4. árgangur 2004, Vefrit, Viðtal

Viðtal við Jeffrey Nachmanoff, annan handritshöfund The Day After Tomorrow.

Viðtal við Jeffrey Nachmanoff, annan handritshöfund The Day After Tomorrow.
Morguninn 6. apríl bauð Smárabíó fjölmiðlum á kynningu, á nýjustu mynd Roland Emmerich, Þess sama og leikstýrði myndum á borð við Universal Soldier (1992), Stargate (1994), Independence Day (1996), Godzilla (1998) og The Patriot (2000). Roland Emmerich er vinsæll Hollywood leikstjóri, en myndir hans ganga út á það að vera með eins stórt og mikið af öllu og hægt er. Mottóið virðist vera „The Bigger the better“.

Auglýsingaplakat fyrir The Day After TomorrowNýjasta afurð Roland Emmerich heitir The Day After Tomorrow (2004) og verður frumsýn 26.-28. maí um heim allan. The Day After Tomorrow fjallar um heimsendi af völdum gróðurhúsaáhrifa, en afleiðingarnar eru t.d. þær að á aðeins örfáum dögum skellur á ný ísöld. Sýndur var um hálftími úr myndinni, þ.m.t. öll helstu tæknibrelluatriðin, þar sem Los Angeles og New York voru lagðar í rúst. Tæknibrellurnar voru reyndar mjög flottar og hljóðvinnslan stórkostleg.

Myndin hefur dregist inn í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum, en Bush hefur einmitt verið gagnrýndur fyrir að neita að skrifa undir alþjóðlegar samþykktir til að draga úr gróðurhúsaáhrifum, þrátt fyrir að Bandaríkin mengi mest allra landa í heiminum. Því sjá sumir myndina sem vatn á myllu Kerry og sem áróðursbragð til að koma Bush út úr Hvíta húsinu.

Jeffrey Nachmanoff er annar höfundur handrits myndarinnar en hann svaraði spurningum áhorfenda. Aðspurður hvort þetta væri pólitísk mynd, þar sem vitað væri að Bandaríkin hefðu lítinn áhuga á að taka á vandanum heima fyrir og ætti það sérstaklega við um Bush-stjórnina, sagði Jeffrey að upphaflega hafi ætlunin bara verið að búa til mynd með flottum tæknibrellum og skemmtanagildi, en eftir því sem hann rannsakaði málið betur áttaði hann sig á alvarleika gróðurhúsaáhrifanna. Hann sagðist því fagna því ef myndin ætti eftir að fá fólk til að kynna sér þetta mál frekar.

Þegar hann var spurður hvort hann hefði stuðst við einhverjar stórslysamyndir eða heimsslitamyndir þegar hann vann að handritinu með Roland Emmerich svaraði hann því til að hann hafði sárafáar slíkar myndir séð og hafði í raun í upphafi nánast ekkert séð af myndum Roland Emmerich. Hann hafi verið fenginn til að sjá um persónusköpun og að Roland Emmerich hafi verið sérfræðingurinn í endatíma- og stórslysamyndunum. Hann sagði þó að seinna hafi hann séð The Day the Earth Caught Fire (1961) og að margt þar hafi minnt hann á þeirra mynd. Ástæðuna taldi hann vera þá að fólk fær lánað frá hvort öðru og þótt hann hafi ekki séð þá mynd fyrr en síðar hafi áhrif hennar líklega síast í gegnum fjöldann allan af myndum sem hann hefur síðan séð einhvern tímann á lífsleiðinni.

Á leiðinni út úr salnum spurði ég Jeffrey Nachmanoff hvort heimsslitin væru sett í trúarlegt samhengi, eins og svo oft á við um svona myndir. Hann svaraði því til að auðvitað hafi eitthvað af hans trú skilað sér í myndina. Nefndi hann þá sérstaklega söguna af örkinni hans Nóa en hann sagði að í myndinni þyrfti fólk að ákveða hvað það ætlaði að varðveita af menningu sinni, rétt eins og Nói þurfti að varðveita dýr jarðar.

Tekið þann 6. apríl 2004.