Leikstjórn: Niki Caro
Handrit: Niki Caro, byggt á sögu eftir Witi Ihimaera
Leikarar: Keisha Castle-Hughes, Rawiri Paratene, Vicky Haughton, Cliff Curtis, Grant Roa, Mana Taumaunu, Rachel House, Taungaroa Emile, Tammy Davis og Mabel Wharekawa-Burt
Upprunaland: Nýja Sjáland og Þýzkaland
Ár: 2002
Lengd: 101mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Sögusviðið er Nýja Sjáland nútímans, í byggð Whangara fólksins af ættbálki majóramanna. Sagan fjallar um Pai, 11 ára stelpu sem er sannfærð um að hún getur tekið við leiðtogahlutverki í samfélagi sínu. Afi hennar, höfðingi Whangara fólksins hefur komið henni í föðurstað og alið hana upp í miklu ástríki og virðingu fyrir háttum forfeðranna. Hann horfir til hefðarinnar og setur sig því upp á móti áformum hennar. Hann er sannfærður um að einungis strákur geti tekið við hlutverki leiðtogans.
Almennt um myndina:
Nýjálenska kvikmyndin Whale Rider eftir Niki Caro er rúmlega ársgömul þótt við séum fyrst að fá hana í kvikmyndahús núna. Hún hefur vakið mikla athygli bæði meðal almennings og gagnrýnenda og ekki furða. Gleðin sem hún skilur eftir í brjóstinu minnir á Amélie, þótt þær eigi ekki margt annað sameiginlegt en það og að vera með bestu myndum sem við höfum séð á undanförnum árum. Með aðalhlutverk í Whale Rider fer kornung stúlka, Keisha Castle-Hughes. Hún var aðeins tólf ára þegar myndin var tekin. Fyrir hlutverkið fékk hún tilnefningu til Óskarsverðlauna sem leikkona í aðalhlutverki og er yngst kvenna í þeim hópi frá upphafi. Aðrir sem fara með veigamikil hlutverk eru Rawire Paratene og Cliff Curtis.
Whale Rider er byggð á skáldsögu eftir Witi Ihimaera sem sækir þema í arf og hefðir majóra og samnefnda goðsögn um forföður Ngati Konohi þjóðflokksins, Paikea, sem átti að hafa komið til Nýja Sjálands frá Hawai á hvalsbaki. Í kvikmyndinni er þessari sögu fléttað saman við nútímann og sögu majóra-stúlkunnar Pai sem er afkomandi forföðursins. Pai litla býr hjá afa sínum og ömmu. Móðir hennar dó af barnsförum þegar Pai fæddist og tvíburabróðir hennar líka. Harmi sleginn fór faðir hennar á flakk og skildi dótturina eftir. Afinn, Koro, er ættarhöfðingi og miður sín þar sem sonur hans vill ekki taka við af honum og sonarsonurinn lést. Ekki kemur til greina að Pai taki við, þar sem hún er stúlka. Koro efnir til leiðtoganámskeiðs fyrir drengina í þorpinu. Pai fær ekki að vera með. Vonsvikin en þrjósk fylgist hún með, lærir og fær líka kennslu frá föðurbróður sínum.
Leiðtogahæfileikar Pai eru óumdeilanlegir. Hún er sterk og ákveðin stelpa, marserar berfætt og viljasterk um þorpið og skipar vinkonu ömmunnar að hætta að reykja í fyndinni senu. En Koro afi afneitar henni sem leiðtoga og er harður við hana, þótt hann elski sonardótturina heitt. Hann tekur hefðirnar alvarlega.
Whale Rider fjallar um stöðu kynjanna. Hún fjallar líka um áreksta þegar gamli og nýji tíminn mætast og hvað jafnvægi milli gamalla hefða og nýjunga er nauðsynlegt. Myndin sýnir ennfremur hve mikil áhrif einstaklingur getur haft á samfélagið, hún fjallar um ást, höfnun, sorg, vináttu og virðingu. Hún er fyndin og sorgleg í senn. Þar að auki höfðar Whale Rider til flestra aldurshópa. Þetta er mynd sem með einfaldleika sínum og einlægni nær inn að hjartarótum en fær mann líka til að hugsa. Á sérstæðan og áreynslulausan hátt vefur leikstjórinn saman nútíma og goðsögn þannig að dulúð liggur yfir myndinni.
Myndatakan er mikið listaverk. Myndavélarlinsan læðist um þorpið, hægar og leitandi hreyfingar linsunnar eru aldrei handahófskenndar heldur í takt við undirleik seiðmagnaðrar tónlistar Lisu Gerrard. Hún notar meðal annars hljóð sem kemur þegar blásið er í kuðung, sem meginþema í tólistinni. Ég sá í viðtali við hana í sjónvarpi að hún var búin að leita nokkuð lengi að hinum eina sanna tóni fyrir myndina þegar hún fann þennan. Leitin borgaði sig sannarlega. Lýsingin er líka falleg og gulir og bláir litir ríkjandi. Sólin og hafið. Klippingin er taktföst eins og myndin öll, hæg það sem það á við en hröð þegar ættflokkurinn dansar eða mikið er um að vera. Leikurinn er góður hvar sem borið er niður. Veðurbarin og tjáningarík andlit aukaleikara á öllum aldri sitja föst í minningunni. Allir hafa heyrt um frammistöðu ungu stúlkunnar en túlkun Rawire Paratene á afanum, Koro, er ekki síður sterk.
Whale Rider er önnur mynd leikstjórans Niki Caro í fullri lengd. Fyrsta myndin Memorie and Desire frá árinu 1997 var sýnd í Sjónvarpinu í fyrra og vakti athygli fyrir góða leikstjórn og sterka myndræna frásögn. Áður hafði Niki Caro sent frá sér stuttmyndina Sure to Rise árið 1994. Þó að Niki Caro hafi ennþá sem komið er aðeins sent frá sér tvær kvikmyndir í fullri lengd hefur hún unnið síðastliðin tíu ár sem handritshöfundur og leikstjóri auglýsinga, tveggja stuttmynda og sjónvarpsmyndar.
Fyrsta innsýnin sem við fengum í menningu Majóra var þegar við sáum nýsjálensku myndina Once Were Warriors. Frábær mynd en dregur upp ansi dökka mynd af ástandinu. Whale Rider er bjartsýnni og gefur von. Eftir að hafa séð myndina verður manni óhjákvæmilega hugsað til þess hvað við erum komin langt frá okkar eigin arfi. Hvar eru íslenskar kvikmyndir sem sækja í þjósagnaarfinn … hvar eru huldukonurnar og álfarnir, eða tröllin?
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í sagnahefð majóranna á Nýja Sjálandi er til saga um forföður þeirra, Paikea, sem kom til eyjanna á baki hvals. Samkvæmt þessari sagnahefð á leiðtogi og höfðingi Whangara fólksins (ættbálkur majóranna) að vera afkomandi Paikea í beinan karllegg. Þannig hefur leiðtogihlutverkið erfst í beinan karllegg í rúm 1000 ár.
Í upphafi myndarinnar verðum við vitni að fæðingu Pai. Tvíburabróðir hennar deyr við fæðingu ásamt móður þeirra. Afi söguhetjunnar, Koro, hafði vonast til að í sonarsyni sínum væri að finna framtíðarleiðtoga. Sömu von hafði hann áður bundið við son sinn, föður stráksins og stelpunnar Pai. Sú von hafði ekki heldur gengið eftir.
Eftir áfallið við að missa konu sína og son skilur faðir Pai hana eftir í umsjá Koro og ömmunnar (Nanny Flowers) og heldur til Evrópu. Koro verður fyrir miklum vonbrigðum með að sá þráður sem hefur haldist óslitinn kynslóð fram af kynslóð skuli hafa slitnað við lát drengsins og brotthvarf föðursins. Hann hefur horft upp á heilu kynslóðirnar af þjóðflokki sínum verða drykkju og iðjuleysi að bráð. Svarið við þessu ástandi er því aðeins eitt í huga hans. Viðhald (eða kannski afturhvarf til) gamalla gilda. Samkvæmt skilningi hans á þeim gildum er sú hugsun fráleit að Pai gæti nokkurn tíman tekið við kyndlinum úr hendi afa síns.
Eftir þennan formála hefst síðan sagan þegar Pai er orðin 11 ára gömul. Hún hefur alist upp við ástríki afa síns og gegnum hann hefur hún kynnst sögu majóranna (Maorí þjóðarinnar) og arfleifð. Hún þráir ekkert heitara en viðurkenningu afa síns og leggur mikið á sig til að reyna að sanna sig fyrir Koro, afa sínum, en án árangurs. Sú spenna sem þarna myndast í samskiptum Koro og Pai er hrygglengja myndarinnar og drifafl. Þrátt fyrir að Koro sé gerður að íhaldssömum fulltrúa feðraveldis efumst við aldrei um ást hans á sonardóttur sinni. Þrátt fyrir umhyggjuna eru augu gamla mannsins algjörlega lokuð fyrir hæfileikum stúlkunnar og köllun. Fyrir vikið verður hann harmræn hetja sem minnir á Agamennon forðum daga sem þurfti að fórna dóttur sinni sinni til að flotinn fengi byr í seglin. Hann verður að velja á milli ástar sinnar á Pai og skyldu sinnar við fólk sitt og forfeður. Þrátt fyrir vonbrigði Pai yfir skilningsleysi afa síns, fyrirgefur hún honum allt og snýr aldrei við honum baki. Það er líkt og hún ein geri sér grein fyrir hvaða birgðir hann ber sem leiðtogi, kannski vegna þess að ómeðvitað gerir hún sér grein fyrir að einn dag muni það vera hún sem axlar þessa ábyrgð.
Eftir að Koro hefur gefið upp alla von um að sonur hans snúi heim til Nýja Sjálands ákveður gamli maðurinn að kenna strákunum í þorpinu siði og hætti forfeðra þeirra í þeirri von að á meðal þeirra finnist leiðtogi framtíðarinnar. Pai er meinað að taka þátt í kennslunni þótt hún þrái ekkert frekar. Það er ekki um auðugan garð að gresja þegar strákarnir í bænum eru annars vegar. Það kemur að því að Koro gefur upp alla von um að finna arftaka sinn. Koro fyllist vonleysi, gefst upp og leggst fyrir. Endanlegt skipbrot samfélagsins virðist síðan vera áréttað fyrir honum þegar hvalatorfa syndir upp í fjöru til að mæta dauða sínum þar. Það var einmitt hvalur sem hafði borið hálfguðinn Paikea til Nýja Sjálands. Að sjá hvalina liggja hjálparlausa í fjörunni hefur því stórbrotin áhrif á Koro. „Hverjum er um að kenna”, spyr hann án afláts. Í umkomuleysi hvalanna sér hann umkomuleysi majóranna. Þjóðin er eins og fiskar á þurru landi eftir innreið vestrænnar menningar. En þegar upp er staðið er það þetta „inngrip guðanna” sem opnar augu Koro fyrir hlutverki Pai. Það er hún sem er tilbúin að fórna lífi sínu hvölunum til bjargar. Fyrir tilverknað hennar snúa hvalirnir aftur til hafsins.
Trúarstefin er mörg og augljós í myndinni. Undirliggjandi og allt um kring er náttúrulega rík trúarhefð majóranna. Þegar upp er staðið er myndin einmitt hugleiðing um þessa trúararfleifð og hversu mikilvægt það er að sá þráður, sem hún er, slitni ekki. Um leið er myndin ábending um mikilvægi þess að fólk átti sig á hver kjarni trúararfleifðarinnar er og horfa ekki bara á ytri birtingarmyndir hennar. En um leið og myndin fjallar fyrst og fremst um arfleifð majóranna verður hún áminning til allra um að skoða þann jarðveg sem þeir sjálfir eru sprotnir upp úr. Það fyrsta sem blasir við okkur sem höfum alist upp í kristinni arfleifð er sú ótrúlega sterka hliðstæða sem hlutverk aðalsöguhetjunnar hefur við hlutverk Jesú Krists í gyðing- kristinni arfleifð. Skoðum þetta aðeins nánar.
Koro, afi Pai, er fulltrúi gamalla gilda. Þrátt fyrir góðan vilja upplifum við hann sem frekar dómharðan, einstrengingslegan og þröngsýnan. Hann heldur sig við bókstafinn og gegnir því ekki ósvipuðu hlutverki og farísearnir í guðspjöllunum. Hann, líkt og farísearnir fyrir 2000 árum, bíður eftir þeim sem mun leysa þann vanda sem fólk hans hefur ratað í. Hliðstæðar hugmyndir finnum við einmitt í Gamla testamentinu, svokallaðar messíasarvæntingar. Orðið sjálft er komið af hebreska orðinu Mashiah, og þýðir hinn smurði. Í grískri þýðingu verður þetta christos. Messíarvæntingar hebrea urðu mjög áberandi í útlegðinni í Babýlon. Þær snérust um væntanlegan konung eða leiðtoga af ætt Davíðs sem myndi endurvekja þá fornu frægð sem hebrear tengdu við ríki Davíðs konungs. Væntingarnar voru semsagt veraldlegar, jafnvel pólítískar og allsendis ólíkar þeim hugmyndum sem við nú tengjum við hlutverk Krists. Frelsunar og endurlausnarhlutverk hans var ekki veraldleg og bundið við þjóðina alla heldur frekar andlegt og bundið við hvern einstakling fyrir sig. Frelsunin kom þannig úr óvæntri átt.
Í einum af lykilatriðum myndarinnar sjáum við Pai fylgjast með afa sínum þegar hann reynir að gera við utanborðsmótor. Hann sýnir henni bandið sem er notað til að snúa mótornum í gang og notar tækifærið til að útskýra fyrir henni að arfleifð forfeðra hennar sé einsog bandið. Ef grannt er skoðað er bandið margir þræðir sem fléttast saman. Hann áréttar að bandið megi ekki slitna. Þegar gamli maðurinn ætlar síðan að ræsa mótorinn beitir hann of miklu afli og bandið slitnar. Þegar Koro bregður sér frá tekst Pai það sem afi hennar hafði mistekist. Hann splæsir bandið saman að nýju og ræsir mótorinn. Viðbrögð gamla mannsins verða dæmigerð fyrir afstöðu hans til ungu stúlkunnar. Það er ekki hlutverk hennar að eiga við þessa hluti.
Pai gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þess vísdóms sem afi hennar er fulltrúi fyrir. Hún er vel að sér í sögum og söngvum forfeðranna. Myndin áréttar hvernig sögurnar eru ekki bara orðin tóm hjá henni. Hún leitar sér iðulega huggunar í yfirgefnum Waka bát. Á öldum áður gegndu bátar þessir mikilvægu hlutverki í menningu majóranna. Í bátnum horfir hún til hafsins þar sem hvalirnir bíða úti fyrir, líkt og þeir séu að fylgjast með örlögum mannanna á landi. Stundir hennar í bátnum verða því bænastundir. Sérstakt samband hennar við almættið verður þannig augljóst. Þekking hennar og djúpur skilningur leiðir hugann að frásögn Lúkasarguðspjalls um þegar Jesú, á sama aldri og söguhetja okkar, fór í helgidóminn og sat meðal lærifeðranna.
Það er í lokaatriði myndarinnar sem umrædd hliðstæða er áréttuð á mjög hrífandi máta. Sem fyrr segir hafa hvalir siglt í strand í flæðarmálinu. Þorpsbúar reyna að koma bandi í stærsta hvalinn og draga hann á flot. Samhent átak dugar ekki til. Kaðallinn slitnar líkt og bandið í mótornum fyrr í myndinni. Nú er komið að Pai. Tónlistin sem við heyrum er sú sama og við heyrðum í upphafsatriði myndarinnar og sýnir hún þannig að þarna sé Pai í þann mund að framkvæma það verk sem hún var fædd til. Hún þekkir köllun sína og stígur á bak hvalnum líkt og forfaðir hennar í árdaga. Lítil innileg snerting hennar og persónulegt samband við hvalinn orkar meira en tilraunir allra þorpsbúa til samans. Hvalurinn bærir á sér og heldur til hafs með Pai á bakinu. Atriðið sem á eftir kemur verður ekki lýst öðruvísi en dauði og loks upprisa Pai. Sá atburður hefur síðan svipuð áhrif á samfélag þorpsbúa og við þekkjum úr guðspjöllunum. Samfélagið allt endurnýjast fyrir tilstilli trúar, vonar og þess kærleika og fyrirgefningar sem Pai stendur fyrir. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að hún sé fagnaðarerindið sem er teflt fram gegn lögmálinu. Hún er samt ekki komin til að afnema lögmálið, heldur uppfylla það.
Myndin vekur upp fleiri spurningar. Hlutverk konunnar í kirkjunni kemur þar fyrst upp í hugann og er það í raun efni í sérstaka grein. Þegar upp er staðið verður myndin, þótt hvergi sé minnst á Jesúm Krist, tilefni til að velta fyrir sér hlutverki hans í vestrænni hefð. Þessi áhersla á endurlausnina fyrir tilstilli kærleikans og fyrirgefningarinnar er nokkuð ólík þeirri áherslu sem er að finna í nýlegri kvikmynd Mel Gibsons um Píslarsögu Krists, en þar er það fórnardauði endurlausnarans sem er í forgrunni.
Sögulegar persónur: Paikea (persóna í trúararfleifð majóranna, þ.e. Maorí manna)
Guðfræðistef: Messías, endurlausn, kærleikur, fyrirgefning, von
Siðfræðistef: Staða kynjanna, hlutverk hefðarinnar
Trúarbrögð: Trúararfleifð Maorí manna
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Helgir staðir mjóranna, þ.e. maorí manna
Trúarleg tákn: Trúartákn Maorí manna
Trúarleg embætti: Leiðtogi Maorí manna
Trúarlegt atferli og siðir: Trúarathafnir, söngvar og sögur Maorí manna
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Helgiathafnir Maorímanna
Trúarleg reynsla: Hjálpræði, endurlausn