Leikstjórn: Keith Gordon
Handrit: Scott Spencer, Robert Dillon
Leikarar: Billy Crudup, Jennifer Connely
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 105mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0127349
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Þetta er vel gerð og dulítið leyndardómsfull mynd. Hún segir sögu Fielding Pierce og Söru Williams, elskenda sem hafa ólík markmið í lífinu, en eru aðskilin eftir aðeins tvö ár saman. Fielding heldur sínu striki, en minningin um Söru sækir á hann og glíman við sorgina er sístæð.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er tvennt athyglisvert í myndinni, annars vegar spurningin um ólík siðferðileg gildi í lífinu og hvernig beri að hrinda þeim í framkvæmd. Hins vegar spurningin um úrvinnslu sorgar og um það hvernig undir sorgarinnar eru stundum rifnar upp með harkalegum hætti.
Fielding og Sara vilja bæði gera gott í lífinu, en hafa ólíkar hugmyndir um hvernig beri að ná þessum markmiðum. Sara er „aktivisti“ sem starfar innan vébanda kaþólsku kirkjunnar. Hún vinnur að því að hjálpa flóttamönnum frá Chile, sem hafa neyðst til að flýja land sitt vegna ofsókna heima fyrir. Hún vill öllum mönnum gott, hikar ekki við að segja skoðun sína, jafnvel þótt það geti komið illa við suma. Hún er manneskja sem vill ekki taka þátt í að hunsa þá sem eru minnimáttar í samfélaginu vegna þess að „hvert og eitt þeirra gæti verið Kristur.“ Fielding stefnir aftur á móti á frama innan stjórnmálanna. Hann vill verða öldungardeildarþingmaður og gera þannig gott innan frá. Hann trúir á ameríska drauminn og telur Bandaríkin betra land fyrir það að maður úr verkamannastétt, eins og hann, geti komist áfram. Sara og Fielding endurspegla tvær ólíkar leiðir til að láta gott af sér leiða. Önnur gengur út á að vinna utan við hið opinbera ríkiskerfi og jafnvel í andstöðu við það; hin gengur út á að vinna innan kerfisins og hugsanlega að breyta því.
Þessi ólíka afstaða sem Fielding og Sara hafa leiðir til vissrar spennu í sambandi þeirra. Sú spenna verður enn meira raunveruleg þegar Sara deyr í bílsprengingu ásamt tveimur flóttamönnum frá Chile. Sorg hans er mikil. Þessar spurningar og margar fleiri verða raunverulegar fyrir Fielding áratug seinna þegar allt í einu opnast möguleiki fyrir hann að komast á þing. Kosningabaráttunni fylgir mikið álag, munurinn milli hans og andstæðingsins er aukinheldur naumur. Við þessar aðstæður rifna upp sár sorgarinnar, sem höfðu verið að gróa í áratug. Fielding rifjar upp tímann með Söru og hann sér hana allt í kringum sig. Hann veit líka að hún væri ekki endilega sátt við þá braut sem hann fetar í lífinu og það veldur honum miklu hugarangri. Eftirfarandi orð sem hann mælir út í loftið lýsa þessu vel. Ímyndaði samræðufélaginn er Sara:
F: Hvað viltu að ég geri?
F: Hmm?
F: Hvað viltu að ég geri?
F: Á ég að gera það sem þau [leiðtogar stjórnmálaflokksins] vilja?
F: Er það hið rétta?
F: Muntu enn elska mig?
F: Hvert fórstu?
F: Hvert í andsk. fór ég?
Hér eru dregnar saman lykilspurningarnar sem hann glímir við: Hvað á ég að gera í þessari stöðu? Er óhætt að fylgja ráðum þeirra sem hafa leitt mig út á braut stjórnmálanna? Hvað segir það um samband mitt við Söru, saurga ég minninguna um hana með því að verða þingmaður?
Undir miklu álagi sem þessu er sem múrarnir í kringum sálina bresti og vötnin flæði yfir hann. Rétt eins og sérhver sem glímir við mikla sorg getur Fielding ekki einbeitt sér að þeim verkefnum sem hann hefur í lífinu, hann verður fjarlægur og úrillur í skapi. En hann kemur breyttur út úr þessari glímu, eins og ræða hans undir lok kosningabaráttunnar ber vitni um: Ég er ekki fullkominn og þetta er e.t.v. ekki besta leiðin, en ég mun samt gera mitt besta og berjast fyrir því að bæta landið okkar. Þannig hefur Sara haft áhrif á hann. Ekki er þar með sagt að glímu sorgarinnar sé lokið, en hún hefur öðlast tilgang.
Eitt sem hann gerir gott í glímu sinni er að gangast við vandanum. Hann segir á einum stað við fjölskyldu sína: „Það er eitt sem þið ættuð að vita. Mér hefur ekki liðið vel í langan tíma … en ég er ekki að kvarta eða biðja um hjálp ykkar. Því enginn getur hjálpað mér … það er ekkert sem ég get gert … ég er þreyttur og ég sé hlutina ekki í sama ljósi og áður fyrr.“ Hér biður hann fjölskyldu sína um raunverulega hjálp, ekki örlæti eða meðaumkun heldur raunverulega hjálp, þar sem þau gangast við líðan hans fremur en að horfa framhjá henni. Honum finnst sem hann sé að brjálast og hann finnur sig týndan. En hann gerir sér jafnframt grein fyrir því að glíman við sorgina hefur breytt honum. Sá sem glímir heiðarlega við sorgina kemur sterkari út úr þeirri glímu. Það er raunin með glímu Fielding eins og hún er framsett í þessari mynd. Upplifunin hans af sorginni, glíman við hin ólíku gildi og minningin um Söru styrkir hann í hinni góðu baráttu á þingi og gerir hann í senn að betri manni og betri þing-manni í þjónustu fólksins.
Persónur úr trúarritum: Kristur
Guðfræðistef: sorg, örlög
Siðfræðistef: réttlæti, ranglæti, aðskilnaður, osfóknir, stríð, fjölskyldan
Trúarbrögð: kaþólsk trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: paradís, kaþólsk kirkja
Trúarleg tákn: Maríulíkneski, Kristsmynd
Trúarlegt atferli og siðir: útför
Trúarleg reynsla: sýn