15. árgangur 2015, Blogg, Grein, Vefrit

Upprisa og örvænting. Hin tilvistarlega undiralda í The Walking Dead

The Walking Dead

Hvaða erindi á sjónvarpsefni um uppvakninga við nútímann? Fyrir nokkrum árum hefðu flestir svarað því til að það væri lítið sem ekkert. Þetta er jú fráleitt umfjöllunarefni. Látið fólk raknar aftur við en er engan veginn sjálfu sér líkt. Það ræðst á og rífur í sig annað fólk sem í kjölfarið tekur sömu umbreytingunni.

Oj, kynni einhver að segja og það með nokkrum rétti. Engu að síður virðist vinsældum sjónvarpsþáttaraðarinnar The Walking Dead, [1] sem einmitt byggja á þessari atburðarás, engin  takmörk sett. Hún hefur slegið hvert áhorfsmetið á fætur öðru, leikararnir hafa hlotið virt verðlaun fyrir leik sinn í þáttunum og lærðar fræðigreinar hafa verið ritaðar um þá. Er það óhugnaðurinn sem heillar svo mjög? Sumpart sennilega. En dyggir áhorfendur þáttanna vita að hann er aðeins á yfirborðinu. Undir streyma spurningar sem gera The Walking Dead að verulega spennandi greiningaráskorun fyrir guðfræðinga.

Upprisa dauðra

Augljósasta biblíustefið í The Walking Dead er upprisa dauðra sem kristnir guðfræðingar hafa  auðvitað fengist við  frá upphafi. Svo feiknarlega löng hugmyndasaga sé tekin saman í afar einfalt snið má segja að eftirfarandi tvö atriði hafi einkennt niðurstöður flestra þeirra sem um málið hafa fjallað:

  1. Í upprisunni tekur hinn jarðneski líkami efnislegri umbreytingu og verður andlegur/himneskur.
  2. Að þeirri umbreytingu lokinni er það sami einstaklingur, sama sjálf sem er að finna í hinum umbreytta líkama.

Í þáttunum er þessu snúið á hvolf með óhuggulegum afleiðingum:

  1. Hinn jarðneski líkami tekur ekki breytingum í upprisunni og hin náttúrulega hrörnun hans heldur áfram.
  2. Það er ekki sami einstaklingur sem rís upp, öllu líkara er að það sé enginn einstaklingur.

Þetta var orðað vel af mikilvægri persónu, hinum sannkristna dýralækni Hershel Greene. „Ég skil ekki fyrirætlun Guðs, því hef ég aldrei haldið fram, en þegar Jesús Kristur lofaði okkur upprisu dauðra þá hélt ég satt að segja að hann hefði haft eitthvað annað í huga.“ (# 2.13)

Glenn og dýralæknirinn Hershel Greene í The Walking Dead

Glenn og dýralæknirinn Hershel Greene í The Walking Dead

Markviss notkun biblíulegra stefja og kristinna tákna

Í jafn umfangsmikilli þáttaröð og The Walking Dead þá koma auðvitað margir þræðir saman. Það er ekki verið að segja eitthvað eitt heldur margt. Einn þeirra þráða sem þættirnir spinna snýr beint að trú og trúarbrögðum, sérstaklega og eiginlega eingöngu að kristinni kirkju og átrúnaði. Og hann er settur fram með býsna skýrum hætti með markvissri notkun á biblíulegum stefjum og tilvitnunum og kristnum táknum.

Beinar biblíutilvitnanir koma reglulega fyrir í The Walking Dead en ná hápunkti í þættinum „Strangers“ (# 5.2). Þá rekst hópurinn sem við fylgjum eftir á prest og fylgir honum til kirkjunnar þar sem hann býr. Eitt af því fyrsta sem áhorfandinn sér inn í kirkjunni er tilvitnun í Jóh 6.54:

„Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi.“

Kaldhæðnara verður það varla í þætti um uppvakninga. Við tekur langt atriði þar sem við fylgjumst með fólkinu, sem vel að  merkja á að baki ólýsanlega þrautagöngu, skoða sig um í kirkjunni. Á sálmatöflunni eru ekki sálmanúmer heldur biblíuvers sem flest snerta upprisu hinna dauðu.[2] Svipbrigði fólksins eru blandin skilningsleysi, forundran og hneykslan. Við sjáum eitt þeirra lesa bróderaðan texta Gal 6.9 uppi á vegg: „Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp“ eins og hann væri aðskotahlutur utan úr geimi. Við vitum að sá sem les er algerlega örmagna og hefur verið það um langa hríð. Hvað er „gott“ á tímum sem þessum og hvað er eftir til þess að uppskera?

Með hugtakaforða kristinnar guðfræði mætti endursegja frásögnina einhvern veginn svona: Heimurinn hefur endað, hinir dauðu hafa risið upp. Sumir gætu jafnvel sagt að fyrirheitið um endurkomu hafi verið svikið. Upp hefur risið nýr himinn og ný jörð og allt kristið og kirkjulegt virðist hrökkva af henni eins og vatn af gæs. Í hinum nýja heimi verður hinn kristni táknheimur hálf hlægilegur, textarnir hafa ekki merkingu, kirkjurnar eru bara þak og fjórir veggir, þeir prestar sem hafa haldið lífi eru ekki í tengslum við raunveruleikann. Þetta er fullyrðing þáttanna inn í samtalið við kristnina. Hún er afar krítísk. En kristnir guðfræðingar hafa auðvitað heyrt þessa gagnrýni áður, þeir hafa bara ekki séð hana í zombie búningi. Það er langt síðan við heyrðum að ef kristnin ætti að hafa eitthvað að segja að þá yrði hún að segja það einhvern veginn öðru vísi en hún hefur alltaf gert – það var þetta sem Bultmann átti við með afgoðuninni, Tillich með tilvistarguðfræði sinni og Bonhoeffer þegar hann sagði að það þyrfti að tala um guð án umgjarðar trúarbragðanna, um trúarbragðalausan kristindóm.

Tyreese í The Walking Dead

Hinn góðhjartaði Tyreese.

Hvernig birtist kristni í samfélaginu?

Ásamt því að draga merkingu biblíutexta í efa eru spjótunum einnig beint að tveimur birtingarmyndum kristninnar í samfélaginu. Prestinum og kirkjubyggingunni. Smám saman afhjúpast presturinn sem heigull og allt að því illgjarn. Hann er einnig hálfpartinn barnslegur í afstöðu sinni til veruleikans og algerlega bjargarlaus þegar kemur að því að fást við hættur hins nýja heims. Í þættinum „Four Walls and a Roof“ (#5.3) er kirkjan yfirtekin af óvinum sem hópnum tekst að þó lokum að yfirbuga. Hluti hópsins afræður að taka andstæðingana af lífi uppi við altari kirkjunnar og presturinn bregst við með orðunum: „Og þetta er hús Guðs!“ en er um leið svarað svo: „Nei, nú er þetta bara þak og fjórir veggir.“ Afbyggingin kirkjutáknsins verður síðan augljós og áþreifanleg þegar við fylgjumst með fólkinu rífa niður innviði kirkjunnar, bekkina, orgelið, jafnvel krossinn, og nota þá sem virki til að verja húsið aðsteðjandi ógnum.

Í The Walking Dead horfum við sumsé upp á heim þar sem stofnanir samfélagsins hafa hrunið til grunna, kirkjan að sjálfsögðu þar með talin. Öll hin hefðbundnu merkingarnet sem manneskjan notast við til að ljá lífi sínu gildi og tilgang hafa runnið sitt skeið. Þess skal getið að menningarrýnar á borð við Theodor Adorno og Slavoj Žižek hafa einmitt sett uppvakningsfígúruna í menningunni í beint samhengi við merkingarleit mannsins. Žižek hefur t.d. haldið því fram að uppvakningarnir tákni einskismannslandið sem tekur við þegar hinu merkingarbæra lífi sleppir.[3] Og það er einmitt barátta hópsins sem við fylgjum eftir í þáttunum við merkingarleysið  sem er svo áhugaverð. Er eftir einhverri merkingu að falast í hinum fallna heimi uppvakninganna eða er þetta ekki til neins?

Í þáttunum er spilað á allan tilfinningaskalann. Við tengjumst fólkinu í hópnum sem tekst á við hinn ógurlega raunveruleika með mismunandi hætti og tökum afstöðu til ákvarðana þeirra. Sum þeirra líta svo á að við hafi tekið náttúrulegt ástand í anda Hobbes, allir séu á móti öllum og hinir hæfustu (eða grimmustu) lifa af. Aðrir taka þá afstöðu að tilgangur tilverunnar felist í því að standa vörð um öryggi fólksins sem tilheyrir hópnum. Hann verður hin nýja fjölskylda, ættbálkur, úlfahjörð. En frá guðfræðilegu sjónarhorni eru þær persónur áhugaverðastar sem halda í þá hugmynd til séu grundvallarreglur og siðferðileg gildi sem, þrátt fyrir allt, beri að leggja öllu mannlegu samfélagi til grundvallar. Það er fólk boða frið, fyrirgefningu, kærleika og von um betri tíð. Dæmi um slíkar boðbera eru Dale Horvath (seríur 1-2) sem hvikaði hvergi frá sannfæringu sinni um að það væri alltaf rangt að deyða aðra manneskju sama hversu hættuleg hún kynni að reynast síðar meir. Annað dæmi er áðurnefndur Hershel Greene (seríur 2-4) sem með speki sinni, bænum og biblíulestri stendur fyrir kristna lífsafstöðu. Síðast en ekki síst verður að minnast á hinn góðhjartaða Tyreese  (seríur 3-5) en eftir þáttinn „The Grove“ (# 4.14) þar sem hann fyrirgefur annarri manneskju fyrir að drepa konuna sem hann elskaði, dylst engum að þar fer fulltrúi fyrirgefningar og kærleika. Í framvindu þáttanna hafa þessir þrír menn – sem þó einnig efuðust sjálfir –  orðið eins og að haldreipi merkingar í öllu tilgangsleysinu.

Dale Horvath

Dale Horvath hvikar ekki frá þeirri sannfæringu sinni að það sé rangt að deyða aðra manneskju.

Kallað eftir merkingu

Þrátt fyrir allan þann hrylling, hroða og myrkur sem þættirnir hafa upp á að bjóða þá er kallað eftir merkingu, eftir föstu landi í boðasjó. Við skynjum að í þessum nýja, ógurlega heimi er enn eitthvað til sem heitir réttlæti og góðvild og við sjáum áhrifamikil dæmi um eitthvað sem við gætum kallað miskunn, fórnfýsi og fyrirgefningu. Þó fólkið sem við fylgjumst með glími við erfiðleika sín á milli þá sjáum við að innan hópsins ríkir kærleikur, vinátta og samstaða. Og svoleiðis boðskapur –  jafnvel þó áhorfandinn verði ekki var við hann nema í sjónhendingu hverju sinni, þó hann sé brotakenndur, óstöðugur, fálmkenndur – hann er alls ekki sjálfsagður á tímum eins og okkar þegar póstmódernískt afstæði hefur ríkt jafn lengi í samfélagi, menningu og listum og raun ber vitni.  Eins og dæmin sýna felur hin póstmódeníska afstaða oft í sér íróníu og fálæti sem getur auðveldlega leitt til depurðar og merkingarleysis eins og við sjáum í sjónvarpsþáttum á borð við True Detective og Hannibal – svo ég haldi mig dæmi úr nýlegum sjónvarpsþáttum. Það sem handritshöfundum The Walking Dead tekst nefnilega svo vel, og heldur áhorfendum límdum við skjáinn, er að sveifla áhorfandanum frá örvæntingu, vonleysi, merkingarþurrð yfir til vonarinnar, vonar um að það sé eitthvað betra sem taki við, vonar um að undir öllu foraðinu sé grundvöllur til að byggja ákvarðanir sínar og gildismat á, vonar um að það sé kannski eilítil tíra á bak við allt myrkrið.

Tilvísanir

[1] Þættirnir The Walking Dead hafa verið í sýningu á bandarísku sjónvarpsstöðinni AMC frá árinu 2010. Seríurnar eru orðnar fimm talsins og stendur framleiðsla á þeirri sjöttu yfir.

[2] Tilvitnanirnar eru í Róm 6.4, Esk 37.7, Mt 27.52, Op 9.6, Lúk 24.5.

[3] Gary A. Mullen, „Adorno, Zizek and the Zombie: Representing Mortality in an Age of Mass Killing“, Journal for Cultural and Religious Theory 13.2 (2014): 48-57.