Kvikmyndir

Vengeance is Mine

Leikstjórn: Júlio Buchs
Handrit: Ugo Guerra, Júlio Buchs, Federico De Urrutia og José Luis Martínez Mollá
Leikarar: George Hilton, Ernest Borgnine, Leo Anchóriz, Alberto de Mendoza, Gustavo Rojo, Annabella Incontrera, Manuel de Blas, Manuel Miranda og José Marnuel Martín
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1969
Lengd: 98mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0064226
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þegar suðurríkjahermaðurinn John Warner fréttir að unnusta hans liggi fyrir dauðanum eftir að hafa óvænt fætt honum son, ákveður hann að halda strax heim til hennar í von um að fjölskyldan leyfi þeim loks að ganga í hjónaband til að forðast hneyksli. Á leiðinni er hann hins vegar tekinn fastur fyrir liðhlaup, enda hafði hann stungið af án leyfis skömmu fyrir mikilvæga stórorrustu. Áður en það á að taka hann af lífi, er hann látinn vinna við greftrun hinna föllnu á vígvellinum. Þegar gæslumennirnir vilja láta grafa særðan norðurríkjahermann lifandi, drepur Warner þá hins vegar og flýr með tveim félögum sínum til heimabæjar unnustunnar. Hún reynist hins vegar látin úr kólerufaraldri í bænum og hendir heimilisfaðirinn Don Pedro Sandoval honum og ungbarninu umsvifalaust á dyr. Warner sleppur naumlega undan leitarmönnunum frá hernum og heldur suður á bóginn ásamt félögum sínum og rómversk-kaþólskum munki, sem slæst í för með þeim, en enginn vill hjálpa þeim og gefa barninu mjólk í ótta um að þeir beri með sér kóleruna. Þegar barnið svo deyr úr hungri, sver Warner þess dýran eið að hefna sín á öllum þeim, sem gert höfðu á hlut þeirra, sérstaklega þó Don Pedro Sandoval og þeim sem neitað höfðu að hjálpa barninu. Það reynist þó enginn hægðarleikur og kemur hatrið loks Warner sjálfum í koll.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bölsýnismyndin Vengeance is Mine er dæmigerður hefndarvestri frá þeim tíma þegar Ítalir tóku þá enn blessunarlega alvarlega, en með tilkomu Sabata og Trinity myndanna árið 1969 breyttust flestir spaghettí-vestrarnir í heimskar gamanmyndir. Ef finna ætti spaghettí-vestrunum einhverja yfirskrift, myndi sennilega hefndarfyrirmæli lögmálsins, „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“, eiga best við, enda hefndin lengst af meginþema þeirra. Enski titill kvikmyndarinnar Vengeance is Mine er sennilega sóttur í Róm. 12:19 þar sem Guð segir: „Mín er hefndin …“ Páll postuli leggur þar áherslu á, að mennirnir eigi ekki að hefna sín sjálfir heldur elska óvini sína og halda friðinn að því leyti, sem það er unnt, því að hefndin sé Guðs. Það er þó ekki til Guðs heldur aðalsöguhetjunnar, sem titill myndarinnar vísar, enda kemur hefndarþorstinn Warner sjálfum í koll. Hann hafði ekki reynt að sigra hið illa með góðu eins og Páll postuli hafði hvatt til heldur leyft illskunni að yfirvinna sig.

Munkurinn, sem slæst í för með Warner snemma í myndinni, er prestlærður þjófur, sem stungið hafði af úr klaustri sínu. Hann viðurkennir, að kristnum mönnum beri að bjóða hina kinnina þegar þeir séu slegnir en segir leyfilegt að verjast sé gengið lengra. Þegar Warner biður hann um að biðja fyrir kraftaverki til að bjarga syni sínum, hristir hann aðeins höfuðið og segir það tilgangslaust. Hann hvetur Warner hins vegar til að hefna sín og hjálpar honum meira að segja að mynda glæpaflokk til að koma því til leiðar. Verður það að teljast nokkuð öfugsnúið í ljósi þess, að skömmu áður hafði hann áminnt hóp kalvínista, sem sagt hafði kólerufaraldinn dóm Guðs og því neitað barninu um hjálp, með þeim orðum að versta farsóttin væri bitur sál.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 5:39, Rm 12:19
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20, Rm 12:21
Guðfræðistef: kraftaverk
Siðfræðistef: lauslæti, lausaleiksbarn, hefnd, manndráp
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, öldungakirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: klaustur, kirkja
Trúarleg tákn: maríumynd, maríustytta
Trúarlegt atferli og siðir: bæn fyrir framliðnum, fyrirbæn, signing