréttið út í veður og vind og atburðarásinn fer út á brautir sem enginn getur séð fyrir hvar enda.

Karol gerir erfðaskrá og sviðsetur eigið andlát. Hann honum er í lófa lagið að kaupa sér lík og útvega öll viðeigandi skjöl. Dominque fær síðan að vita að hún sé eini erfingi fyrrverandi eiginmanns síns. Hún mætir við jarðarförina en Karol fylgist með úr fjarska. Hann kemur Dominique svo á óvart í hótelherbergi hennar þar sem hann er háttaður ofan í rúm. Þá vill svo til að hann er loksins orðinn góður elskhugi þrátt fyrir, eða e.t.v. einmitt vegna þess, að hjónabandið er ekki lengur til staðar. Þegar hjónabandið er dautt og hann sjálfur sömuleiðis opinberlega, þá rís loks sá hluti líkama hans upp sem ólíklegastur var til þess arna.

En atburðarásin sem Karol hefur komið af stað verður ekki stöðvuð. Lögreglan bankar upp á og Dominique er handtekin og dæmd fyrir morðið á fyrrverandi eiginmanni sínum. Ástæðan er augljós, morðið var auðgunarbrot. Eftir þetta lifir Karol fyrir það eitt að fá að horfa á konuna sem hann elskar úr fjarlægð og þá hrífsthann eins og í leiðslu og tárinn flóa. En við það á ummyndunin sér stað. Dominique, sem e.t.v. er orðin vitskert og komin inn í annan heim, tekur á sig mynd maddonnu sem minnir bæði á Monu Lísu og Maríu mey. Fangelsisglugginn ummyndast líka og verður að viðeigandi ramma um helgimynd í steindu gleri. Dýrlingurinn ósnertanlegi myndar óræð tákn með höndum sínum ­ það er eins og hún setji hring á fingur. Er hún að tjá honum ást sína eftir allt saman þar sem hún sér hann úr fjarska? Við stöndum fyrir utan gluggann með Karol og skiljum angist hans. Táknin vísa e.t.v. til sambands þeirra eða sambandsleysis þar sem annað þeirra er opinberlega ekki lengur á lífi og hitt lo!kað inni, aðgreint frá samfélagi frjálsra manna. Þetta óræða samband fær yfir sig þá helgu nærveru sem einkennir myndirnar af Maríu mey sem í boðun kirkjunnar og hugum allra er handan holdlegra girnda. Hún er eilíf en um leið ósnertanleg og óyfirstíganleg eða hvað? Alla vega er hún ljúfsár harmleikur og e.t.v. einmitt þess vegna heilög. Sú spurning vaknar óneitanlega hvort Kieslowski sé hér að gagnrýna hjónabandið sem stofnun, þ.e.a.s. þá trúarlegu upphafningu sem þær fær í tákni hvíta litsins.

En sögunni er ekki lokið því að Karol og Dominique bjargast úr sökkvandi skipi í lok þríleiksins, þ.e. Rauðum (Trois couleurs: Rouge) frá 1994. Þar er sýnt úr fréttum af sjóslysinu og á skjánum birtist mynd af nokkrum sem hafa bjargast, þar á meðal hjónaleysin fyrrnefndu. Þá leysast ýmsar gátur sem felast í þríleiknum, m.a. um það hvað verður um ástina í Hvítum. Gerðir Karols stjórnuðust eftir allt saman af einlægri ást sem hann réði ekki við en manni er leyft að trúa að sigri að lokum. Hann iðrast sáran þegar hann horfir á ástina sína í fangelsinu og þetta fyrirgefur María honum ­ það væri svo sem ekki ólíkt henni.

Nánari umfjöllun um myndina og aðrar sambærilegar myndir þar sem finna má maríugervinga er að finna í greininniMaría mey í þremur kvikmyndum – greining í ljósi djúpsálarfræðinnar.

Hliðstæður við texta trúarrits: Maríusögur fyrr og síðar
Persónur úr trúarritum: María mey
Guðfræðistef: kærleikur, dauði, upprisa, ummyndun, synd, fyrirgefning
Siðfræðistef: hefnd, sjálfsvirðing
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: útför
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: brúðkaup, jól
Trúarleg reynsla: ummyndun, leiðsla