Kvikmyndir

Tuvalu

Leikstjórn: Veit Helmer
Handrit: Michaela Beck og Veit Helmer
Leikarar: Denis Lavant, Chulpan Khamatova, Philippe Clay, Terrence Gillespie
Upprunaland: Þýskaland
Ár: 1999
Lengd: 101mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0162023
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Líf Antons er ekki upp á marga fiskana. Faðir hans Karl rekur sundlaug sem er að hruni kominn en þar sem hann er blindur veit hann ekki í hve slæmu ástandi sundlaugin er. Anton og móðir gæta þess tryggilega að Karl komist ekki að sannleikanum og láta karlinn halda að reksturinn blómstri. Einn dag kemur Eva í sundlaugina og um leið fær líf Antons tilgang. En Adam (eða réttara sagt Anton) var ekki lengi í paradís því hann er ranglega grunaður um morð á föður Evu. Eva vill því ekki sjá Anton og ákveður að flýja til draumaeyjunnar Tuvalu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þessi dásamlega mynd er bráðskemmtileg útlegging á sögunni af Adam og Evu, nema hvað að sögunni hefur verið snúið við. Ég kalla þennan flokk „Edensagan öfug“ en það sem einkennir myndir í þessum flokki er það að karl- og kvenhetjan lifa í niðurníddum heimi (yfirleitt afleiðingar tækninnar). Þau ná ekki saman vegna illkvittins þriðja aðila. Þeim tekst þó að lokum að losa sig við hinn vonda þriðja aðila og myndin endar á því að þau sameinast og halda til Eden.

Tuvalu fylgir þessu skema fullkomlega. Aðalpersónur myndarinnar, Anton og Eva, búa í hryllilegum heimi, þar sem tæknin hefur rústað heiminum og þau fáu tæki sem enn eru nothæf eru á síðasta snúning. Bróðir Antons, Gregor, er illskan uppmáluð og leggur sig fram um að gera Antoni erfitt fyrir. Illkviðni hans færist í aukana þegar hann sér að Anton og Eva eru að fella hug til hvors annars. Hann myrðir því föður Evu og lætur það líta út sem Anton sé sekur um glæpinn. Gregor er því hinn þriðji aðili sem kemur í veg fyrir að „Adam“ og „Eva“ nái saman (hér ættu þeir sem ekki vilja vita hvernig myndin endar að hætta að lesa). Sannleikurinn kemst þó upp um síðir og Eva áttar sig á því að það var Gregor, en ekki Anton sem bar ábyrgð á dauða föður hennar. Anton og Eva tjá hvort öðru ást sína og saman sygla þau til draumaeyjunnar Tuvalu (þ.e. Eden).

Adam og Eva eru mjög áþekk í flestum kvikmyndum. Eva er sjálfstæð og viljasterk og það er hún sem er gerandinn þegar kemur að ástarlífinu. Adam er hins vegar frekar einfaldur og bældur. Þessi mynd er engin undantekning. Í gegnum myndina er Eva alltaf að bjóða Antoni blíðu sína en hann fer ávallt í flækju og flýr af vetvangi. Anton ber heldur aldrei hönd fyrir höfuð sér, heldur lætur hann vaða yfir sig á skítugum skónum. Eva er hins vegar sjálfstæð og viljasterk. Hún lætur ekki kúga sig og fer sínar eigin leiðir. Tuvalu er því mjög hefðbundin kvikmynd þegar kemur að túlkun á Adam og Evu, en það er líklega það eina sem er hefðbundið við þessa kvikmynd.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 2-3
Siðfræðistef: kúgun, lygi, morð, ofbeldi, svik
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför