Í Opinberunarbók Jóhannesar stendur skrifað:
„Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.“ (Opb 8.1-2)
Opinberunarbók Jóhannesar myndar ákveðinn ramma utan um mynd Bergmans Sjöunda innsiglið. Í upphafi myndarinnar er lesið úr fyrsta versi áttunda kafla Opinberunarbókarinnar þar sem greint er frá því þegar sjöunda innsiglið er rofið. Þegar innsiglið er brotið þá verður þögn. Á sama hátt verður algjör þögn í mynd Bergmans þegar Dauðinn birtist í gervi náhvíts karlmanns sem er klæddur eins og munkur.
Alger þögn ríkir í sálum margra, þessa þögn upplifir aðalpersóna myndarinnar, riddarinn Antóníus Block í sálu sinni. Hann er staddur í myrku djúpi og ákallar Drottinn: ,,Heyr þú raust mína.” Antóníus á erfitt með að lifa í trú og vill í staðinn lifa í vissu. Hann vill fá staðfestingu!! Staðfestingu á tilvist Guðs. Ef hann ekki fær staðfestingu eða þekkingu á Guði, vill hann losna við Guð og trúna á hann úr hjarta sínu. Antóníus telur að ef ekkert bíði mannsins hinu megin við móðuna miklu þá sé lífið tilgangslaust.
Dauðinn holdi klæddur fylgir Antóníusi og hefur gert það lengi. En Antóníus óttast ekki dauðann heldur óvissuna, óvissuna um hvað tekur við eftir dauðann. Dauðinn í mynd Bergmans er hlutlaus, hann er ekki engill dauðans, sendiboði Guðs. Hann er hvorki vondur né góður. Hjá dauðanum er engin von en heldur ekkert vonleysi. Svör við tilvist Guðs er ekki hægt að fá hjá honum.
Í myndinni er ekki aðeins fjallað um dauðann heldur einnig lífið. Birtingarform lífsins í myndinni er fjölskylda sem hefur það erfiða hlutverk í lífinu að skemmta fólki á tímum Svarta-dauða.
Hér á undan hef ég greint frá nokkrum þeirra atriða, þögninni, dauðanum og lífinu sem vakið hafa upp hvað mestar vangaveltur hjá mér í sambandi við Sjöunda innsigli Bergmans.
Að lokum eru það nokkur atriði sem mig langar að biðja ykkur að hafa í huga þegar þið horfið á myndina.
- Hvað merkingu hefur þögnin í lífi ykkar?
- Óttist þið dauðann sjálfan eða óvissuna um hvað tekur við eftir dauðann?
- Hvaða merkingu hefur lífið í huga ykkar?
- Einnig langar mig til þess að biðja ykkur að íhuga.
- Hvaða leiðir fer Antóníus Block í leit sinni að Guði?
- Hvar leitar hann Guðs og hjá hverjum?
- Hvernig birtist kirkjan sem stofnun eða samfélag í þessari mynd?
Innlýsing á mynd Ingmar Bergmans – Flutt í Bæjarbíói 3. júní 2003