Kvikmyndir

Uprising

Leikstjórn: Jon Avnet
Handrit: Paul Brickman og Jon Avnet
Leikarar: Leelee Sobieski, Hank Azaria, David Schwimmer, Jon Voight, Donald Sutherland , Cary Elwes, Stephen Moyer, Sadie Frost, Radha Mitchell, Mili Avital, Alexandra Holden, John Ales, Nora Brickman, Jesper Christensen og Palle Granditsky
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 153mín.
Hlutföll: 1.77:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Snemma árs 1943 reis upp andspyrnuhreyfing Gyðinga (ZOB) í Varsjá-gettóinu og gerði vopnaða uppreisn gegn kúgurum sínum, nasistum. Þá hafði Gyðingum í gettóinu borist örugg vitneskja um örlög þeirra u.þ.b. 300 þúsund Gyðinga sem þegar höfðu verið fluttir á brott með gripalestum. Áfangastaður þeirra var ekki vinnubúðir heldur útrýmingabúðir í Treblinka. Í myndinni sjáum við þegar sendiboði uppreisnarhópsins kemur tilbaka frá Treblinka eftir að hafa náð að fylgja einni lestinni þangað og gengið úr skugga um hvað þar átti sér stað. Hann gat varla stunið upp hinum óhugnanlegu tíðindum vegna þess hversu brugðið honum var. Vitneskjan um hvað átti sér stað í Treblinka varð að sjálfsögðu til að sannfæra andspyrnu-hreyfinguna um að engu væri að tapa. Betra væri að falla með sæmd en að láta leiða sig mótspyrnulaust til slátrunar. Aðeins um 60 þúsund Gyðingar voru eftir í gettóinu þegar hin vopnaða uppreisn þeirra hófst.

Þessi atburður í sögu síðari heimsstyrjaldarinnar hefur ekki hlotið þá athygli sem hann verðskuldar því að baráttu Gyðinga gegn ofurefli hins öfluga þýska hers var ótrúlega kröftug og það tók Þjóðverja mun lengri tíma að vinna fullnaðarsigur á þeim heldur en það hafði tekið þá að knýja Pólverja til uppgjafar. Urðu Þjóðverjar fyrir umtalsverðu mannfalli í baráttunni við andspyrnuhreyfingu Gyðinga sem í mörgum tilfellum hafði ekki annað en bensínsprengjur eða aðrar heimatilbúnar sprengjur að vopnum.

Litlum hópi þeirra Gyðinga sem stóð að uppreisninni tókst að lokum að flýja eftir holræsum út úr gettóinu þegar það hafði gjörsamlega verið lagt í rúst og tókst þannig að halda lífi. Mynd þessi var gerð fyrir sjónvarp og sýnd þannig upphaflega í tveimur þáttum. DVD-útgáfan ber þess nokkur merki.

Almennt um myndina:
Fljótlega eftir að Pólverjar höfðu gefist upp fyrir innrásher Þjóðverja árið 1939 tóku nasistar að þrengja að Gyðingum og kúga þá með ýmsu móti. Þar kom að þeim var skipað að setjast að í gettói á mjög afmörkuðu svæði, u.þ.b. tveggja ferkílómetra svæði, innan borgarinnar og voru múrar reistir kringum gettóið. Eins og jafnan var raunin í þeim gettóum sem nasistar settu á fót settu þeir gyðingaráð á stofn sem hafði að nafninu til viss völd en réði þó í raun engu þegar til kastanna kom.

Öldungarnir í gyðingaráðinu leituðust við að vinna með Þjóðverjum í þeirri von að þeim tækist með því að draga úr skaðanum og ná fram einhverri skynsemi. Þá skoðun tjáir leiðtogi ráðsins Adam Czerniakow (Sutherland). Hann á þó ekki sjö dagana sæla og þar kemur að hann sviptir sig lífi enda ástandið í gettóinu þá orðið þannig að þúsundir manna létu lífið á degi hverjum.

Hópur ungra og kjarkmikilla Gyðinga undir forystu Síonistans Mordechai Amelewicz (Hank Azaria) sá fyrr að öll samvinna við Þjóðverja var til einskis en fékk ekki stuðning gyðingaráðsins sem kallaði hugmynd þeirra óraunhæfa og rómantíska. Það kom þó ekki í veg fyrir að andspyrnuhreyfingin léti til skarar skríða og snertist til vopnaðrar uppreisnar eftir að hafa undirbúið sig með því að koma sér upp bensínsprengjum og öðrum heimatilbúnum vopnum auk þess sem það tókst að smygla nokkru magni vopna inn í gettóið.

Uppreisn þessi hófst 18. janúar 1943 og tókst andspyrnuhreyfingunni að hrekja Þjóðverja út úr gettóinu og gátu Gyðingar þá sagt: ‚Í fyrsta sinn höfum við stöðvað brottflutninginn.‘ Í fimm mánuði tókst þeim að halda út þannig að ekki tókst Himmler að standa við það loforð sitt gagnvart Hitler að á afmælisdegi foringjans 20. apríl væri unnt að lýsa því yfir að Gyðingar væru ekki lengur til staðar í Varsjá.

Minnistæð persóna í þessari mynd er barnavinurinn mikli Janus Korczak læknir, kennari og barnabókahöfundur (1878-1942) sem rak munaðarleysingjahæli og skóla fyrir börn innan gettósins. Korczak þessi hafði áður rekið barnaheimili utan gettósins, bæði fyrir börn Gyðinga og kristin börn. Það er átakanlega sena þegar börnin, tæplega tvö hundruð talsins, ganga syngjandi fylgdu liði með honum í átt til lestanna eftir að ljóst var að hjá því yrði með engu móti komist. Ekki átti að hleypa Korczak með þeim inn í lestina. Öfugt við flesta aðra neitaði hann því staðfastlega að sleppa við að fara með. Korczak setti nasistum þá afarkosti að skjóta sig fyrir framan börnin eða fá að fylgja þeim. Verðirnir létu sér segjast og hleyptu honum um borð. Það sem er sérstaklega átakanlegt við þessa mynd er hvað börn koma þar mjög við sögu.

Einn varðanna sem raunar var úr röðum Gyðinga eins og algengt var í gettóunum — þ.e. að Þjóðverjar réðu Gyðinga til starfa í lögreglu — varð fyrir því að eitt barnið sem var á leið í lestina hljóp upp í fangið á honum og bað hann um hjálp. Þetta fékk svo á hann að hann gekk til liðs við andspyrnuhreyfinguna og átti eftir að reynast henni drjúgur liðsmaður þó svo að ýmsir þar hafi litið hann hornauga fyrst í stað.

Minnisstætt bardagaatriði er myndin af ungri konu klæddri blússu og pilsi sem bundið hafði sig í kaðal við skorstein uppi á þaki húss eins. Þaðan hljóp hún niður snarbratt þakið og fram á brún þess og kastaði aftur og aftur bensínsprengjum yfir hermenn nasista sem ráðist höfðu til inngöngu í gettóið.

Myndin er að mörgu leyti vel gerð. Hún er ekki tekin í Varsjá eins og The Pianist heldur í Bratislava í Slóvakíu og sviðsmyndin jafnast vissulega ekki á við þá sem við sjáum í The Pianist. Þjóðverjarnir eru á stundum sýndir eins og hreinir viðvaningar í bardögum og standa oft alveg ráðþrota gagnvart skæruhernaði Gyðinganna. Mjög viðvaningslegir tilburðir þýsku hermannanna eru ekki sérlega trúverðugir. Jurgen Stroop foringi þýska herliðsins (leikinn af Jon Voight) virðist ekki heldur vandanum vaxinn. En hinu má ekki gleyma að það er söguleg staðreynd að uppreisn Gyðinga kom Þjóðverjum í opna skjöldu og þeim gekk hreint ekki vel að bæla hana niður. Gyðingar gettósins eiga það og skilið að gerð sé um þá hetjumynd því vissulega var uppreisn þeirra hetjudáð eins aðþrengdir og óvopnaðir þeir voru þegar þeir lögðu á ráðin um að snúast til varnar.

Í bréfi til félaga sinna í lok myndarinnar skrifaði Mordekaí: ‚Draumur lífs míns hefur ræst. Ég hef lifað það að sjá vörn Gyðinga í öllum mikilfengleik hennar og dýrð.‘

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin Uprising skarast nokkuð á við hina víðfrægu óskarsverðlaunamynd The Pianist þar sem við sjáum uppreisnina út um glugga úr einum af felustöðum píanóleikarans Szpilmans utan gettósins. Hin hetjulega uppreisn gegnir samt ekki stóru hlutverki í þeirri mynd. En í trúarlegu tilliti er einnig munur á myndunum, hér fer mun meira fyrir hinum hefðbundnu trúarlegu táknum sem vantar algjörlega í The Pianist og það svo mjög að það stingur í augun. Hér sjáum við bæði rabbína, átta arma ljósastiku, sabbats- og páskadagshald og ýmis önnur áberandi einkenni gyðingdóms. Myndirnar tvær eiga það hins vegar sameiginlegt að í hvorugri þeirra er okkur veitt nokkur innsýn í útrýmingarbúðir nasista.

Eins konar einkunnarorð andspyrnumanna í myndinni er sú spurning sem aftur og aftur er borin upp: ‚Getur siðaður maður viðhaldið siðferði sínu í siðlausum heimi?‘ Í þeirri nauðvörn sem Gyðingar voru andspænis tilraun Þjóðverja til að útrýma þeim með öllu hlutu boð eins og ‚þú skalt ekki mann deyða‘ að vekja upp slíkar spurningar. Hér var um sjálfsvörn þeirra að ræða og þá hlaut að vera bæði réttlætanlegt og óhjákvæmilegt að deyða þýska hermenn í viðleitni til að bjarga eigin lífi, bræða sinna og systra og ekki síst barna sinna. Valkosturinn var einfaldlega að láta leiða sig til slátrunar án mótþróa eða að snúast til varnar með öllum tiltækum ráðum.

Leiðtogi uppreisnarmanna heitir Mordekaí og það er vafalaust ekki tilviljun. Esterarbók Gamla testamentisins hefur að geyma frásögn af tilraun til að útrýma Gyðingum á dögum Persaríkisins og þar er frelsishetja Gyðinga (auk Esterar) maður að nafni Mordekaí. Hann neitaði að beygja sig fyrir hinum illa Haman sem hét því að deyða ekki aðeins Mordekí heldur alla Gyðinga. Enn þann dag í dag halda Gyðingar Púrím-hátíðina til að minnast þess atburðar. Hliðstæðan milli þessara tveggja manna, sem báru sama nafn, leynir sér alls ekki. Ýmsir aðrir úr andspyrnuhreyfingunni bera og nöfn úr Gamla testamentinu eins og títt er um Gyðinga og má þar nefna Debóru en nafna hennar var einn af fyrstu ‚dómurum‘ Ísraelsríkis hins forna en þessir svokölluðu dómarar voru mikið fremur karismatískir leiðtogar sem risu upp á hættustundum í lífi þjóðarinnar og stjórnuðu baráttu hennar.

Athyglisvert er að þegar Þjóðverjar gera hvað áköfustu innrás sína inn í gettóið er skipt yfir í kaþólska messu sem á sér stað á sama tíma utan gettósins þar sem altarisganga fer fram. Þetta atriði minnti mig óneitanlega á fjölmörg atriði úr Guðföður-myndunum þremur þar sem gjarnan eru tvinnað saman blóðugum athöfnum og einhverri helgiathöfn, svo sem skírn, í hinni kaþólsku kirkju. Í þessu tilfelli er raunar ein kona úr andspyrnuhreyfingunni stödd í guðsþjónustunni en engu að síður þjónar senan trúlega þeim tilgangi fyrst og fremst að skapa með áhorfendum hugrenningatengsl við þörf manna fyrir guðlega fyrirgefningu og/ eða það að minna á í hve hróplega ósamræmi við hinn kristna kærleiksboðskap framganga þýsku hermannanna er.

Athyglisvert er að andspyrnumenn nota oft orðið ‚paradís‘, að því er mér virðist, sem leyni- eða lykilorð yfir útgönguleið úr gettóinu og sömuleiðis ‚paradísarmissi‘ (paradise lost) yfir lokaða útgönguleið.

Eins og víðar í gyðinglegum myndum sem greina frá atburðum síðari heimsstyrjaldarinnar kemur trúarlegur ágreiningur við sögu. Þegar Mordekaí leitar til Czerniakows, leiðtoga Gyðingaráðsins, og falast eftir stuðningi hans við fyrirhugaða, vopnaða andspyrnuhreyfingu ungs fólks innan gettósins bregðst Czerniakow illa við og ekki síst virðist honum mislíka tal Mordekaís um sæmd. Hann telur að sæmdin geti falist í mörgu öðru frekar en því að berhast vopnaðri baráttu. Hann telur áform unga fólksins óraunsæ og hreinlega rómantísk. Mordekaí er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé fánýtt að bíða þess að Messías muni koma til hjálpar. ‚Við skulum rísa upp og berjast,‘ eru hvatningarorð hans og það gerði andspyrnuhreyfingin svo sannarlega og svo um munaði.

Í lok myndarinnar sjáum við hvar þau sem komust af úr andspyrnuhreyfingunni eru saman komin og einn úr hópnum les úr bréfi frá Mordekaí, leiðtoga þeirra, sem þá er augljóslega fallinn. Við fáum síðan að heyra að mörg þeirra hafi haldið áfram baráttunni. Þessi litli hópur sem komst af minnir óneitanlega á boðskap Jesaja spámanns um að ‚leifar‘ (eða ‚lítill hópur‘) muni snúa aftur.

Hliðstæður við texta trúarrits: Textar úr Jesaja sem talar um ‘leifarnar’ sem muni snúa aftur, svo sem Jes 10:21, 16:14 o.fl., Esterarbók
Persónur úr trúarritum: Guð, Messías, Mordekaí
Sögulegar persónur: Janus Korczak, Churchill, Göbbels, Himmler, Hitler
Guðfræðistef: Blessun, dýrð, kraftaverk, kærleikur Guðs
Siðfræðistef: andspyrnuhreyfing, ábyrgð, áróður, áróðusmynd, fjárkúgun, fjöldamorð, gíslataka, glæpur, góðverk, gyðingahatur, heiður, líkrán, mannleg reisn, morð, mútur, niðurlæging, pyntingar, sameiginleg ábyrgð, samviska, siðferðilegur maður, siðlaus heimur, siðaregla, sjálfsmorð, sjálfsvörn, skömm, stríð, svik, sæmd, traust, uppreisn, þjófnaður, þjóðarmorð
Trúarbrögð: Gyðingdómur, kaþólska kirkjan, nasismi, Síonismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: gyðinglegur grafreitur, kirkja, paradís, sýnagóga (samkunduhús Gyðinga)
Trúarleg tákn: Altari, átta arma ljósastika, Biblía, blá Davíðsstjarna, bænasjal, hakakross, kerti, kross, legsteinn, obláta, prédikunarstóll, róðukross, shabbes-kerti (þ.e. shabbats-, eða hvíldardagskerti), vínbikar
Trúarleg embætti: Nunna, prestur, rabbí
Trúarlegt atferli og siðir: altarisganga, bæn, greftrun, kaddish-bæn, heilög kvöldmáltíð (altarissakramenti), messa, sigun, umskurn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Páskar, sabbat (hvíldardagur)
Trúarleg reynsla: Helförin, paradísarmissir