Kvikmyndir

Welcome to Spring Break

Leikstjórn: Umberto Lenzi [undir nafninu Harry Kirkpatrick]
Handrit: Umberto Lenzi [undir nafninu Harry Kirkpatrick] og Vittorio Rambaldi
Leikarar: Nicolas De Toth, Sarah Buxton, Rawley Valverde, Lance LeGault, John Saxon, Michael Parks, Ben Stotes, Kristy Lachance og John Baldwin
Upprunaland: Ítalía og Bandaríkin
Ár: 1988
Lengd: 91mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Sadískur raðmorðingi í svörtum leðurklæðnaði ferðast um á Harley Davidson mótorhjóli í smáborg í Flórída og myrðir þar siðlaus ungmenni eitt af öðru. Nokkru áður hafði alræmdur foringi mótorhjólagengis verið tekinn þar af lífi í rafmagnsstól en þar sem líkið hafði horfið skömmu eftir aftökuna, óttast borgaryfirvöldin að hann kunni að hafa lifað hana af og tekið upp fyrri iðju með hjálp félaga sinna. Til að koma ekki óorði á staðinn ákveða borgaryfirvöldin að reyna að þagga málið niður og fela lík sumra fórnarlambanna. Ungur skólapiltur, sem er þar staddur í páskafríi, sættir sig ekki við hvarf eins vinar síns og reynir í óþökk lögreglunnar að hafa uppi á honum með aðstoð vinkonu sinnar.

Almennt um myndina:
Þessi afspyrnu heimskulega gulmynd eftir Ítalann Umberto Lenzi er ótrúlegt en satt alls ekki það versta sem hann hefur gert. Hrollvekjurnar Eaten Alive! (1980) og Nightmare City (1980) eru t.d. alvondar og stríðsmyndirnar Battle Force (1977) og Bridge to Hell (1986) litlu skárri. Efnistök myndarinnar og persónusköpun eru í anda bandarískra unglingamynda á borð við Porky’s (Bob Clark: 1981), sem nutu mikilla vinsælda á þessum tíma, en svartklæddi raðmorðinginn hefur verið dæmigerður fyrir gulu myndirnar (þ.e. ítalskar morðgátur) allt frá Blood and Black Lace (Mario Bava: 1964).

Enda þótt sumir aukaleikaranna í Welcome to Spring Break séu slæmir, er myndin betur leikinn en flest það sem ég hef séð frá Lenzi til þessa. Heimskulegt handritið skemmir þó mest fyrir myndinni, en sú ákvörðun borgaryfirvaldanna að reyna að þagga niður morðmálið í stað þess að rannsaka það er t.d. með öllu óskiljanleg. Eins og í flestum gulu myndunum eru sögupersónurnar oftast illa innrættar og þá ekki síst fórnarlömbin, sem mörg hver eru siðlausar ungar stúlkur. Aðeins siðsama stúlkan sem ekki flettir klæðum í allra augsýn reynist ofjarl morðingjans þegar á reynir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt hér sé um morðgátu að ræða, mun ég ljóstra upp um hver morðinginn sé. Reyndar ætti það ekki að eyðileggja fyrir neinum því að það er svo til augljóst strax frá upphafi myndarinnar, slík er persónusköpunin. Morðinginn reynist að lokum vera heittrúaður prestur, sem alla myndina fordæmir ungmennin fyrir meint siðleysi og reynir árangurslaust að fá dóttur sína til að snúa aftur heim og taka þátt í bænasamkomum. Á næturnar ferðast hann svo um á Harley Davidson mótorhjólinu sínu og myrðir fórnarlömbin oftast með raflosti, enda lítur hann á sig sem hefndarengil Drottins. Presturinn virðist lítt fróður um kærleiksboðskap kristninnar en þá sjaldan sem hann vitnar til Biblíunnar er það í tengslum við brottrekstur illra anda (Mt 8:16) og villuráfandi sauði (1Pt 2:25).

Að morðinginn skuli vera presturinn er reyndar ekkert einsdæmi í gulum kvikmyndum, enda hef ég séð margar aðrar slíkar myndir þar sem sú hefur verið raunin. Raunar er það nánast sjálfgefið að presturinn sé morðinginn ef hann á annað borð kemur eitthvað við sögu í slíkum myndum.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Mt 8:16, 1Pt 2:25
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: himnaríki, helvíti, illir andar, sálin, fyrirgefning, miskunn, handanveruleikinn, synd, andsetning
Siðfræðistef: dauðarefsing, aftaka, áfengisdrykkja, morð, siðleysi, samkynhneigð, vændi, siðferði, þjófnaður, lauslæti, mannrán, sjálfsvíg, heimiliserjur
Trúarbrögð: heiðni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross á pallbíl
Trúarleg embætti: prestur, hefndarengill
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, biblíulestur, bænasamkoma
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: páskar