Rannsóknarhópurinn
Hvort sem við erum kristin eða ekki verður ekki framhjá því horft að vestrænt menningarsamfélag er mjög mótað af gyðingdómi og kristinni trú. Það þarf því ekki að koma á óvart að vestræn menning er mjög lituð af biblíulegum gildum og táknum, og á það jafnt við um myndlist, bókmenntir og kvikmyndir. Trúarleg stef í kvikmyndum hafa lengi vel verið vanrækt og er þar mest við guðfræðinga að sakast, sem hafa afmarkað rannsóknir sínar að miklu leyti við Biblíuna og tilurð hennar. Á síðustu áratugum (og þá sérstaklega á síðustu árum) hafa guðfræðingar hins vegar í auknu mæli farið að skoða nútíma menningu í guðfræðilegu ljósi, þ.m.t. kvikmyndir.
Rannsóknarhópurinn var stofnaður þann fjórða júlí, árið 2000 en markmið hópsins er að rannsaka trúarstef í kvikmyndum. Deus ex cinema skipa jafnt guðfræðingar og fræðimenn af öðrum sviðum (þ.m.t. bókmennta- og kvikmyndafræðingar) en hópurinn hefur vikulega komið saman í heimahúsum og skoðað kvikmyndir í guðfræðilegu ljósi. Einnig höfum við öðru hvoru verið haldnar helgarsýningar úti á landi. Þess hefur verið gætt að hafa fjölbreytni í vali kvikmynda, hvað varðar aldur, uppruna, tegund, vinsældir og gæði.
Á síðustu mánuðum hafa félagsmenn í Deus ex cinema unnið að bók um trúarstef í kvikmyndum og er bókin væntanleg í sumar. Þar verður að finna greinar um einstakar kvikmyndir eins og Gestaboð Babettu, Magnolíu og Blade Runner sem og greinar um ákveðin þemu eins og Jesúmyndir og kristsgervinga í kvikmyndum og guðfræðileg stef í vampírumyndum. Markmið hópsins er að bókaútgáfa af þessu tagi verði fastur liður í framtíðinni. Deus ex cinema mun standa fyrir ráðstefnum í framtíðinni en stefnt er að því að sú fyrsta verði í kjölfar útgáfu bókarinnar. Þá höfum við einnig komið upp nokkuð góðu rannsóknarbókasafni í þessum fræðum, en bókakosturinn er hýstur á rannsóknarstofu Guðfræðistofnunar.
Deus ex cinema hópurinn stendur að samnefndum vef, en hann geymir gagnagrunn um trúarstef í kvikmyndum. Í gagnagrunninum eru kvikmyndir greindar eftir tilvísunum í trúartexta (eins og Jh 1 eða Kóraninn), persónur í trúartextum (eins og Adam og Evu), sögulegar trúarpersónur (eins og Jóhönnu af Örk), guðfræðileg stef (eins og kristsgervinga eða synd), siðferðileg álitamál (eins og dauðadóma), trúartákn (eins og kross eða davíðstjarna), trúarembætti (eins og nunnur, kórdrengi eða presta), helgistaði (kirkju, grátmúrinn, moskvu) trúaratferli (eins og bænir) og trúarreynslu (eins og opinberun). Sá sem vill t.d. rannsaka nunnur í kvikmyndum mun þegar gagnagrunnurinn er tilbúinn geta slegið inn leitarorðið „nunna“ og fengið yfirlit yfir allar myndir í gagnagrunninum þar sem nunnur koma fyrir. Á sama hátt má leita að myndum þar sem sagan af Kain og Abel kemur fyrir, myndum með kristsgervingum og svo mætti lengi telja. Á vefnum er starfrækt ritrýnt veftímarit og er það opið öllum fræðimönnum.
Félagar í Deus ex cinema hafa einnig unnið að sjálfstæðum verkefnum og má þar t.d. nefna lokaritgerð Ingólfs Hartvigssonar um Dekalog seríu Kieslowskis, nokkrar greinar Gunnars J. Gunnarssonar lektor í Bjarma, grein dr. Gunnlaugs A. Jónssonar prófessors um trúarstef í kvikmyndum í Heimi kvikmyndanna og bókina Saltarinn, trúarstef og stríðsmyndir sem undirritaður vann sem nýsköpunarsjóðsverkefni á síðasta ári. Einnig hafa meðlimir hópsins haldið fjölmarga fyrirlestra og dr. Gunnlaugur A. Jónsson hefur haldið nokkur námskeið í guðfræðideild Háskóla Íslands á undanförnum árum um menningarleg áhrif Biblíunnar, en þar hafa kvikmyndir jafnan verið teknar fyrir.
Í innganginum að bókinni Heimur kvikmyndanna sem kom út árið 1999 segir Guðni Elísson lektor, ritstjóri bókarinnar, að henni hafi verið ,,ætlað að skapa eyður í umræðu Íslendinga um kvikmyndir“ . Að vissu leyti má því segja að Deus ex cinema hafi svarað kalli Guðna en markmið okkar er einmitt að fylla upp í eina af þeim fjölmörgu eyðum sem Heimur kvikmyndanna skapaði. Á sama tíma erum við einnig að fylgja fræðistraumum nútímans en sífellt meiri áhersla er lögð á þverfaglegar rannsóknir. Það er von okkar að þessi nýbreytni eigi eftir að mælast vel fyrir hjá áhugamönnum um kvikmyndir og að rannsóknir okkar eigi eftir að nýtast sem flestum.
Þorkell Ágúst Óttarsson