Leikstjórn: Roger Corman
Handrit: John William Corrington og Joyce Hooper Corrington
Leikarar: John Phillip Law, Don Stroud, Barry Primus, Corin Redgrave, Hurd Hatfield, Stephen McHattie, Robert La Tourneaux, Peter Masterson, Clint Kimbrough, George Armitage og Maureen Cusack
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1971
Lengd: 92mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.66:1)
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í fyrri heimsstyrjöldinni varð þýzki aðalsmaðurinn Manfred von Richthofen barón ein helsta þjóðhetja landa sinna og báru andstæðingar hans djúpa virðingu fyrir honum. Von Richthofen var stjórnandi bestu orrustuflugsveitar Þjóðverja og náði enginn að skjóta niður eins margar flugvélar bandamanna eins og hann. Áður en stríðinu lauk var hann hins vegar skotinn niður sjálfur í rauðri þríþekju sinni, en þar var að verki kanadíski orrustuflugmaðurinn Roy Brown. Þetta var 21. apríl 1918 og er sagt að þá hafi slokknað á þeim dýrðarljóma sem umleikið hafði fyrstu orrustuflugmennina.
Almennt um myndina:
Roger Corman er einn þekktasti b-myndagerðarmaður Bandaríkjanna. Hann leikstýrði um fimmtíu kvikmyndum á fimmtán ára leikstjórnarferli sínum, en stríðsmyndin Von Richthofen and Brown var sú síðasta af þeim. Flestar af þessum myndum hafði Corman einnig framleitt en hann sneri sér nær eingöngu að framleiðslu fyrir aðra kvikmyndagerðarmenn eftir gerð þessarar myndar. Það var ekki fyrr en tæpum tveim áratugum síðar sem hann settist aftur í leikstjórnarstólinn en þá gerði hann hrollvekjuna Frankenstein Unbound (1990).
Eins og búast má við af svona svakalegum afköstum eru gæði myndanna æði misjöfn. Margar þeirra eru í raun flestum gleymdar en nokkrar þykja samt verulega góðar, ekki síst hrollvekjurnar sem Corman byggði á smásögum Edgars Allans Poe og voru margar hverjar með Vincent Price í aðalhlutverki. Stríðsmyndin Von Richthofen and Brown hefur fengið misjafna dóma og þótt mér hún t.d. ekkert sérstök þegar ég sá hana fyrir mörgum árum síðan. Hún kom hins vegar verulega á óvart þegar ég rifjaði hana upp núna nýverið og reyndist miklu betri en mig hafði minnt. Óhætt er því að taka undir með þeim kvikmyndagagnrýnendum sem segja myndina hafa verið vanmetna.
Auðvitað er myndin ekki gallalaus. Samtölin eru sums staðar hnökrótt og Barry Primus verður að teljast ósannfærandi í hlutverki Hermanns Görings, eins af undirmönnum von Richthofens, sem síðar átti eftir að verða einn af alræmdustu nazistum þriðja ríkisins. John Phillip Law er hins vegar stórfínn sem rauði baróninn, eins og von Richthofen var jafnan nefndur, og flugbardagaatriðin eru ágætlega útfærð, jafnvel þótt flugvélarnar hefðu alveg mátt vera fleiri við gerð myndarinnar.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Lítið er af trúarstefjum að þessu sinni. Þegar von Richthofen verður fyrir mistök valdur að dauða yfirmanns síns í flugbardaga, ræða herforingjarnir um það hvort krossfesta eigi hann fyrir það eða gera úr honum dýrling. Þeir verða hins vegar ásáttir um að von Richthofen sé hæfastur allra til að taka við orrustuflugsveitinni og gera þeir hann því að yfirmanni hennar, enda ljóst að dauði fyrirrennara hans hafði verið slys.
Aðalstef myndarinnar eru þó prúðmennska og gamaldags dygðir hermannanna, sem þeir eru flestir uppteknir af. Þannig vanda bæði Þjóðverjar og bandamenn sig við að virða andstæðinga sína, ekki síst von Richthofen sjálfur. Hann lendir hins vegar upp á kannt við Göring, sem vill ekki lúta alþjóðlegum samningum um tilhögun hernaðar og ræðst hiklaust á óbreytta borgara og sjúkrahús. Von Richthofen vill meira að segja láta reka Göring, en áður en til þess kemur fellur hann sjálfur í bardaga og er Göring gerður að eftirmanni hans. Banamaður von Richthofens reynist vera kanadíski orrustuflugmaðurinn Roy Brown, sem sömuleiðis blæs á allt tal um prúðmennsku og dygðir, ekki vegna þess að hann telji stríðsglæpi sjálfsagðan hlut heldur vegna þess að hann hafnar þeim dýrðarljóma sem margir vilja umvefja manndrápin. Kemur það ekki síst fram í máli Þjóðverjanna sem tala iðurlega um það að styrjaldir séu forsenda allra þjóða og lífsafl þeirra.
Persónur úr trúarritum: dýrlingur
Guðfræðistef: vilji Guðs, krossfesting
Siðfræðistef: stríð, manndráp, siðmenning, hatur, villimennska, svik, stríðsglæpur, dauðarefsing
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, hermannaútför