Leikstjórn: Stephen Sommers
Handrit: Stephen Sommers
Leikarar: Hugh Jackman, Kate Beckinsale, Richard Roxburgh, David Wenham
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2003
Lengd: 132mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Í lok 19. aldar heldur blóðsugubaninn dr. Gabriel van Helsing til Austur-Evrópu þar sem hann hyggst ráða að niðurlögum Drakúla greifa, varúlfsins og Frankensteinskrímslsins. Hann er sérlegur útsendari Vatíkansins í baráttu við hverskyns skrímsli. Í baráttunni nýtur Van Helsing fulltingis betlimunksins Carl og sígaunaprinsessunnar Önnu Valerious, en hún er síðasti afkomandi ættar sem hefur helgað sig baráttunni gegn illu.
Almennt um myndina:
Van Helsing mun vera fyrsta sumarmyndin í ár – heilmikill hasar og læti og prýðilegt fjör. Á frumsýningardegi var bíósalurinn fullur af fólki og sennilega uppselt á myndina. Hún geymir fróðleg trúarstef og er fyrir unnendur blóðsugumynda.
Myndin er full af fjöri og er ágætlega úr garði gerð. Hún minnir raunar nokkuð á James Bond myndirnar, ekki síst allar græjurnar sem Van Helsing notar og svo aðstoðarmaður hans, betlimunkurinn, sem minnir meira en lítið á hinn fornfræga Q úr James Bond myndunum. Niðurstaðan: Tveggja stjörnu sumarmynd sem örugglega verður framhald á.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eitt af því sem vekur athygli við þessa mynd er að það er unnið með mun fleiri stef en söguna af Drakúla. Til dæmis bregður fyrir varúlfum, Frankenstein og skrímsli hans, Dr. Jekyll og hr. Hyde. Þá er Van Helsing sjálfur – sem einnig er kallaður Gabríel – líklega af því að hann er vinstri hönd Guðs í myndinni – útsendari leynireglu á vegum páfagarðs.
Fram kemur í myndinni að Drakúla greifi hafi öðlast mátt sinn með því að gera sáttmála við kölska. Sú staðreynd að van Helsing er kallaður Gabríel og vinstri hönd Guðs af Drakúla gefur til kynna að hann sé útsendari Guðs.
Þar með er barátta þeirra tveggja í raun sett í samhengi baráttu góðs og ills. Um leið er ljóst að sú barátta snýst í raun um framtíð mannkyns (Drakúla vill koma sínum eigin afkvæmum að og það vill hann gera með því að skapa líf). Að baki býr mynd af Guði sem er virkur og að starfi í heiminum og leiðir hann áfram til góðs í gegnum útsendara sína.
Aðstoðarmaður van Helsings er betlimunkur (friar). Ekki kemur fram hvort hann er fransiskani eða dóminíkani. Hann virðist leyfa sér ýmislegt í krafta þess að vera betlimunkur (en ekki hefðbundinn munkur) sem verður að teljast hæpið að geti staðist. Til að mynda mega betlimunkar ekkert frekar stunda kynlíf fyrir hjónaband eða leggja nafn Guðs við hégóma en munkar í öðrum reglum. Hvort tveggja gerir Carl þó í myndinni. Hér hefur handritshöfundurinn því tekið sér visst skáldaleyfi. Vel mætti hugsa sér að hann reiði sig í því sambandi á vanþekkingu áhorfenda myndarinnar, sem flestir vita líklega harla lítið um betlimunka. Annars eru þessir félagar, van Helsing og betlimunkurinn Carl ósköp skondnir saman.
Þá sjást búddhamunkar á rannsóknarstofu leynireglunnar. Ef ég man rétt þá er jafnframt vísað til þess að þessi regla haldi utanum samstarf nokkurra trúarbragða gegn hverskyns ófreskjum. Það gæti verið athyglisvert að skoða hvaða hugmyndir um samskipti trúarbragða búa þarna að baki.
Sálmaunnendur geta glaðst yfir því að í myndinni er vitnað í upphafsvers Sl 23. Það gerir Frankenstein-skrímslið, sem reynist vera hinn ágætasti fýr, blíður og mildur. Raunar er hann ein geðþekkasta persóna myndarinnar.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23
Persónur úr trúarritum: Guð, engill, Gabríel, Vampírur, varúlfar, Frankenstein
Guðfræðistef: Forsjón Guðs, samskipti trúarbragða, eilíft líf, ódauðleiki, barátta góðs og ills, kvöldmáltíðarsakramentið, líkami Krists, blóð Krists, skírn, meinlæti
Trúarbrögð: kristni, rómversk-kaþólska kirkjan, búddhismi, islam
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Kirkjan, Notre-Dame dómkirkjan, Vatíkanið
Trúarleg tákn: Kross, vígt vatn, silfur, blóð
Trúarleg embætti: Prestur, kardínáli, betlimunkur
Trúarlegt atferli og siðir: signing